persona.is
Hvenær er dagsyfja óeðlileg
Sjá nánar » Svefn

Dagsyfja er ein af algengustu umkvörtunum sem tengjast svefni. Svefnþörf er mjög einstaklingsbundin en flestir þurfa um átta tíma svefn á hverri nóttu. Ef ekki fæst nægur svefn á einni nóttu kemst fólk í nokkurs konar svefnskuld þar sem þörf fyrir djúpum endurnærandi svefni safnast upp að ákveðnu marki.

Í okkar samfélagi er algengt að fólk neiti sér um nægan svefn á vinnudögum og bæti sér það síðan upp um helgar. Þessi lífsstíll er hvað algengastur hjá ungu fólk en erlendar rannsóknir benda til þess að allt að 86% yngra fólks sofi að jafnaði of lítið. Ekki þarf mikið til þess að áhrif svefnleysis geri vart um sig. Það að sofa til dæmis í sex klukkustundir í stað átta í nokkrar nætur getur haft áhrif á skaplyndi, árvekni og viðbragðsflýti. Áhrifanna gætir hvað mest við löng einhæf verkefni en akstur er einmitt af þeim toga. Við langa keyrslu er því talsverð hætta á að syfjaður ökumaður dotti í örfáar sekúndur sem er nægur tími til þess að valda alvarlegu umferðarslysi. Skert frammistaða vegna dagsyfju getur þannig verið hættuleg heilsu manna og hefur án efa verið valdur að fjölda umferða- og vinnuslysa.

Ein leið við að meta dagsyfju er að átta sig á líkindum þess að hver einstaklingur sofni yfir daginn. Einn mest notaði spurningarlisti við mat á dagsyfju er Epworth Sleepiness Scale (ESS) sem samanstendur af átta spurningum um líkindi þess að sofna við mismunandi aðstæður (sjá töflu). Gerður er greinarmunur á syfju og þreytu. Þreyta er skilgreind sem sljóvgandi tilfinning tilkomin vegna líkamlegs erfiðis eða álags en syfja sljóvgandi tilfinning vegna eðlislægrar þarfar fyrir svefni. Niðurstaða prófsins fæst með því að leggja saman stig allra spurninga (engar líkur = 0, litlar líkur = 1, nokkrar líkur = 2, miklar líkur = 3). Miðað er við að útkoma hærri en 10 bendi til óeðlilegrar dagsyfju. Tökum sem dæmi þau svör sem búið er að merkja við á listanum. Niðurstaða prófsins er 12 stig sem bendir til mikillar dagsyfju og ætti viðkomandi að skoða svefnvenjur sínar nánar. Fyrir það fyrsta þarf að huga að nætursvefni en ef dagsyfja er enn til staðar þrátt fyrir nægan svefn er full ástæða til þess að leyta til læknis og þá sérstaklega ef sjúkdómseinkenni kæfisvefns eru til staðar (háværar hrotur og öndunarhlé í svefni).   Einar Örn Einarsson, BA í sálfræði