persona.is
Hvað þarf ungt fólk að vita um þunglyndi?
Sjá nánar » Óflokkað
Auðvitað líður öllum illa öðru hverju. En ef þér líður alltaf illa og það hefur áhrif á

·         einkunnir þínar og skólagöngu

·         samskipti þín við vini og fjölskyldu

·         áfengi, fíkniefni og kynlíf

·         hvernig þú stjórnar hegðun þinni

…gæti vandamálið verið ÞUNGLYNDI Góðu fréttrinar eru að þú getur fengið lækningu og liðið brátt betur. Um það bil 4% unglinga verða alvarlega þunglyndir árlega. Þunglyndi er alvarlegur sjúkdómur sem getur snert hvern sem er, líka unglinga. Þunglyndi getur haft áhrif á hugsanir þínar, tilfinningar, hegðun og heilsu. Flestir sem þjást af þunglyndi fá hjálp með því að fara í meðferð. En meirihluti þunglyndra fær aldrei þá hjálp sem þeir þarfnast. Og þegar ekkert er að gert getur þunglyndi versnað, varað lengur og staðið í vegi fyrir þér á þessu mikilvæga skeiði lífs þíns – þegar þú ert ungur. Hérna geturðu lesið hvort þú eða einhver sem þú þekkir þjáist af þunglyndi Fyrst er gott að vita að til eru tvær tegundir af þunglyndi: sorgmædda tegundin, sem kallast alvarlegt þunglyndi og svo geðhvarfasýki (eða tvískautaröskun), þar sem maður er annað hvort á útopnu og allt að því hættulega kærulaus eða þá ofboðslega niðurdreginn. Þú ættir að fara til sérfræðings ef þú þekkir til fimm eða fleiri einkenna á sjálfum þér eða öðrum, í meira en tvær vikur og eitthvert þessara einkenna veldur svo mikilli röskun á lífi þínu að þú getur ekki haldið venjulegri áætlun: Þegar þú ert niðurdreginn . . .

·         Þér líður illa eða grætur mikið og það bara hættir ekki.

·         Þú ert sakbitinn að ástæðulausu, þér finnst þú vonlaus, þú hefur ekkert sjálfstraust.

·         Lífið er tilgangslaust og ekkert gott virðist vera framundan. Þú ert annað hvort neikvæður eða tilfinningalaus.

·         Þig langar ekki til að gera neitt af því sem þú hafðir áður ánægju af, eins og að hlusta á tónlist, stunda íþróttir, hanga með vinunum, skemmta þér.  Það eina sem þú vilt er að er vera bara látinn í friði

·         Það er erfitt að ákveða sig og einbeita sér. Þú gleymir öllu mögulegu.

·         Þú verður oft pirraður. Smáhlutir fá þig til að missa stjórn á skapi þínu. Þú gerir of mikið úr hlutunum.

·         Svefnmynstrið breytist. Þú sefur annað hvort helmingi meira eða átt í vandræðum með að sofna. Þú vaknar snemma og getur ekki sofnað aftur.

·         Þú verður annaðhvort lystarlaus eða borðar mun meira en áður.

·         Þú ert eirðarlaus og þreyttur.

·         Þú hugsar um dauðann, eða þér líður eins og þú sért að deyja eða íhugar sjálfsvíg.

Þegar þú ert í uppsveiflu . . .

·         Þér líður eins og þú sért í sjöunda himni.

·         Þú færð hugmyndir um allt það frábæra sem þú gætir gert en það sem þú getur ekki í alvörunni framkvæmt.

·         Hugmyndirnar þjóta fram og aftur um huga þinn, Þú hoppar úr einu umræðuefni yfir í annað og þú talar mjög mikið

·         Þú ert eins manns skemmtiatriði, alls staðar þar sem þú kemur.

·         Þú gerir of mikið af villtu eða hættulegu: þú keyrir of hratt, eyðir of miklum pening, sefur of mikið hjá o.s.frv.

·         Þú ert svo „tjúnnaður“ að þú þarft varla svefn.

·         Þú ert uppreisnargjarn eða argur og átt ekki samleið með neinu eða neinum, fjölskyldu, vinum eða skóla.

Talaðu við einhvern ef þú hefur áhyggjur af þunglyndi hjá sjálfum þér eða vini / vinum þínum. Það er til fólk sem getur aðstoðað, t.d:
  • einhvern í fjölskyldunni
  • heimilislækni
  • prest
  • námsráðgjafa
  • skólasálfræðing
  • félagsráðgjafa
  • einhvern fullorðinn sem þú treystir.
Ef þú veist ekki hvert þú átt að snúa þér, leitaðu í símaskránni eða 118 til að fá upplýsingar. Það geta allir orðið þunglyndir. Þunglyndi spyr ekki um aldur, kyn, kynþátt eða félagslega stöðu. Að vera þunglyndur þýðir ekki að maður sé veiklyndur, misheppnaður, geðveikur eða þá að maður sé búinn að gefast upp. Það þýðir að maður þarf á hjálp að halda, eða meðferð. Og það er ekkert til að skammast sín fyrir! Hvaða meðferð er hægt að veita?

Flestum er hjálpað með samtalsmeðferð, lyfjameðferð eða hvoru tveggja.

Stutt samtalsmeðferð felur í sér að spjalla við fagmanneskju sem getur hjálpað þér til að breyta samskiptum þínum, hugsunum eða hegðun, eða öllu því sem stuðlar að þunglyndinu. Lyf hafa verið þróuð við þunglyndi sem er alvarlegt og lamandi. Þunglyndislyf eru ekki „stuðpillur“ og eru ekki heldur ávanabindandi. Stundum þarf að prófa nokkrar tegundir áður en þú finnur þá sem hentar þér best. Meðferð hjálpar flestum til að líða betur innan fárra vikna. Mundu að þegar vandamálin virðast of stór til að takast á við þau og þú ert búinn að vera óhamingjusöm/samur í of langan tíma þá ERTU EKKI EINN! Það er til hjálp þarna úti og þú getur beðið um hana. Ef þú þekkir einhvern sem þú heldur að sé þunglyndur, þá getur þú hjálpað. Hlustaðu og hvettu vin þinn að biðja einhvern fullorðinn um upplýsingar um meðferð. Ef vinur þinn biður ekki um hjálp, talaðu þá við einhvern fullorðinn sem þú treystir og virðir, sérstaklega ef vinur þinn hefur minnst á sjálfsvíg. Það sem þú þarft að vita um sjálfsvíg

Flestir sem þjást af þunglyndi fremja ekki sjálfsvíg. En þunglyndi eykur engu að síður líkurnar á sjálfsvígi eða tilraunum til þess. Það er ekki satt að þeir sem tali um sjálfsvíg reyni það ekki. Sjálfsvígshugsanir, athugasemdir eða tilraunir eru ALLTAF ALVARLEGAR Ef eitthvað af þessu hendir þig eða vin þinn þá verðurðu að segja einhverjum fullorðnum frá því STRAX.

Af hverju verður fólk þunglynt?

Stundum verður fólk þunglynt eftir einhvern atburð eða skakkaföll í lífi þess, eins og skilnað, alvarleg fjárhagsvandræði, ástvinamissi, slæmt heimilislíf eða að hætta með kærustu eða kærasta.

Eins og með alla aðra sjúkdóma, þá BARA gerist þetta. Unglingar bregðast oft við sársaukanum sem þunglyndi veldur með því að koma sér í vandræði með áfengi, eiturlyfjum eða óábyrgu kynlíf, klúðra skólanum, vinum og fjölskyldu. Þetta er önnur ástæða fyrir mikilvægi þess að fá hjálp, ÁÐUR en maður lendir í öllu þessu klandri. Þunglyndi og áfengi og önnur fíkniefni

Margir þunglyndissjúklingar, sér í lagi unglingar, lenda í vandræðum með áfengi og önnur fíkniefni. (Áfengi er líka fíkniefni.) Stundum kemur þunglyndið fyrst og maður notar eiturlyfin til að minnka sársaukann. (Þegar til lengri tíma er litið gera fíkniefnin vandann bara verri!) Stundum hefst fíkniefnanotkunin fyrst og þunglyndið kemur í framhaldi af:

·          fíkniefninu sjálfu eða

·          skorti á því eða

·          vandamálunum sem notkunin veldur

Og stundum er ekki hægt að greina hvort kom fyrst. Aðalmálið er að finnir þú til þunglyndis og ert neytandi fíkniefna, þá er langbest fyrir þig að fá hjálp sem allra fyrst. Hvort vandamálið sem er getur aukið hitt og orsakað enn meiri vandræði eins og það að verða fíkill eða að falla í skólanum. Þú verður að vera hreinskilinn um bæði vandamálin, fyrst við sjálfan þig og síðan við einhvern sem getur hjálpað þér til að komast í meðferð. Það er eina leiðin til þess að ná bata og láta sér líða betur. Þunglyndi er alvöru sjúkdómur og getur læknast í meðferð. Greindu á milli staðreynda og staðleysu

Goðsögur um þunglyndi hindra fólk oft í að bregðast rétt við vandanum. Algengar rangfærslur eru:

Goðsögn: Það er eðlilegt fyri unglinga að vera í sveiflukenndu skapi. Unglingar verða ekki þunglyndir.

Staðreynd: Þunglyndi er ekki skapsveiflur og getur komið fram á öllum aldri, líka hjá unglingum.

Goðsögn: Með því að láta fullorðinn vita ef vinurinn þjáist af þunglyndi er maður að svíkja hann. Ef einhver vill hjálp verður hann sér úti um hana sjálfur.

Staðreynd: Þunglyndi lamar orku og þrek og aftrar viðkomandi frá því að verða sér úti um hjálp. Sannur vinur deilir áhyggjum sínum með fullorðnum sem getur hjálpað.

Goðsögn: Að tala um þunglyndi gerir það verra.

Staðreynd: Að tala um tilfinningar sínar við góðan vin getur oft verið fyrsta skrefið til hjálpar. Vinátta, umhyggja og stuðningur getur verið sú hvatning sem þarf til að fá hjálp.

Byggt á efni frá Geðheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna