persona.is
Hvað er persónuleiki?
Sjá nánar » Persónuleikavandamál

 Hvað er persónuleiki?

Eitthvert vinsælasta lesefni blaða og tímarita er það þegar lesendum er gefinn kostur á því að komast að því hvers konar persónuleiki þeir séu. Þetta er gert með margvíslegum hætti: Með því að láta þá svara fjölda spurninga um afstöðu, venjubundna hegðun eða langanir, með því að lesa í skriftina, með því að greina líkamsbyggingu eða einfaldlega með því að segja til um fæðingardag og tíma. Oftast er þetta gert á afar hæpnum forsendum. En allir vilja forvitnast um sjálfan sig, um persónuleika sinn.

Mynstur hegðunar

Eitt af því sem einkennir hegðun manna er að hún endurtekur sig með nokkuð ákveðnum hætti. Sá sem er feiminn í dag verður það líklega einnig í næstu viku. Dagleg hegðun okkar er full af dæmum um hversu hegðun okkar breytist lítið, alveg frá því hvernig við berum okkur að þegar við förum á fætur til þess hvernig við kjósum í hverjum kosningunum á fætur öðrum. Í flestum tilfellum reynist það okkur ekki erfitt að segja fyrir um hvernig einhver sem við þekkjum muni hegða sér næst þegar við hittum hann. Vinir okkar og kunningjar eru ávallt eins. Einkennandi hegðun hvers og eins, reglubundið mynstur hegðunar, köllum við persónuleika. Persónuleiki lýsir ekki einstökum þáttum mannsins eins og hugsun, skynjun, greind eða tilfinningalífi, heldur því hvernig allir þessir þættir koma saman í eina heild, eitt mynstur sem einkennir síðan alla hegðun einstaklingsins. Formlegar skilgreiningar fræðimanna á persónuleika gera þetta fasta mynstur hegðunar oft að aðalatriði. Dæmi um slíka skilgreiningu er: Persónuleiki nefnast þau einkenni einstaklings, eða fólks almennt, sem skýra reglubundið mynstur hegðunar. Önnur skilgreining er: Persónuleiki er hið greinilega og stöðuga mynstur hegðunar, hugsana, tilfinninga og atferlisvaka sem einkenna hvern einstakling.

Það sem aðrir sjá

Í leikhúsi Rómverja var gríma leikarans, það andlit sem sneri að áhorfendum, kölluð „persona“. Ein elsta skilgreining á persónuleikanum er í samræmi við þessa leikhefð Rómverja, að tala um persónuleikann sem hina ytri gerð einstaklingsins, það sem aðrir skynja og verða fyrir áhrifum frá. Í dag tölum við líka um persónuleika manns þegar við erum að lýsa þeim þætti í fari viðkomandi sem er hvað mest áberandi. Við tölum um að einn sé sterkur persónuleiki, annar góðgjarn og sá þriðji rætinn. Svo virðist sem við gerum ráð fyrir því að þessar lyndiseinkunnir séu ávallt einkennandi fyrir þessa einstaklinga, að þær séu hluti af persónuleika viðkomandi. Við höfum skoðanir á öðru fólki sem auðvelda okkur að sjá reglu í hegðun þeirra, þannig að við getum sagt fyrir um hvernig þeir munu hegða sér. Við þurfum ekki að vera sálfræðingar til að geta þetta, ekki frekar en við þurfum að vera líffræðingar til þess að vita að hundar geta bitið.

Minn innri maður

Börn eru ekki ýkja gömul þegar þau átta sig á því að það er ekki hægt að sjá hvað þau eru að hugsa. Í huga margs fullorðins fólks er oft langur vegur milli þess sem það gerir og svo þess hvernig það lýsir sjálfu sér, hvern það telur sinn innri mann vera. Þennan innri mann telur fólk oft vera sinn raunverulega persónuleika. Hver einstaklingur á sér sína sérstöku sögu, minningar, drauma og óskir. Þó við breytumst stöðugt finnum við lítið fyrir þessum breytingum vegna þess að okkur finnst við vera þau sömu. Það sem við miðum við eru ekki þær breytingar sem aðrir kunna að sjá, heldur sú innri tilfinning sem við höfum stöðugt fyrir okkur sjálfum, sjálfskennd okkar og sjálfsmynd. Þannig getur sjálfsmynd haldist löngu eftir að öll hegðun sem henni tengist er breytt. Fær og vinsæll kennari kann ennþá að halda að hann sé frekar lélegur. Þó hegðun okkar kunni að vera fjölbreytileg og jafnvel mótsagnakennd þá töpum við ekki tilfinningu um samfellu, fyrir okkar innri manni. Ástæðan er einföld. Þegar við reynum að útskýra hegðun annarra sjáum við hvernig hún getur verið breytileg eftir aðstæðum, við áttum okkur ekki á því hvað það er sem skapar samfellu fyrir þennan einstakling. Þó okkar eigin hegðun sé á sama hátt breytileg þá leitum við frekar skýringa í tilfinningum okkar og hugsunum, nokkru sem aðrir sjá ekki. Það sem við köllum okkar innri mann er síðan oft sambland af því sem við finnum og svo því sem við vildum að við værum. Við tölum jafnvel um að ef allt væri með felldu þá gæti þessi sýn okkar á okkur sjálf orðið að raunveruleika. Það sem við nefnum hér okkar innri mann er í senn í samræmi við það sem aðrir sjá og um leið ekki alveg það sama. Hvernig má þetta vera? Það skýrist þegar við skoðum hvernig hugmyndir okkar og tilfinningar um okkur sjálf verða til. Öðrum þræði verða þær til á alveg sama hátt og hugmyndir okkar um annað fólk. Við sjáum hvað við gerum og drögum ályktanir um okkur út frá því. Ef við gerum eitthvað vel drögum við þá ályktun að við séum flink. Ef við gerum mikið af einhverju liggur beinast við að telja að okkur líki við það sem við erum að gera. Ef við hlæjum mikið þegar við horfum á kvikmynd þá ályktum við að okkur þyki gaman að myndinni og til verður hugmynd um okkur sjálf. Þá eru hugmyndir okkar um okkur sjálf gjarnan endurspeglun á viðhorfum annarra, afstaða foreldra til okkar verður að okkar eigin afstöðu. Ef öðrum þykir vænt um okkur þá eru allar líkur á því að okkur þyki það líka. Helsta ástæðan fyrir því að ekki er samsvörun milli þess sem við köllum okkar innri mann og svo þess sem aðrir sjá er sú að hvert og eitt okkar hefur aðgang að upplýsingum sem enginn annar hefur aðgang að, hugsunum okkar og tilfinningum. Í þeim leitum við gjarnan skýringa á eigin hegðun og í þeim finnum við gjarnan þá rótfestu og samfellu sem aðrir eiga erfitt með að sjá.

Hvað ákvarðar hegðun?

Hvaða máli skiptir persónuleikinn? Getum við notað hann til þess að skýra hvers vegna við hegðum okkur á ákveðinn hátt? Er hægt að segja að hann ákvarði hegðun okkar? Margar kenningar gera ráð fyrir að allar athafnir okkar bæði endurspegli og mótist af persónuleika okkar. Engir tveir persónuleikar eru eins. Hvernig persónuleikinn getur mótað hegðun kemur einna skýrast fram þegar tveir einstaklingar bregðast við sömu aðstæðum með afar mismunandi hætti. Björn og Páll falla báðir í stærðfræði. Birni fallast hendur, telur sig illa gefinn, að hann ráði alls ekki við námsefnið og hættir í skólanum. Páll kemst að þeirri niðurstöðu að prófið hafi verið óvenju erfitt, og hann hafi ekki lagt nógu hart að sér við undirbúninginn, hann herðir sig í heimanáminu og nær ágætri einkunn á næsta prófi. Hvernig útskýrum við þessi ólíku viðbrögð? Þau endurspegla að öllum líkindum ólíka persónuleika þeirra Björns og Páls. Við gætum sagt að persónuleiki Björns einkennist af því að bugast við mótlæti og af lélegu sjálfsáliti, en persónuleiki Páls af metnaði og því að telja sig færan í flestan sjó. Með mynd af þessum ólíku persónuleikum gætum við útskýrt af hverju þeir bregðast við sama atburði með gjörólíkum hætti. Ekki voru allir sáttir við að útskýra hegðun með því að segja að hún ákvarðaðist af persónuleika manna. Nokkrar rannsóknir sýndu fram á að hegðun var breytileg eftir aðstæðum og að hún breyttist með tímanum. Þannig væru það ytri aðstæður sem ákvörðuðu hvernig við hegðuðum okkur, við værum t.d. ráðrík heima fyrir en undirgefin í vinnunni. Þá var því haldið fram að líklegasta skýringin á því að okkur sýndist persónuleiki vera stöðugur væri sú að við sæjum einfaldlega það sem við byggjumst við að sjá, sama einstaklinginn hegða sér á sama hátt. Ef það er raunin að hegðun er breytileg eftir aðstæðum þá dregur það úr gildi þeirrar hugmyndar að með persónuleikanum getum við útskýrt hegðun. Þó fræðimenn séu ósammála um það hvort vegi þyngra í því að ákvarða hegðun, stöðugur persónuleiki eða breytilegar aðstæður, þá eru flestir sammála um að hvort tveggja skipti máli og að flestöll hegðun mótist af þessu tvennu. Vinir okkar, Björn og Páll, falla báðir á bílprófi. Birni kemur þetta á óvart þar sem flestir hlutir leika í höndum hans. Hann tekur prófið strax aftur. Páll sannfærist aftur á móti um það að hann sé alltof utan við sig til þess að keyra bíl og heldur sig við stærðfræðina. Ef persónuleikinn væri hinn sami undir öllum kringumstæðum ættu viðbrögð þeirra að vera hin sömu. En stærðfræði er eitt og bílar annað, ólíkar aðstæður sem virkja ólíka þætti í persónuleikum þeirra Björns og Páls.

Spurningar og svör

Það sem við köllum persónuleika er ekki föst, áþreifanleg og mælanleg stærð. Hann er ekki hægt að athuga eða skoða beint eins og t.d. augnlit eða hæð fólks. Um hann er ályktað út frá því hvernig fólk hegðar sér. Sú leið sem sálfræðingar fara gjarnan til þess að álykta um persónuleika fólks er að nota sálfræðileg próf. Þessum prófum er nánar lýst í öðrum pistli. Hvernig verður þetta hegðunarmynstur sem við köllum persónuleika til og hvernig stendur á því að engir tveir persónuleikar eru eins? Svörin við þessum spurningum eru hvorki hrein né bein en engu að síður hafa þau fallið í nokkra farvegi. Skoðum nánar helstu hugmyndir og svör. Það eru til fjölmargar kenningar um persónuleikann. Hver kenning þarf að geta veitt svör við fjórum mikilvægum spurningum um manninn. Í fyrsta lagi þarf hún að geta svarað því hvernig fólk er samansett, hverrar gerðar það er. Svörin við þessari spurningu geta verið afar ólík, en þau vísa til varanlegri þátta persónuleikans. Erum við einföld eða flókin, hvert er vægi dulvitundar, er sjálfsmynd mikilvægasta einingin, er hægt að flokka alla í innhverfa og úthverfa eða er persónuleiki okkar ekkert annað en sú hegðun sem er sýnileg í hvert skipti? Í öðru lagi þarf kenning um persónuleikann að svara því hvernig persónuleikinn starfar og hvers vegna fólk hegðar sér eins og það gerir. Kenningin þarf að útskýra starfsemi persónuleikans, hvað það er sem vekur okkur til athafna. Algeng hugmynd er að starfsemin miðist við að skapa jafnvægi, að draga úr spennu og togstreitu, að skapa þægindi og vellíðan. Önnur hugmynd er að það sem drífi okkur áfram sé þörfin fyrir að kljást við eitthvað nýtt, eitthvað sem jafnvel felur í sér áreynslu og spennu. Ef kenning um persónuleikann getur svarað því hverrar gerðar persónuleiki manna er, og hvað það er sem fær hann til þess að starfa, er nokkuð unnið. En ef vel ætti að vera þyrfti að svara þriðju spurningunni: Hvernig verður fólk eins og það er, hvernig þróast persónuleiki fólks, bæði gerð og starfsemi, frá fæðingu til fulls þroska? Hér reynir kenning að meta áhrif t.d. uppeldis og erfða. Kenning um eðlilega gerð og þróun persónuleikans þarf einnig að geta útskýrt afbrigðilega þróun hans, hvers vegna fólk finnur fyrir kvíða, það er fullt sektarkenndar, sjálfsálit er lélegt eða það er dapurt. Af kenningu mætti jafnframt leiða hugmyndir um það hvernig hjálpa má fólki að breytast eða finna bót meina sinna. Meðferð eins og sálgreining eða atferlismeðferð eru í beinu framhaldi af ólíkum kenningum um persónuleikann.

Fjórar fylkingar

Það getur verið nokkuð flókið að hópa saman öllum þeim fjölda kenninga sem til eru um persónuleikann þannig að þær myndi fáar fylkingar. Það er þó hefð fyrir því að tala um fjórar meginhugmyndir og verður hverri þeirra lýst í pistlum hér á eftir. Hér er einungis örstutt samantekt. Fyrsta fylkingin, og sú elsta, er kennd við Sigmund Freud. Samkvæmt honum er það tvennt sem einkennir gerð persónuleikans. Annars vegar er það skiptingin í þrjú vitundarstig, meðvitund, forvitund og dulvitund, sem hann taldi mikilvægasta. Hins vegar skipti hann persónuleikanum í þrjú kerfi sem hvert um sig var fulltrúi ákveðinna afla. Þaðið var fulltrúi hvatanna, þess sem drífur persónuleikann áfram, yfirsjálfið fulltrúi umhverfisins, er dómari á rétt og rangt, og loks sjálfið sem í senn gegndi hlutverki sáttasemjara milli þaðs og yfirsjálfs og framkvæmdastjóra hegðunar. Starfsemi persónuleikans fólst einkum í því að finna hvötum þaðsins, kynhvöt og árásarhvöt, ásættanlegan farveg. Ef það gekk ekki nógu vel leiddi það til kvíða og togstreitu. Svokallaðir varnarhættir sjálfsins komu hins vegar í veg fyrir að kvíðinn yrði of mikill. Þróun persónuleikans tengir Freud því hvernig kynhvötin þróast og binst þeim svæðum líkamans sem skapa hvað besta svölun hvatarinnar. Þessi svæði eru munnur, endaþarmur og kynfæri. Samkvæmt Freud er vegferð einstaklings í gegnum þessi stig margs konar hætta búin og hefur mótandi áhrif á þann persónuleika sem viðkomandi einkennist síðar af. Það þarf ekki að koma á óvart að þegar svo sterk öfl eru að verki getur margt farið úrskeiðis. Einn kann að staðna á ákveðnu þroskaskeiði, hjá öðrum duga varnarhættir ekki og kvíði og slæm aðlögun fylgja í kjölfarið. Í eðlilegu framhaldi af því hversu sálarlífið er dulvitað þarf margra ár meðferð, svokallaða sálgreiningu, til þess að ná betri og meðvitaðri stjórn á öflum sálarlífsins. Önnur fylking kenninga um persónuleikann nefnist atferlisstefna. Hér er um að ræða hugmyndir og kenningar nokkurs fjölda sálfræðinga og hafa þær breyst nokkuð frá því þær voru fyrst settar fram. Þessar hugmyndir voru að sumu leyti andsvar við mikilvægi dulvitundarinnar til þess að útskýra hegðun. Innan þessara herbúða er einnig að finna hörðustu andstöðuna við þá hugmynd að hægt sé að skýra hegðun manna með tilvísun í persónuleika þeirra. Það sem við köllum persónuleika er að þeirra mati samsafn lærðrar hegðunar. Og það er einmitt framlag þessarar stefnu að sýna fram á það hvernig þættir í umhverfinu móta hegðun okkar og færa hana í ákveðinn farveg. Hegðun er þannig lærð og ákvörðuð af aðstæðum og umhverfi og því breytileg eftir því í hvaða aðstæðum við erum hverju sinni. Hegðun mótast ekki af ósýnilegum, óljósum, innri öflum. Að einu leyti fara hugmyndir atferlissinna saman við hugmyndir Freuds. Þeir gera ráð fyrir því að eitt af því sem móti hegðun og færi hana í ákveðið mynstur sé tilhneigingin til þess að forðast sársauka og halda þeirri hegðun sem hefur jákvæðar afleiðingar. Heldur hafa hugmyndir þessarar fylkingar færst í þá átt að það séu ekki einungis ólíkar aðstæður og áreiti sem móti fólk, heldur hvaða merkingu aðstæður hafa fyrir hvern og einn. Ef mér líkar vel í vinnu og líður vel heima þá hafa þessar tvenns konar aðstæður svipaða merkingu fyrir mig þó að þær séu í ytra eðli sínu ólíkar. Afleiðingin fyrir hegðun mína væri sú að ég hegðaði mér á svipaðan hátt við báðar kringumstæður. Til þess að hægt sé að útskýra hegðun manna hefur það orðið raunin að æ meira tillit þarf að taka til þess sem maðurinn hugsar og býst við, til viðbótar því að bregðast við ytri áreitum. Í meðferð er lögð áhersla á að átta sig á því hvað það er sem viðheldur hegðun og síðan að breyta því, hvort sem það eru þættir í umhverfinu eða hugsunarháttur viðkomandi einstaklings. Þriðja fylkingin, oft nefnd þriðja aflið í sálfræðinni, beinir athygli sinni að meðvitaðri reynslu fólks. Einkum er sú reynsla sem mótar sjálfsmynd einstaklingsins talin mikilvæg, og í raun álitin kjarni persónuleikans sem öll starfsemi hans snýst um. Þær hugmyndir sem hver og einn hefur um sjálfan sig og umheiminn eru sagðar ákvarða hegðunina. Það er talið afar mikilvægt að sjálfsmyndin sé opin fyrir nýrri reynslu og þurfi ekki að loka á eða afneita einhverjum tilfinningum eða upplifun. Slíkt þrengir að möguleikum einstaklings og skapar vanlíðan. Þá leggja þessar kenningar mikla áherslu á mikilvægi foreldra og umhverfis í mótun persónuleika barnsins. Það þarf að njóta skilyrðislausrar ástar til þess að sjálfsmynd þess þróist með sem heilbrigðustum hætti. Barnið þarf að finna sig elskað þrátt fyrir t.d. óþekkt. Ef svo væri ekki gæti það, til þess að viðhalda ást foreldra sinna, byrjað að aðgreina reynslu sína í æskilega og óæskilega. Slík aðgreining færir sjálfsmyndina í ákveðinn farveg sem getur leitt til þess að hún takmarkast. Til mótvægis við þessa þróun er það sagt manninum eðlislægt að fullgera alla eiginleika sína, að ná fullum persónuþroska. Meðal annars þess vegna er alltaf möguleiki á því að laga það sem úrskeiðis fer. Meðferð í anda þessara kenninga leggur áherslu á að skapa það jákvætt viðhorf í garð skjólstæðings að hann geti smátt og smátt bætt og aukið við sjálfsmynd sína og þannig fullgert persónuleika sinn. Fjórða fylkingin hefur einbeitt sér að því að finna grunnþætti persónuleikans. Hér er því haldið fram að skýra megi ólíka hegðun manna og ólíkan persónuleika með því að vísa til eðlislægra hegðunartilhneiginga eða þátta sem öllum eru sameiginlegir en hafa hins vegar mismikið af. Með hegðunartilhneigingum er átt við margs konar viðbrögð, eins og t.d. að bregðast við hægt eða hratt, rólega eða með æsingi, að velta hlutum fyrir sér eða vera fljótur til framkvæmda. Gert er ráð fyrir að allir hafi sömu grunnþætti, en hafi hins vegar mismikið af hverjum þætti í sér. Þessi staða hvers og eins m.t.t. hvers þáttar er sögð ákvarðandi fyrir hegðun og persónuleika fólks. Kenningar innan þessarar fylkingar eru nokkuð ólíkar um það hvað þessir grunnþættir eru margir, allt frá þremur og upp í sextán. Engu að síður er niðurstaða allra þessara kenninga hin sama, að persónuleiki manna verði best skýrður með því að uppgötva eðlislægar tilhneigingar til hegðunar. Í þessum hugmyndum er því haldið fram ákveðnar en í nokkrum öðrum að grunnur að ólíkum persónuleika manna sé til frá upphafi. Þá er því líka haldið fram að persónuleikinn breytist ekki auðveldlega.

Þú ert það sem þú varst

Hörður Þorgilsson

Ef einhver kenningasmiður innan sálfræðinnar er þekktur þá er það Sigmund Freud. Hann setti fram kenningar sínar á fyrstu þremur áratugum þessarar aldar. Kenning hans hefur haft gífurleg áhrif á hugmyndir okkar um eðli mannsins. Þannig eru þær ekki eingöngu bundnar við fræðibækur í sálfræði, heldur eru þær orðnar hluti af alþýðlegum útskýringum okkar á hegðun fólks. Við tölum til dæmis um að einhver sem man ekki eftir einhverjum atburði hafi sennilega bælt hann. Kenning Freuds breytti sýn okkar á eðli mannsins. Þessu hefur verið líkt við þær breytingar á heimsmynd mannsins og þau áföll sem sjálfsmynd okkar varð fyrir í kjölfar kenninga Galileos og Darwins. Galileo hélt því fram að það væri jörðin sem snerist í kringum sólina, en ekki öfugt, og Darwin taldi að skyldleiki okkar við dýrin væri mun meiri en við héldum. Loks kom Freud sem hélt því fram að við hefðum hvorki innsýn í né stjórn á okkar eigin sálarlífi og hegðun.

Aðföng og umhverfi

Það er einkum tvennt sem mótar persónuleikann að mati Freuds. Annars vegar að sálarlífið sé knúið áfram af hvötum, kynhvöt og árásarhvöt, sem leita stöðugt útrásar og svölunar. Hins vegar að sálarlífið sé að stærstum hluta dulvitað. Allir fæðast inn í umhverfi sem er í tiltölulega föstum skorðum, hefur sínar reglur, boð og bönn. Freud sá það sem eðli barnsins að koma í þennan heim knúið áfram af hvötum sem féllu ekki beint að þeim reglum og siðvenjum sem umhverfið hafði. Það er fyrst og fremst í gegnum þá togstreitu sem þarna skapast, milli hvata og umhverfis, sem persónuleikinn verður til. Persónuleikinn gegnir því meginhlutverki að finna ásættanlega leið, svo hvötum megi fullnægja án of mikilla árekstra við annað fólk. Freud telur að um sex ára aldur höfum við að öllu jöfnu fundið þá leið sem við fetum okkur eftir ævilangt. Hins vegar má það ljóst vera að þessi átök eru þess eðlis að þau bjóða upp á margs konar og um leið ólíkar lausnir. Og í þessu felst einmitt sú staðreynd að engir tveir persónuleikar eru eins.

Dulvitundin

Freud uppgötvaði ekki dulvitundina. Hann var aftur á móti með þeim fyrstu sem kom með kenningu um hana og skipaði henni í öndvegi. Hann taldi að vitund manna mætti skipta í þrjú stig, meðvitund, forvitund og dulvitund. Meðvitund er vitund okkar um okkur sjálf frá einu augnabliki til annars. Forvitund er sú vitund sem við getum kallað fram með sérstakri viðleitni, til dæmis símanúmer foreldra okkar eða það sem gerðist í gær, nokkuð sem við erum yfirleitt ekki að hugsa um. Dulvitund er aftur á móti utan meðvitundar okkar og því erfiðari viðfangs. Freud taldi að flest þau öfl sem gæfu manninum kraft sinn væru meira og minna dulvituð. Þar væri að finna óskir okkar, langanir og ástríður, sem og þá togstreitu sem samspil þessara afla við skyldur okkar skapar. Það væri fyrst og fremst á vettvangi dulvitundarinnar sem endanleg hegðun okkar og líðan ákvarðaðist. Það sem væri sjáanlegt væri niðurstaða mikillar úrvinnslu sem við hefðum enga meðvitund um. Eðli sínu samkvæmt er ekki hægt að nálgast dulvitundina beint, en um tilvist hennar og starfsemi má hins vegar álykta út frá hegðun manna. Freud taldi að beinar vísbendingar um tilvist dulvitundar væru einna gleggstar í draumum okkar. Þá mætti einnig sjá merki hennar í mismælum, taugaveiklun og listum. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að reyna að sanna eða afsanna tilvist dulvitundar. Flestar benda þær til þess að margs konar starfsemi hugar og tilfinninga eigi sér stað utan meðvitundar. Hins vegar er það öllu umdeildara hvort þessi starfsemi er þeirrar gerðar sem Freud hélt fram.

Orka sálarlífsins

Grundvöllur að allri starfsemi sálarlífsins var að mati Freuds orka. Uppspretta orkunnar var í líkamlegu spennuástandi sem kallaði á stöðuga tjáningu eða svölun. Þetta ástand nefndi Freud hvatir og taldi þær vera stöðugar og óumflýjanlegar. Freud taldi að um tvenns konar hvatir væri að ræða, kynhvöt og árásarhvöt. Einkenni þessara hvata er að þær stefna að því að losa um þá spennu sem í þeim felst, að skapa fullnægju og ánægju og forðast þá vanlíðan og óþægindi sem ónóg svölun leiðir af sér. Hjá dýrunum fá þessar hvatir milliliðalausa útrás og nefnast eðlishvatir. Hjá mönnunum sem þurfa að laga sig að umhverfi sínu er aftur á móti um óbeina útrás að ræða. Hvatirnar verða aflvaki sálarlífsins, verða að sálrænni orku sem gerir þætti sálarlífsins eins og hugsun, vilja og tilfinningar mögulega. Þessir og aðrir þættir sálarlífsins byrja síðan að móta þann farveg sem hvatirnar finna sér og hverju þær tengjast. Af öllu þessu leiðir að hvatir okkar finna sér mun margbreytilegri útrás en við sjáum hjá dýrunum. Freud taldi að sálræna orkan sem væri afsprengi hvatanna hefði þann eiginleika að bindast bæði fólki og hlutum. Þessi binding gæfi þeim ákveðið gildi eða orkuhleðslu og gegndu þessir hlutir og fólk því lykilhlutverki í óbeinni svölun hvatanna. Hvernig orka færist frá einum hlut til annars er höfuðatriði í kenningu Freuds um persónuleikann. Einstaklingsmun í smekk, hegðunarvenjum og viðhorfum má rekja til þess hvernig fólk færir orku frá þeim hlutum sem hvatirnar bindast í upphafi til nýrra hluta.

Gerð persónuleikans

Í samræmi við þá hugmynd að persónuleikinn verði til í samspili hvata og umhverfis gerir Freud ráð fyrir því að persónuleikanum megi lýsa sem stæði hann saman af þremur kerfum sem eru fulltrúar tveggja mótunarafla og málamiðlunar þar á milli. Þessi kerfi kallast það, yfirsjálf og sjálf. Þaðið er dulvitað og er til frá fæðingu. Í því er að finna orku sálarlífsins, en uppspretta hennar er í hvötum, kynhvöt og árásarhvöt. Einkenni þess er krafan um tafarlausa fullnægingu hvata án tillits til ytri raunveruleika og markmið þess er ánægja. Þaðið starfar samkvæmt því sem Freud nefndi vellíðunarlögmál. Þaðið er hömlulaust og órökrétt, ber enga virðingu fyrir hinum ytri raunveruleika og reynir stöðugt að leita fullnægingar með ýmsum hætti, ýmist í hegðun eða með því að ímynda sér að það hafi fengið það sem það vill. Samkvæmt Freud má til dæmis sjá vísbendingu um starfsemi þaðsins hjá mjög ungum börnum sem ekki hafa náð miklum þroska og í draumum okkar, en þá eru önnur kerfi persónuleikans óvirkari. Yfirsjálfið nefnir Freud það kerfi persónuleikans sem gegnir því hlutverki að vera nokkurs konar siðgæðisvitund og samviska okkar. Í yfirsjálfinu sjáum við fulltrúa umhverfisins og gilda þess sem einstaklingurinn hefur tileinkað sér. Markmið yfirsjálfs er fullkomnun og sú afstaða sem í því felst leiðir ýmist af sér lof eða last á hegðun okkar. Ef hegðun okkar er að skapi yfirsjálfs og í samræmi við siðferðileg gildi þess finnum við það í stolti og ánægju. Sektarkennd væri dæmi um afstöðu yfirsjálfs til einhvers sem við gerðum eða hugsuðum sem ekki væri í fullu samræmi við ríkjandi siðferðileg gildi. Þriðja kerfi persónuleikans kallaði Freud sjálf. Sjálfið er nokkurs konar dómari í átökum hvata og umhverfis og það sér um að hvatir þaðsins fái útrás með þeim hætti að það teljist viðeigandi. Sjálfið fær orku sína frá þaðinu en er undir eftirliti yfirsjálfsins. Þessu samspili þaðs, sjálfs og yfirsjálfs hefur oft verið líkt við hest og knapa. Það er knapinn, sjálfið, sem beinir orku hestsins, þaðsins, í ákveðinn farveg að því marki sem yfirsjálfið getur sætt sig við. Sjálfið þarf að búa yfir margþættum eiginleikum til þess að geta gegnt hlutverki sínu vel. Það þarf vitræna hæfileika, gott raunveruleikaskyn, þarf að þola spennu, frestun og sáttagjörð, og geta horft til framtíðar. Í heilbrigðum persónuleika verður að ríkja jafnvægi milli þessara þriggja kerfa. Ef þaðið er of ríkjandi verður einstaklingur hvatvís og sjálfselskur. Þar sem yfirsjálfið er of sterkt verður sá hinn sami stífur og fordæmandi. Ef sjálfið er veikt verður oft erfitt að ná jafnvægi milli eigin þarfa og óska jafnframt því að rækja skyldur við samfélagið. Þá gæti reynst erfitt að setja sér raunhæf mörk.

Sálarlífið að störfum

Það er sjaldnast svo að fólk fái öllum hvötum sínum svalað. Þó svo að hegðun smábarns einkennist einna helst af því að það reynir að fullnægja hvötum sínum er það um leið mjög háð þeirri umönnun sem það fær. Og þótt þessi umönnun sé mjög góð nær hún því aldrei að vera algerlega fullnægjandi og skapar jafnvel spennu. Þessi staða stuðlar að því að barnið fer að reyna að eygja leiðir sem þjóna útrás hvatanna sem best. Þessi leið styrkist svo frekar þegar kröfur umhverfisins aukast og það fer að setja skilyrði um það hvað bæði á og má. Þannig kemur það iðulega fyrir að leita verður leiða til þess að fá útrás sem ekki er bein. Hvaða leiðir eru þá mögulegar? Hægt er að slá fullnægingu á frest, flytja hana eða breyta bæði eðli hvatarinnar og því sem hún stefndi að. Með þessu mætti fá nokkra fullnægingu án þess að það leiddi til árekstra við umhverfið eða kæmi fólki í koll með einhverjum öðrum hætti. Þannig má skoða blíðuhót eða alúðleika sem leið til þess að fullnægja kynhvöt á óbeinan hátt. Að elska bílinn sinn gæti á sama hátt verið vísbending um að kynhvötinni hafi verið beint að hlut sem vekur ekki upp neinn ugg eða kvíða. Þá væri það í sama dúr að skýra hæðni einhvers með því að segja að þarna væri sá hinn sami að fullnægja árásarhvöt sinni. Þessi óbeina fullnæging hvatanna er eins konar tilfærsla. Þegar tilfærslan þjónar gagnlegu hlutverki í menningu og samfélagi, skapar list eða verður hvati að ýmsum uppgötvunum er hún gjarnan nefnd göfgun. Freud var þeirrar skoðunar að til þess að maðurinn kæmist af og lifði í menningarsamfélagi væri göfgun ekki einungis æskileg heldur nauðsynleg. Að öllu jöfnu nær barn smám saman betri tökum á því hvaða kröfur umhverfið gerir til þess og lagar sig æ betur að þessum kröfum. Freud kallar þetta að lifa samkvæmt raunveruleikalögmálinu. Engu að síður gerir hann ráð fyrir að hvatirnar haldi mikilvægi sínu, þar sé eftir sem áður uppspretta sálarorkunnar. Meðvitundin um þær hverfur hins vegar og þær verða hluti dulvitundar. Það er síðan á þessu stigi vitundarleysis sem margháttuð starfsemi sálarlífsins fer fram. Þar er uppspretta hvata og óska og þar fer fram eins konar mat á því hvort hægt sé að breyta hvöt í æskilegt form, til dæmis með tilfærslu eða göfgun, þannig að hún nái fram að ganga. Þá er það metið hvort hvötin sé of ógnandi fyrir öryggi einstaklingsins, hvort svölun hennar samrýmist gildum umhverfisins. Ef hún er of ógnandi felur það í sér hættu og skapar kvíða. Þar sem kvíði er afar óþægileg tilfinning getur enginn lifað með hann til lengdar. Þessi kvíði er því nokkurs konar mælikvarði á samskipti hvata og umhverfis. Hann virkjar það sem Freud kallaði varnarhætti. Varnarhættir gegna því hlutverki að minnka og eyða kvíðanum með því að umbreyta hvötum og hugsunum þeim tengdum þannig að þær verði ekki eins ógnandi. Þetta getur gerst með afar fjölbreytilegum hætti. Við getum bælt hvatirnar, afneitað þeim eða fært í þann búning að við getum gengist við þeim. Í öllum tilvikum fölsum við raunveruleikann þannig að kvíðinn nái ekki að verða meðvitaður og þar með ekki eins óþægilegur. Freud gerir ráð fyrir að togstreita af þessu tagi einkenni alla, en í ýktri mynd skilar hún sér í skekktu raunveruleikaskyni, óraunhæfri sjálfsmynd og jafnvel margvíslegum taugaveiklunareinkennum.

Þróun persónuleikans

Þótt Freud tali um tvenns konar hvatir, kynhvöt og árásarhvöt, þá beindist athygli hans mun meira að kynhvötinni. Þetta olli á sínum tíma miklu fjaðrafoki og veldur enn. Af frásögnum sjúklinga sinna réð Freud að kynhvötin væri til strax frá frumbernsku. Kynhvötin leikur lykilhlutverk í þróun persónuleikans og mótun þeirrar persónuleikagerðar sem síðar einkennir fólk. Kenningin er sú að kynhvötin þróist í fimm þrepum og það sem einkenni hvert þrep sé að ertingarsvæði kynhvatarinnar bindist ákveðnum svæðum líkamans og að viðfangsefni kynhvatarinnar breytist. Hvernig svölun hvatarinnar og samskiptin við umhverfið ganga síðan fyrir sig hefur afgerandi áhrif á þróun tilfinningalífs og persónugerð einstaklings síðar meir. Fyrsta þrepið tekur yfir fyrsta æviár barnsins og kallast munnstig. Hér er ertingarsvæði kynhvatarinnar munnurinn og barnið svalar hvöt sinni með því að sjúga brjóst móður sinnar og setja sem flest upp í sig. Tengsl þess við aðra felast fyrst og fremst í því að taka á móti, njóta og þiggja. Næstu tvö árin einkennast af þermistigi. Hér er ertingarsvæðið endaþarmurinn enda barnið að læra að hafa stjórn á þvagi og hægðum. Samskiptin við aðra verða flóknari og það byrjar að framfylgja eigin vilja, en kann lítið að gefa af sjálfu sér. Þriðja þrepið er völsastigið og einkennir árin fram til sex ára aldurs. Ertingarsvæðið er nú kynfærin sjálf. Tengsl við aðra byrja að vera gagnkvæm og fyrstu sálrænu árekstrarnir eiga sér stað. Kynin gera sér vel grein fyrir þeim mun sem á þeim er og vekur það bæði aðlöðun og ótta. Börnin laðast að foreldri af gagnstæðu kyni, ímynda sér gjarnan að þau muni giftast mömmu eða pabba þegar þau verða stór. Þarna er hins vegar á ferð ósk sem gengur ekki upp í raunveruleikanum og kann jafnvel að vekja upp ótta við það foreldri sem er af sama kyni. Þessi togstreita leysist með þeim hætti að barnið tekur að líkja eftir foreldri af sama kyni og tileinka sér hegðun þess og gildi. Á þessu stigi er lagður grunnur að sjálfsmynd barnsins og tengslum þess við annað fólk. Freud taldi að við lok þessa skeiðs væru allir stærstu drættir persónuleikans dregnir og það sem síðar kæmi væri einungis endurspeglun á þróun þessara fyrstu sex ára. Fjórða stigið kallast lægðarstig og einkennir árin fram að kynþroska. Kynhvötin er í nokkurs konar lægð og binst ekki neinu sérstöku svæði. Barnið fer í skóla, eignast vini, öðlast margs konar hæfni og eykur skilning sinn á hvað er viðeigandi hegðun fyrir stráka og stelpur. Með gelgjuskeiðinu dafnar kynhvötin á ný. Hún er einkum bundin kynfærunum og athyglin og áhuginn beinist að jafnöldrum af hinu kyninu. Vegferð barns í gegnum þessi stig, einkum fyrstu þrjú, getur verið með margvíslegum hætti. Þar sem um það er að ræða að fullnægja þeim hvötum sem bindast þessum þremur svæðum líkamans má gera ráð fyrir að fullnægingin geti verið ýmist mátuleg eða ófullnægjandi. Freud taldi að hún gæti orðið ófullnægjandi með tvennum hætti, að fullnægingin væri of lítil eða of mikil. Hvort tveggja hefði það í för með sér að einstaklingur staðnaði á því stigi þar sem fullnægingin væri ónóg. Þessi stöðnun hefði síðan mótandi áhrif á persónuleikann og mætti greina persónuleikagerðir í samræmi við hvar einstaklingur hefði staðnað. Þó greina mætti þessi einkenni í daglegri hegðun kæmu þau skýrast fram þegar einstaklingur væri undir miklu álagi. Þá væri eins og hann hyrfi aftur til þess stigs sem ekki tókst að vinna nógu vel úr. Þeir sem hafa staðnað á munnstigi leita stöðugt að fullnægingu þessara þarfa í því að reykja, drekka og í ofáti. Þeir eru sagðir uppteknir af því að fá og þiggja. Stöðnun á þermistigi getur skilað sér með tvennum hætti, í mikilli snyrtimennsku, nísku og bindindi, eða í andhverfu þessa, sóðaskap og skipulagsleysi. Þá á það sér líka stað að einstaklingur sé afar tvístígandi milli þessa tvenns, að halda og að sleppa. ªfullnægjandi úrvinnslu á togstreitu völsastigs má sjá á ólíkan hátt hjá körlum og konum. Karlar þurfa um of að sýna karlmennsku sína á sem flestum sviðum, í vinnu eða kynlífi, eða þá að þeir óttast að sýna styrk sinn og virðast getulitlir. Hjá konum kemur þetta fram í tilhneigingum til sefasýkishegðunar. Hegðunin er þá full af daðri og hugmyndir um tilhugalíf rómantískar og fagrar. Hins vegar afneita þær kynferðislegri ætlun og láta sem langanir annarra til þeirra komi þeim í opna skjöldu.

Þú ert það sem þú lærir

Hörður Þorgilsson

Þegar barn fæðist á það margt ólært. Það fæðist að vísu með margs konar eiginleika og getu, en mótun þessara eiginleika er verkefni þess umhverfis sem það fæðist í. En hvað er það sem mótar barnið og hegðun þess? Í þessum pistli verður gerð grein fyrir þeim kenningum innan sálfræðinnar sem reyna að útskýra hvernig hegðun mótast og lærist. Í þessum kenningum fær umhverfið mikið vægi og í stað þess að leita skýringa á hegðun fólks í dulvituðum hvötum þess, er því haldið fram að hegðun mótist bæði af áreitum í umhverfinu og því hvernig viðbrögð hegðunin fær þar. Og þar sem áreiti og umhverfi geta verið afar margbreytileg þá er hegðun hvers og eins jafnfjölbreytileg og áreitin og þau viðbrögð sem koma frá umhverfinu. Róttækasta afstaðan í hópi þessara kenninga er sú að segja að persónuleiki sé ekki til, heldur einungis hegðun undir stjórn ólíkra aðstæðna. Þegar Pétur er í vinnunni mótar það umhverfi hegðun hans þar, hann er samviskusamur, iðinn og hlédrægur. En á dansleik verður hann hins vegar daðurgjarn og kærulaus. Hér væri það ólíkt umhverfi sem mótaði hegðun Péturs. Hver skyldi persónuleiki hans vera? Er eitthvað sem einkennir hann bæði í vinnu og á dansleik? Í seinni tíð hefur þessi afstaða gagnvart persónuleikanum heldur verið á undanhaldi og hugmyndin um að persónuleikinn sé til verið tekin í sátt. Til þess að útskýra hegðun er talið að þurfi að skoða þrennt: Þætti í einstaklingnum, þætti í umhverfinu, og samspil einstaklings og umhverfis. En hvernig lærist hegðun og um hvers konar nám er að ræða? Þó nám tengist skóla í hugum flestra er svo ekki hér, heldur er nám skilgreint sem varanleg breyting á hegðun vegna reynslu. Skoðum nú þrenns konar nám.

Hundar og fólk

Um aldamótin 1900 var rússneskur lífeðlisfræðingur, Pavlov, að rannsaka hlutverk munnvatns í meltingu. Við rannsóknirnar notaði hann hunda. Þessar rannsóknir fólust m.a. í því að setja mat á tungu hundsins og mæla síðan þau eðlislægu viðbrögð að framleiða munnvatn. Pavlov tók hins vegar eftir því eftir nokkrar tilraunir að munnvatnsframleiðsla hundsins jókst áður en maturinn var settur á tungu hans. Það virtist sem viðbragðið (munnvatn) kæmi á undan áreitinu (matnum á tungunni). Hvernig mátti þetta vera? Eftir nokkrar rannsóknir komst Pavlov að niðurstöðu um það hvernig hegðun lærist vegna tenginga milli áreita. Þetta kallast klassísk skilyrðing eða viðbragðsskilyrðing. Kjarninn í þessari tegund náms er að sum áreiti, svokölluð óskilyrt áreiti, vekja alltaf ákveðna svörun, óskilyrta svörun. Hér er því um eðlislæg viðbrögð að ræða, matur kallar til dæmis fram munnvatn. Ef hins vegar óskilyrta áreitið er reglulega tengt einhverju öðru áreiti, sem við köllum skilyrt áreiti og vekur að öllu jöfnu enga sérstaka svörun, gerist það smám saman að þetta nýja áreiti fer að kalla fram sama viðbragð og fyrsta áreitið, óskilyrta áreitið. Í rannsóknum Pavlovs hófst munnvatnsframleiðsla hundsins um leið og sá sem gaf honum matinn birtist í gættinni. Að öllu jöfnu leiðir það ekki til eðlislægra viðbragða eins og að framleiða munnvatn þótt hundur sjái mann. Ef hins vegar maðurinn birtist alltaf skömmu áður en maturinn er settur á tunguna verður maðurinn smám saman að því áreiti, skilyrtu áreiti, sem vekur sömu svörun og maturinn. Því virðast fá takmörk sett hvaða áreiti geta tengst saman og þannig skapað sömu viðbrögð. Reglan er sú að fari tvö áreiti saman getur þessi tenging orðið. Hið eðlislæga viðbragð verður að öllu jöfnu ekki bara við eitt annað áreiti, heldur við mörg svipuð. Ef umsjónarmaður hundsins væri jafnan í stuttum slopp þegar hann gæfi hundinum matinn breytti það litlu um viðbrögð hundsins þó einhver annar gæfi honum stöku sinnum, svo framarlega sem hann væri í stuttum slopp. En við getum líka lært að greina á milli áreita þannig að viðbrögðin verði við sumum áreitum en ekki öðrum. Ef t.d. umsjónarmaður hundsins ætti tvo sloppa, einn stuttan til matargjafar og annan síðan til þrifa, þá yrði tengingin milli matar og stutta sloppsins en ekki milli matar og síða sloppsins. Síði sloppurinn yrði áreiti sem leiddi ekki til munnvatnsframleiðslu. Þá gerist það einnig að ef tengingin milli áreitanna tveggja rofnar, t.d. ef umsjónarmaðurinn í stutta sloppnum kemur aftur og aftur án þess að koma með mat, þá hættir hann smám saman að vera áreiti sem kallar fram munnvatn. Tenging viðbragðsins getur orðið við svipaða hluti og nefnist alhæfing (annar maður í stuttum slopp), eða að tengingin takmarkast við ákveðna hluti og kallast sundurgreining (stutta sloppa en ekki síða), eða þá að tengingin rofnar ef henni er ekki haldið við og nefnist það slokknun (umsjónarmaður í stuttum slopp hættir að gefa mat). Þessar einföldu niðurstöður Pavlovs hafa reynst afar gagnlegar til þess að útskýra hvernig fólk lærir að bregðast við margs konar hlutlausum áreitum vegna þess að þau hafa tengst öðrum áreitum sem vekja upp eðlislæg viðbrögð. Einkum getum við útskýrt viðbrögð sem eru ekki viljastýrð, svo sem smekk, tilfinningar eins og hræðslu og ánægju, og ýmis líkamleg viðbrögð, svo sem blóðþrýsting, hjartslátt og vöðvasamdrátt. Þá má nota þessar hugmyndir til þess að útskýra flókna hegðun, gera grein fyrir mun milli einstaklinga, allt án þess að vísa til persónuleika þeirra.

Umbun og refsing

Klassísk skilyrðing útskýrir vel viðbrögð okkar. Maðurinn er hins vegar meira en viðbrögð. Hegðun hans er afar fjölbreytileg og möguleikar hvers og eins til hegðunar nær endalausir: Að hjóla, skrifa, vinna, spila á spil, vera frekur, elda mat, spjalla við aðra, elskast, lesa. Hvað gerir það að verkum að eitt verður meira áberandi en annað? Svarið er að valið ákvarðast af þeim viðbrögðum eða afleiðingum sem hegðunin hefur í för með sér. Sá fræðimaður sem er hvað þekktastur fyrir að skoða þessi tengsl og hvernig þau móta hegðun heitir Skinner. Að hans mati var hægt að útskýra allflesta hegðun með því að skoða viðbrögð við hegðuninni. Þannig hélt hann því fram að það væri með öllu óþarft að fást við hugsanir og tilfinningar, þær væru einfaldlega ástand sem skapaðist við ákveðna hegðun en hvorki skýrði né ákvarðaði hana. Þessi hugmynd, að afleiðingar hegðunar móti þann farveg sem hún fellur eftir, er ekki ný af nálinni. Við sjáum hana í málsháttum eins og „Brennt barn forðast eldinn“. Þá kannast flestir við það að gera meira af því sem leiðir til árangurs, ánægju eða ávinnings, en að halda til streitu því sem leiðir til leiðinda eða skaða. Hrós og skammir hafa ólík áhrif. Í sálfræðinni hafa tengsl hegðunar og afleiðinga hennar verið rannsökuð á kerfisbundinn hátt. Í fyrsta lagi geta afleiðingar hegðunar verið hlutlausar og engin áhrif haft á það hvort hegðunin verður tíðari eða sjaldgæfari. Í öðru lagi geta afleiðingar hegðunar verið þannig að þær styrkja hegðunina í sessi, segja má að hún sé verðlaunuð. Þessi viðbrögð og afleiðingar þeirra kallast styrkingar. Þetta getur gerst með tvennum hætti. Annars vegar þegar hegðun leiðir til jákvæðra viðbragða, til dæmis ef við fáum lof fyrir vel unnið verk, þá aukast líkur á að við vinnum á svipaðan hátt. Hins vegar getur hegðun styrkst í sessi þegar hún leiðir til þess að við losnum undan einhverju óþægilegu. Dæmi um slíkt er að ef höfuðverkur hverfur í hvert skipti sem við tökum verkjatöflu, þá aukast líkur á því að við gerum hið sama næst þegar við fáum höfuðverk. Með þessum hætti getum við útskýrt margs konar hegðun. Þannig gæti ein ástæðan fyrir því að hræðsla sumra við ákveðna hluti, svo sem að fara í lyftu eða bíó, helst lengi verið sú að með því að forðast þessa hluti finnur fólk ekki fyrir hræðslu. Sú hegðun að forðast er því styrkt í sessi. Þriðja gerð afleiðinga er þegar þær draga úr líkum á því að við hegðum okkur með sama hætti aftur. Þessi tegund viðbragða umhverfisins kallast refsing. Refsingin getur verið af tvennum toga. Hún getur ýmist falist í því að eitthvað óþægilegt gerist eða því að eitthvað ánægjulegt er tekið burtu. Dæmi um hið fyrra væru skammir fyrir óþekkt eða afglöp. Refsing af seinni gerðinni væri að missa af eftirrétti vegna óláta við matborðið. Í báðum tilvikum hafa refsingarnar þau áhrif að líkur á sams konar hegðun og leiddi til þeirra minnka. Sálfræðingar hafa einkum beint sjónum sínum að þeim jákvæðu viðbrögðum sem festa hegðun í sessi, svonefndum jákvæðum styrkingum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þær eru áhrifaríkari leið en refsingar til þess að breyta hegðun. Refsingar hafa þar að auki ýmsar hliðarverkanir sem draga enn fremur úr áhrifamætti þeirra. Styrking hefur áhrif á hegðun með margvíslegum hætti og henni er beitt á marga vegu. Það er sjaldgæft að hegðun sé styrkt í hvert skipti sem hún kemur fram. Hitt er algengara að jákvæð viðbrögð við hegðun séu slitrótt, en það eykur til muna líkur á því að hegðun viðhaldist. Flestir kannast við það að börn suða gjarnan um sælgæti. Þó þessu suði sé ekki sinnt nema stöku sinnum halda þau engu að síður áfram að suða. En það er einmitt vegna þess að suðinu er sinnt stöku sinnum að hegðun þeirra viðhelst, hún er styrkt með áhrifamiklum hætti. Það eru nokkur afbrigði af því hvernig hegðun er styrkt í sessi sem við getum notað til þess að útskýra afar fjölbreytilega hegðun. Í fyrsta lagi getur styrkingin komið eftir að hegðun hefur átt sér stað í ákveðinn fjölda skipta. Dæmi um þetta væri að sölumaður fengi hærri prósentu fyrir hverjar 100 bækur sem hann seldi. Bónuskerfi í frystihúsi er með sama hætti. Í öðru lagi gæti styrking verið breytileg, en væri að meðaltali nokkuð stöðug. Þannig fengist styrking til dæmis eftir ýmist 1 svar, eða 7, eða 25, en að meðaltali í 13. hvert skipti. Þessi tegund styrkingar er að verki í alls kyns spilakössum. Fólk getur unnið peninga í fyrstu umferð en svo er hægt að spila 20 umferðir án þess að fá nokkuð. Allir sem hafa spilað á slíka kassa þekkja hvernig þessi breytilegu viðbrögð kassanna hvetja til áframhaldandi spilamennsku. Í þriðja lagi er um að ræða styrkingu sem kemur á ákveðnum tíma, til dæmis einu sinni á dag. Flest okkar vita hvenær pósturinn kemur inn um lúguna eða í póstkassann. Sú hegðun að kíkja eftir póstinum er styrkt einu sinni á dag, þegar pósturinn kemur, en fellur algerlega niður þess á milli. Með þessum hætti getum við skýrt ýmsa reglu sem er í hegðun okkar, við gerum eitthvað á ákveðnum tíma vegna þess að það hefur jákvæðar afleiðingar á þessum tíma en ekki öðrum. Við förum til dæmis ekki í heimsókn nema á þeim tíma sem við höldum að einhver sé heima. Í fjórða lagi geta viðbrögð við hegðun verið mun óreglulegri en í dæminu hér á undan, þau gætu komið eftir 10 mínútur eða eftir 2 tíma. Veiðimenn vita ekki hvenær fiskurinn bítur á. Engu að síður halda þeir stöðugt áfram að reyna, veiðihegðun þeirra helst stöðug. Flestir kannast líklega við að óvissa um heimsókn eða símtal heldur við þeirri hegðun að bíða, og hversu erfitt það getur verið að snúa sér að öðrum verkefnum á meðan. Af þessari umfjöllun ætti það að vera nokkuð ljóst að fjölbreytileg viðbrögð umhverfisins við hegðun okkar hafa áhrif á hana, bæði viðhalda henni og auka. Það gefur augaleið að þessar staðreyndir um mótandi áhrif umhverfis og viðbragða þess opna leið til þess að hafa áhrif á fólk með skipulögðum hætti, með því að verðlauna það eða beita styrkingum. Þetta hefur leitt til margs konar tækni sem reynst hefur mjög vel til þess að færa hegðun til betri vegar. Menn hafa hins vegar rekið sig á það að það er fleira sem hefur áhrif á hvað við gerum en þau viðbrögð sem við fáum. Sumt gerum við einfaldlega vegna þeirrar ánægju sem hlýst af athöfninni, við höfum áhuga á einhverju án þess að viðbrögð eða umbun komi þar neitt við sögu. Leikur barna er gott dæmi um þennan áhuga. Það virðist reyndar vera svo að styrkingar geti haft gagnstæð áhrif á athafnir sem sprottnar eru af eigin áhuga og þær fari að stjórnast meira af þeim viðbrögðum sem þær fá. Þetta er þó ekki einhlítt og fer eftir því hvernig verðlaunum er beitt. Til er saga af gömlum manni sem kom auga á þetta samband áhuga og verðlauna mun fyrr en nokkrir fræðimenn. Hann var mikið fyrir ró og næði. Það eina sem truflaði friðsældina voru nokkur börn að leik og fannst gamla manninum hávaðinn vera helst til mikill. Hann kallaði því á börnin og sagðist skyldi borga þeim 50 kr. fyrir að leika sér. Þau voru að vonum ánægð með það. Næsta dag sagðist gamli maðurinn því miður ekki geta borgað þeim nema 40 kr. fyrir leikinn. Daginn eftir gat hann ekki borgað nema 30 kr. Heldur varð leikurinn daufari. Þegar síðan upphæðin var komin niður í 20 kr. þótti börnunum upphæðin orðin það lág að þau neituðu að leika sér lengur fyrir gamla manninn og hurfu á braut. Gamli maðurinn naut hins vegar kyrrðarinnar.

Fyrirmyndir

Þó fræðimönnum takist að skýra ýmislegt í mannlegri hegðun er jafnan mun meira sem er eftir óskýrt. Þær skilyrðingar sem raktar hafa verið hér að framan nægja engan veginn til þess að útskýra hvernig við lærum hegðun. Það væri bæði tímafrekt og hættulegt að læra allt út frá afleiðingum og viðbrögðum. Vinna uppalenda yrði margfalt meiri en hún er í raun. Til allrar hamingju getum við lært á mun auðveldari og hagkvæmari hátt. Þessi háttur er að læra af því sem fyrir okkur er haft, læra með því að sjá hvaða afleiðingar hegðun annarra hefur. Þannig lærum við býsna margt, allt frá því hvernig við berum okkur að við það að borða eða búa um rúm til þess að leysa þrautir eða nota tölvur. Án þess að gera ráð fyrir því að við lærum af fyrirmyndum gætum við illa útskýrt hvers vegna barn nær skyndilega tökum á nýrri hegðun í heild sinni en ekki einstökum atriðum eins og ætti að gerast með skilyrðingum. Þá virðist þetta nám oft eiga sér stað án þess að nokkrar styrkingar séu fyrir hendi. Einnig getur það vel átt sér stað að við sýnum ekki það sem við höfum lært fyrr en löngu síðar. Þannig virðist það vera aðskilið að ná tökum á hegðun með því að hafa fyrirmyndir, og svo hvernig við nýtum þetta nám okkar. Hið seinna virðist frekar vera háð aðstæðum hverju sinni og þeim viðbrögðum sem við fáum við því sem við gerum. Við höfum sem sagt lært mun meiri hæfni en við sýnum, en hvaða hæfni verður mest áberandi fer hins vegar eftir viðbrögðum annarra. Tungumálið er að mörgu leyti lykill að því að læra af fyrirmyndum. Þannig virðist það oft nægja að segja frá hvernig eitthvað gengur fyrir sig til þess að við náum tökum á því. Í stað þess að læra viðbrögðin beint, lærum við um þau og afleiðingar þeirra. Þó tungumálið sé þessi lykill getur sú staða komið upp að það sem fyrirmynd segir og gerir stangast á. Foreldrar geta til dæmis öskrað á börnin sín og sagt þeim að þegja. Það eru meiri líkur á því að börnin læri það sem fyrir þeim er haft en það sem þeim er sagt að gera. Þegar börnin vaxa úr grasi og eignast sín eigin börn munu þau hafa lært að öskra á þau og segja þeim að þegja. Sjónvarpið, sögur og bækur geta líka verið áhrifamiklar fyrirmyndir, bæði til góðs og ills. Það er til dæmis óútkljáð deilumál að hve miklu leyti það stuðlar að ofbeldi hjá börnum að horfa á ofbeldi í sjónvarpi. Í því sambandi er vert að hafa í huga að það að geta er ekki það sama og að gera.

Hinn hugsandi maður

Upphaflegt markmið svokallaðrar atferlisstefnu var að útskýra hegðun manna án þess að vísa til sálarlífs þeirra eða annarra þeirra þátta sem ekki var hægt að sjá eða bregða áreiðanlegri mælistiku á. Það varð hins vegar smám saman ljóst að til þess að geta útskýrt mannlega hegðun yrði ekki hjá því komist að taka tillit til þess að maðurinn hugsaði og að þessar hugsanir hefðu áhrif á hegðun hans. Auk þess væri gildismat fólks ólíkt, íhygli þess, væntingar og ætlun. Allt gerði þetta það að verkum að ekki væri lengur hægt að tala um að það væru einungis viðbrögð umhverfisins sem stýrðu hegðun. Öllu nær væri að segja að maðurinn væri öðrum þræði sjálfstýrður. Væntingar um afleiðingar geta viðhaldið hegðun og viðbrögð þurfa ekki að koma frá umhverfinu heldur geta þau verið manns eigin, ýmist lof eða last út frá þeim viðmiðum og gildum sem hver og einn hefur sett sér. Það er nokkur breytileiki í hugsun manna og viðhorfum. Ef þessi breytileiki mótar sjáanlega hegðun er komin ástæða til þess að skoða hvort hann býr yfir ákveðinni reglu, hvort hugsanagangur hvers og eins helst stöðugur þrátt fyrir síbreytilegar aðstæður og viðbrögð. Slík niðurstaða kallar á endurskoðun á þeirri staðhæfingu að persónuleikinn sé ekki til, einungis lærð hegðun undir stjórn ytri aðstæðna. Flestir nútímaatferlissinnar gera ráð fyrir því sem kalla mætti persónuleika sem ásamt ytri aðstæðum mótar hegðun okkar. En hvaða eiginleikar eru það sem móta hegðunina í samvinnu við umhverfið? Einn fræðimaður telur það vera eftirfarandi þætti: 1. Meðfædd skapgerð, til dæmis mismikill viðbragðsstyrkur eða tilhneiging til að bregðast við nýjum hlutum með forvitni eða ótta. 2. Mismunandi hæfileikar á ólíkum sviðum, eins og að syngja, dansa eða stjórna. 3. Ólík túlkun atburða, það sem einum þykir athyglisvert leiðist öðrum. 4. Væntingar, uppeldið kennir okkur hvers við megum vænta, hvort ákveðin hegðun leiðir til lofs eða lasts. 5. Ætlun, flestir hafa ákveðnar áætlanir og viðmið um það hvað sé ásættanlegt. Engu að síður gerir fólk þetta í mismiklum mæli.

Er ég það sem ég hef lært?

Margs konar hegðun er ekki lærð. Hún getur verið afsprengi þróunar, eins og hæfileikinn til að ganga, sum viðbrögð eru eðlislæg og ekki má gleyma eðlishvötum. Þá virðist það vera að sumt nám geti einkum átt sér stað á ákveðnum aldri, til dæmis að læra að tala. Þrátt fyrir þessi atriði verður ekki framhjá því litið að maðurinn lærir meira en nokkur lífvera og hjá honum skiptir nám langtum meira máli en eðlishvatirnar. Af þessari ástæðu einni saman ríkir meiri breytileiki meðal manna en dýra. Það sem hér hefur verið rakið eru tilraunir manna til þess að skýra á hvaða hátt hegðun lærist. Margt hefur áunnist og við skiljum betur þá þætti sem hafa áhrif á okkur. En sínum augum lítur hver silfrið. Í öðrum pistlum eru önnur sjónarhorn skoðuð.

Þú ert það sem þú upplifir

Hörður Þorgilsson

Sjálf og sjálfsmynd eru hugtök sem vísa til reynslu okkar af okkur sjálfum og tilfinninga í eigin garð. Sjálfsmynd okkar getur verið misgóð eða misskýr jafnframt því að lita allt sem við gerum. Margir kannast við það að hegða sér í samræmi við þá tilfinningu sem þeir hafa fyrir sjálfum sér. Líði þeim vel finnst þeim þeir færir í flestan sjó, en lakari líðan stuðlar að minni athafnagleði og bjartsýni. Að frátöldum öllum breytileika frá degi til dags er ekki erfitt að sjá hvernig viðvarandi tilfinning í eigin garð endurspeglast í öllum athöfnum okkar og framkomu, í persónuleika okkar. Sumir sálfræðingar orða þetta þannig að sjálfsmynd okkar ákvarði hegðun okkar, að við séum það sem við upplifum.

Mynd af manninum

Á sjöunda áratugnum kom fram hópur sálfræðinga sem kenndi sig við „þriðja aflið“ innan sálfræðinnar. Þeir beindu sjónum sínum að öðrum þáttum mannlegra eiginleika en höfðu verið í brennidepli fram til þess tíma. Þeir voru ósáttir við þá hugmynd Freuds að persónuleiki manna væri fullmótaður strax í barnæsku, og ekki síður þá staðhæfingu að mótandi öfl persónuleikans væru dulvituð. Þá höfnuðu þeir jafnframt þeim skilningi sem atferlissinnar lögðu í einstaklinginn, töldu hann of brotakenndan og einfaldlega ekki rétt að maðurinn væri ofurseldur umhverfi sínu. Þeir vildu hvorki beina athyglinni að dulvituðum innri öflum, né því hvernig umhverfið mótaði hegðun, heldur að upplifun og meðvitaðri reynslu hvers og eins. Þeir töldu að maðurinn væri í eðli sínu góður og jákvæður og stefndi stöðugt að auknum þroska. Alla neikvæða hegðun mannsins töldu þeir mega rekja til ótta og þess að hann hefði ekki nægjanlegt frelsi og svigrúm til þess að fullgera jákvætt eðli sitt. Þeir vísuðu á bug ásökunum um einfeldningslega sýn á manninn og studdu jafnvel mál sitt með því að vísa til rándýra og hvernig eðli þeirra þroskaðist. Ljónsungi breyttist frá því að vera hjálparvana, eigingjarn og öðrum háður í það að verða sjálfstæður, verndandi og ábyrgur í félagsskap annarra ljóna. Hjá manninum töldu þeir hins vegar kjarna persónuleikans vera þá skynjun og upplifun sem hver og einn hefði á sjálfum sér, reynslu sinni og eiginleikum. Þessa skynjun töldu þeir mest ákvarðandi fyrir það hvernig við hegðum okkur. Þannig er nánast um samsvörun að ræða milli þessarar sjálfsskynjunar og þess sem við nefnum persónuleika. Einn þessara sálfræðinga, Carl Rogers, er höfundur kenningar um persónuleikann sem ber flest einkenni þessara hugmynda.

Sjálfið

Rogers gerir ráð fyrir því að reynslu okkar megi lýsa með tvennum hætti. Annars vegar er öll reynsla okkar, meðvituð og ómeðvituð, öll skynjun, allar óskir og tilfinningar. Hins vegar er það sá hluti reynslunnar sem snertir okkur sjálf og við auðkennum sem hluta okkar, svo sem „ég er, mér finnst, þetta er mitt, mér líður“. Þetta eru þær skynjanir, óskir og tilfinningar sem lúta að okkur sjálfum. Þessi reynsla skapar smám saman sjálfsmynd okkar, eða það sem Rogers kallar sjálf. Sjálfið er að mestu meðvitað, einkum hjá heilbrigðu fólki. Með þessu hugtaki, sjálfinu, er reynt að lýsa því hvernig reynsla hvers og eins tekur á sig ákveðið form eða mynstur, fer að hafa ákveðin einkenni, og þrátt fyrir einhvern breytileika frá degi til dags þá sé um samfellu að ræða. Flestir geta lýst sér á þann hátt að það er nokkuð víst að mánuði síðar yrði lýsingin mjög svipuð. Sjálfið er að mati Rogers mikilvægasta eining persónuleikans. Hegðun ræðst af því hvernig sjálfið starfar, til dæmis hvort flestöll reynsla tekur þátt í því að móta sjálfið eða hvort aðeins sum reynsla er tekin gild. Samhliða sjálfi okkar þróast það sem Rogers kallar draumasjálf eða óskasjálf. Draumasjálfið er heiti á óskum okkar um það hvernig við vildum gjarnan vera, að hverju við stefnum og hvað það er sem við metum mikils. Í heilbrigðum einstaklingi er ekki mjög mikill munur á sjálfi og draumasjálfi.

Mótunaröfl sjálfsins

Sjálfið er ekki föst stærð sem verður til í eitt skipti fyrir öll. Það mótast og viðhelst fyrir tilstilli nokkurra þátta, sjálfsbirtingar, ástar foreldra og þarfarinnar fyrir sjálfssamræmi. Skoðum nú þessa þætti. Sjálfsbirting Freud sá manninn drifinn áfram af þörfinni fyrir að svala hvötum sínum. Niðurstaða Rogers var að í mannlegu eðli væri að finna tilhneigingu til að þroska sálræna eiginleika sína, að fullgera sjálfan sig. Þannig væri það manninum eðlislægt að stefna fram á við, að þróast frá hinu einfalda til hins margbreytilega, að fara frá því að njóta umönnunar til þess að vera sjálfstæður og annast aðra, frá því að vera bundinn í klafa einstefnu og þröngsýni til víðsýnis og frelsis. Aflvaki mannsins er allt það sem styrkir jákvætt eðli hans. Þetta eðli og þennan kraft kallaði Rogers sjálfsbirtingu. Skilyrðislaus ást Sjálf eða sjálfsmynd manna er afar misjöfn, hún getur til dæmis verið góð, léleg, takmörkuð, sveigjanleg, njörvuð, breytileg eða sterk. Hvað mótar sjálfsmyndina? Rogers telur að afstaða foreldra skipti sköpum. Barnið hefur að hans mati þörf fyrir skilyrðislaust jákvætt viðhorf, fyrir hlýju, virðingu, samúð, viðurkenningu og ást. Þar sem barnið er hjálparvana getur það ekki þrifist án ástar foreldra sinna, því þarf að finnast það elskað. Barn sem nýtur þessara uppvaxtarskilyrða, fær skilyrðislaust jákvætt viðhorf, ætti að þróa með sér afar jákvæða og heilsteypta sjálfsmynd sem rúmar alls konar hugsanir, tilfinningar og líðan. Hjá því ætti ekki að skapast neitt ósamræmi milli reynslu sem það gerir að sinni, sjálfi sínu, og allrar annarrar reynslu. Ef hins vegar þetta jákvæða viðhorf er skilyrt með einhverjum hætti býður það upp á aðra þróun sjálfsmyndarinnar. Þannig gæti það átt sér stað að barnið væri fyrst og fremst elskað þegar það væri þægt og indælt, en ekki þegar það væri ódælt og grimmt. Í ljósi þess að barnið getur ekki án foreldranna verið þá segir Rogers að það byrji að greina reynslu sína í sundur, hvort það er þægt eða óþægt. Sú afstaða sem það þarf mest á að halda eða endurspeglar afstöðu foreldranna hvað best, verður að kjarna sjálfsmyndar þess, en það ýtir til hliðar eða afneitar annarri reynslu sem fellur ekki að afstöðu foreldranna. Þegar þessi staða er komin upp fer að myndast gjá, ósamræmi, milli þess hluta reynslunnar sem þróast í eigin sjálfsmynd og svo annarrar reynslu sem að öðrum kosti yrði einnig hluti af sjálfsmyndinni. Þeirri reynslu er þá ýmist afneitað eða hún skekkt með einhverjum hætti. Við getum sagt að sjálfsmyndinni sé undir þessum kringumstæðum skorinn nokkuð þröngur stakkur sem rúmar alls ekki alla þá fjölbreytilegu reynslu sem í boði er og er forsenda heilbrigði og góðrar líðanar. Hér er því haldið fram að sjálf barna sé í raun endurspeglun á því viðmóti sem þau fá frá umhverfi sínu. Áherslan er á það að þau þurfi ekki að afneita einhverjum hluta reynslu sinnar. Þar með er ekki verið að mæla með því að börnum sé frjálst að gera hvað sem er. Það er hins vegar verið að leggja áherslu á muninn á því að segja við barn: „Mér líkar ekki við þig“ og svo því að segja: „Mér líkar ekki það sem þú ert að gera“. Í fyrra tilvikinu er barninu hafnað en í því síðara er greint á milli afstöðu til barnsins, sem er jákvæð, og svo þess hvað það gerir, sem kann að vera neikvætt. Það getur því leyft sér að finna til óþekktar en um leið lært að taka tillit til annarra. Flestar rannsóknir á uppeldisháttum ber að sama brunni. Það sem stuðlar að góðu sjálfsáliti og tilfinningalegu öryggi hjá börnum er í fyrsta lagi ást, hlýja og viðurkenning, í öðru lagi agi sem einkennist af ákveðnum og vönduðum kröfum, og í þriðja lagi að lýðræðisreglur séu hafðar í heiðri innan fjölskyldunnar. Allt eru þetta þættir sem ættu að stuðla að samræmi milli þeirrar reynslu sem verður grunnur að sjálfsmynd og allrar annarrar reynslu barnsins. Sjálfssamræmi Að mati Rogers er það öllu fólki nauðsynlegt að hafa tilfinningu fyrir sjálfu sér sem einni heild, að hafa heilsteypt sjálf sem er laust við togstreitu. Það getur hins vegar gerst að fólk upplifi tilfinningar sem ekki falla að þeirri mynd sem það hefur af sjálfu sér. Að upplifa þetta ósamræmi milli sjálfs og reynslu er afar óþægilegt. Reyndar er það svo að þetta ósamræmi skapar gjarnan kvíða, spennu og óþægindi sem ekki er hægt að lifa með til lengdar. Slíkt væri óbærilegt og stuðlaði að því að sjálfið liðaðist smám saman í sundur. Við slíkar kringumstæður er ríkari tilhneiging til að viðhalda óbreyttri sjálfsmynd en að gefa reynslunni eitthvert vægi. Þannig kann einhver sem sér sig sem afar ljúfan að verða reiður án þess að gera sér grein fyrir því, eða öðrum að ganga vel í vinnu og vera vel metinn, án þess að það sé honum ljóst. Reynsla sem er á skjön við sjálfsmyndina nær ekki að verða meðvituð að fullu. Mikilvægi þess að halda samræmi milli sjálfs og reynslu kemur í veg fyrir slíka meðvitund. Hvað gerist í þessari stöðu? Auðveldast er að losna undan ósamræminu og kvíðanum sem það skapar með því að afneita reynslunni eða afbaka hana þannig að hún samrýmist sjálfsmyndinni. Í fyrra tilvikinu nær reynslan ekki að verða meðvituð, henni er afneitað vegna þess að sjálfinu stendur of mikil ógn af henni. Reynslunni er fórnað svo sjálfið geti staðið sem heildstæð eining. Þannig gæti einhverjum sem sæi sig sem kristilega þenkjandi og góðgjarnan staðið ógn af því að finna til haturs. Ef slík kennd næði meðvitund ylli hún kvíða og spennu og er þess vegna afneitað. Öllu algengara er að reynsla sé afbökuð með einhverjum hætti. Ef til dæmis nemandi hefur þá mynd af sjálfum sér að hann sé lélegur nemandi, en fær síðan mjög háa einkunn á prófi, er mun líklegra að þessi reynsla verði útskýrð eða afgreidd sem heppni eða jafnvel mistök í fyrirgjöf, frekar en hún falli eðlilega að sjálfsmynd nemandans og hann lagi hana að þessari reynslu. Ef þessi reynsla yrði hluti sjálfsmyndar gæti nemandinn farið að líta á sig sem þokkalegan nemanda. Í heilbrigðu fólki er lítið ósamræmi milli þeirrar reynslu sem það eignar sér og allrar annarrar reynslu. Það er frjálst að því að finna fyrir öllum tilfinningum og getur óttalaust látið sér detta hvað sem er í hug. Öll ný reynsla verður hluti af sjálfsmynd þess og lífssýn. Það er alúðlegt og frjálst að því að skipta um skoðun og laga sig að nýjum og breyttum aðstæðum. Því líður vel. Margt fólk er hins vegar ekki svo gæfusamt. Hjá því setur sjálfið ákveðnar skorður á það hvaða reynsla fær að verða hluti af sjálfsmyndinni og hvaða reynslu þarf að afneita eða afbaka. Afleiðingarnar af þessu ósamræmi sjálfs og reynslu geta verið margs konar. Aðlögunarhæfni minnkar vegna þess að sýnin á raunveruleikann skekkist. Meiri líkur eru á skekktu sjálfsáliti, fólk er meira á varðbergi, ótti, kvíði og óhamingja sækja frekar að.

Að breyta mynd

Þær hugmyndir sem raktar hafa verið hér að framan þróuðust smátt og smátt í vinnu Rogers við að aðstoða fólk í vanda. Rogers var afar bjartsýnn á möguleika mannsins til breytinga. Hann taldi viðleitnina til sjálfsbirtingar vera góðan grundvöll til þess að byggja á. Það sem hins vegar skorti í lífi flestra sem áttu við einhvern vanda að stríða væru rétt skilyrði svo þeir næðu að blómstra. Rogers taldi að þessi skilyrði mætti skapa í samskiptum sálfræðings og þess sem leitaði aðstoðar hans. Að skilyrðunum uppfylltum gæti breyting til betri líðanar átt sér stað. Hver eru þessi skilyrði? Í fyrsta lagi þarf sálfræðingurinn að hafa skilyrðislaust jákvætt viðhorf til þess sem leitar til hans. Hann þarf að samþykkja hann eins og hann er þrátt fyrir óæskilega hegðun sem hann kann að sýna af sér. Það má segja að með þessu reyni sálfræðingurinn að skapa þær aðstæður að allar tilfinningar og hugsanir verði leyfilegar. Með því minnkar nauðsyn þess að afneita hluta reynslu sinnar og leit að eigin forsendum fyrir eigin lífi getur hafist. Annað skilyrði er að sálfræðingurinn sé sjálfum sér samkvæmur, finni til sjálfs sín og geti deilt hugsunum sínum og tilfinningum með skjólstæðingi sínum. Sambandið á að bera merki þess að tvær manneskjur eigi í hlut, ekki tvö ólík hlutverk. Með þessu móti er sálfræðingurinn fyrirmynd sem hvetur þann sem glímir við tilfinningalega togstreitu til að finna til heilinda í eigin lífi. Þriðja skilyrðið er að sálfræðingurinn geti hlustað og sett sig í spor þess sem á í vanda, fundið og skilið sem væri hann sjálfur skjólstæðingurinn. Stundum er þetta nefnt virk hlustun. Með þessum hætti kunna ýmsar tilfinningar sem áður voru óljósar að verða gleggri og fá þar með meira vægi. Mælikvarði á góðan árangur meðferðar er þegar skjólstæðingur er frjáls að því að finna til allra tilfinninga sinna og gefa þeim meira vægi en til dæmis áliti annarra. Þá ætti að bera minna á varnarháttum, sjálfsmyndin að vera jákvæðari og draumasjálfið ekki eins langt undan og það var áður. Hver og einn ætti að vera frjáls að því að vera það sem hann upplifir.

Þú gerir það sem þú ert

Hörður Þorgilsson

Þegar við lýsum sjálfum okkur vísum við oft til ýmissa eiginleika sem við teljum okkur búa yfir. Við tölum t.d. um að við séum ákveðin, áhrifagjörn, frek, löt eða metnaðarfull. Þá höfum við líka tilhneigingu til þess að tala um þessa eiginleika eins og þeir séu viðvarandi og stöðugir. „Jónatan er alveg frábær, hann er mjög áreiðanlegur, ég get alltaf treyst á hann. Kristín er mjög hljóðlát og inn í sig, hún heilsar aldrei neinum og er mjög óörugg með sig.“ Þessar hversdagslegu lýsingar okkar duga oft vel. Með þeim gefum við öðrum greinargóðar upplýsingar og á grundvelli þeirra getum við skipst á skoðunum við aðra um okkur sjálf og annað fólk. Af sama toga eru margir spurningalistar sem almenningi er boðið að svara í blöðum og tímaritum, t.d. „Hvers konar vinur ertu?“ Eftir því hvernig spurningalistanum er svarað er fólki raðað niður í ákveðna flokka, t.d. traustur, mislyndur, verndandi eða fjarlægur. Allt er þetta hluti af viðleitni til þess að skipa fólki í flokka í samræmi við ætlaðar eigindir þess eða persónugerð. Hún byggist á því sem allir sjá, á hversu ólíkan hátt við bregðumst við sömu aðstæðum og hversu viðbrögð okkar haldast þó aðstæður séu breytilegar. Fólk hefur t.d. ólíkt viðmót, einn getur verið fjarlægur og fáskiptinn en annar vingjarnlegur. Það virðist ekki skipta ýkja miklu máli hvort þessir einstaklingar eru meðal ókunnugs fólks, með vinnufélögum eða sinni eigin fjölskyldu, viðmótið helst að mestu óbreytt.

Hvað er þáttur?

Eiginleikar eru oft nefndir þættir. Nokkrar kenningar innan sálfræðinnar gera ráð fyrir því að hegðun manna og persónuleiki ákvarðist af þáttum. Formleg skilgreining á þætti er eftirfarandi: Almenn tilhneiging til að bregðast við á svipaðan hátt við margs konar kringumstæður, það sem einkennir hegðun einstaklings í þessum aðstæðum, t.d. að vera félagslyndur eða ákveðinn. Fólki má lýsa sem hafi það mismunandi tilhneigingar til þess að hegða sér á ákveðinn hátt, t.d. að vera félagslynt eða ákveðið. Við tölum um að þeir sem hafa sterka tilhneigingu til að vera félagslyndir hafi mikið af þeim þætti í sér, en þeir sem eru ófélagslyndir hafi lítið af þeim þætti í sér. Flestar kenningar sem útskýra persónuleika manna með því að vísa í eðlislægar tilhneigingar gera ráð fyrir því að þær séu stigskiptar. Neðst eru sérstök viðbrögð við ákveðnum áreitum. Nokkrur slík viðbrögð saman mynda ákveðna vanabundna svörun. Vanabundnar svaranir sem svipar hverri til annarrar og fara gjarnan saman kalla menn oftast þátt. Fólk sem kýs frekar að hitta aðra en að lesa bók skemmtir sér líka betur í veislu en bókaormar. Þarna er um tvenns konar vanabundna svörun að ræða sem hægt væri að sameina í einn þátt og kalla félagslyndi. Þeir sem framkvæma án þess að hugsa eru líka gjarnir á að svara óvarlega fyrir sig. Þessar svaranir gætu verið hluti af þætti sem við gætum kallað hvatvísi. Margir fræðimenn láta staðar numið við þætti, en aðrir fara skrefinu lengra og tengja saman skylda þætti þannig að flestallri hegðun megi lýsa út frá tiltölulega fáum yfirþáttum. Þessir yfirþættir eru þá n.k. víddir sem margir þættir raðast á, hver á sinn stað. Félagslyndi og hvatvísi gætu því fallið undir yfirþátt sem nefndist úthverfa. Á svipaðan hátt og talað er um að fólk hafi mismikið af ákveðnum þáttum í sér, þá hafa yfirþættir í sér andstæða póla. Þannig gætu aðrir ólíkir þættir eins og íhygli og feimni sömuleiðis fallið undir úthverfu en lentu hins vegar á öðrum enda yfirþáttarins en félagslyndi og hvatvísi. ºthverfa væri því vídd þar sem á annan pólinn röðuðust þættir sem einkenndu innhverfan einstakling, en á hinn pólinn þættir sem einkenndu úthverfan einstakling. Það sem sameinar alla þættina er hins vegar það að allir lúta þeir að því hvernig fólk beinir athygli sinni og krafti ýmist inn á við eða út á við. Með því að líta á þætti sem grunneiningar persónuleikans er hægt að útskýra mun á milli einstaklinga og ótrúlega fjölbreytni hegðunar. Þetta var öllu erfiðara verkefni þegar menn reyndu að raða öllu fólki í ákveðinn fjölda persónuleikagerða.

Hvernig eru þættir fundnir?

Maðurinn býr yfir ótrúlegum fjölda eiginleika og tilhneiginga. Það væri að æra óstöðugan að telja þá alla upp. Sá kostur sem flestir fræðimenn hafa valið er að reyna að átta sig á því hvernig megi flokka þessa eiginleika í þætti og sjá tengsl á milli þeirra. En hvernig er þetta gert? Ef við skoðum hegðun barna í skólastofu ber margt fyrir augu. Börnin spyrja spurninga, bjóða sig fram í verkefni, hvísla að sessunaut sínum, halda áfram að læra, halda borðinu sínu snyrtilegu o.s.frv. Með því að fylgjast með hegðun barnanna og athuga hvaða hegðun fer saman kann að koma í ljós að þau börn sem spyrja flestra spurninga hvísla jafnframt mest að sessunaut sínum og taka mestan þátt í hópstarfi. Hjá þeim börnum sem héldu mest áfram að læra var einnig áberandi hvað borðið var snyrtilegt og hvað þau voru viljug að leysa ýmis verkefni. Á máli fræðimanna er talað um að það sé sterk fylgni milli einstakra hegðunarblæbrigða, þau virðast fara saman. Ef svo er gæti það bent til þess að þau endurspegli einhverja tilhneigingu sem liggur þeim öllum til grundvallar. Að spyrja spurninga, pískra og vilja vera í hóp virðist endurspegla félagslyndi. Þess vegna gætum við talað um að þau börn sem gera mikið af þessu séu há á þættinum félagslyndi. Án efa mætti sjá félagslyndið í enn fleiri blæbrigðum hegðunar. Fólk getur aftur á móti haft mismikið eða lítið af hverjum þætti. Þannig getum við litið á börn sem t.d. leika sér ein í frímínútum, roðna þegar spurningum er beint til þeirra og sem stunda frekar einstaklingsíþróttir en hópíþróttir sem þessi hegðun þeirra endurspegli mjög lága stöðu á félagslyndi. Félagslyndi er því þáttur sem spannar allt frá mikilli félagslegri virkni til félagslegrar einangrunar. Sú hegðun að halda áfram að læra, halda borðinu sínu snyrtilegu og vilja sinna verkefnum fer saman og virðist endurspegla samviskusemi. Lág staða á samviskusemi kæmi fram í hegðun eins og því að hella niður, týna blýöntum og gleyma að skila bókum á bókasafnið. Með því að skoða hvaða hegðun fer saman, með því að skoða fylgni milli hegðunarafbrigða, er hægt að draga ályktanir um þætti sem liggja þeim til grundvallar. Ef fylgnin er há og jákvæð eru afbrigðin á sama enda þáttarins, t.d. því meira sem börnin gera af því að spyrja spurninga því meira hvísla þau að sessunaut sínum. Ef fylgnin er há en neikvæð gæti það þýtt að afbrigðin endurspegluðu sama þáttinn en að þau væru hins vegar á sitt hvorum enda hans, t.d. að spyrja spurninga og leika sér einn í frímínútunum, því meira sem börnin spyrðu því minna gerðu þau af því að leika sér ein. Ef engin sérstök fylgni er á milli einstakra afbrigða hegðunar, t.d. milli þess að stunda hópíþróttir og þess að gleyma að skila bókum á bókasafnið er ályktað að um tvo óskylda og ólíka þætti sé að ræða, félagslyndi og samviskusemi. Þannig getur einhver sem er hár á félagslyndi verið hvar sem er á samviskusemi og ákveðin staða á samviskusemi segir ekkert til um stöðu á félagslyndi, hún getur verið hvar sem er.

Fjöldi og skipulag

Með því að skoða hvernig margs konar hegðun fylgist að og greinir sig frá annarri má álykta um þá þætti sem hún endurspeglar. Það hefur hins vegar reynst nokkuð erfitt að komast að samhljóða niðurstöðu um hverjir grunnþættir persónuleikans eru og hvernig skipan þeirra er. Frumkvöðull að þeirri sýn á persónuleikann að hann sé samsettur af þáttum var Gordon Allport. Hann hélt því fram að þættir ættu rætur sínar í taugakerfinu, væru í eðli sínu almennar hegðunartilhneigingar sem útskýrðu þá reglu sem sjá má í hegðun okkar, óháð aðstæðum og óháð tíma. Hann hélt því fram að þætti mætti skilgreina út frá styrk þeirra, þ.e. hversu áberandi þeir væru í hegðun; tíðni, þ.e. hversu oft þeir væru að verki; og breidd þeirra, þ.e. í hversu mörgum aðstæðum þeir stýrðu hegðun. Þannig geti t.d. mjög undirgefinn einstaklingur verið undirgefinn oft og við mjög margar aðstæður. Þá greindi Allport á milli þrenns konar þátta. Í fyrsta lagi talaði hann um meginþætti, sem eru svo ríkar hneigðir að allar athafnir einstaklings endurspegla þær. Þessa gerð þátta telur Allport vera mest áberandi hjá einstaklingum sem helga sig einhverju ákveðnu viðfangsefni og öll breytni þeirra ber því vitni. Sem dæmi mætti nefna baráttu Martins Luthers King fyrir réttlæti eða óþreytandi líknarstarf Móður Theresu. Í öðru lagi er um að ræða miðlæga þætti eins og heiðarleika og ákveðni, sem vísa til nokkuð almennra tilhneiginga sem þó eru ekki endilega áberandi undir öllum kringumstæðum. Í þriðja lagi talar Allport um annars stigs þætti, sem eru síður afgerandi tilhneigingar og nokkuð háðar aðstæðum. Þessar hugmyndir Allports urðu undanfari fjölda kenninga sem allar byggjast á sömu hugmynd. Þær hafa hins vegar komist að ólíkum niðurstöðum um fjölda og skipulag þeirra þátta sem bæði lýsa og skýra persónuleika manna. Skoðum þrjár kenningar. Einhver þekktasta kenningin í þessum hópi þáttakenninga er kenning Hans Eysenck. Niðurstaða hans var sú að öllum þáttum persónuleikans mætti skipa á þrjá sjálfstæða yfirþætti eða víddir. Persónuleika manna mætti því lýsa og skýra út frá stöðu hvers og eins á þessum þremur víddum. Staða á vídd ákvarðaði og segði til um hegðunartilhneigingar. Eysenck taldi að rætur þessara tilhneiginga væri að finna í líffræðilegri gerð okkar og því nánast til frá fæðingu. Víddirnar eru úthverfa, tilfinninganæmi og harðlyndi. Þar sem um víddir er að ræða getur hver og einn raðast hvar sem er á hverja þessara þriggja vídda, frá innhverfu til úthverfu, frá tilfinningalegum stöðugleika til þess að vera tilfinningalega óstöðugur, og frá góðlyndi til harðlyndis. Fyrstu tvær víddirnar hafa hlotið mesta umfjöllun. Þar sem þær eru óháðar hvor annarri geta þær myndað persónugerðir sem eru sambland af þeim báðum. Lýsingu á ferns konar blöndu má sjá hér að neðan. Í hópi 1 eru þeir sem eru bæði háir á tilfinninganæmi og úthverfu. Í hópi 2 eru þeir sem eru lágir á tilfinninganæmi en háir á úthverfu. Í hópi 3 eru þeir sem eru lágir á tilfinninganæmi og lágir á úthverfu. Í hópi 4 eru svo loks þeir sem eru háir á tilfinninganæmi og lágir á úthverfu. Hversu rík tilhneigingin er ræðst síðan af því hversu utarlega á hverri vídd hver og einn er. Flestir dreifast í kringum miðja vídd en fækkar eftir því sem utar dregur. Merki þess hverrar gerðar fólk er, hverjar hegðunartilhneigingar þess eru, ættu að sjást á sem flestum sviðum tilverunnar, t.d. því hvernig starf fólk velur sér, við bókavörslu eða fallhlífarstökk, eða jafnvel hvernig kynlífi þess er háttað. Á töflu má sjá samanburð á frásögn bandarískra stúdenta, annars vegar innhverfra og hins vegar úthverfra, á kynhegðun sinni.

 

Karlmenn

Kvenmenn

 

Innhv.

Úthv.

Innhv.

Úthv.

Stunda sjálfsfróun

86

72

47

39

Stunda gælur

57

78

62

76

Hafa haft samfarir

47

77

42

71

Tíðni samfara á mánuði hjá þeim sem stunda kynlíf

3

6

3

8

Fjöldi bólfélaga síðasta árið

 

 

 

 

1

75

46

72

60

2-3

18

30

25

23

4 eða fleiri

7

25

4

17

Rannsóknir sem beinast að því að greina grunnþætti persónuleikans hafa skilað ólíkum niðurstöðum. Það virðist að hluta ráðast af því að menn beita ólíkum aðferðum við rannsóknir sínar. Eysenck telur þættina vera þrjá, en annar þekktur sálfræðingur, Cattell, telur þá vera a.m.k. 16. Um þá gildir að þeir eru óháðir hver öðrum og því mögulegt að raðast á hvern og einn með ólíkum hætti. Cattell hefur búið til persónuleikapróf sem gerir það kleift að draga upp mynd af persónuleikanum út frá stöðu á hverjum þáttanna 16, frá einum og upp í tíu. Þeir fara hér á eftir.

1.Hlédrægur

Frakkur

2.Tregur

Greindur

3.Jafnlyndur

Tilfinningasamur

4.Hógvær

Ákveðinn

5.Alvarlegur

Glaðlyndur

6.Kærulaus

Samviskusamur

7.Feiminn

Áræðinn

8.Kaldlyndur

Viðkvæmur

9.Fullur trúnaðartrausts

Tortrygginn

10.Raunsær

Frjór

11.Blátt áfram

Útsmoginn

12.Útsmoginn

Kvíðinn

13.Íhaldssamur

Nýjungagjarn

14.Hópsinna

Sjálfum sér nógur

15.Óagaður

Agaður

16.Rólegur

Spenntur

Í seinni tíð hafa fjölmargar rannsóknir gerðar af ólíkum hópum fræðimanna komist að þeirri niðurstöðu að persónuleika manna sé hægt að lýsa með 5 þáttum, og er gjarnan talað um hina 5 stóru. Þá telja þeir að þessir 5 þættir endurspegli þær spurningar sem við veltum fyrir okkur þegar við metum aðra. Það sé eins og við gerum okkur grein fyrir því að hvaða leyti fólk geti verið ólíkt og gildi þess að staðsetja það, til þess að fá af því skýra mynd. Fyrsta spurningin snýst um það hvort annar einstaklingur muni hafa afgerandi áhrif á okkur, hvort hann reyni að stjórna okkur. Þessi þáttur kallast úthverfa. Önnur spurningin er um tilfinningalegan stöðugleika eða hvort annar einstaklingur sé taugaveiklaður. Þessi þáttur er nefndur tilfinningasemi. Þriðja spurningin snýr að því hvort við kunnum vel við einhvern og er þátturinn sem endurspeglar þessa spurningu nefndur góðlyndi. Í fjórða lagi veltum við því fyrir okkur hvort við getum treyst öðru fólki. Þessi þáttur nefnist samviskusemi. Síðasta spurningin lýtur að því að meta hversu klár eða næmur einhver er. Þátturinn er ýmist nefndur víðsýni eða mennt.

Þú gerir það sem þú ert

Ofangreindar kenningar eru oft kallaðar þáttakenningar. Í þeim felst sú hugmynd að persónuleiki manna sé mótaður frá upphafi og að hann sé nokkuð stöðugur. Margir foreldrar finna þessu stað í því hvað tvö systkini geta verið ólík, þó allar aðstæður þeirra séu hinar sömu. Það er sem þau fái ákveðna eiginleika í vöggugjöf. Það er gamalt þrætumál innan sálfræðinnar að hve miklu leyti eigi að leita skýringa á hegðun í erfðum eða umhverfi. Þessi þræta tekur á sig ýmsar myndir. Sumir hafa lagt sig eftir því að meta hlut erfða í ákveðnum þáttum persónuleikans, svo sem sköpunargáfu, bjartsýni, varkárni og árásargirni. Aðrir hafa lagt sig eftir að sýna fram á hvað hegðun er háð aðstæðum og þar með hvað vitneskja um ákveðinn þátt gagnast illa til þess að segja fyrir um hegðun fólks. Menn spyrja: Hvernig útskýrum við best reglufestu í hegðun? Framlag þáttakenninga er skýrt. Regla ræðst af eðlislægum tilhneigingum, þáttum, sem beina hegðun ávallt í sama farveg og skapa þannig þá samfellu og heild sem við köllum persónuleika.

Hugmyndir fólks um sjálft sig

Jakob Smári

„Þekktu sjálfan þig“ var sagt að fornu en slík hvatningarorð eiga líklega betri hljómgrunn nú á dögum en nokkru sinni fyrr. Mörgum virðist afar hugleikið að komast til botns í því hvern mann þeir hafi að geyma. Í því skyni leitar fólk til sálfræðinga, en einnig til hégiljufræða á borð við stjörnuspeki í von um einföld svör. Oft virðist búa að baki sú hugmynd að fólki áskotnist með dularfullum hætti persónuleiki sem stjórni gerðum þess. Með því að uppgötva persónuleika sinn öðlist menn vitneskju um örlög sín. Mennirnir eru vitanlega hver öðrum ólíkir og hægt er að skilgreina og mæla þann mun sem er á milli þeirra. Þeir halda líka, að því er virðist, ýmsum sérkennum í hegðun frá æsku til elli. Þessi sérkenni mætti þannig nefna persónueinkenni og mynstur þeirra persónuleika. En mikilvægt er að slá hér varnagla. Þar er fyrst til að taka að breytni fólks er að jafnaði mun aðstæðubundnari en mörgum er tamt að álíta. Þá ber að varast að líta á persónuleikann sem einhvers konar vél sem knýi fólk til athafna. Við megum ekki láta persónuleikahugtakið girða fyrir skilning okkar á þeim sköpunarmætti sem með fólki býr til að finna lífi sínu margs konar farveg. Persónuleikinn er ekki eitthvað óumbreytanlegt sem hægt er að uppgötva í eitt skipti fyrir öll, heldur að hluta til skapaður og endurskapaður af okkur sjálfum.

Persónueiginleikar og samkvæmni í hegðun

Hugtök sem vísa til persónueiginleika má líta á sem hjálpartæki til að sjá reglufestu í hátterni manna. Þau skýra hins vegar ekki af hverju reglufestan stafar. Þegar talað er um persónueiginleika er að jafnaði átt við að nokkurrar samkvæmni sé að vænta í breytni manna. Til þess að geta sagt að maður sé metnaðargjarn ætti þannig að vera hægt að sjá fleiri eða skýrari merki um metnaðargirni í hegðun hans en hjá manni sem sagður er metnaðarlaus. Það er með öðrum orðum eitt skilyrði þess að líta megi t.d. á metnaðargirni sem persónueiginleika að hægt sé að raða fólki eftir því hversu mjög það sýnir merki um metnað. Síðan er auðvitað annar vandi að koma sér saman um hver þessi merki séu. Í daglegu lífi gerum við að því er virðist yfirleitt ráð fyrir því að samkvæmni í hegðun sé allmikil, a.m.k. hvað annað fólk áhrærir. Við teljum okkur geta dregið ályktanir um persónueiginleika Jóns og Gunnu eftir að hafa hitt þau einu sinni. Á hinn bóginn þætti flestum það gefa alranga mynd af sjálfum sér ef einhver myndaði sér skoðun um þá sjálfa á grundvelli svo takmarkaðra upplýsinga. Þetta misræmi á milli þess hve miklar upplýsingar fólk telur að hegðun veiti um persónueiginleika þess sjálfs og annarra nefnist athugenda?gerenda misræmið. Svo virðist sem við velflest teljum að okkar eigin hegðun sé mun margbreytilegri og aðstæðubundnari en hegðun annarra. Það sem skýrir þetta fyrst og fremst er að yfirsýn okkar yfir fjölbreytileika eigin hegðunar er mun betri en yfir hegðun annarra. Annað fólk hittum við yfirleitt við tilteknar aðstæður þar sem það hegðar sér oft á svipaðan hátt, til dæmis í saumaklúbbnum, í vinnunni eða heima. Persónuleikasálfræðingar hafa rekist á að samkvæmni í hegðun er mun minni en margan grunar. Það veitir okkur t.d. tiltölulega litlar upplýsingar um greiðasemi Jóns í vinahópi þótt við vitum að hann telji minnsta greiða eftir sér á vinnustað. Fjölda rannsókna á fjölda persónueiginleika ber hér að sama brunni. Fylgni á milli mismunandi hegðunar sem talin er spegla sama persónueiginleika er oftast fremur lítil. Þetta þýðir samt ekki að hugtök um persónueiginleika séu gagnslaus, heldur hitt að máttur þeirra til að segja fyrir um hegðun sé minni en vonir hafa staðið til. Þessi vandkvæði hafa meðal annars leitt til svonefndra samspilshugmynda. Samkvæmt þeim er ráðlegt að leita samkvæmni hegðunar í samspilinu á milli einstaklings og aðstæðna. Ekki er við því að búast að maður sem er mjög kvíðinn í prófum sé endilega kvíðnari en fólk er flest þegar hann fer til tannlæknis. Á hinn bóginn mætti búast við að hann væri óvenju kvíðinn við aðstæður sem honum finnst líkjast prófum. Í ljósi þessara hugmynda má finna stöðugleika mannlegrar hegðunar með því að taka mið af því hvernig fólk sér líkingu á milli aðstæðna. Þegar slíkt samspil er tekið með í reikninginn sjáum við talsvert meira samræmi í hegðun við mismunandi aðstæður. Með nokkrum rétti má því líta á persónuleikann sem tilhneigingu til að bregðast á tiltekinn hátt við mati sínu á aðstæðum. Til dæmis má taka að Jón er kvíðinn ef hann heldur að hann eigi að gangast undir mat annarra fremur en almennt kvíðinn. Með þessu er ekki sagt að alhæfingar á borð við hræðslugjarn eða metnaðargjarn gegni ekki stundum hlutverki í flokkun og skilningi á mannlegri hegðun. Oftast er samt gagnlegt að taka mið af samspilinu milli einstaklings og umhverfis eins og það er túlkað af honum, ef við ætlum að sjá og skilja stöðugleika mannlegrar hegðunar í tíma og rúmi.

Sjálfshugmyndir og persónuleiki

Það sem ræður því hvort fólk hegðar sér ámóta við mismunandi aðstæður ræðst eins og áður gat að miklu leyti af því hvort það sér aðstæðurnar sem líkar eða ólíkar. Mat á líkingu milli aðstæðna er hins vegar einstaklingsbundið. Einnig virðist gagnlegt að leita skilnings á hegðun fólks í hugmyndum þess um sjálft sig. Á síðustu árum hefur aukist mjög áhugi á því hvernig sjálfshugmyndir skýra samræmi í hegðun, hugsun og tilfinningum manna. Sjálfsmynd, sjálfshugmynd, sjálfsímynd eru hugtök sem eiga sér langa sögu. Þessi hugtök hafa hins vegar oft verið notuð í fremur óljósri merkingu. Menn hafa rætt um neikvæða sjálfsmynd eða brotna sjálfsmynd hjá fólki, án þess að eiga við mikið annað en að það sé óöruggt í framgöngu. Síðustu 10-15 ár hafa hins vegar eflst rannsóknir sem byggjast á skýrari skilgreiningu á því sem við er átt með sjálfshugmyndum. Sjálfshugmyndir eru meðvitaðar og ómeðvitaðar hugmyndir sem fólk notar um sjálft sig. Þessar hugmyndir geta verið margar eða fáar, flóknar eða einfaldar, eftir því hver á í hlut. Freud talar um að hugmyndir séu ómeðvitaðar vegna þess að þeim er haldið utan vitundar á virkan hátt. Það er ekki slíkt sem átt er við þegar talað er um að sjálfshugmyndir geti verið ómeðvitaðar. Öllu fremur er átt við að þær hafi áhrif á hugsun manna án þess að þeir veiti því athygli. Þetta er svipað því að við hjólum án þess að geta sagt hvernig við förum að því. Sjálfshugmyndir hafa áhrif á það hvernig við hegðum okkur, hvernig við spáum fyrir um hegðun okkar. Þær hafa einnig áhrif á það hverju við munum eftir um okkur sjálf og hverju við tökum eftir í eigin fari. Sjálfshugmyndir mætti á einfaldan máta tákna á eftirfarandi hátt. Hringirnir á myndinni tákna hugmyndir og línurnar tengsl á milli þeirra. Við sjáum á myndinni hluta af sjálfshugmyndum Jóns og Jósefs. Kjarni sjálfshugmyndar er alhæfing um sjálfið á einhverju sviði, t.d. „ég er sjálfstæður“ eða „ég er sanngjarn“. Þessari alhæfingu tengjast hugtök, minningar og staðhæfingar sem mynda kerfi þar sem eitt atriði vekur annað upp. Þegar Jósef leiðir hugann að því að hann er sanngjarn rifjast þannig upp fyrir honum að hann er góður samningamaður og reifst aldrei við hinn þrætugjarna Bjössa. Þessar sjálfshugmyndir hafa síðan áhrif á það hvernig Jón og Jósef taka ákvarðanir og hverju þeir beina athygli sinni að. Jón (sjálfstæður) er líklegri til að túlka aðstæður þannig að sjálfstæði?ósjálfstæði skipti þar máli, en Jósef einkennist af sjálfshugmynd þar sem þessi hlið skiptir minna máli en sanngirni meiru. Jón er líklegri til að sýna samkvæmni í hegðun varðandi sjálfstæði, en Jósef varðandi sanngirni. Það er mikilvægt að árétta að sjálfshugmyndir eru ekki orðnar til úr engu. Þær eiga sér yfirleitt forsendur í hegðun fólks og amstri. Þær eru þannig alhæfingar út frá reynslu. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að þessar alhæfingar fá síðan stýrandi hlutverk varðandi það sem fólk beinir athygli að, hvernig það ákveður sig og bregst við. En það mikilvægasta við að skoða sjálfshugmyndir er að þær beina sjónum að hinni gerandi, skapandi hlið í hegðun manna. Minnumst þess að orðið „persóna“ vísaði upphaflega til þeirra gríma sem leikarar í Rómaveldi báru fyrir andliti sér á leiksýningum. Persónan er eitthvað sem maður ber á borð fyrir sjálfan sig og aðra, eitthvað sem maður að hluta til skapar sjálfur.

Einkenni sjálfshugmynda

Á undangengnum áratug hafa fjölbreytilegar rannsóknir kannað gagnsemi þess að skoða sjálfshugmyndir í þeim skilningi sem hér hefur verið rakinn. Við skulum líta á nokkrar niðurstöður sem fengist hafa í slíkum rannsóknum: Sjálfshugmyndir: ein eða margar? Það virðist gagnlegt að hugsa sér að fólk einkennist af mörgum sjálfshugmyndum með mismikil tengsl sín í milli. Ég get haft hugmyndir um mig sjálfan sem heiðarlegan, hraustan, klaufskan og róttækan, en þessar hugmyndir hafa mismikil áhrif á hegðun mína og hugsun við mismunandi aðstæður. Það er ýmsu háð hvaða sjálfshugmynd hefur mest áhrif á hugsun og hegðun á tilteknu augnabliki, svo sem ytri aðstæðum, skapi, nýlegri reynslu og svo framvegis. Í þessum skilningi er því persónuleiki okkar síbreytilegur. Sjálfshugmyndir: breytilegar eða stöðugar? Sjálfshugmyndir eru breytingum undirorpnar frá vöggu til grafar. Auðvitað eru hugmyndir um sjálfið í örri breytingu í bernsku og á unglingsárum. Barnið þróast frá því að gera vart greinarmun á milli sjálfs og skynheims til þess að sjá sig sem stórt eða lítið, strák eða stelpu. Smátt og smátt verða til hugmyndir um eiginleika, skoðanir o.s.frv. Sjálfshugmyndir fá ákveðinn stöðugleika en hætta samt ekki að breytast. Sjálfshugmyndir: einfaldar eða flóknar? Fyrr var nefnt að hver og einn einkennist af mörgum sjálfshugmyndum. Hins vegar er breytilegt hversu margþættar hugmyndir um sjálfið fólk hefur. Sumir sjá sig fyrst og fremst sem t.d. heiðarlega, góða móður eða skákmann, en aðrir hafa mun fjölbreytilegri sýn á eiginleika sína og hlutverk. Margbreytileiki sjálfshugmynda virðist auka sveigjanleika í hegðun og vera vörn gegn tilfinningalegum áföllum. Sjálfshugmyndir: skipta þær alla jafnmiklu? Ýmislegt bendir til þess að sjálfshugmyndir skipti mismiklu máli í hegðun mismunandi fólks. Þetta skýrir að nokkru hvers vegna við þykjumst sjá mismikinn stöðugleika í breytni manna. Sjálfshugmyndir: jákvæðar eða neikvæðar? Gera má ráð fyrir því að fólk hafi í senn sjálfshugmyndir sem eru jákvæðar og aðrar sem eru neikvæðar. Líðan okkar á hverjum tíma ræðst af því hvort það er jákvæð eða neikvæð sjálfshugmynd sem er virk í hugsun okkar á þeim tíma. Ein meginhugmynd um orsakir depurðar og kvíða gerir ráð fyrir því að neikvæðar sjálfshugmyndir virkist við álag. Þær taki síðan að stjórna hugsun okkar sem leiði til annarra depurðar? og kvíðaeinkenna. Þeir sem hætt er við depurð og kvíða hafi einhverra hluta vegna í lengdarminni sínu neikvæðar sjálfshugmyndir sem eru almennari og virkjast frekar en raunin er hjá öðrum. Í þessum pistli hefur verið reynt að sýna fram á takmarkanir á hefðbundnum skilningi á persónuleikanum. Í fyrsta lagi virðist ljóst að hegðun manna er alla jafna mun aðstæðubundnari en margur heldur. Jón kann þannig að sýna gleggri merki en Björn um heiðarleika í viðskiptum, en í samskiptum við vini er þessu öfugt farið. Stöðugleiki í hegðun er þannig um margt öðruvísi en oft er talið og skýrist að talsverðu leyti af persónubundinni túlkun aðstæðna. Ennfremur var hér bent á gagnsemi sjálfshugmyndarhugtaksins til skýringar á samræmi í hegðun manna. Þetta hugtak beinir sjónum okkar að því hversu mjög það sem við nefnum persónuleika er nokkuð sem einstaklingurinn skapar á lífshlaupi sínu (meðvitað, en þó fyrst og fremst ómeðvitað). Það minnir einnig á að oft er hæpið að tala um persónuleikann sem óskiptan, heldur er hann yfirleitt innan vissra marka síbreytilegur í samspili við innri og ytri hræringar. Þótt hér hafi athygli verið beint að persónunni sem sínum eigin skapara að hluta til má vitanlega ekki horfa framhjá því að henni eru ákveðnar skorður settar frá upphafi. Því verður ekki á móti mælt þegar horft er til vissra almennra persónuleikaþátta að þar skiptir t.a.m. sá líffræðilegi búnaður sem menn fá í vöggugjöf miklu máli. En á þeim krókótta stíg sem liggur frá erfðum til athafna eru sjálfshugmyndir og túlkun einstaklingsins á aðstæðum engu að síður mikilvægur útsýnisstaður, ef okkur finnst einhverju skipta að skilja stöðugleika og breytileika mannlegrar hegðunar.

Hvað er að vera innhverfur eða úthverfur?

Júlíus Björnsson

Hvernig stendur á því að við Grikkir höfum fengið svo ólík skapgerðareinkenni, þrátt fyrir það að sami himinninn hvelfist yfir allt Grikkland og allir Grikkir fá sömu menntun og uppeldi?

Theophrastus, grískur heimspekingur á þriðju öld fyrir Krist.

Allir hafa velt því fyrir sér hvers vegna fólk er eins mismunandi og það er. Hvers vegna er skapferli mitt öðruvísi en þitt? Hvers vegna er Pétur alltaf kátur og hress, en Páll alltaf niðurdreginn og dapur? Hvers vegna er Gunna oftast áhyggjulaus og glaðlynd, en Sigga kvíðin og svartsýn? Svona spurningar leita stundum á hugann og sérlega hafa menn tilhneigingu til þess að spyrja svona spurninga um sjálfan sig. Hvers vegna er ég eins og ég er? Hvernig get ég farið að því að breyta sjálfum mér? Persónuleikasálfræðin leitast við að svara spurningum af þessu tagi og mörgum fleiri sem tengjast mannlegu atferli og skapgerð. Meðal annars hafa verið settar fram kenningar og gerðar rannsóknir á því sem í daglegu tali er nefnt að vera innhverfur eða úthverfur. Hér er ætlunin að fjalla um þessa tvo persónueiginleika, ásamt öðrum tengdum skapgerðareinkennum, og ræða nánar hvernig má skilja þessi fyrirbæri og tengja þau við aðra mannlega eiginleika.

Fyrri tíma hugmyndir

Ein af grundvallaraðferðum vísindanna er flokkun og röðun fyrirbæra eftir eig? inleikum þeirra og gerð. Þetta á einnig við um þau fræði er fjalla um skapgerð og persónuleika mannsins og því hafa menn frá upphafi vega flokkað fólk eftir skapgerðareinkennum í ákveðnar manngerðir. Mjög snemma komu því fram ákveðnar hugmyndir um hvernig mætti skipta mönnum í flokka eftir skapgerðareinkennum. Gömlu grísku heimspekingarnir voru talsvert uppteknir af þessu, eins og tilvitnunin hér að framan gefur til kynna, og starfsbræður þeirra á öllum tímum hafa fetað í fótspor þeirra. Upphaf nútímahugmynda um innhverft og úthverft fólk má kannski rekja til ársins 1798, en þá gaf heimspekingurinn Immanuel Kant út sína þekktu mannfræði, Antropologie. Þar skipti hann skapgerð manna í fjóra meginflokka, hina léttlyndu, hina þunglyndu, hina bráðlyndu og hina dauflyndu skapgerð. Hugtökin sem Kant notaði voru fengin frá gríska lækninum Galen, en hann var uppi á annarri öld eftir Krist. Galen notfærði sér eldri grískar hugmyndir og setti fram tilgátur um að mannlegir eiginleikar hefðu bólfestu í ákveðnum líkamshlutum og stjórnuðust af líkamsvessum, blóði, slími, gulu galli og svörtu galli. Hann áleit að hvers kyns girndir og holdlegar langanir kæmu frá lifrinni, að hugrekki og reiði kæmu frá hjartanu og vitsmunir frá heilanum. Ef ójafnvægi yrði á milli þessara þátta og hinna fjögurra líkamsvessa yrði einstaklingurinn veikur. Kant notfærði sér hin gömlu hugtök frá Galen, þó svo að hann hefði aðrar hugmyndir um orsakir þess að fólk væri mismunandi. Kant lýsti þessum skapgerðareinkennum á eftirfarandi hátt:

Hinn léttlyndi maður er áhyggjulaus, vongóður og hvatvís, gleyminn á skuldir sínar, félagslyndur, ekki alvarlegur, á marga vini og skiptir oft um áhugamál. Hann leikur sér mikið og er gefinn fyrir hvers kyns breytingar.

Hinn þunglyndi maður er áhyggjufullur, finnur alltaf eitthvað til að bera kvíðboga fyrir og tekur fremur eftir erfiðleikum og göllum hlutanna en kostum þeirra. Hann er seinn til að gefa loforð og hefur áhyggjur af öllum samskiptum sínum við aðra. Þess vegna er hann ekki hamingjusamur.

Hinn bráðlyndi maður er auðreittur til reiði, fljótur að skipta skapi en erfir ekki það sem á hluta hans er gert. Hann er fljótur til verka en þollítill og vill fremur gefa skipanir en framfylgja þeim. Hann vill láta dást að sér og er hrifinn af formlegum athöfnum og hvers konar tilstandi. Hann er mjög stoltur og sjálfselskur, nískur en kurteis, en ekki hamingjusamur vegna þeirrar andstöðu annarra sem hann skapar sér sjálfur.

Hinn dauflyndi maður er tilfinningadaufur, fátt hefur mikil áhrif á hann og hann er lengi að komast í gegn og ná sér á strik. Hann er sanngjarn og þrautseigur á þægilegan hátt.

Kant taldi að menn gætu aðeins haft einn af ofangreindum skapgerðareiginleikum og að aðeins væri um þessa fjóra flokka skapgerðareinkenna að ræða og enga aðra. Síðar voru menn ekki alls kostar ánægðir með þessar hugmyndir og árið 1903 setti sálfræðingurinn Wilhelm Wundt fram þá skoðun að þessa gömlu skiptingu Kants mætti endurbæta. Hann setti fram tvær meginreglur um einstaklingsmun, þannig að persónugerðum mætti skipta í tvennt eftir styrk og hraða tilfinningalegra viðbragða. Hann sagði hina bráðlyndu og þunglyndu einkennast af sterkum viðbrögðum, en hina léttlyndu og dauflyndu af veikum. Aftur á móti yrði hraði breytinganna mikill hjá létt? og bráðlyndum, en lítill hjá þung? og dauflyndum. Þetta á nokkuð vel við þann almenna skilning sem má leggja í þessi skapgerðareinkenni. Hjá létt? og dauflyndum eru skapsveiflurnar ekki mjög miklar. Hjá þung? og bráðlyndum eru tilfinningasveiflur mun meiri en annarra. Þessi viðbót við hina gömlu persónuleikakenningu var á vissan hátt byltingarkennd. Í stað fjögurra óbreytanlegra flokka skapgerðareinkenna var hægt að lýsa persónuleika hvers og eins út frá mögulegri stöðu á tveimur víddum, annars vegar styrk tilfinninga og hins vegar breytileika þeirra. Þessi nálgun var mun margbreytilegri en fyrri flokkurinn. Þessar hugmyndir voru í raun undanfari nútímahugmynda um að menn skiptist ekki einfaldlega í ákveðna flokka skapgerðar eða persónuleikaeinkenna, heldur séu allar persónugerðir samsettar úr eiginleikum sem allir menn hafi í litlum eða miklum mæli. Var þetta með fyrstu tilraunum sem gerðar voru til að skýra þann mismun á mönnum sem venjulega er lýst með því að kalla menn innhverfa eða úthverfa. Síðar komu fram fleiri hugmyndir, þar sem skapgerðareinkennin að vera innhverfur eða úthverfur voru betur skýrð og tengd við fleiri þætti. Austurríski geðlæknirinn Otto Gross gerði á síðustu öld tilraunir til þess að tengja þessi skapgerðareinkenni við lífeðlisfræðilega þætti, en það var síðan hinn þekkti sálkönnuður Carl Gustav Jung, sem tók upp á sína arma hugmyndina um að öllum mönnum mætti lýsa með þessum tveim meginskapgerðareiginleikum, innhverfu og úthverfu. Jung áleit að þetta lýsti sér þannig að lífskraftur mannsins beindist annaðhvort að hinum ytri heimi hjá þeim úthverfu eða að eigin innra ástandi hjá þeim innhverfu.

Nútímahugmyndir

Fleiri merkir fræðimenn hafa sett fram hugmyndir um áþekkar persónuleikagerðir, en þekktastur þeirra er breski sálfræðingurinn Hans Eysenck, sem hefur tekið upp margar þessara eldri hugmynda og smíðað úr þeim persónuleikakenningu sem meðal annars byggist á mati á því hversu inn? eða úthverfir menn séu. Persónuleikakenning Eysencks lítur á persónuleikann með tilliti til þriggja vídda sem hafa verið nefndar á íslensku innhverfa?úthverfa, harðlyndi og tilfinninganæmi. Rétt eins og Wundt gerir Eysenck ráð fyrir því að allir menn hafi alla þessa eiginleika, en í mismiklum mæli. Jafnframt gerir hann ráð fyrir því að þessar þrjár persónuleikavíddir séu ótengdar innbyrðis, þannig að sá sem er mjög úthverfur geti jafnframt verið mjög tilfinninganæmur eða ekki tilfinninganæmur. Breyting eða mismunur á einum eiginleika þurfi því ekki að þýða að hinir tveir breytist einnig. Nota má kenningu Eysencks til þess að skýra mjög margt í mannlegri hegðan með því að mæla magn hvers persónueiginleika hjá einstaklingnum, og þannig má fá út afar margbreytilegar persónugerðir sem einkennast í mismiklum mæli af þeim þrem grundvallarpersónugerðum sem Eysenck byggir kenningu sína á. En víkjum nánar að því hvað það þýðir að vera innhverfur eða úthverfur. Allir vita hvað átt er við með þessum hugtökum, þar sem þau eru mjög algeng í daglegri málnotkun. Þegar talað er um úthverfan mann er venjulega átt við að hann sé glaðvær, félagslyndur, mikið fyrir að hafa samneyti við aðra og eigi auðvelt með að tjá tilfinningar sínar og líðan. Þegar talað er um innhverfan mann er hins vegar oftast átt við að hann sé dulur, kannski dapur í bragði, hafi meiri áhuga á athöfnum og iðju sem ekki krefst samneytis við aðra og eigi kannski erfitt með að tjá eigin tilfinningar og líðan. Eysenck lýsir úthverfu og innhverfu á eftirfarandi hátt:

Úthverfir: Hinn dæmigerði úthverfi maður er félagslyndur, hefur gaman af samkvæmum og á marga vini. Hann hefur þörf fyrir að tala við aðra og hefur litla ánægju af því að lesa eða læra einsamall. Hann leitar eftir æsilegum aðstæðum, tekur áhættu og kemur sér oft í aðstæður sem gætu valdið honum vandræðum. Hann er almennt hvatvís og fljótur til framkvæmda, áhyggjulaus og tekur lífinu létt, hlær mikið og er oft mjög kátur. Hann vill helst vera stöðugt á ferðinni og hafa nóg að gera, en hefur stundum tilhneigingu til að vera árásargjarn og hafa litla stjórn á skapi sínu. Á heildina litið eru tilfinningar hans ekki undir góðri stjórn og hann er ekki alltaf mjög áreiðanlegur maður.

Innhverfir: Hinn dæmigerði innhverfi maður er hæglátur og hlédrægur einstaklingur, sem oft og tíðum hefur meiri áhuga á athöfnum sem hann getur framkvæmt einsamall heldur en að hitta annað fólk. Hann er hlédrægur og fjarlægur við alla nema mjög nána vini sína. Hann hefur tilhneigingu til þess að skipuleggja framtíðina, hugsar áður en hann framkvæmir og treystir ekki stundarlöngunum og skyndilegum ákvörðunum. Honum líkar illa við allar æsingar, tekur hversdagsleikanum með tilhlýðilegri alvöru og vill hafa líf sitt vel skipulagt. Hann hefur góða stjórn á tilfinningum sínum, er sjaldan árásargjarn og hefur gott vald á skapi sínu. Hann er áreiðanlegur, nokkuð svartsýnn og metur mikils siðareglur og venjur.

Eins og ofangreindar lýsingar sýna, þá eru nútímahugmyndir um þessar persónugerðir ekki ýkja frábrugðnar þeim hugmyndum sem almennar eru um þær, og svipar jafnframt mjög til þess sem fyrri tíma menn álitu.

Lýsingar og skýringar

Þegar fjallað er um persónuleika er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á persónulýsingum og skýringum á hegðun manna á grundvelli persónuleikaeiginleika. Svonefndar hringskýringar eru því miður alltof algengar þegar fengist er við þessi efni. Sem dæmi má nefna hugtakið leti. Ef einstaklingur gerir lítið, og ekki síst ef hann gerir mun minna en honum ber skylda til, þá er leti stundum kennt um. Þegar svona er tekið til orða er því gert ráð fyrir að letin sé eiginleiki sem maðurinn hefur og veldur því að hann framkvæmir minna en hann átti að gera. En hvernig fáum við í upphafi upplýsingar um að einhver sé latur? Jú, með því að fylgjast með hegðun hans. Hegðuninni er sem sagt lýst með orðinu leti. Þegar síðan spurt er spurningarinnar um það hvers vegna viðkomandi geri ekki meira, þá er einfalt að skýra það með því að segja að hann sé latur. Lýsing verður þannig að skýringu sem er harla lítils virði. Þetta jafngildir því að segja: „Hann er latur vegna þess að hann er latur.“ Meðal annars af þessum sökum hefur Hans J. Eysenck reynt að gera persónuleikakenningu sína þannig úr garði að hún ekki einasta lýsi ákveðnum persónugerðum heldur geti einnig skýrt atferli sem er mismunandi hjá fólki. Þetta hefur hann gert með því að tengja persónuleikamælingar sínar við margháttaðar aðrar mælingar á sálrænum og lífeðlislegum einkennum, eins og vikið verður að hér á eftir. Ofangreindar lýsingar á innhverfu og úthverfu eru því fyrst og fremst lýsandi dæmi sem varast ber að nota sem skýringar á hegðun fólks, þótt tekist hafi að tengja þær við aðra mannlega eiginleika og hæfni. Hvaða gagn gera slíkar persónulýsingar og persónuleikakenningar? Það ræðst fyrst og fremst af því hversu auðvelt er að tengja þessar persónuleikagerðir við annað í lífi fólks, og því hvort nota má persónueinkennin til þess að spá fyrir um viðbrögð og hegðun einstaklings í framtíðinni. Til þess að persónuleikakenning sé gagnleg og hægt sé að búa til áreiðanleg og réttmæt próf sem byggjast á henni, verður hún að uppfylla ákveðin skilyrði. Það verður að vera hægt að mæla persónueiginleikann á réttmætan og áreiðanlegan hátt. Þetta merkir að eiginleikinn verður að mælast eins frá einum tíma til annars og ganga verður úr skugga um að ekki sé verið að mæla eitthvað annað en ætlunin er að mæla. Einnig styrkir það kenninguna ef persónueiginleikinn hefur einhver tengsl við breytingar á lífeðlisfræðilegri starfsemi mannsins, eða tengsl við ýmsa félagslega þætti. Eysenck hefur með hliðsjón af þessum skilyrðum búið til persónuleikapróf sem hann nefnir EPQ og mælir hversu innhverft eða úthverft fólk er. Prófið mælir jafnframt það sem kalla má tilfinninganæmi, ásamt þeim eiginleika sem hefur verið kallaður harðlyndi. Þetta próf hefur reynst áreiðanlegt og réttmætt mælitæki, sem virðist þjóna allvel þeim tilgangi að greina fljótt og áreiðanlega á milli innhverfra og úthverfra, og með því er unnt að spá fyrir um viðbrögð fólks við ákveðnum kringumstæðum og verkefnum.

Persónuleikinn og erfðir

Líklegt er að meginþættir persónuleikans hafi mótast og breyst á þróunarferli mannsins og að þetta valdi einstaklingsmun sem að einhverju leyti erfist. Enn er samt ekki ljóst að hve miklu marki svo er. Menn vita að umhverfisþættir, uppeldi og félagslegar aðstæður hafa áhrif á persónuleika manna, ásamt sjúkdómum og ýmsum kvillum sem hreinlega geta breytt honum. Það er því ljóst að þó við fáum hluta af persónueinkennum okkar í vöggugjöf, þá mótar allt umhverfi okkar þessi persónueinkenni á ýmsan veg og þess vegna er kannski alls ekki áhugavert að velta fyrir sér hvort og að hve miklu marki persónuleikaeinkenni erfast. Miklu áhugaverðara er að athuga hvernig mismunandi umhverfisaðstæður hafa áhrif á persónuleikann og hvert samspilið er á milli mismunandi persónugerða og umhverfisaðstæðna.

Lífeðlisfræði

Tekist hefur að sýna fram á tengsl inn? og úthverfu við svokallaða lífeðlisfræðilega örvun. Hún er lífeðlisfræðilegt ferli sem stjórnar bæði hraða og styrk þeirra viðbragða sem menn sýna. Komið hefur í ljós að munur er á inn? og úthverfum einstaklingum með tilliti til þessa. Þetta lýsir sér þannig að innhverfir eru fljótari að læra ákveðin verkefni en úthverfir. Þeir eru fljótari að mynda skilyrt viðbrögð af ýmsu tagi og eru árvakurri en þeir úthverfu. Með notkun heilaafrits hafa menn fundið að innhverfir eru fljótari en úthverfir að ná jafnvægi í heilastarfsemi eftir mikið álag. Það er þó erfitt að fullyrða nokkuð um hvað þessi munur þýðir í raun, vegna þess að aðstæður ráða mjög miklu um frammistöðu fólks. Þannig hefur komið í ljós að í birtu og hávaða standa úthverfir sig betur en innhverfir við lausn ákveðinna verkefna, en í dimmu og þögn standa innhverfir sig betur. Einnig hefur komið í ljós að innhverfir og úthverfir muna misvel, verða fyrir mismunandi áhrifum af ýmsum lyfjum, hafa mismunandi sársaukaskyn og margt fleira virðist aðgreina þessar tvær persónugerðir. Jafnframt hefur komið í ljós að engin tengsl virðast vera á milli greindar og inn? og úthverfu, þannig að vitsmunaleg geta manna er talin vera óháð þessum persónuleikaeinkennum.

Að lokum

Það er ljóst af ofangreindu að erfitt er að lýsa innhverfum og úthverfum, nema tekið sé mið af þeim aðstæðum sem þeir eru í. Þessir persónueiginleikar eru nátengdir mjög mörgu öðru, svo sem öðrum persónueinkennum, umhverfisaðstæðum, erfðum, lífeðlisfræðilegum þáttum ýmiss konar, félagslegum þáttum og mörgu fleiru. Það er einnig ljóst að ekki er hægt að flokka menn alfarið í annan hvorn flokkinn. Hver einstaklingur hefur öll eða mörg þessara persónueinkenna í mismiklum mæli. Lýsingar á persónueinkennum eru jafnframt lítils virði ef ekki er tekið tillit til annars í lífi einstaklingsins. Ef hægt er að setja þær í slíkt samhengi verða þær gagnleg og nytsöm hjálpartæki, bæði fyrir þann sem vill breyta sjálfum sér og í meðferð ýmiss konar vandkvæða.

Er hægt að mæla persónuleika?

Júlíus Björnsson

Persónuleiki er hugtak sem flestir halda sig skilja, en eiga jafnframt erfitt með að skýra og skilgreina. Oftast er hugsað um persónuleikann sem eins konar samsafn mannlegra eiginleika sem margir gera ráð fyrir að stýri atferli manna í meira eða minna mæli. Persónuleikinn er því fyrirbæri sem enginn hefur séð og sem ekki er hægt að skilgreina á endanlegan hátt. Því er eðlilegt að spurningar vakni um hvort hægt sé að mæla og rannsaka fyrirbæri sem skynfæri okkar nema einungis óbeint og hvort hægt sé að skilja og hafa áhrif á fyrirbæri sem enginn hefur séð og enginn hefur getað fest hönd á? En enginn hefur séð frumeindir eða sameindir og það hefur ekki komið í veg fyrir að eðlisfræðingar hafi áhrif á þær, mæli eiginleika þeirra og jafnvel breyti þeim í eitthvað annað en þær voru upprunalega. Öll fyrirbæri náttúrunnar er því hægt að mæla eða meta á einhvern hátt, beint eða óbeint, og það sama hlýtur að gilda um mannlega hegðun og hugarstarfsemi.

Hvað mæla persónuleikapróf?

Þótt hugtakið persónuleiki sé venjulega notað í almennum víðtækum skilningi til þess að skýra og lýsa atferli manna og hegðun, þá eru svokölluð persónuleikapróf oftast notuð til þess að mæla mismun á milli manna, í tilfinningum, viðhorfum og samskiptaháttum, á mun afmarkaðri hátt en heitið gefur til kynna. Flest persónuleikapróf eru svokölluð blað? og blýantspróf, þar sem próftaki svarar spurningum sem lagðar eru fyrir hann með spurningalista. Spurningum er oftast svarað með því að merkja við fyrirfram ákveðna svarmöguleika, t.d. já, nei og veit ekki. En einnig eru til persónuleikapróf sem leitast við að prófa persónuleikann á almennari og óbeinni hátt og eru svokölluð frávarpspróf algengust þeirra. Sum persónuleikapróf eru notuð sem kembipróf, þ.e. til þess að velja einstaklinga með ákveðin persónueinkenni úr stórum hópi, eða til þess að finna þá sem eru afbrigðilegir á einn eða annan hátt. Flest persónuleikapróf eru jafnframt notuð sem hjálpartæki við ráðgjöf eða meðferð tilfinningalegra og geðrænna vandamála. Próf af þessu tagi eru ýmist einstaklingspróf, þar sem einstaklingur tekur prófið einn, eða svokölluð hóppróf, en þá eru blað? og blýantspróf lögð fyrir stóran hóp manna í einu. Til er mikill fjöldi mismunandi persónuleikaprófa sem mæla mismunandi persónueiginleika, hvert á sinn hátt, oft byggð á mismunandi kenningum og forsendum. Hér á eftir verður fjallað um helstu gerðir þessara prófa og þær aðferðir sem þau byggjast á.

Hvernig eru persónuleikapróf búin til?

Öll próf og mælitæki, hverju nafni sem þau nefnast og hvað svo sem þau mæla, þurfa að vera réttmæt. Með því er átt við að prófið mæli örugglega það sem því er ætlað að mæla, en ekki eitthvað annað. Þessu til viðbótar þarf próf einnig að vera áreiðanlegt, en með því er átt við að prófið mæli ætíð það sama, t.d. frá einum tíma til annars eða hjá tveimur mismunandi einstaklingum. Þetta tvennt, réttmæti og áreiðanleiki, eru grundvallarforsendur þess að hægt sé að búa til nothæf próf. Algengustu persónuleikapróf nútímans eru flest ámóta í notkun og útliti. Þau innihalda flest mjög margar spurningar, þar sem spurt er um ákaflega marga mismunandi hluti, og venjulega er ekki gefinn kostur á nema fáum svarmöguleikum, t.d. já, nei og veit ekki. Algengt er að slík próf innihaldi annaðhvort beinar spurningar sem svarandi svarar með já eða nei, eða fullyrðingar sem svarandi er beðinn að meta hvort geti átt við hann eða ekki. Mörg prófanna innihalda tugi eða hundruð spurninga eða atriða sem unnið er úr með því að draga saman í sérstaka kvarða þær spurningar sem eiga saman eða mæla sama persónuleikaþáttinn. Eitt algengasta persónuleikaprófið inniheldur yfir 500 spurningar sem eru dregnar saman í 9 grunnkvarða. Niðurstaða prófsins kemur því fram í 9 einkunnum. Þegar persónuleikapróf eru búin til eru notaðar nokkrar meginaðferðir við mat réttmætis. Þetta er afar mikilvægt þegar valdar eru eða búnar til spurningar og kvarðar prófanna. Hér á eftir verður helstu aðferðum lýst. 1. Innihaldsréttmæting: Þegar þessari aðferð er beitt við gerð persónuleikaprófs er einfaldlega reynt að velja spurningar í prófið út frá kunnáttu og sérþekkingu höfundar prófsins á ákveðnu efni og ekki beitt tölfræðilegum eða öðrum aðferðum við samsetningu þess. Dæmi um próf af þessu tagi eru ýmiss konar einkennalistar, þar sem einfaldlega eru talin upp þau einkenni sem ákveðinn kvilli eða sjúkdómur er talinn hafa. Niðurstaða slíks prófs er venjulega fjöldi einkenna af ákveðinni tegund. 2. Raunviðmið: Þegar notuð eru svokölluð raunviðmið við gerð persónuleikaprófs er átt við að svör við spurningum prófsins eru metin með tilliti til einhvers ytra viðmiðs. Athuguð er því fylgnin á milli spurninga prófsins og hins ytra viðmiðs. Tökum einfaldað dæmi. Ef allir þeir sem eru rauðhærðir svöruðu spurningunni „Þykir þér gaman á skíðum?“ játandi og ef jafnframt allir þeir sem ekki hefðu rautt hár svöruðu sömu spurningu neitandi, mætti nota þessa spurningu til þess að greina þá rauðhærðu frá hinum sem hefðu annan háralit. Auðvitað er þetta óraunverulegt dæmi, en það lýsir grundvallaraðferðinni sem beitt er þegar ytri raunviðmið eru notuð við gerð persónuleikaprófa. Þetta er aðferð sem ekki er háð þekkingu manna á sjálfum sér og telst það kostur, þar sem ekki er víst að lýsingar fólks á sjálfu sér séu nægjanlega nothæfar, m.a. vegna þess hversu sjálfsskoðun er óáreiðanleg og óhlutlæg. Slíkar lýsingar eru í raun aðeins það sem fólk segir sem svar við spurningunni sem lögð var fyrir. Ef einstaklingur sem er taugaveiklaður segir að hann hafi oft höfuðverk, þá skiptir ekki máli hvort hann hefur höfuðverkinn eða ekki, heldur að hann segist hafa hann. Hvernig spurningum er svarað er því það sem fyrst og fremst er athugað þegar ytri raunviðmið eru notuð og svörin eru borin saman við t.d. fyrirframgerða flokkun einstaklinganna. Ágætt dæmi um próf sem byggist á þessu er hið þekkta persónuleikapróf MMPI. Það próf var upprunalega gert á þann hátt að spurningar þess voru lagðar fyrir stóran hóp fólks með ákveðnar sjúkdómsgreiningar og athugað hvaða spurningar prófsins greindu á milli hinna ýmsu sjúkdómsflokka. Þær spurningar sem fólk með mismunandi sjúkdómsgreiningar svaraði á mismunandi hátt voru notaðar í endanlega útgáfu prófsins, sem síðan var hægt að leggja fyrir fólk sem ekki hafði fengið neina sjúkdómsgreiningu. Með því að athuga hvort svör á prófinu líkjast þeim svörum sem upprunalegi hópurinn gaf, má því leiða líkum að því að einstaklingur hafi ákveðinn kvilla eða persónuleikaeinkenni, eða ekki. 3. Þáttagreining: Ýmsar tölfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar til þess að búa til persónuleikapróf. Sú þekktasta af þeim er svokölluð þáttagreining. Hún byggist á því að eftir að fjöldi atriða eða spurninga hefur verið lagður fyrir stóran hóp manna, er hægt að finna með þáttagreiningunni hvort atriðin raðast saman á einhvern kerfisbundinn hátt, eða með öðrum orðum hvort skýra megi mismunandi svarmynstur einstaklinga með einhverjum þáttum sem búa þeim að baki. Þáttagreiningu er venjulega beitt á mikinn fjölda spurninga og reynt að finna hverjar þeirra eiga eitthvað sameiginlegt, þ.e. hafa fylgni hver við aðra. Á þennan hátt má einfalda þær fjölmörgu upplýsingar sem langur listi spurninga á persónuleikaprófi lætur í té. Í stað þess að meta svör við hverri spurningu einni og sér er spurningunum raðað saman í heildstæða kvarða, sem þáttagreiningin hefur sýnt að eiga saman eða mæla sama þáttinn. Þannig má fá nokkuð einfaldaða mynd af persónuleikanum, sem jafnframt verður ábyggilegri, þar sem mjög margar spurningar eru notaðar til þess að mæla sama persónuleikaþáttinn. Dæmi um persónuleikapróf af þessari tegund er hið svokallaða 16 þátta persónuleikapróf, 16PF, sem var búið til með því að safna saman miklum fjölda persónulýsinga, búa til úr þeim spurningar sem lagðar voru fyrir mjög stóran hóp manna og finna með þáttagreiningu hversu marga þætti mætti nota til þess að lýsa fólki. 4. Persónuleikakenningar: Mjög mörg nútíma persónuleikapróf byggjast á einhverri ákveðinni persónuleikakenningu, sem oft er mótuð í tengslum við gerð ákveðins persónuleikaprófs. Gæði prófsins eru síðan metin, eins og í öðrum tilvikum, með tölfræðilegum aðferðum, en einnig með tilliti til kenningarinnar, og athugað hvort t.d. er hægt að spá fyrir um svör á prófinu hjá fólki úr ólíkum þjóðfélagshópum, fólki með mismunandi geðræna kvilla og sjúkdóma, o.s.frv. Einnig er oft reynt að spá fyrir um hegðun einstaklinga við ákveðnar kringumstæður út frá kenningunni og niðurstöðum prófsins. Dæmi um próf af þessari tegund gæti verið EPQ spurningalistinn, sem er próf sem byggist á ákveðinni persónuleikakenningu, ásamt ýmsum tölfræðilegum aðferðum og tækni, og mælir þrjá undirliggjandi persónuleikaþætti, innhverfu?úthverfu, tilfinninganæmi og harðlyndi. Allar ofangreindar aðferðir eru notaðar, annaðhvort einar sér eða saman, við gerð persónuleikaprófa og allar hafa þær sér ákveðna eiginleika til ágætis. Innihaldsréttmæting prófa er alltaf nauðsynleg í því skyni að tryggja að innihald prófs sé í samræmi við það sem mæla á. Ytri raunviðmið henta vel þegar persónuleikapróf eru notuð til þess t.d. að skipta fólki í flokka eftir einhverjum fyrirframgerðum flokkunum eða spá fyrir um atferli þess og viðbrögð í framtíðinni. Próf byggð á kenningalegum grunni eru þessu til viðbótar talin mun betri próf, sérlega þar sem skýr og skorinorð persónuleikakenning gefur notanda prófsins mun betra tækifæri til þess að vita hvað ákveðin niðurstaða á prófi þýðir, heldur en ef engin kenning liggur að baki prófinu.

Hvernig tengjast tölfræði og persónuleikamælingar?

Það gæti við fyrstu sýn virst nokkuð undarlegt að tengja persónuleika manna við tölfræði og stærðfræði, en slíkt gerir okkur kleift að búa til verulega nýtileg próf og mælitæki sem leyfa samanburð á milli manna og mat á breytingum hjá einstaklingum með tímanum. Það er alkunn staðreynd að flest líffræðileg fyrirbæri hafa ákveðna dreifingu, þar sem flestir einstaklingar líkjast meðaltali hópsins. Hæð og þyngd eru ágætis dæmi um þetta, þar sem flestir eru á hæð og að þyngd einhvers staðar umhverfis meðaltalið og þeir eru mun færri sem eru mjög háir eða þungir eða mjög lágir eða léttir. Það sama á við um vitsmunalega eiginleika manna, þeir dreifast á svipaðan hátt, flestir eru meðalgreindir og færri eru annaðhvort illa greindir eða afburðagreindir. Flestir þeir er fjalla um persónuleikann gera ráð fyrir því að hann lúti sömu lögmálum. Persónueinkenni dreifist á svipaðan hátt, þannig að flestir hafi almenna eiginleika, en fáir hafa öfgaeiginleika. Tökum kvíða sem dæmi. Hann er tilfinning sem eðlilegt er að allir einstaklingar finni einhvern tíma í einhverjum mæli. Það eru hins vegar afar fáir einstaklingar sem eru stöðugt kvíðnir og einnig afar fáir sem aldrei finna fyrir kvíða. Með þetta að leiðarljósi er hægt að beita ákveðnu stærðfræðilegu líkani, svokallaðri bjölludreifingu, á alla mannlega eiginleika. Þetta líkan gerir okkur kleift að ákvarða hversu miklar líkur eru á ákveðinni frammistöðu á prófi. Bjölludreifingin segir til um hversu stórt hlutfall allra manna hefur meðaleiginleika og hversu stórt hlutfall öfgaeiginleika. Persónuleikapróf eiga það sammerkt með öðrum sálfræðilegum prófum að áður en almenn notkun prófs getur hafist verður að fara fram svokölluð stöðlun. Þetta felur í sér að frumgerð prófs er lögð fyrir stóran hóp manna og þannig fundið hver meðalframmistaða á prófinu er og hvernig einkunnir á prófinu dreifast til beggja enda, til hæstu einkunna og þeirra lægstu. Síðar, þegar prófið fer í almenna notkun, eru niðurstöður úr stöðluninni notaðar sem viðmið og má á þann hátt meta hvort frammistaða einstaklings er nálægt meðaltali eða ekki. Grunneinkunnum á persónuleikaprófum er venjulega breytt í svokallaðar staðaleinkunnir sem hafa fyrirfram ákveðið meðaltal og frávik frá meðaltali. Þessar staðaleinkunnir gera kleift að bera einstaklinga saman og jafnframt að bera frammistöðu á mismunandi prófum saman, þannig að sambærilegt sé. Einnig er mögulegt, með notkun staðaleinkunna, að bera ýmsa mismunandi eiginleika einstaklingsins saman innbyrðis, þótt um ólíka eiginleika sé að ræða. Hægt er að finna hinar sterku og veiku hliðar hans og meta þær í samanburði við frammistöðu stöðlunarúrtaksins.

Er annars konar persónuleikamat mögulegt?

Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að gera úr garði persónuleikamat sem væri betra og risti dýpra en ofangreindar aðferðir. Við slíkar tilraunir hefur oftast verið byggt á svonefndum sálefliskenningum og hafa svokölluð frávarpspróf verið mest notuð í þessu skyni. Slík próf byggjast á því að fyrir próftaka er lagt óljóst áreiti, oftast einhvers konar mynd, og próftaki beðinn að segja frá því hvað hann sér út úr myndinni. Próf sem beita þessum aðferðum byggjast á hinni svokölluðu frávarpstilgátu, en í henni felst að menn varpi eigin persónuleika, tilfinningum og líðan yfir í þau áreiti sem þeir verða fyrir, og að skilningur þeirra og skynjun á umhverfinu mótist af eigin persónuleika. Því hafa menn ályktað sem svo að séu áreitin óljós og óskýr, þá hljóti einstaklingurinn að varpa meira af eigin persónuleika og jafnvel ómeðvituðum hvötum og eiginleikum yfir í þau og því megi sjá persónuleika manna endurspeglast í túlkun þeirra á óljósum áreitum. Þekktasta prófið af þessari tegund er hið svonefnda Rorschach próf, en það samanstendur af 10 óhlutbundnum blekklessumyndum sem próftaki er beðinn um að lýsa. Það er síðan hlutverk prófandans að túlka svörin, oftast í ljósi einhverrar ákveðinnar kenningar um sálarlíf mannsins. Frávarpsprófin hafa mikið verið gagnrýnd og hefur tekist að sýna fram á að þau hafa hvorki nægjanlegt réttmæti né áreiðanleika, eða uppfylla aðrar kröfur um gæði. Samt eiga þau miklu fylgi að fagna og þá sérlega á meðal klínískra sálfræðinga. Því hefur jafnvel verið haldið fram að frávarpspróf eigi ekki að flokka með öðrum sálfræðilegum prófum, þau séu annars eðlis og um þau gildi einfaldlega aðrar reglur og viðmið. Ekki sé hægt að leggja á þau sömu mælistikuna og önnur sálfræðileg próf. Ekki verður tekin afstaða til þessa hér, að öðru leyti en að benda á að sé frávarpstilgátan rétt, þ.e. að persónuleiki manna endurspeglist í svörum þeirra við óljósum áreitum, þá hlýtur sú tilgáta einnig að eiga við þann sem túlkar niðurstöður prófsins, prófandann sjálfan. Skilningur prófandans á svörum þess sem tekur prófið hlýtur einnig að mótast af hans eigin persónuleika og því hlýtur túlkunin að byggjast að miklu leyti á hans eigin persónuleika, en ekki persónuleika próftaka. Þetta er alvarleg þversögn. Ef frávarpstilgátan er rétt er ekki hægt að mæla persónuleika manna vegna frávarps prófanda. Ef tilgátan er ekki rétt, er auðvitað ekki heldur hægt að mæla persónuleika manna á grundvelli hennar.

Að lokum

Í dag er til fjöldi persónuleikaprófa sem mæla ótal persónuleikaeinkenni, mörg hver á áreiðanlegan og réttmætan hátt og með öruggum raunviðmiðum sem gera mönnum kleift að nota prófin til áreiðanlegrar flokkunar og mats á einstaklingum. Því er vissulega hægt að svara spurningunni um hvort hægt sé að mæla persónuleika játandi. Það hefur lengi loðað við sálfræðina að hún hefur ekki, eins og aðrar fræðigreinar, byggt upp þekkinguna smátt og smátt, þannig að það sem á eftir kemur byggist á því sem á undan er farið. Sálfræðin hefur oft einkennst af því að nýjar kenningar hafa komið fram sem endurskilgreina viðfangsefni frá grunni og ýta til hliðar eldri skýringum og kenningum. Ein af fáum undantekningum frá þessu innan sálfræðinnar er próffræðin, kannski vegna þess að hún tekur ekki afstöðu til þeirra kenninga sem að baki sálfræðilegra prófa liggja, að minnsta kosti ekki nema að litlu leyti. Fyrir 100 árum byrjuðu menn að vinna að þróun sálfræðilegra prófa. Smátt og smátt hafa aðferðirnar batnað og menn hafa byggt á því sem á undan er komið. Stöðugt hefur tækninni fleygt fram og með tilkomu öflugra reiknivéla og tölva hafa möguleikarnir margfaldast. Því er nú mikil gróska að færast í hvers kyns sálfræðilegar mælingar og þá einnig persónuleikamælingar. Tæknin til mælinganna er til staðar, en helst virðist skórinn kreppa að kenningasmiðum og þeim sem eiga að geta sagt okkur hvað persónuleikinn er. Kenningar um persónuleikann og skilningur manna á tengslum persónuleika einstaklinga við aðra mannlega eiginleika og við umhverfið hlýtur að verða að móta allar mæliaðferðir. Ef hægt á að vera að mæla eitthvað verður að vera til staðar þokkaleg hugmynd um hvað það er sem á að mæla. Ef nýtileg svör fást við því er framhaldið einungis spurning um nýtingu á tiltölulega einfaldri tækni.

Hvað er persónuleikagalli?

Hörður Þorgilsson

Þótt persónuleiki fólks sé margbreytilegur og það fari ólíkar leiðir í lífinu þá er það yfirleitt í sæmilegri sátt við aðra. Einkenni hvers og eins verða hluti af eðlilegum fjölbreytileika. Að vísu getur hegðun okkar á stundum verið sérkennileg, við verið tilfinningasöm eða óttaslegin, og þykir það ekki tíðindum sæta. Hins vegar eru til þeir einstaklingar sem einkennast fyrst og fremst af undarlegri hegðun, ójafnvægi í tilfinningum, ósjálfstæði eða stöðugum árekstrum við umhverfið. Þessum einstaklingum hefur verið lýst sem þeir hafi lundarfarsbrest eða persónuleikagalla. Þessi nafngift, þó óheppileg sé, gefur til kynna að hegðun þessara einstaklinga sé í nokkuð föstum skorðum, að hér sé um persónuleikamynstur að ræða. Jafnframt felst í henni að hér sé ekki um tímabundinn sjúkdóm að ræða, t.d. þunglyndi, eða að ákveðnar aðstæður geri það að verkum að einstaklingur sé ekki eins og hann á að sér að vera. Persónuleikagalla má því skilgreina sem stöðuga persónuþætti eða viðvarandi hegðunarmynstur sem fela í sér lélega aðlögun að umhverfinu og valdi ýmist vanlíðan eða skertri getu til þess að umgangast aðra. Þá virðist sem persónuleikagalli geti verið jarðvegur fyrir ýmsar geðrænar truflanir. Þær verða eins og ýkt mynd af því afbrigði af persónuleikagalla sem einkennt hefur einstaklinginn. Þeir sem kallast persónuleikagallaðir greinast skýrt frá þeim sem við segjum taugaveiklaða, sem eru kvíðnir, daprir eða fælnir. Kvöl hinna taugaveikluðu er mikil, þó svo að öðrum kunni að þykja vandi þeirra smávægilegur. Þessu er öfugt farið með þá sem þessi pistill fjallar um. Þeim líður ekki endilega illa, en aðrir verða áþreifanlega varir við það sem er ábótavant í fari þeirra.

Helstu gerðir

Persónuleikagalli er hugtak sem fræðimenn hafa smíðað til þess að lýsa ákveðnum hópi manna. En hvaða hópur er þetta? Hvað kallar almenningur þá? Eru þetta þeir sem við köllum illa innrætta, siðlausa, ómerkilega, tillitslausa, þreytandi, þeir sem lifa á öðrum, komast í kast við lögin eða ná ekki að halda sjálfum sér á floti, sem okkur líkar illa við? Þetta er hópur sem er mjög margbreytilegur og margt sem mælir gegn því að gefa honum eitt nafn. Engu að síður er persónuleikagöllum oft skipt niður í þrjá hópa. Þessir hópar eru alls ekki skýrt aðgreindir og oft erfitt að ákveða hvar flokka eigi ákveðin einkenni. Í þeim fyrsta eru þeir sem oft er lýst sem sérkennilegum og skrýtnum. Samskipti þeirra við aðra einkennast af tortryggni og fjarlægð. Fólk í öðrum hópnum er hæggerðara, einkennist oft af kvíða og hræðslu. Til þess að skapa sér meira öryggi færir það samskipti sín við aðra í fastan en um leið óheppilegan farveg. Í þriðja flokknum eru þeir sem teljast hömlulausir, hafa óstöðugt tilfinningalíf eða eru uppteknari af sjálfum sér en nokkru öðru. Sambönd þeirra við annað fólk eru bæði brothætt og breytileg. Í þessum hópi eru þeir sem hafa andfélagslegan persónuleika. Þeim sem sagðir eru hafa gallaðan persónuleika er oft skipt í tvennt. Annars vegar þá sem sífellt skapa vanda í samskiptum sínum við aðra og hins vegar þá sem með hegðun sinni komast í kast við lög og reglur samfélagsins, hafa andfélagslegan persónuleika. Skoðum nánar hvern hóp fyrir sig.

Á skjön við aðra

Fyrsti hópur, sérkennilegar persónugerðir Hér er um tvö afbrigði að ræða og mest áberandi er tilhneigingin til tortryggni og einangrunar. Fyrra afbrigðið er þegar persónuleikinn einkennist af tortryggni og er sífellt á varðbergi gagnvart misnotkun eða svikum. Honum finnst því full ástæða til þess að fara að hlutum með nokkurri leynd. Þessir einstaklingar eru mjög afbrýðisamir og eru fljótir að ásaka aðra, jafnvel þó sökin sé þeirra sjálfra. Þeir eru mjög viðkvæmir, fljótir að móðgast, þrasgjarnir og eins og hengdir upp á þráð. Þeir eru fljótir að sjá dulda merkingu í öllum sköpuðum hlutum og finnast þeim vera sérstaklega beint gegn sér og eiga auðvelt með að sýna fram á það; tveir menn að tali er vísbending um samsæri og hávaðanum í næsta húsi er sérstaklega beint gegn þeim. Þeir eru frekar vinafáir en geta átt sér bandamann um tíma. Þeir geta þó grunað hann um græsku og fengið sér nýjan bandamann. Það kann að vera nægjanlegt að benda á að vantraust sé ástæðulaust til þess að gera þann sem á það bendir tortryggilegan. Seinna afbrigðið eru þeir einstaklingar sem eiga í erfiðleikum með að mynda tengsl við aðra og eru oftast vinafáir. Þeir virka fjarlægir og sýna öðru fólki litla alúð eða áhuga. Viðbrögð annarra, hvort sem um er að ræða hrós eða gagnrýni, hafa lítil áhrif á þá. Við tölum um þá sem einfara sem sinna áhugamáli sínu einir á báti. Í sumum tilvikum kann hugarheimur þessara einstaklinga að vera á mörkum hins raunverulega og sérstaða greinileg í málfari, hugsun, umhirðu og klæðnaði. Þessir einstaklingar geta náð árangri í vinnu sem krefst ekki mikilla samskipta við aðra. Hlutskipti þeirra kann einnig að vera utangarðs í samfélaginu. Annar hópur, hæglátari persónugerðir Hér er um fjögur ólík blæbrigði að ræða. Í fyrsta lagi þá sem gjarnan draga sig í hlé, ekki vegna þess að þeir vilji vera einir heldur eru þeir ofurnæmir fyrir þeim möguleika að verða hafnað eða niðurlægðir með einhverjum hætti. Þessir einstaklingar eiga ekki auðvelt með að stofna til kynna við aðra, þó svo þeir þrái ekkert heitar en ást og viðurkenningu annarra. Þeir hafa hins vegar litla trú á að ósk þeirra rætist. Þeir draga sig frekar til baka en að eiga á hættu að vera hafnað af öðrum. Í þeim samböndum sem komast á legg eru þeir á stöðugu varðbergi gagnvart vísbendingum um höfnun. Ef vinur kemur of seint er það óþægilegt fyrir flesta, en fyrir þessa einstaklinga er það áfall sem þó hlaut alltaf að koma að. Sjálfsálit þeirra er lélegt og þeir gera lítið úr afrekum sínum. Í öðru lagi eru þeir sem eru háðir öðrum. Þeir treysta lítt á sjálfa sig og láta foreldrum, vinum eða mökum eftir að taka ákvarðanir og ábyrgð á flestum þáttum tilverunnar, eins og hvar þeir eigi að búa, hvað þeir eigi að gera og hverja þeir eigi að umgangast. Þessir einstaklingar geta ekki gert kröfur til annarra, þeir fórna eigin þörfum til þess að skaða ekki hið verndandi samband sem þeir hafa stofnað til. Þeir óttast að vera yfirgefnir og þola þess vegna ótryggð, drykkju eða ofbeldi. Mótmæli gætu leitt til þess að makinn hótaði að fara. Þannig verður til vítahringur sem eykur stjórn og misnotkun annarra, gerir viðkomandi meira hjálparvana og varnarlausari og minnkar stöðugt líkur á aðgerðum sem leiða til aukinnar sjálfsvirðingar. Gagnrýni eða vanþóknun er eitur í þeirra beinum og ef slitnar upp úr sambandi kostar það mikla vanlíðan. Fleiri konur en karlar eru taldar vera þessarar gerðar, enda að einhverju leyti í samræmi við þær væntingar sem eru til kvenna. Í þriðja lagi eru þeir sem tjá óánægju sína og reiði á óbeinan hátt, þeir neita eða mótmæla aldrei beint. Þeir setja sig upp á móti þeim kröfum sem aðrir gera, oft með þráa, stífni eða slælegum vinnubrögðum. Þeir koma of seint, slá á frest og gleyma. Þetta háttalag má líta á sem leið til þess að stjórna öðrum, án þess að taka ábyrgð á eigin afstöðu sem oftast byggist á reiði. Þrátt fyrir góða ætlan gerist það smám saman að fólk er dæmt af verkum sínum en ekki ætlan sinni. Þetta leiðir oft til ýmissa vandkvæða, svo sem hjónabandserfiðleika eða að frami í starfi verður lítill. Fjórða og síðasta afbrigðið í þessum hópi eru þeir sem þurfa að hafa allt fullkomið. Þeir eru mjög uppteknir af smáatriðum, reglum, áætlunum og ýmsu slíku. Þetta er oft á kostnað frumleika og leiðir oft til lélegra afkasta. Vinna er þeirra ær og kýr, en ánægjan situr á hakanum. Engu að síður ná þeir sjaldnast langt í vinnu vegna tilhneiginga sinna. Þeim finnst erfitt að taka ákvarðanir eða að ráðstafa tíma sínum. Samskipti við aðra eru oft erfið vegna þess að þeir vilja að allt sé samkvæmt þeirra höfði. Þeir geta eytt löngum tíma í að skipuleggja sumarfríið í smáatriðum en er fyrirmunað að njóta þess að vera í fríi, hafa stöðugar áhyggjur af því að áætlunin raskist. Yfirleitt eru þessir einstaklingar bæði alvarlegir og formlegir og eiga ekki auðvelt með að vera alúðlegir eða vingjarnlegir. Þessi gerð telst algengari meðal karla. Þriðji hópur, hömlulausar persónugerðir Hér er um þrenns konar persónugerð að ræða. Í fyrsta lagi svokallaðan jaðarpersónuleika, í öðru lagi svonefndan sjálfsástarpersónuleika og loks persónuleikagalla sem kenndur er við sefasýki. Það sem helst einkennir jaðarpersónuleika er óstöðugleiki í samskiptum, geðslagi og sjálfsmynd. Afstaða til annarra getur gjörbreyst án greinilegrar ástæðu á mjög stuttum tíma. Tilfinningar eru breytilegar og einkum getur reiði blossað upp mjög snögglega. Þessir einstaklingar eru á tíðum þrætugjarnir og kaldhæðnir. Breytileg og hvatvís hegðun þeirra leiðir oft til óheppilegrar hegðunar, eins og spilamennsku, eyðslusemi og lauslætis. Það virðist sem sjálfsmyndin hafi ekki náð að verða skýr og samfelld og þeir séu í stöðugri óvissu um eigin gildi, hvar tryggð þeirra liggur og að hverju skuli stefna. Einvera er þessari manngerð erfið. Afleiðingin er oft sú að þeir efna til margra sambanda sem eru ástríðufull og stormasöm, en þar sem getan til varanlegri tengsla og umhyggju er skert vara þau oftast í stuttan tíma. Tómleiki og depurð eru ekki óalgengar tilfinningar og ef í harðbakka slær verður sjálfsmorðstilraun að leið til þess vekja viðbrögð annarra. Sjálfsástarpersónuleiki einkennist af ýktu mati á eigin mikilvægi, sérstöðu og hæfileikum. Öðru hverju blossar þó upp sterk minnimáttarkennd og brothætt sjálfsmynd. Þeim er mjög umhugað um viðbrögð og álit annarra en bregðast hins vegar illa við neikvæðu mati eða láta sem þeim sé nákvæmlega sama. Þeir einstaklingar sem eru þessarar gerðar eru uppfullir af draumum um alls kyns afrek, völd og snilld, og krefjast stöðugrar athygli og aðdáunar allra annarra. Samkennd þeirra með öðrum er af afar skornum skammti, þeir bæði öfunda og misnota aðra, finnst þeir hafa sérstakan rétt til flestra hluta og vænta greiðasemi annarra án þess að láta sér detta í hug að bregðast við með sama hætti. Vinátta byggist á því hvað er hagkvæmt hverju sinni. Ástarsambönd eru afar brokkgeng og vara stutt. Þeir verða auðveldlega ástfangnir en ástin hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar í ljós kemur að sá sem ástar og aðdáunar átti að njóta er ekki fullkominn. Hégómagirni er engu lagi lík. Sefasýkispersónuleiki einkennist af ýktri tilfinningasemi sem bæði vekur athygli og samúð. Þeir eru að eigin áliti afar viðkvæmir og krefjast þess að tafarlaust tillit sé tekið til þeirra, jafnvel þó það kosti ærna fyrirhöfn og umstang. Þeir heimta til dæmis að fara heim úr leikhúsi á miðri sýningu vegna þess að þeir eru svo yfirkomnir af sorg eða einhverri tilfinningu. Ef þeim finnst sem athygli og ást annarra fari minnkandi eiga þeir til að hóta sjálfsmorði. Vinátta og sambönd eru brothætt. Þeir virka vel við upphaf kynna, afar hlýir og vingjarnlegir, en verða fljótt kröfuharðir og þurftafrekir á tíma og athygli annarra vegna yfirþyrmandi ástands síns. Við nánari kynni sýnist öðrum þeir fyrst og fremst grunnir og óeinlægir. Framkoma í garð hins kynsins er oft tælandi og kynþokkafull en sjálflægni kemur í veg fyrir varanleg kynferðisleg tengsl.

Upp á kant við samfélagið

Hér er í raun fjórða afbrigði þeirrar persónugerðar sem nefnd hefur verið hömlulaus. Um fyrstu þrjú afbrigðin var fjallað hér að framan. Fjórir af hundraði karla og ein af hverjum hundrað konum er talin hafa þá persónuleikagerð sem nefnd hefur verið andfélagslegur persónuleiki. Hann lýsir sér í því að reglur og siðir samfélagsins eru virt að vettugi með tilheyrandi samviskuleysi. Þessi hópur hefur mest verið rannsakaður. Fyrr á öldum var gerður greinarmunur á glæpamönnum og þeim sem áttu við andlega vanheilsu að stríða. Á 19. öld fóru menn hins vegar að gefa því gaum hvort afbrotahegðun gæti verið angi af andlegri vanheilsu. Ljóst var að margir afbrotamenn voru vel skýrir í hugsun en siðferðilegur þroski og skilningur var alvarlega truflaður. Þetta var kallað „siðferðilegt brjálæði“. Í dag er það í flestum tilvikum talið merki um persónuleikagalla að geta ekki lifað í sátt við almennar siðareglur samfélagsins. Í daglegu tali manna eru þessir einstaklingar oft kallaðir ævintýramenn, skúrkar, menn sem svífast einskis, svikahrappar, afbrotamenn eða glæpamenn. Það sem einna helst einkennir þessa manngerð er ólöglegt eða andfélagslegt athæfi sem rekja má aftur í barnæsku. Ábyrgðarleysi í vinnu, fjármálum og gagnvart öðru fólki er jafnan til staðar. Þá eru árásargirni og hvatvísi afar áberandi. Einnig má nefna samviskuleysi í kjölfar hegðunar sem að öllu jöfnu hreyfir við samvisku flestra, vangetu til þess að mynda djúp og varanleg tilfinningatengsl og að ganga illa að læra af reynslunni. Þessa persónuleikagerð er að finna í öllum stéttum samfélagsins. Oft geta þeir náð langt og verið áberandi í samfélaginu. Hins vegar er sá hluti þessa hóps sem kemst í kast við lögin mun meira áberandi og hefur verið rannsakaður mun meira. Ítarlegri upptalningu einkenna þessarar persónuleikagerðar má finna í glugga hér á undan.

Hugsanlegar orsakir

Ýmsar hugmyndir eru á lofti um það hvað valdi því að persónuleiki sumra verði með þeim hætti sem lýst er hér að framan. Mest athygli hefur beinst að andfélagslegum persónuleika, enda er það sú persónuleikagerð sem veldur hvað mestum vandræðum. Vísbendingar um það sem koma skal eru greinilegar strax á unga aldri. Drengir sem skrópa í skóla, stela, eru lengur úti en ætlast er til, hlýða ekki foreldrum sínum, ljúga hikstalaust, sýna lítil merki sektarkenndar eða sýna jafnan litla ábyrgð eru þeir sem síðar á ævinni er hægt að flokka í þessa manngerð. Til þess að eðlileg þróun geti átt sér stað þarf barnið að finna góða fyrirmynd í foreldrum sínum. Hins vegar er það oft raunin að annað foreldrið ber ýmis merki þess að vera sjálft með andfélagslegan persónuleika, er bæði hafnandi og gjarnt á að yfirgefa barnið. Sérstaklega hafa drengir oft óheppilega fyrirmynd í feðrum sínum sem einatt hegða sér andstætt þeim reglum og gildum sem flestir hafa í heiðri. Uppeldið hefur mikið um það að segja í hvaða farveg hegðun færist. Foreldrar flestra barna styrkja jákvæða hegðun þeirra, eins og hjálpsemi, samvinnu og tillitssemi, en líta framhjá neikvæðri hegðun. Foreldrar barna sem sýna vísbendingu um óheppilega hegðun hafa ólíka uppeldishætti. Uppeldi þessara einstaklinga einkennist ýmist af agaleysi eða mótsagnakenndum og tilviljanakenndum aga. Viðbrögðin eru yfirleitt refsandi, en þegar þau eru jákvæð er það gjarnan óháð því sem barnið gerir. Hvort það hegðar sér vel eða illa skiptir það því engu máli, meðferðin sem það fær er tilviljanakennd. Þau læra að taka lítið mark á lögum og reglum sem segja flestum til um afleiðingar hegðunar. Þess í stað gera þau það sem þau vilja og gera ráð fyrir að afleiðingar ráðist ekki af hegðun þeirra heldur einhverju tilviljanakenndu eins og heppni. Það eru hins vegar ekki bara foreldrar sem hafa mótandi áhrif. Hegðun sem ekki er til fyrirmyndar kann að vekja aðdáun félagahópsins, en slík athygli er líkleg til þess að festa hegðunina enn frekar í sessi. En þar með er ekki öll sagan sögð, því sá hópur sem elst upp við óheppilegar aðstæður er mun stærri en sá hópur sem hér er til umfjöllunar. Hvað kemur fleira til? Það sem einkum hefur verið skoðað eru ýmsir lífeðlislegir þættir og hvort þeir geti útskýrt hvers vegna þessi hópur lærir illa af reynslunni og hvers vegna hann sækir í aðstæður sem fela í sér spennu og áhættu. Þegar þessi hópur manna er borinn saman við annað fólk kemur í ljós að margir þeirra hafa afbrigðilegt heilarit, eða óvenjulega hátt hlutfall hægra heilabylgja, en það eru algengar bylgjur hjá börnum. Þetta bendir til þess að heili þessara einstaklinga þroskist hægar en annarra og nái mun síðar fullum þroska. Þegar þessum þroska er náð ætti það hins vegar að sjást í því að andfélagsleg hegðun minnkaði til muna. Sú er raunin, hegðun þessara manna skánar oft mikið milli þrítugs og fertugs, þótt ekki sé það einhlítt. Svo virðist sem þessi seinþroski tengist einkum þeim svæðum heilans sem hafa áhrif á minni og tilfinningar og þá hæfileikann til þess að bregðast eðlilega við því sem að öðru jöfnu vekur ótta. Eitt af því sem forðar okkur frá því að endurtaka það sem er bannað eða okkur hefur verið refsað fyrir er að við finnum til kvíða eða hræðslu við skammir eða refsingu. Þegar við lendum aftur í svipuðum kringumstæðum munum við vel eftir fyrri viðbrögðum okkar, við finnum kvíðann. Þessi kvíði er því n.k. lykill að því að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Svo virðist sem þeir sem hafa andfélagslegan persónuleika finni fyrir litlum hömlum í því að brjóta reglur, skráðar eða óskráðar, einmitt vegna þess að þeir finna ekki til kvíða. Þeir gera því lítið til þess að forðast þær neikvæðu afleiðingar sem hegðun þeirra gæti haft. Þá hefur það vakið athygli manna hvað þessi hópur bregst lítið við óþægilegum eða nýjum aðstæðum. Svo virðist sem ekkert haggi jafnvægi þeirra og það er jafnvel sem þeim líði vel þegar aðrir finna til óöryggis, óróleika eða skömmustutilfinningar, til dæmis þegar þeir eru yfirheyrðir af lögreglunni. Ef dagleg tilvera okkar er háð því að við finnum til hæfilegrar örvunar má búast við því að við leitum að heppilegu jafnvægi milli eðlislægrar örvunar okkar og svo hvernig athafnir okkar ýmist magna eða draga úr örvun. Þeir sem hafa hátt örvunarstig leita jafnvægis með því að sækja í rólegt umhverfi, en þeir sem hafa lágt örvunarstig leita jafnvægis með því að sækja í æsilegar athafnir sem örva og skapa spennu. Þessi hópur sem hér er til umfjöllunar virðist einmitt hafa lágt örvunarstig. Þetta gæti skýrt hvatvísi þessara manna, sókn í spennu og þörf fyrir sífellda tilbreytni og fjölbreytileika. Að lokum má geta þeirra hugmynda sem útskýra andfélagslega hegðun með tilvísun í þjóðfélagslega stöðu og möguleika manna til þess að njóta lífsins gæða. Þeir sem standa höllum fæti eiga jafnerfitt með að tileinka sér reglur hinna betur stöddu og það er þeim erfitt að öðlast lífsgæði þeirra. Ein leið er því að líta framhjá lögum og reglum og fara sínar eigin leiðir. Dæmið gengur sjaldnast upp og mönnum er refsað fyrir afbrot sitt, fá stimpilinn „afbrotamaður“. Það er síðan þekkt að fólk hefur tilhneigingu til þess að viðhalda sjálfsmynd sinni með því að hegða sér í samræmi við hana. Þannig gæti skapast hegðunarmynstur eða persónuleiki af þeirri einni ástæðu að hafa fæðst inn í félagslegar aðstæður sem buðu ekki upp á marga hagstæða kosti.

Um flokkun

Sú flokkun á persónuleikagöllum sem hér hefur verið rakin er vissum takmörkunum háð. Hugtakið gefur til kynna að hér sé um vel skilgreindan og áreiðanlegan þátt í persónuleika mannsins að ræða. Heitið gæti gefið til kynna að ákveðinn þekktur galli væri á ferð sem ætti sér ákveðna orsök og gang og hann mætti jafnvel lækna. Slíkt er víðs fjarri. Fræðimenn eiga töluvert langt í land með að skilja orsakir og eðli þessa óheppilega persónuleikamynsturs. Bæði skortir fræðilega undirstöðu og það reynist oft erfitt að fella manneskjur sem sýna af sér afar fjölbreytta hegðun undir einn flokk. Ef það er gert getur það valdið því að sýn okkar á hinn flokkaða verður takmarkaðri. Við tökum aðeins eftir því sem flokkunin segir til um en lítum framhjá öðru. Afleiðing þessa gæti auðveldlega orðið að sú hegðun sem flokkunin beindist að festist frekar í sessi og færi að staðfesta flokkunina. Slíkt getur verið afar óheppilegt, sérstaklega ef athyglin hefur beinst að hegðun sem fellur ekki vel að umhverfi sínu. Raun ber því vitni að sú flokkun sem notuð hefur verið á hin ýmsu afbrigði persónuleikagalla hefur verið afar óáreiðanleg. Það þarf ekki að koma okkur á óvart, því að við könnumst við það bæði úr eigin fari og annarra að við getum verið vingjarnleg og félagslynd en líka montin og frek. Einn og sami einstaklingurinn getur búið yfir mótsagnakenndum eiginleikum. Þetta misræmi sem oft er á milli viðleitni manna til þess að flokka fólk og svo hins margbreytilega raunveruleika skapar margs konar vanda. En eru einhverjir aðrir valkostir? Í stað þess að reyna að flokka fyrirbæri í ákveðna flokka hafa menn reynt að búa til kerfi sem býr yfir meiri sveigjanleika, er í senn sértækara og yfirgripsmeira og sem getur fengist við afar margbreytilega hegðun og mannleg samskipti. Svokallaðir samskiptahringir bjóða upp á slíka möguleika. Þar er hægt að draga upp mynd af fjölbreyttum samskiptaháttum og þar getur hver og einn haft margs konar einkenni, þó nokkur kunni að vera mest áberandi. Í þessu felst einnig sá skilningur að það sem við köllum persónuleikagalla er einungis ýkt mynd af hegðunarmynstri sem hægt er að greina hjá hverjum heilbrigðum manni. Þannig hefur hver einstaklingur mismikið af ákveðnum eiginleikum og þegar þeir eru ýktir, sterkir eða viðvarandi mætti tala um persónuleikagalla af viðkomandi gerð.

Margfaldur persónuleiki

Þuríður Jónsdóttir

Flestir munu sammála um að skapgerð, tilfinningar, skoðanir og hegðun séu allt veigamiklir þættir persónuleikans. Þessir þættir geta þó verið svo margbreytilegir og mótsagnakenndir að sumir hafa lýst sjálfum sér svo að í þeim búi margir menn. Þó að slíkur skilningur á persónuleikanum lýsi vel hversu margþættur hann getur verið, á hann þó lítið skylt við hið afbrigðilega sálræna fyrirbæri sem nefnist margfaldur persónuleiki. Í margföldum persónuleika er persónuleikinn ekki aðeins margþættur heldur er munurinn á persónuleikaþáttunum þess eðlis að vísindamenn hafa kosið að lýsa honum sem margföldum fremur en margþættum. Margfaldur persónuleiki er afar flókið fyrirbæri sem hefur ýmist verið flokkað sem geðsjúkdómur eða afbrigðilegt sálrænt ástand. Þeir sálfræðingar og geðlæknar sem hafa rannsakað hann hallast flestir að því að hann sé vörn einstaklingsins við óbærilegu andlegu og líkamlegu álagi á bernskuskeiði. Þeir lýsa honum sem gleymsku sem ætlað er að má úr vitundinni minningar um óþolandi lífsreynslu og sársaukablandnar tilfinningar sem einstaklingnum væri ofviða að horfast í augu við. Gleymskan felst í því að upprunalegi persónuleikinn gleymir hinum sársaukafullu atburðum en aðkomupersónuleikar myndast sem taka að sér að muna eftir atburðunum og bregðast við þeim. Upprunalegi persónuleikinn er því hvorki meðvitaður um reynslu sína né um tilvist hinna persónuleikanna.

Helstu einkenni margfalds persónuleika

Til þess að einstaklingur teljist hafa margfaldan persónuleika verður hann að sýna ákveðin einkenni: Um að minnsta kosti einn persónuleika annan en upprunalegan persónuleika er að ræða og hefur sá annað gildismat, sýnir ólíka hegðun og á sér aðra sögu og minningar en upprunalegi persónuleikinn. Ennfremur mælist margs konar sálfræðilegur og líffræðilegur munur á persónuleikunum. Einstaklingur með margfaldan persónuleika hefur oft þrjá til fjóra persónuleika, en sumir hafa þó mun fleiri. Það er afar mismunandi hversu oft og hversu lengi aðkomupersónuleikarnir ríkja, en þá hafa þeir bæði sálræna og líkamlega starfsemi einstaklingsins á valdi sínu. Stundum varir slíkt ástand í nokkrar mínútur, en algengast er að það vari í nokkrar klukkustundir eða daga. Dæmi eru þó um að aðkomupersónuleiki hafi ríkt í full tvö ár. Þar eð upprunalegi persónuleikinn er yfirleitt ekki meðvitaður um tilvist hinna persónuleikanna hefur hann ekki hugmynd um hvað gerist í lífi hans á þeim tíma sem þeir ríkja. Af þessum sökum eru oft alvarlegar minnisgloppur í vitund hans og lengri eða skemmri tímabil í lífi hans sem hann getur ekki gert grein fyrir. Þó svo að flestir aðkomupersónuleikarnir verði til í frumbernsku einstaklingsins verður hann yfirleitt ekki meðvitaður um tilvist þeirra fyrr en á fullorðinsárum. Oft verður hann þeirra fyrst var þegar hann leitar sér meðferðar hjá sálfræðingi eða geðlækni vegna minniserfiðleika sem valda honum oft ómældum vandræðum í námi, starfi og öllum mannlegum samskiptum. Í meðferð við margföldum persónuleika er oft beitt dáleiðslu, því í slíku ástandi er oft auðvelt að kalla fram hina ýmsu aðkomupersónuleika. Það hefur komið í ljós að aðkomupersónuleikarnir hafa oft litla sem enga hugmynd um tilvist hvers annars. Stundum veit samt einn þeirra um tilvist allra hinna. Sá er oft nefndur lykilpersónuleiki, því fagmaður byggir meðferðina á samstarfi við hann. Þeir vísindamenn sem hvað mest hafa rannsakað margfaldan persónuleika eru sammála um að ákveðnar vísbendingar geti gefið til kynna að um margfaldan persónuleika sé að ræða: 1. Frásagnir einstaklingsins af minnisgloppum og tímabilum sem hann getur ekki gert grein fyrir. 2. Hann kannast ekki við sögur af eigin gerðum og atvikum sem við hann eru tengd. 3. Frásagnir áreiðanlegra fjölskyldumeðlima eða annarra nátengdra sem herma að um breytingu á honum sé að ræða og að hann nefni sjálfan sig með öðru nafni. 4. Hægt er að ná til aðkomupersónuleikanna með dáleiðslu. 5. Hann vísar til sín í fleirtölu, segir „við“ í staðinn fyrir „ég“. 6. Hann er sífellt að finna teikningar, skilaboð, bréf og hluti í fórum sínum sem hann kannast ekkert við. 7. Saga er um þráláta og alvarlega höfuðverki sem eru undanfari djúps svefns, minnisleysis, krampafloga, drauma eða sýna. 8. Hann heyrir raddir sem honum finnst vera inni í höfðinu á sér en ekki koma utan frá. Það ber þó að taka fram að engin þessara vísbendinga ein og sér gefur tilefni til að draga þá ályktun að um margfaldan persónuleika sé að ræða. Margfaldur persónuleiki hefur löngum verið álitinn afar sjaldgæfur (e.t.v. einn einstaklingur í hópi hundrað þúsund íbúa). Hann hefur greinst mun oftar hjá konum en körlum. Geðlæknar og sálfræðingar hafa á síðustu árum sýnt fram á að margfaldur persónuleiki er í rauninni mun algengari en talið hefur verið. Mönnum hefur einfaldlega sést yfir hann sökum vanþekkingar. Fólk með margfaldan persónuleika hefur ýmist verið talið gætt yfirskilvitlegum hæfileikum, geðsjúkt (einkum konur) eða þá það hefur komist í kast við lögin (einkum karlmenn) sökum andfélagslegrar og refsiverðrar hegðunar aðkomupersónuleikanna. Það er fyrst og fremst minnisleysið sem greinir einstaklinga með margfaldan persónuleika frá geðsjúklingum, afbrotamönnum og fólki með yfirskilvitlega hæfileika.

Orsakir og sálfræðilegur skilningur

Það er almennt álit þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa margfaldan persónuleika að orsakir hans megi fyrst og fremst rekja til lífsreynslu einstaklingsins í frumbernsku. Líkamlegar og andlegar pyntingar, kynferðislegt ofbeldi, vanræksla, langvarandi fjarvistir foreldra, geðveiki foreldra og öfgafullt trúaruppeldi eru nokkrir af helstu orsakavöldunum. Sökum ósjálfstæðis síns, smæðar og þroskaleysis hefur barnið engin tök á að verja sig á fullnægjandi hátt gegn hinum óbærilegu andlegu og líkamlegu þjáningum sem það verður að sæta. Það grípur því til frumstæðasta varnarviðbragðs sem maðurinn þekkir, flóttans. En þar eð ungt barn getur ekki flúið umhverfi sitt og kringumstæður verður þessi flótti huglægur. Flótti barnsins felst í því að það aðskilur sig frá hinum sársaukafullu kringumstæðum með því að skapa ómeðvitað einn eða fleiri persónuleika. Þeim er ætlað er að taka á sig þjáningu barnsins eða hjálpa því til að afbera hana og bregðast við henni. Hver persónuleiki verður þannig andsvar við ákveðinni þjáningarfullri reynslu barnsins og hefur ákveðnu hlutverki að gegna til að vernda það eða hjálpa því. Greina aðkomupersónuleikarnir oft nákvæmlega frá því síðar á ævinni hvenær þeir urðu til og í hverju hlutverk þeirra var fólgið. Rannsóknir hafa ennfremur sýnt að beint samband er á milli fjölda persónuleika og fjölda þjáningarfullra atvika í lífi barnsins. Flestir aðkomupersónuleikarnir myndast á aldrinum fjögurra til sex ára, þó svo þeir geti komið til sögunnar bæði fyrr og mun síðar. Þeir myndast eins og áður segir fyrst og fremst til að hjálpa barninu að afbera eða lifa af óbærilegar kringumstæður, en þeir geta líka myndast til að uppfylla vöntun eða af þrá eftir einhverju sem barnið telur sig þurfa á að halda. Þannig getur einmana barn búið sér til leikfélaga, afskipt barn búið sér til trúnaðarvin o.s.frv. Mörg eðlileg börn gera slíkt, en grundvallarmunur er á þessum tveimur fyrirbærum. Venjulegt barn er meðvitað um „tilveru“ leikfélaganna og ræðir gjarnan við þá og um þá svo aðrir heyri, og þeir hverfa svo þegar barnið eldist. Barn með margfaldan persónuleika er hins vegar ekki meðvitað um tilvist „leikfélaganna“, og þeir hverfa ekki þegar barnið eldist. Ákveðnir einstaklingar eru líklegri en aðrir til að mynda margfaldan persónuleika. Upprunalegi persónuleikinn er venjulega feiminn og innhverfur og á erfitt með að höndla sterkar tilfinningar, svo sem reiði og síðar á ævinni kynferðislegar ástríður. Hann er oft hjálparvana og úrræðalaus gagnvart þeim aðilum í umhverfi hans sem vald hafa og gefur sig þeim því auðveldlega á vald. Hann er ennfremur ábyrgur og kröfuharður við sjálfan sig. Aðkomupersónuleikarnir eru hins vegar oft kærulausir og áhyggjulausir, vanþroska, baldnir og óprúttnir, auk þess sem þeir eru oft kynferðislega (of)virkir og haldnir áfengisáráttu.

Dáleiðsla í margföldum persónuleika

Auk ákveðinna skapgerðareinkenna og lífsreynslu sem talin eru gefa nokkra vísbendingu um hvaða einstaklingar eru líklegir til að mynda margfaldan persónuleika, verður að geta sefnæmis þeirra eða hæfileikans til að taka dáleiðslu. Það hefur sýnt sig að þeir sem mynda margfaldan persónuleika eru sérstaklega sefnæmir. Sumir hafa í rauninni skilgreint margfaldan persónuleika sem dáleiðslugleymsku eða gleymsku sem stafar af sjálfsdáleiðslu. Þar sem einstaklingar með margfaldan persónuleika eru sérstaklega sefnæmir reynist þeim auðveldara en öðrum að grípa til og nota ómeðvitað hæfileikann til sjálfsdáleiðslu þegar þeir eru undir óbærilegu álagi. Samkvæmt þessum skilningi má útskýra hinn geðlæga flótta barnsins, þ.e.a.s. sköpun persónuleikanna og minnisleysið á sársaukafulla atburði, sem sjálfsdáleiðslu sem barnið og síðar hinn fullorðni einstaklingur grípur ómeðvitað til þegar hann lendir í aðstæðum sem hann ræður ekki við. Sjálfsdáleiðslan eða hinn geðlægi flótti einstaklingsins verður þannig vörn hans og oft lífgjafi í andlegum og líkamlegum þjáningum. Þessi sjálfsdáleiðsla á ekkert skylt við sjálfsdáleiðslu sem fólk getur tileinkað sér eftir bókum til þess t.d. að geta slakað á. Hún á aftur á móti skylt við hæfileikann til að aðskilja sig frá líkamlegum þjáningum sem sumir sem sæta langvarandi pyntingum verða færir um að tileinka sér. Í þeim tilfellum er þó ekki um gleymskuástand að ræða.

Minnisleysið í margföldum persónuleika

Eins og greint hefur verið frá er minnisleysi á atburði og tímabil í lífi einstaklinga með margfaldan persónuleika eitt af höfuðeinkennum fyrirbærisins. Tvær kenningar liggja til grundvallar skilningi vísindamanna á minnisleysinu. Fyrri kenningin leggur áherslu á tengslin á milli dáleiðsluástands og minnis, en sú síðari leggur aftur á móti áherslu á tengslin á milli hugarástands og minnis. Hvað fyrri kenninguna varðar mun flestum kunnugt um að það sem fram fer í dáleiðsluástandi er yfirleitt hulið meðvitundinni þegar úr ástandinu er horfið (nema dáleiðari gefi fyrirmæli um annað). Eigi mótun aðkomupersónuleikanna í margföldum persónuleika sér því stað í dáleiðsluástandi, eins og áður hefur verið gefið í skyn, er því eðlilegt að tilvist þeirra sé upprunalega persónuleikanum hulin. Það er ennfremur vel þekkt að í dáleiðsluástandi greinir einstaklingurinn frá atburðum sem eru meðvitundinni löngu týndir. Það er einmitt vegna þessa aðgengis að fortíðinni sem dáleiðslumeðferð við margföldum persónuleika er álitin svo árangursrík sem raun ber vitni. Í sögu og fortíð einstaklings með margfaldan persónuleika er nefnilega í flestum tilfellum bæði orsakanna og batans að leita. Hvað seinni kenninguna varðar benda aðrir hins vegar á hin sterku tengsl á milli hugarástands og minnis. Samkvæmt kenningum þeirra er sú reynsla sem menn verða fyrir eða það efni sem þeir tileinka sér í ákveðnu hugarástandi aðgengilegast þegar viðkomandi er aftur í svipuðu hugarástandi. Hugarástandið ræður þannig að verulegu leyti hvað maður man og hverju maður gleymir. Ólíkir persónuleikar sem verða til í ólíku hugarástandi eiga því samkvæmt þessari kenningu ekki greiðan aðgang að minningum hver annars. Þeir vísindamenn sem aðhyllast þessa kenningu líta gjarnan svo á að persónuleikarnir í margföldum persónuleika séu í rauninni ekki annað en fulltrúar fyrir mismunandi hugarástand einstaklingsins.

Hvað aðgreinir persónuleikana?

Margs konar sálfræðilegur og líffræðilegur munur greinir persónuleikana að. En það er einmitt þessi munur sem kom vísindamönnum á sporið um að hér væri ekki á ferðinni afbrigði sefasýki eða geðklofa, heldur alvarlegt sálfræðilegt fyrirbæri sem hefði sterk og sérstæð líffræðileg einkenni. Vegna hinna óvefengjanlegu ytri þátta, þ.e. hinnar þjáningarfullu lífsreynslu sem lýst hefur verið hér að framan, er talað um líffræðileg einkenni frekar en orsakir. Mælingar á heilastarfsemi byggðar á heilariti hafa sýnt að hún er breytileg eftir því hvaða persónuleiki á í hlut. Svo er einnig með ýmsar rafmælingar á húð og hjartarit. Lyktarskyn, bragðskyn, snertiskyn, sársaukaskyn, litaskyn og stærð á sjáöldrum eru einnig breytileg eftir því hvaða persónuleiki á í hlut. Sumir persónuleikarnir virðast t.d. alls ekki hafa neitt sársaukaskyn. Dæmi er um að einstaklingur fékk greinileg útbrot á húð hvenær sem ákveðinn persónuleiki ríkti, en þau hurfu jafnskjótt og hann hvarf. Alvarleg líkamseinkenni eins og blinda, heyrnarleysi og lömun einkenna suma persónuleikana, og lýtur því líkaminn lögmálum þeirra á meðan viðkomandi persónuleiki hefur hann á valdi sínu. Rithönd, rödd, málfar og orðalag eru einnig afar ólík hjá persónuleikunum. Niðurstöður á ýmsum sálfræðilegum prófum sem ætlað er að gefa upplýsingar um persónuleikann annars vegar og ýmiss konar heilastarfsemi hins vegar eru svo og afar breytilegar eftir því hvaða persónuleiki á í hlut. Það sem hefur vakið sérstaka athygli taugasálfræðinga sem hafa kynnt sér margfaldan persónuleika er að svo virðist sem breyting verði oft á ríkjandi hlutverki heilahvelanna þegar skiptir um persónuleika. Einstaklingar sem hafa ríkjandi vinstra heilahvel, eins og a.m.k. 70% alls fólks, eru rétthendir. Aðkomupersónuleikarnir skrifa aftur á móti mjög oft með vinstri hendi og virðast örvhendir. Ýmsar tilgátur eru uppi til að útskýra bæði breytingar á ríkjandi starfsemi heilahvelanna og hinn auðsæja líffræðilega mun á persónuleikunum. Sumir vísindamenn ganga svo langt að tala um misvirk taugakerfi hjá hinum mismunandi persónuleikum. Með þessu eiga þeir við að mismunandi taugabrautir í miðtaugakerfinu séu virkar hjá persónuleikunum. Aðrir benda aftur á móti á þá staðreynd að í dáleiðslu má ná slíku valdi yfir æðri heilastarfsemi þess dáleidda að vitræn starfsemi, skynjun og hreyfingar gerbreytast. (Dæmi um slíkt sjáum við þegar dáleiðsla er notuð sem skemmtiatriði). Þriðja útskýringin felur í sér að líffræðilegur munur sem aðgreinir persónuleikana ákvarðist af hugarástandinu. Persónuleikarnir eru samkvæmt þessari kenningu einfaldlega merki ákveðins hugarástands. Þó svo að enn sé vísindamönnum ekki fullljóst hvað veldur hinum mikla sálfræðilega og líffræðilega mun á persónuleikunum undirstrikar hann engu að síður aðgreiningu og sjálfstæði þeirra.

Meðferð við margföldum persónuleika

Meðferð við margföldum persónuleika krefst mikillar þolinmæði, sérþekkingar og hæfni þeirra sem hana stunda. Talið er að batahorfur í margföldum persónuleika séu góðar að þessum skilyrðum uppfylltum og meðferð taki frá tveimur upp í fimm ár. Dáleiðslu er yfirleitt beitt, sérstaklega í upphafi meðferðarinnar þegar verið er að komast í samband við hina mismunandi persónuleika og leita orsaka myndunar þeirra. Samruni persónuleikanna í eina heild er lykillinn að batanum. Hinn brotni og sundurgreindi persónuleiki einstaklingsins er enduruppbyggður með því að gera alla persónuleikana meðvitaða um tilvist og hlutverk hver annars. Það er afar þýðingarmikið að hjálpa persónuleikunum að skilja að þeir eru aðeins einn hluti af heilum einstaklingi. Einstaklingar með margfaldan persónuleika geta ekki lifað eðlilegu lífi, sökum hinnar alvarlegu minnisbrenglunar sem einkennir þá. Það er ekki erfitt að gera sér í hugarlund að geysilegur kvíði og öryggisleysi fylgir í kjölfar vitneskjunnar um að lengri og skemmri tímabil í ævi manns og þau atvik sem þá hafa átt sér stað eru manni hulin. En sökum þess að hægt er að lækna margfaldan persónuleika skiptir rétt greining sköpum.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur