persona.is
Hvað er offita?
Sjá nánar » Átraskanir/Offita
Margir ganga um með miklar áhyggjur af líkamsþyngd sinni. Eins og sjá má í umfjöllun um lystarstol og lotugræðgi hér á vefnum geta þessar hugsanir farið út í öfgar og hreinlega orðið að sjúkdómi. Margir hafa þó fulla og réttmæta ástæðu til að hafa áhyggjur af umframþyngd og öll höfum við gott af því að temja okkur heilbrigt mataræði og holla hreyfingu.   Alþjóða heilbrigðisstofnunin skilgreinir offitu eftir svokölluðum líkamsþyngdarstuðli (BMI = Body Mass Index) en hann segir til um alvarleika umframþyngdar eftir líkum á fylgikvillum. Talað er um að sá sem er með BMI 30 eða hærra sé kominn með offitu. Sá sem er með BMI milli 25 og 30 er sagður í yfirþyngd en sá sem er með BMI milli 18.5 og 25 er sagður í kjörþyngd.  Aðrar aðferðir hafa verið notaðar til að meta umframþyngd og áhættu eins og t.d. mittismál og hlutfallið milli mittis- og mjaðmamáls.  Mittismál sem er minna en 94 cm hjá körlum og minna en 80 cm hjá konum er innan eðlilegra marka. Mittismál sem er meira en 102 cm hjá körlum og 88 cm hjá konum er vísbending um að bregðast verði við og jafnvel leita utanaðkomandi aðstoðar. Fitan sem sest framan á kvið er talin hættulegri en önnur líkamsfita.  Þegar hlutfall mittis- og mjaðmamáls er skoðað er miðað við að hjá körlum sé hlutfallið 1 eða minna en hjá konum sé það 0.8 eða minna