persona.is
Hvað er geðveiki?
Sjá nánar » Geðsjúkdómar
Í þessum pistli verður fjallað um hugtakið geðveiki. Þegar talað er um geðveiki er oftast átt við geðklofa og geðhvarfasýki. Einkenni geðveiki eru alvarlegar andlegar truflanir, svo sem ranghugmyndir eða ofskynjanir og skert raunveruleikaskyn. Þetta er nær alltaf svo alvarlegt að hinn sjúki getur ekki lifað eðlilegu lífi og þarf því að dveljast á geðdeild í mislangan tíma. En hvað er geðveiki? Mikið hefur verið um það deilt hvernig skýra beri geðveiki og margar hugmyndir eru til. Ekki verður reynt að fjalla um allar þessar hugmyndir, heldur er áherslan lögð á tvö ólík sjónarmið: Annars vegar það sjónarmið að geðveiki sé sjúkdómur og hins vegar það sjónarmið að geðveiki sé ekkert annað en orð sem notað er yfir þá sem brjóta óskráðar reglur þjóðfélagsins. Áður en þessi sjónarmið eru kynnt er lauslega fjallað um hugmyndir sem uppi voru fyrr á öldum um geðveiki.

Gamlar hugmyndir

Samkvæmt fornum heimildum var talið að illir andar, eins og djöfullinn, stjórnuðu huga og líkama andlega truflaðs fólks. Íbúar í Babýlon höfðu t.d. nöfn yfir alla þá illu vætti sem gátu orsakað sjúkdóma. Idta hét sá illi andi sem olli geðveiki. Svipuð dæmi eru til frá Fornkínverjum, Fornegyptum og Gyðingum. Hægt var að reka þessa illu anda úr fólki með særingum, töfrabrögðum og náttúrulegum efnum sem unnin voru úr jurtum. Ef þetta bar ekki árangur var gripið til róttækari ráða, sem fólust í því að gera líkama sjúklinganna að óbærilegum dvalarstað fyrir hina illu vætti. Sjúklingar voru húðstrýktir, brennimerktir og grýttir og oft leiddu þessar aðferðir til þess að þeir dóu. Gríski læknirinn Hippókrates (u.þ.b. 460-377 f.Kr.) afneitaði allri djöflatrú og hélt því fram að geðveiki, eins og líkamlegir sjúkdómar, ætti sér eðlilegar orsakir og bæri því að meðhöndla hana eins og hvern annan sjúkdóm. Hippókrates áleit að heilastarfseminni væri stjórnað af ákveðnum vessum líkamans. Ef röskun varð á jafnvægi þessara vessa gat það truflað heilastarfsemina og leitt til geðtruflana. Næstu sjö aldirnar var þessi kenning Hippókratesar, að geðsjúkdómar ættu sér eðlilegar orsakir, almennt viðurkennd, bæði af öðrum Grikkjum, svo sem Platon, Aristótelesi og Galen, og Rómverjum. Hippókrates og fylgismenn kenningar hans börðust fyrir bættri og mannúðlegri meðferð á geðsjúkum og lögðu mikla áherslu á hollt og gott mataræði, þægilegt umhverfi, nudd og böð. Á miðöldum voru kenningar um djöfla og illa anda endurvaktar. Talið var að hinir geðtrufluðu væru í bandalagi við djöfulinn og að þeir hefðu yfirnáttúrlegan kraft til að koma af stað náttúruhamförum og drepsóttum og gætu gert öðru fólki illt. Til að refsa sjálfum djöflinum voru sjúklingar barðir og pyntaðir. Þessi mannvonska náði hámarki í galdraofsóknum þegar þúsundir manna (margir þeirra geðtruflaðir) voru dæmdir til dauða og brenndir á báli. Á síðari hluta miðalda voru stofnuð hæli til að geyma geðtruflað fólk. Þessi hæli voru eins konar fangelsi þar sem komið var fram við vistmenn eins og dýr, þeir voru hlekkjaðir í dimmum, ógeðslegum klefum og áttu enga von um að fá nokkurn tíma að yfirgefa hælin. Litlar endurbætur eða breytingar áttu sér stað fyrr en á seinni hluta 18. aldar þegar franska lækninum Philippe Pinel var leyft að leysa hlekkina af nokkrum vistmönnum. Mörgum til mikillar undrunar bar þetta árangur. Þeir vistmenn sem álitnir voru stórhættulegir og vonlausir náðu sér það vel að þeir gátu yfirgefið hælið eftir að hafa verið meðhöndlaðir sem manneskjur. Í byrjun 20. aldar urðu miklar framfarir í læknisfræði og sálfræði. Árið 1905 var sannað að geðtruflun sem kallast almennt slýni átti sér líkamlegar orsakir. Sárasóttarsýkillinn heldur til í líkamanum, þótt fyrstu smiteinkenni á kynfærum hverfi, og eyðileggur smám saman taugakerfið. Þessi eyðilegging á taugakerfinu orsakar bæði líkamlega og andlega hrörnum og veldur róttækum breytingum á persónuleika, ranghugmyndum og skynvillum. Þessi uppgötvun, að slýni stafaði af sýkli, hvatti þá mjög til dáða sem töldu að rekja mætti geðtruflanir til líffræðilegra þátta. Álit manna var að ef hægt væri að rekja eina geðtruflun til líffræðilegra þátta ætti að vera hægt að rekja orsakir allra geðtruflana til líffræðilegra ferla. Aðferðir læknavísindanna voru notaðar til að kanna geðtruflanir og svokallað sjúkdómslíkan varð allsráðandi. Sjúkdómslíkanið gengur út frá því að geðtruflanir séu sjúkdómar og hægt sé að finna líkamlegar orsakir fyrir öllum geðsjúkdómum.

Sjúkdómur eða stimpill

Sú hugmynd að geðtruflanir séu sjúkdómar nýtur hylli enn í dag. Margir eru ósáttir við það og halda því fram að geðtruflanir séu ekki sjúkdómar í sama skilningi og líkamlegir sjúkdómar (42,43,46,47). Almenn gagnrýni á sjúkdómslíkanið er að það sé ekki hægt að sanna að um sjúkdóm sé að ræða þegar afbrigðileg hegðun er athuguð. Í læknisfræðinni er oftast hægt að greina bæði sjúkdómseinkennin og þá þætti sem valda þeim. Það er t.d. hægt að ákvarða að einstaklingur hafi 39 stiga hita. Þar að auki er hægt að sýna fram á hvaða örvera eða örverur orsökuðu einkennin með því að taka sýni og rannsaka hvaða örverur eru til staðar. Þegar sjúkdómslíkaninu er beitt á afbrigðilega hegðun er yfirleitt ekki hægt að meta bæði sjúkdómseinkennin og orsakir þeirra. Ákveðin hegðunarmynstur eða sjúkdómseinkenni eru flokkuð sem afbrigðileg og nefnd einhverju ákveðnu nafni. Þetta nafn er síðan notað sem skýring á því hvað olli sjúkdómseinkennunum. Þannig eru einkenni einstaklings sem haldinn er ofskynjunum og forðast öll félagsleg samskipti greind eða gefið nafnið geðklofi. Þegar spurt er hvers vegna einstaklingurinn sé haldinn ofskynjunum og forðist félagsleg samskipti er svarið oft: Vegna þess að hann er geðklofi. Þannig er nafnið geðklofi ekki bara notað til að lýsa ákveðnu hegðunarmynstri eða sjúkdómseinkennum heldur einnig talið orsök þeirra. Þetta er vitaskuld skýring sem bætir engu við þekkingu okkar á orsökum geðtruflana. Þeir sem aðhyllast sjúkdómslíkanið andmæla þessari gagnrýni og halda því fram að þótt við vitum ekki hverjar orsakir margra geðsjúkdóma séu, þá megi vel vera að framtíðarrannsóknir muni leiða þær í ljós. Til dæmis er sá möguleiki fyrir hendi að það muni uppgötvast að einhver ákveðin efni í heilanum orsaki það hegðunarmynstur sem kallast geðklofi. Jafnvel þótt líkamlegar orsakir margra geðrænna truflana séu óþekktar útiloki það ekki að geðrænar truflanir séu sjúkdómur. Það á einfaldlega eftir að finna þessar orsakir. Sem dæmi má nefna geðtruflunina almennt slýni. Fyrir 1905 var ekki vitað hvað orsakaði sjúkdómseinkenni slýnis, sem eru meðal annars ranghugmyndir og skynvillur, en eftir 1905 uppgötvaðist að sárasóttarsýkillinn olli þeim. Önnur rök á móti því að nota sjúkdómslíkanið til að skýra geðrænar truflanir eru að einkenni líkamlegra sjúkdóma eru allt annars eðlis en einkenni geðsjúkdóma. Þessi gagnrýni, sem oftast er kennd við Thomas Szasz og margir hafa stutt, bendir á að einkenni líkamlegra sjúkdóma séu óháð lögum og reglum þjóðfélagsins. Lungnabólga og sárasótt lýsa sér á sama hátt í New York, París og Nýju?Kaledóníu. Öðru máli gegnir um einkenni geðsjúkdóma sem eru háð þjóðfélagsviðmiðum. Öll þjóðfélög hafa ákveðnar reglur og brot á þessum reglum eru kölluð ákveðnum nöfnum, t.d. er sá sem tekur eitthvað sem hann ekki á kallaður þjófur. Í öllum þjóðfélögum eru einnig til óskráðar reglur en engin ákveðin nöfn eru til yfir brot á þessum reglum. Allir vita t.d. að þegar þeir tala við einhvern horfa þeir í augu eða á munn viðmælanda en ekki á eyrun. Ef einhver brýtur þessar reglur grípa menn stundum til þess ráðs að kalla það einhverju nafni. Í gamla daga voru nöfn eins og nornir og djöfulóður notuð til að lýsa einstaklingum sem brutu reglurnar. Í dag eru orð eins og geðveiki notuð til að lýsa þeim. Geðveiki er því ekkert annað en orð sem notað er til að lýsa fólki sem hegðar sér á annan hátt en reglur þjóðfélagsins kveða á um að rétt sé. Þegar einstaklingur hefur verið dæmdur eða um sinn verið kallaður geðveikur er nær vonlaust að losna við það nafn, það er eins konar stimpill. Hinn stimplaði einstaklingur er settur inn á stofnun þar sem þess er vænst að hann hegði sér afbrigðilega. Hann byrjar að sjá sjálfan sig sem geðveikan og sjálfsmynd og sjálfsálit koðna niður. Þetta verður svo aftur til þess að hinn stimplaði hegðar sér á afbrigðilegan hátt til þess að uppfylla þær væntingar sem hann hefur um sjálfan sig og þær væntingar sem stofnunin hefur til hans. Ekki tekur betra við ef viðkomandi á þess kost að útskrifast af stofnuninni. Utan hennar þarf hann að takast á við fólk sem býst við hinu versta af honum, er hrætt við hann og vill koma honum inn á stofnunina sem fyrst aftur. Þessi þrýstingur verður oft þess valdandi að hann er settur inn aftur. Til að styðja mál sitt vitna þessir fræðimenn oft í þá hegðun sem kallast einu nafni geðklofi. Hegðun sem einkennir geðklofa er m.a. óviðeigandi tjáning á tilfinningum og skortur á tengslum við aðra þegna þjóðfélagsins. Í stað þess að kalla þessa hegðun sjúkdóm má allt eins skilgreina hana sem brot á óskráðum reglum þjóðfélagsins, t.d. fer það eftir þeim reglum hvernig fólk tjáir tilfinningar. Í þjóðfélagi okkar á tjáning á sorg rétt á sér við jarðarfarir en ekki í öðrum þjóðfélögum. Sama má segja um mannleg samskipti, en reglur um þau eru mjög misjöfn eftir þjóðfélögum. Þeir sem aðhyllast þá kenningu að geðveiki sé ekkert annað en dómur þjóðfélagsins neita því ekki að þeir sem þjást af svokölluðum geðsjúkdómum þjáist af vanlíðan eða í sumum tilvikum af ótrúlegri vellíðan. Það sem þeir leggja áherslu á er að þekking fræðimanna og almennings byggist á því hvernig einstaklingurinn hagar sér, en ekki á vitneskju um það sem gerist innra með honum. Þegar maður hleypur nakinn og öskrandi um götur bæjarins er sú ályktun dregin að eitthvað sé að innra með honum, að hann sé sjúkur, jafnvel þó þetta innra sjúka ástand hafi ekki verið athugað. Þeir sem halda því fram að geðveiki sé sjúkdómur andmæla þessari gagnrýni harðlega. Þeir benda á að þessi kenning fjalli nær eingöngu um það sem gerist eftir að einstaklingurinn hefur verið stimplaður geðveikur, en takist ekki á við tvær grundvallarspurningar sem eru: Hvers vegna brýtur fólk óskráðar reglur þjóðfélagsins? og: Hvers vegna eru það bara sumir, af öllum þeim fjölda fólks sem gerir slíkt, sem eru stimplaðir geðveikir en aðrir ekki? (25,35). Því er haldið fram að það sé of mikil einföldun, jafnvel rangt, að geðveiki sé ekkert annað en orð sem fólk notar yfir þá sem brjóta reglur þjóðfélagsins. Máli sínu til stuðnings benda þeir á rannsóknir á geðklofa. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á fólki með geðklofa sýna að mun meiri líkur eru á því að ættingjar þeirra fái einnig sjúkdóminn en fólk sem ekki er skylt fólki með geðklofa. Eineggja tvíburum er mun hættara við að fá báðir geðklofa en tvíeggja tvíburum. Vitaskuld má halda því fram að geðklofi gangi í ættir vegna umhverfisþátta. Foreldrar sem haldnir eru geðklofa gætu haft þau áhrif á börn sín að þau truflast líka á geði. En rannsóknir sem gerðar hafa verið á börnum sem fædd eru af mæðrum með geðklofa, en tekin frá þeim skömmu eftir fæðingu og komið í fóstur, renna frekari stoðum undir tilgátuna um erfðir. Þessir einstaklingar hafa verið athugaðir á fullorðinsárum og bornir saman við þá einstaklinga sem áttu heilbrigða foreldra og höfðu einnig verið settir í fóstur skömmu eftir fæðingu. Tíðni geðklofa reyndist mun hærri meðal þeirra sem fæddir voru af geðklofa móður. Fylgjendur sjúkdómslíkansins spyrja því: Ef geðklofi er ekkert annað en stimpill sem notaður er yfir þá sem brjóta skrifaðar eða óskrifaðar reglur þjóðfélagsins – hvernig í ósköpunum er þá hægt að skýra að þessi stimpill virðist ganga í erfðir?.

Samspil

Hvar stöndum við þá? Er geðveiki sjúkdómur eða ekki? Líklegast er að bæði sjónarhornin hafi nokkuð til síns máls. Geðsjúkdómar eru flóknir og það er ótrúlegt að aðeins ein orsök geti skýrt svo flókið ferli. Svipað má segja um marga líkamlega sjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma. Orsakir þeirrra eru margar, svo sem erfðafræðilegir þættir, offita, streita og reykingar. Vitað er að margir geðsjúkdómar eiga sér líffræðilega orsök, en það er ekki þar með sagt að aðrir þættir hafi ekki áhrif. Það er t.d. ótrúlegt að erfðir einar sér valdi geðklofa. Upplag annars vegar og streita vegna umhverfisþátta hins vegar orsaka vafalaust þessa veiki í einhvers konar víxlverkun. Viðbrögð annarra gagnvart fólki sem á við geðræn vandamál að etja hafa líka sitt að segja. Rannsóknir hafa leitt í ljós að hugmyndir almennings um geðveiki einkennast af fáfræði. Almenningur virðist hafa þá skoðun að einstaklingar sem þjást af geðtruflunum séu hættulegir, óhreinir og heimskir. Það hjálpar áreiðanlega engum, sem á við geðræn vandamál að etja, að ná sér ef hann finnur þessi viðhorf gagnvart sér. Af ofangreindu er ljóst að það er ekkert einfalt svar við spurningunni um hvað geðveiki sé. Geðveiki, eins og svo margir sjúkdómar, á sér margar orsakir. Erfðafræðilega getur einstaklingur átt það á hættu að verða geðveikur, en aðrir þættir eins og uppeldi, umhverfi og persónuleiki geta ráðið úrslitum um það hvort hann verður geðveikur eða ekki. Það má því segja að geðveiki sé flókið samspil erfða og umhverfis.

Heiðdís Valdimarsdóttir, sálfræðingur