persona.is
Hugsana- og hegðanamynstur átröskunarsjúklinga
Sjá nánar » Átraskanir/Offita

Margir átröskunarsjúklingar byrja daginn með því að hugsa um hversu ómögulegir þeir séu og hversu ömurlegur líkami þeirra sé og hversu vont sé að finna fyrir honum. Hugsunin stenst í rauninni engin rök og er fjarri sannleikanum en fyrir þeim sem þjáist af átröskun er hún óvéfengjanleg staðreynd.

Á morgnana er hugurinn hreinn og tær eftir nóttina, ef sjúkdómurinn hefur ekki seilst í draumana, en sterkustu hugsanir hins þjáða eru samt sem áður niðurrifshugsanir og þær valda óhjákvæmilega ótta og kvíða fyrir komandi degi.

Lífið snýst einungis um útlitið og útlitið, hvernig sem á það er litið, er sannarlega slæmt.

Átröskunarsjúklingar bera sig sífellt saman við aðra, sérstaklega bera þeir sig saman við fólk af sama kyni, og það er skemmst frá því að segja að þeir standast ekki samanburðinn. Þess vegna verða þeir oft mjög afbrýðisamir og gramir og mjög óánægðir með sjálfa sig. Þessar eyðileggjandi tilfinningar eru mjög stór partur af átröskuninni og vara mest allan daginn. Og í kjölfar þeirr fylgir oft mikið þunglyndi og þær hugsanir byrja að herja á hvernig sá sjúki eigi að breyta sér; fara í ljós, líkamsrækt, borða ekkert, fara í megrun, kaupa ný föt, fara í skurðaðgerðir , allt sem hugsast getur til að til að breyta útlitinu og þau eru ótrúleg dæmin um þetta og uppfinningarnar.

Auðvitað eru þetta ákveðnar leiðir frá hinni djúpu vanlíðan og það er með þessar leiðir einsog aðrar, þær eru blekkingar sem duga bara tímabundið. Þegar ekkert gagnar, engin ánægja næst og enginn árangur heldur, því sjúklingurinn er strangur dómari í eigin sök. Þá skapast meiri ótti og vanlíðan fyrir vikið. Ferlið byrjar því í ótta og vanlíðan og endar í ótta og vanlíðan ef ekkert er að gert.
Hugsanir átröskunarsjúklinga eru oftar en ekki afar óraunsæjar en það breytir ekki þeirri staðreynd að þær stýra líðan hans leynt og ljóst. Einn sagði t.d. frá því, þegar hann var á batavegi, að hann hefði alltaf átt erfitt með að sitja á stól því þá fyndi hann fyrir magafellingunum og þess vegna passaði hann sig stöðugt á því að kippa í fötin sín, ef einhver var nálægur, svo engin hætta væri á því að viðkomandi sæi hversu feitur maginn á honum væri.

Dæmin um úthugsaðar flóttaleiðir sjúklingsins og sífellda vanlíðan hans vegna lélegrar og óraunsærrar sjálfsmyndar eru endalaus en eitt aðaleinkennum þeirra er óttinn. Hræðsla og ótti við höfnun er eitt aðaleinkenni átröskunarsjúklings, honum finnst hann ekki samboðin samfélaginu, hann skammast sín og skömmin fylgir honum og oft ver hann sig með því að gera lítið úr öðrum, reynir á þann hátt að bæta eigin sjálfsmynd.

Þetta skapar stöðuga togstreitu og bætir í óttann. Hann hafnar öðrum vegna þess að hann hafnar sjálfum sér, gerir lítið úr öðrum af því að sjálfum finnst honum hann vera einskis virði, nærir neikvæðar tilfinningar um sjálfan sig og heiminn.

Þar sem átröskunarsjúklingurinn er sífellt að hugsa um þyngd sína er vigtin eins og bensín á hans niðurrifseld og við mælum ekki með því að hann vigti sig sjálfur og fylgist með tölunni vegna þess að hættan á áráttuhegðun liggur í leyni og bíður alltaf handan við hornið.

Átröskunarsjúklingurinn á það nefnilega til að stíga oft á vigtina, frá 1 sinni til 5 sinnum á dag og stundum oftar (sumir átröskunarsjúklingar hafa reyndar aldrei stigið á vigt vegna hræðslu við hana en það er sjaldgjæft) og í hvert skipti sem talan á vigtinni lækkar þá er hann ánægður en langt frá því að vera sáttur því hann spyr sig: Hvað á ég nú að gera til þess að talan lækki ennþá hraðar ? Ef talan hefur hefur aftur á móti risið þá eflast niðurrifshugsanir og frekari pælingar og stófelld áform um hvernig hann eigi nú að grenna sig, hvað sé eiginlega til ráða, þetta geti ekki gengið, hann verði að hafa hraðan á og eins er vís að allar hugsanir hans snúist um hina voðalegu tölu sem segir reyndar eitt og aðeins eitt; hann er ómögulegur, óalandi, óferjandi og síðast en ekki síst ljótur með afbrigðum og þá er spegillinn enginn vinur.

Hann getur nefnilega ráðið allri líðaninni og ef hann lítur í spegil eða sér sjálfan sig sig speglast í búðarglugga og sér sig “feitann” þá myndast mikill innri ótti og vanlíðan. Spegillinn er hinn alræmdi og óskeikuli dómari og yfirleitt sýnir hann alltaf eitthvað ljótt sem á sér þó enga stoð í raunveruleikanum. Á þessu getur auðvitað verið daga – og stigsmunur eftir því hversu þungt haldinn hann er hverju sinni.

Eins og áður segir snýst allt því um vigtina og baráttuna við kílóin.
Mælingar og grömm og magn og og kaloríufjöldi verða það sem knýr hann áfram og á þessu vill hann um fram allt hafa stjórn á og svo getur farið að dagarnir snúist um þetta eitt og ekkert annað. Að passa upp á vigtina. Anorexiunni tekst það, ef svo má að orði komast, en búlimíusjúklinginum tekst það hinsvegar ekki því yfirleitt innibyrðir hann mikið magn í átköstum: menn kunna þá að spyrja hvers vegna test búlemíunni það ekki eins og anórexíunni.

Ástæðan er sú að þegar búlimían er með yfirhöndina og átkast verður að eiga sér stað er það vegna mikillar tilfinningalegar og líkamlegrar vanlíðunar og þá fjúka allar “reglur” út í veður og vind. Þetta varir á meðan á átkastinu stendur. En þegar því lýkur taka við systurnar grimmu, sektarkenndin, skömminn og höfnunin og þá losar hún sig við matinn einn, tveir og þrír, kastar öllu upp og strengir þess jafnvel heit að gera þetta aldrei aftur. Á morgun komi betri tíð með blóm í haga. En sama tíð ríkir á morgun og lífið breytist í vítahring sem engan endi tekur ef sá veiki leitar sér ekki hjálpar.

En þar sem mesti óttinn er óttinn við að fitna kann hann að koma í veg fyrir að viðkomandi leiti sér hjálpar og finni bata. Óttinn er í raun svo mikill að það má líkja honum við dauðaóttann þegar hann gerist hávær. Þegar svo er komið er hjálpin lífsnauðsynleg.

 

Þórdís Filipsdóttir

CDC Ráðgjafi

prismasetur.is