persona.is
Hugmyndir um uppeldi fyrr og nú
Sjá nánar » Uppeldi
Hugmyndir nútímafólks um uppeldi eru ólíkar hugmyndum fyrri alda. Þegar litið er til baka óar fólki oft við frásögnum af harðneskjulegu uppeldi barna, til dæmis því sem tíðkaðist á 16. og einkum á 17. öld í engilsaxneskum löndum. Uppeldi mótaðist þar ekki síst af hugmyndum hreintrúarmanna sem töldu börn í eðli sínu syndug og að þau yrði að berja til batnaðar. Slíkar hugmyndir um eðli og uppeldi barna náðu líka hingað til lands með hreintrúarstefnu sem myndaði hugmyndafræðilegan grunn að uppeldi í Danaveldi um langt skeið.

Fyrri tíðar hugmyndir á Íslandi

Hugsjónir stefnunnar birtust hérlendis um miðja 18. öld í ýmsum tilskipunum, þar á meðal í Tilskipan um húsagann. Þar var kveðið á um að temja börnum „guðsótta, hlýðni og erfiði (iðni)“ og láta þau ekki alast upp í „leti, sjálfræði og öðru vondu“. Í endurminningum manna speglast þessi viðhorf í frásögum af því hve uppeldi var strangt og vægðarlaust. Fullorðnir kröfðust skilyrðislausrar hlýðni af börnum og refsingar voru óvægar. Börn voru iðulega barin, hýdd og niðurlægð á annan hátt. Í tímaritinu Ármann á Alþingi, 1. árgangi frá 1829, sem ritstjórinn Baldvin Einarsson helgar uppeldi, er bóndi einn, fulltrúi ríkjandi uppeldisaðferða, látinn lýsa uppeldi barna sinna meðal annars með þeim orðum að „þegar þau hafa farið að stálpast og verða ódæl, þá hefi ég barið þau eins og fisk, svo það er ekki mér að kenna, að þau eru bæði þrá og stórlynd“. Þekking á þroska barna var hvorki mikil né almenn, sem kom meðal annars fram í því að ekki var talið ráðlegt að sýna börnum hlýju eða tilfinningasemi. Við það yrðu þau einungis löt og óþekk. Til eru sögur um það að ung börn hafi verið bundin við rúmstólpa í bænum allan daginn meðan heimilisfólk fór á engjar eða var við önnur útistörf. Má geta nærri hvaða áhrif slík meðferð hefur haft á skapgerðarþroska barna. Strax í æsku voru þau sett í ýmsa erfiða vinnu bæði heima og að heiman við misjafnan aðbúnað. Dæmi eru um að meðferðin hafi valdið varanlegu heilsutjóni. Næsta víst er að börn fátækra hafa verið mun verr sett en börn höfðingja eða efnameiri fjölskyldna um andlegt og líkamlegt atlæti.

Brautryðjendur

Í Evrópu fór harðneskjulegt uppeldi að lokum að vekja óhug og leiða til áhuga á þroska og þörfum barna. Upp úr 1700 hafði umræða um uppeldi til dæmis aukist mjög og upp spruttu ýmsar hugmyndir. Þar voru áhrifamiklir þeir John Locke (1632-1704) og Jean?Jacques Rousseau (1712-1778) en hugmyndir þeirra hafa haft áhrif á uppeldi allt fram á þennan dag, auk þess sem kenningar þeirra bregða ljósi á umræðu um uppeldi á öllum tímum. Hér verður staldrað aðeins við þessa snillinga. Locke og Rousseau voru sammála um margt í uppeldisaðferðum þó að oft séu þeir kynntir sem talsmenn gagnstæðra viðhorfa. Báðir töldu þeir fráleitt að börn fæddust syndug og það væri hlutverk uppalenda að berja þessar syndir úr þeim. Þeir voru báðir andvígir líkamlegum refsingum og töldu önnur viðbrögð vænlegri til að stemma stigu við duttlungum barna. Þessar hugmyndir boðuðu gerbreytt viðhorf til barna og uppeldisaðferða á þeim tíma. Locke taldi að hugur barnsins væri við fæðingu nánast sem óskrifað blað og það væri síðan hlutverk umhverfisins að rita á þetta blað. Þannig gerir Locke mikið úr áhrifum umhverfis og þar með uppalenda á það hvernig til tekst við að örva þroska barns. Locke lagði ríka áherslu á hlutverk foreldra við að efla skynsemi barna sinna, gefa þeim tækifæri til að svala forvitni sinni og hjálpa þeim að hafa stjórn á hvötum sínum. Foreldrar áttu samkvæmt þessu að líta á sig sem kennara frá því að barnið væri í vöggu og hefja strax skipulegt uppeldisstarf. Til þess að kennslan yrði sem áhrifaríkust yrðu foreldrar að krefjast skilyrðislausrar virðingar barnsins en beita þó ekki hörku, heldur leiðbeina börnunum um rétta hegðun. Með því móti væri refsingar ekki þörf en barnið kæmist smám saman að því hvað væri leyfilegt og hvað ekki. Segja má að Locke hafi lagt mikla áherslu á að örva skynsemi barnsins en minni áherslu á að efla tilfinningaþroska þess. Hann er ágætt dæmi um málsvara mikilla og skynsamlegra afskipta foreldra af börnum sínum. Rousseau var ekki sammála Locke um að hefja bæri skipulagða kennslu á meðan börnin væru ung. Hann taldi þau ekki reiðubúin til að njóta slíkrar kennslu vegna þess að þau skorti þroska til rökhugsunar og hæfileika til að skilja samband orsaka og afleiðinga. Formleg kennsla og nám ætti ekki að fara fram fyrr en slík hæfni hefði náð að þroskast. Rousseau taldi því að þekkingarítroðsla á unga aldri væri skaðleg barninu. Hann færði rök fyrir þeirri skoðun að börn væru í eðli sínu góð, en þjóðfélagið spillti þeim, og lagði því áherslu á náttúrulegt uppeldi sem fólst í því að fyrstu árin kannaði barnið umhverfi sitt án of mikillar íhlutunar hinna fullorðnu. Í raun talar hann um „vel skipulagt frelsi“ þar sem barnið fær tækifæri til að uppgötva „sannindi“ heimsins af eigin raun, óttalaust við refsingar fullorðinna. Hann er því ágætur fulltrúi þeirra uppeldisfrömuða sem telja að uppeldisskipulag fullorðinna, hversu skynsamlegt sem það kann að virðast, orki oft tvímælis. Rousseau lagði áherslu á að þankagangur barna væri afar frábrugðinn hugsun fullorðinna. Þess vegna væri ekki eðlilegt að tala um að börn væru heimsk eða siðlaus, hugsun þeirra ætti aðeins eftir að ná meiri þroska. Í uppeldinu yrði því að miða við þroska þeirra á hverjum tíma. Hann vildi lengja þann tíma sem börn hefðu til að þroskast áður en þau yrðu tekin í tölu fullorðinna. Þannig varð hann meðal þeirra fyrstu sem bentu á mikilvægi unglingsára og litu á þau sem sérstakt og mikilvægt þroskatímabil.

Þrjár uppeldisaðferðir á upplýsingaröld

Upplýsingaröld, á síðari hluta átjándu aldar og fyrri hluta þeirrar nítjándu, einkenndist af því, eins og nafnið bendir til, að upplýsa alþýðu um hvaðeina sem mætti verða til nytsemdar, þar á meðal um uppeldi barna. Og ekki fer hjá því að skilningur fólks á þroska barna hafi þá aukist. Í fyrrnefndu riti Baldvins Einarssonar (2) er boðskapurinn settur fram með frásögn bónda af mismunandi atlæti er hann hlaut í uppvexti sínum er hann fór úr einni vist í aðra. Sem barn missti bóndinn báða foreldra sína og var „settur í niðursetu“. Dregnar eru upp myndir af þrenns konar vist. Bóndinn segir svo frá um fyrstu vist sína:

„. . . var ég þá svo heppinn, að ég lenti hjá bónda þeim, er bestur var maður og ráðvandastur í allri sveitinni; hann fór með mig að mestu leyti, og í öllu sem mér var áríðandi, eins og sín eigin börn. Svo var hann nærgætinn við mig, að þegar annaðhvort börnin hans eða vinnufólkið kallaði mig niðursetu mér til minnkunar, var honum þar að mæta, ef hann heyrði það. Hann kenndi mér að lesa eins og sínum eigin börnum; og þegar ég var á 8. árinu, lét hann mig fara að draga til stafs. En á þessu sama ári andaðist hann; barst ég þá svo illa af, að ég neytti hvorki svefns né matar, því ég elskaði hann eins og besta föður.“

Bóndi segir frá þeim heilræðum sem fóstri hans gefur honum þegar hann liggur banaleguna, að elska guð og óttast, gera meðbræðrum sínum gott, leiðbeina öðrum, greiða vandræði þeirra og vísa þeim veg til velgengni og gleði. Þá víkur bóndi að næstu vist:

„Nokkru eftir andlát fóstra míns var ég settur niður hjá öðrum bónda í hreppnum, hann var mjög ólíkur fóstra mínum, mesti ofstopi í geði, og sat þess vegna aldrei á sárshöfði við vinnuhjú sín, hann bar ekki hið minnsta skynbragð á gott uppeldi, eða þess nytsemi, bar þess vegna enga umsorgun fyrir sálar eða líkama krafta hjá sér eða öðrum. Mér þótti nú skipta um þegar ég kom til þessa manns; hann fyrirleit mig . . . Limirnir dönsuðu nú hér eins og annars staðar eftir höfðinu; allir á bænum fyrirlitu mig, og börnin eins, þótt þau væru yngri en ég; allir kölluðu mig niðursetuna mér til minnkunar. Húsbóndi minn gaf engan gaum að mér í öðru skyni en því, að hafa sem allra mest gagn af mér . . . hann lagði mér nú miklu meira og strangara erfiði á herðar, en framboðið var afli mínu og aldri, og gaf mér eigi meiri tómstundir frá því, en hinum fullorðnu. Húsmóðirin var ekki hótinu betri; þegar henni þótti fyrir við mig, þá sá ég það alténd á askinum mínum, hann var þá ekki nema hálfur með einhverju vatnsblandi . . . Allt fór eftir þessu; þegar ég gat ekki afkastað því, sem hann setti mér fyrir, barði hann mig í bræði sinni, með ógnun og formælingum, þar við vandist ég til að gera allt af þrælsótta, og að svíkjast um, þegar ég sá mér lag. Þegar eitthvað smávegis hafði gengið aflaga, spurði hann mig oft, hvort ég hefði gert það . . . lofaði hann mér að hann skyldi ekki berja mig ef ég segi sér satt; en þegar ég hafði meðkennt, barði hann mig þrátt fyrir loforðið; þá tók ég upp á því að þegja, en það dugði heldur ekki, hann barði mig eins fyrir það; svona neyddi hann mig til að ljúga. Út af þessari meðferð varð ég beygjulegur, svo ég þorði ekki að líta upp á nokkurn mann, en undireins tilfinningalaus svo vel fyrir illu sem góðu, þrályndur og illlyndur. Hann hirti ekkert um að kenna mér að lesa eða að halda mér til að læra Kristnidóminn, svo ég tefðist ekki við það frá vinnunni; týndi ég því svo til öllu niður, sem ég hafði lært að lesa og pára hjá fóstra mínum.“

Þessari vist lauk með láti húsbóndans við mikinn létti drengsins. Bóndinn lýsir nú þriðju vist sinni hjá fátækum bónda, sem var:

„. . . ólíkur báðum mínum fyrri húsbændum, en þó lítt fallinn til að stjórna mér, svo sem ég nú var orðinn afvegaleiddur; hann var hið mesta gungumenni, afskiptalaus og hirðulaus; konan var nokkuð skárri, þó kvað ekkert að henni. Hér mátti ég nú að mestu lifa og láta, eins og ég vildi, því þar skipti sér enginn af, og má geta því nærri, að mér hafi ekki verið það hentugt með því lagi, sem komið var á mig, því þegar karlinn eða kerlingin fundu að einhverju við mig, þá lenti það við nöldur, og það tók ég ekki nærri mér; ég sagðist ekki vera skyldugur til að erfiða fyrst ég væri niðurseta, og það væri gefið með mér . . . Enginn hélt mér til að læra að lesa eða að læra Kristnidóminn að neinu ráði, mér lá það í léttu rúmi . . .“

Þessar þrjár myndir sem dregnar eru upp af mismunandi uppeldisaðferðum og áhrifum þeirra á barnið, þroska þess og vöxt, áttu auðvitað að veita uppalendum skýr boð um heppilegt uppeldi. Lýst er þrenns konar uppalendum: fyrst leiðandi, þá skipandi eða refsandi og síðast afskiptalausum. Leiðandi uppalandi örvar hæfni barnsins og hvetur það til dáða með umhyggju sinni, ástúð, hlýju og leiðbeiningum. Skipandi eða refsandi uppalandi niðurlægir barnið og brýtur niður sjálfstraust þess. Aðferðir hans ala á sviksemi, kergju, þvermóðsku, ósannindum og geðillsku. Afskiptalausi uppalandinn á ekki heldur upp á pallborðið í þessum boðskap því að hann gerir ekkert til að þroska barnið og hvetja það til að takast á við sjálft sig heldur lætur það afskiptalaust. Þessi boðskapur á ekki síður við nú en árið 1829 þegar Ármann á Alþingi kom út, þótt einstök atriði þeirra mynda sem dregnar voru upp þá þyki nú heldur harðneskjuleg, þar sem heldur mannúðlegri sjónarmið eru ráðandi í uppeldi. Það er athyglisvert að rannsakendur nú til dags, sem annt er um að kanna samspil uppeldisaðferða og þroska barna, hafa einnig unnið út frá svipaðri þrískiptingu uppeldisaðferða og ofangreind dæmi lýsa. Meðal þessara rannsakenda er bandaríski sálfræðingurinn Diana Baumrind.

Þrenns konar nútímauppeldi

Baumrind hefur athugað samband þroska barna á forskólaaldri við uppeldishætti foreldra. Hún greindi börnin í þrjá hópa eftir sjálfsaga, sjálfstæði og sjálfstrausti þeirra og eftir því hversu athugul þau voru og vinsamleg í samskiptum. Í fyrsta hópi voru virk börn og lipur í samskiptum. Þau voru sjálfstæð, öguð og höfðu trú á sjálfum sér, auk þess sem þau voru að jafnaði vingjarnleg og samvinnufús. Í öðrum hópnum voru börn sem höfðu nokkra trú á sjálfum sér, en voru þó bæld og vansæl. Einnig voru þau óvinveitt, tortryggin og vantreystu öðrum. Í þriðja hópnum voru börn sem höfðu minnsta tiltrú á sjálfum sér, sýndu skort á sjálfsaga og voru árásargjörn. Í athugun á uppeldisháttum foreldranna voru athugaðir fjórir þættir: Hvernig foreldrar stjórnuðu barninu, hvers konar þroskakröfur, félagslegar, tilfinningalegar og vitsmunalegar, foreldrar gerðu til barnsins, hvernig foreldrar notuðu skýringar í samskiptum við börnin og hvort hlýja og hvatning einkenndi samskiptin. Baumrind greindi foreldrana í þrjá hópa eftir því hvaða uppeldishættir þeim voru tamastir: Í leiðandi foreldra, skipandi foreldra og eftirláta foreldra. Leiðandi foreldrar kröfðust þroskaðrar hegðunar af barninu. Þeir settu skýr mörk um hvað væri tilhlýðilegt og hvað ekki og notuðu til þess skýringar. Þeir hvöttu börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þannig lögðu þeir áherslu á umræður við börnin þar sem fram komu bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur voru settar. Þeir sýndu börnunum einnig mikla hlýju og uppörvun. Þessir uppeldishættir reyndust tamir foreldrum þeirra barna sem flokkuðust í fyrsta hópinn sem nefndur var hér að ofan. Skipandi foreldrar stjórnuðu börnunum með boðum og bönnum. Orð þeirra voru lög sem ekki mátti efast um og þeir refsuðu börnunum fyrir misgjörðir. Þeir notuðu því sjaldan röksemdir eða sýndu börnunum hlýju og uppörvun. Þetta voru oftast foreldrar barna í öðrum hópi. Eftirlátir foreldrar ólu börnin upp í miklu frjálsræði, jafnvel stjórnleysi, og skiptu sér ekki mikið af börnum sínum eða hugsuðu um að örva sjálfstraust og sjálfstæði þeirra. Þeir settu fáar reglur og gengu lítt eftir því að börnin fylgdu þeim. Þeir gerðu líka litlar kröfur til barnanna um þroskaða hegðun, en sýndu þeim þó meiri hlýju en skipandi foreldrar sýndu börnum sínum. Þetta reyndust oftast vera foreldrar barnanna í þriðja hópi, þeirra sem voru þroskaminnst með tilliti til þeirra þátta sem athugaðir voru. Niðurstöður þessar eru athyglisverðar fyrir uppalendur. Í fyrsta lagi, ef bornir eru saman uppeldishættir leiðandi foreldra og skipandi foreldra, ættu niðurstöðurnar að hvetja stranga foreldra sem stjórna börnum sínum með boðum og bönnum til að nota frekar þá aðferð að skýra út fyrir barninu hvað því sé fyrir bestu. Þeir fá vísbendingu um að leit eftir sjónarmiðum barnanna sé vænlegri leið en valdboðið, að fá börnin til að skýra afstöðu sína og taka þannig ákvörðun sameiginlega. Þeir fá líka ábendingu um mikilvægi þess að sýna börnunum hlýju og virðingu. Önnur niðurstaða rannsóknar Baumrinds, sem kemur ef til vill fleiri íslenskum foreldrum á óvart en hin fyrri, er sú hversu mikið skortir á að börn sem alin eru upp í miklu frjálsræði séu sjálfstæð, virk eða þroskuð. Svo virðist vera sem samband sé á milli frjálsræðis, eftirlætis, umburðarlyndis, stjórnleysis eða afskiptaleysis foreldra, hvert svo sem réttnefnið er, og þess að börnin eigi erfitt með að setja sér mörk. Það kann að vera vegna óskýrra leiðbeininga sem börnin eiga erfitt með að greina hvað er viðeigandi og hvað ekki. Sjónarmið þeirra Lockes og Rousseaus eru dæmi um meginstrauma sem liggja að baki nútímaumræðu. Ekki er efast um að sýna beri börnum sérstaka athygli og mikla mildi, en nokkur ágreiningur er um hvernig mótun þeirra eigi að eiga sér stað. Rannsókn Baumrinds gefur síðan hugmynd um tiltölulega nýlega rannsókn á uppeldi sem er sannarlega eftirtektarverð þó að auðvitað megi ekki heimfæra niðurstöður erlendra rannsókna eða fræðikenninga umsvifalaust á íslenska uppeldishætti.

Koma kenningar að gagni í uppeldi?

Það verður að gaumgæfa vel fræðikenningar sem ætlunin er að hagnýta. Sumir spyrja jafnvel hvort þeirra sé yfirleitt þörf, börn hafa um aldir komist á legg án atbeina sérstakra uppeldisvísinda. Er ekki áhættuminnst að láta brjóstvitið ráða ferðinni áfram? Auðvitað hlýtur uppalandi að láta torskilin eða skringileg fræði víkja ef þau rekast á skynsemina. En uppalendur hafa alltaf leitað til kenninga í einhverjum skilningi þótt ekki sé nema til þeirra sem koma fram í tíðaranda hverrar aldar. Kenningar hreintrúarmanna og hugmyndir Lockes eða Rousseaus eru dæmi um það. Barnauppeldi hlýtur með öðrum orðum að byggjast, að minnsta kosti að hluta, á þeim tíðaranda sem ríkir og því sem fólk veit best og telur réttast. Því má segja að þar sé um að ræða kenningar, þó að ekki séu þær alltaf formlegar eða strangvísindalegar. Það er þess vegna ekki alveg rétt að börn hafi verið alin upp um aldir án nokkurra kenninga. Hver einasta kynslóð og sérhver menning býr yfir reynslu og hugmyndum sem nýtast sem vegvísar í uppeldi þó að þær hafi ekki alltaf verið kallaðar uppeldis? eða sálfræði. Það er reyndar ekki heldur rétt að uppeldisstarf hafi alltaf gengið vel þangað til tilteknar fræðigreinar komu til sögunnar. Vissulega er varhugavert að gleypa við tískubólum og töfralausnum sem af einhverjum ástæðum eru alltaf að spretta upp í nafni fræða og mennta, en einnig er rétt að muna að kenningar um börn og uppeldi eru ekki ný bóla. Við hljótum að taka af þeim nokkurt mið. Þegar rannsóknir í barnasálfræði hófust fyrir alvöru á fyrri hluta þessarar aldar áttu tæknileg sjónarmið sinn þátt í því að áhuginn var jafnmikill og raun bar vitni. Fólk hafði fylgst með því hvernig vísindaleg aðferð skilaði stórkostlegum árangri víða í atvinnulífinu. Til dæmis hafði nákvæmt eftirlit með erfðaeiginleikum og fæðu aligrísa aukið fallþunga þeirra svo mjög að hagnaður af svínarækt hafði margfaldast. Það var ekki nema eðlilegt að fólk með gott hjartalag léti sér detta í hug að vísindaleg aðferð gæti hentað til fleiri hluta en að fita svín; af hverju mætti til dæmis ekki nota hana til þess að ala upp betri börn? Nú er ljóst að nútímakenningar í barnasálfræði geta ekki af sér einhlíta tæknifræði eða endanlegar lausnir. Þær geta verið til gagns, gefið hugmyndir, jafnvel verið til grundvallar tiltekinni aðferð í uppeldismálum. Vísindalegur uppruni kenninga um börn gerir þær þó ekki sjálfkrafa réttar eða hagnýtar. Engin kenning leysir mann undan efasemdum og ákvörðunum sem óhjákvæmilega fylgja því að vera manneskja. Fjölmargar rannsóknir, til dæmis rannsókn Baumrinds, benda til þess að saman fari uppeldisaðferðir foreldra og tilteknir samskiptahættir barna í viðureign þeirra við umheiminn. Börn foreldra sem taka mildilega en með vökulli festu á uppeldi sýna mestan tilfinninga? og félagsþroska. Börn afskiptalausra foreldra eru að jafnaði fremur stjórnlaus og börn skipandi foreldra einnig. Áður en svona rannsóknarniðurstöður eru gerðar að uppeldisformúlu er rétt að benda á að þær sýna ekki með óyggjandi hætti að uppeldisaðferðirnar orsaki hegðun barnanna. Börn sem eru ólík í lund kunna að laða fram ólíkar uppeldisaðferðir. Þannig kann að vera að þeim börnum sem eru einstrengingsleg í lund, kannski frá náttúrunnar hendi eða vegna aðstæðna, sé erfitt að stjórna með lýðræðislegum samningaaðferðum. Athuga verður að þroski barns mótast ekki einvörðungu af uppeldisaðferðum, heldur af heildarskilyrðum í uppvexti og af upplagi barnsins. Þessi sannindi eru reyndar bæði gömul og ný. Í Njálu stendur til dæmis að fjórðungi bregði til fósturs. Með þessi varnaðarorð í huga er sjálfsagt að gefa niðurstöðum rannsókna gaum og huga að því hvort ekki megi nýta sér slíkar niðurstöður til leiðbeiningar um uppeldi. En jafnframt er rétt að vara við því að alhæfa af of mikilli ákefð á grunni einnar rannsóknar og heimfæra upp á allt uppeldi. Ein rannsókn verður seint endanleg undirstaða alls uppeldisstarfs í skólum eða á heimilum.

Sigurður J. Grétarsson, sálfræðingur og Sigrún Aðalbjarnardóttir, uppeldisfræðingur