persona.is
Hugleiðingar við skólabyrjun 2008
Sjá nánar » Börn/Unglingar » nám

Hugleiðingar við skólabyrjun 2008

Þessa dagana eru grunnskólastarf að byrja. Heill árgangur, yfir 4.000 börn eru að byrja 10 ára grunnskólanám og leggja grunn að ævilangri menntun. Í fréttum ríkissjónvarpsins 20. ágúst kom fram að kostnaður við kaup á skólavörum “tæki í budduna” í mörgum fjölskyldum, kostnaðurinn væri 15 – 20.000 á barn. Er hugsanlegt að “væl” vegna mikils kostnaðar sendi börnunum röng skilaboð, undirstriki ekki mikilvægi skólagöngu og menntunar. Er hugsanlegt að einhver ný skólabörn skynji þetta sem vísbendingu um að þau eigi þetta ekki skilið, það sé ekki þess virði að eyða svo miklu í þau. Vonandi ekki, en samt finnst mér ástæða til að leiða hugann að stuðningi við skólanám barnanna. Það er líka ástæða til að leita hagstæðra innkaupa því óþarfa bruðl getur leitt af sér dekurtilfinningu sem er misjafnlega uppeldisleg.

Annað sjónarhorn er að líta svo á að allt til skólans eigi að vera “fríkeypis”, greitt af skólayfirvöldum. Það er fljótlegt að reikna út kostnaðinn sem yrði þá borgaður af sköttunum okkar. Ef við miðum við 15.-20.000 á barn sinnum 4.000, þá eru þetta 60-80 milljónir á ári. Þá fengju öll börn námsgögnin í skólanum, það væri ákveðinn grunnur, en foreldrar gætu að sjálfsögðu bætt við einhverjum lúxus. Í slíku fyrirkomulagi væri ekki eins mikil hætta á því að barnið fyndi að foreldrarnir hefðu ekki efni á eða tímdu ekki að búa það nógu vel í skólann. Er það of mikil forsjárhyggja að skólakerfið sjái alveg um þetta? Mundum við þá missa af möguleikanum á að börnin finni fyrir áhuga og metnaði foreldranna til að þau mæti vel út búin í skólann?

Það er ekki allt sem kostar peninga, það er mikilvægt að huga að öðrum þáttum líka. Tími sem foreldrar gefa sér til að sinna börnunum og námi þeirra og alúð sem þau leggja í verkefnið skiptir líka máli.

Hvað er þá mikilvægt í upphafi skólagöngu. Ég tel mikilvægast að börnin skynji stuðning foreldra sinna við skólagöngu og nám. Jákvætt og hvetjandi viðhorf foreldra gagnvart menntun og skólagöngu er góð byrjun. Það er mikilvægt fyrir foreldra að skoða hug sinn að þessu leyti, er hugsanlegt að gremja vegna eigin skólagöngu bitni á börnunum? Hvað getum við gert í því? Einn möguleikinn er að ná sátt innra með sér gagnvart eigin menntun, fyrirgefa kennurum og skóla fortíðarinnar eða að minnsta kosti reyna að losa sig við gremjuna til þess að neikvæð viðhorf spilli ekki fyrir barninu. Gefa sér tíma til að aðstoða barnið við heimanám, vera styðjandi og hvetjandi gagnvart þátttöku barnsins í félagslífi skólans. Taka þátt í foreldrastarfi, eineltisáætlun og öðrum forvarnaverkefnum, mæta á fundi vegna barnsins og styðja kennarann eftir því sem við á. Menntun barna okkar er ótvírætt forgangsmál og þau þurfa að finna að þau eigi það skilið!

JSK