persona.is
Hjálp í boði
Sjá nánar » Meðferð

Frá því að ég skrifaði hér síðast um áfallahjálp hafa mér borist ótal sögur af því hvernig fólk þarf að komast af án hjálpar eftir mikil áföll.  Hér á landi er sálfræðiþjónusta almennt ekki niðurgreidd og svo virðist sem að oft á tíðum sé hún enn í dag feimnismál fyrir mörgum. 

Ef fólk vill eða þarf á sálfræðiþjónustu að halda þarf það að leita sér aðstoðar hjá landsspítalanum eða félagsþjónustunni og það auðveldar vissulega ekki fólki að leita sér hjálpar. Þetta gerist vegna þess að í huga margra þarf maður að eiga við alvarlegan vanda að etja til að fara á spítala og það að fara til féló er sér stimpill út af fyrir sig.  Auk þessa eru þjónustur sem fólki stendur til boða en er hreinlega ekki sagt frá, líkt og þar sé um hernaðarleyndarmál að ræða.  Þannig er staðan til dæmis með áfallahjálpina hér á landi.  Svo virðist sem að það skipti ekki máli hvort fólk lendi í bílslysi, missi ástvin skyndilega af völdum sjúkdóms eða sjálfsvígs, verði vitni að hrikalegum atburðum eða annað álíka, það virðist vera handahófskennt hverjum er boðin aðstoð og hverjum ekki.  Það er ekki verið að setja út á þá aðstoð sem boðin er, heldur hreinlega, að hún er ekki boðin í öllum þeim tilfellum þar sem hennar er þörf. 

Það kann að vera erfitt að átta sig á því hvenær maður þarf á hjálp að halda en í kerfi eins og okkar verður það mun erfiðara fyrir fólk og oft jafnvel ómögulegt.  Einstaklingur sem á erfitt með að umgangast fólk og er óöruggur með sjálfan sig mun ekki leita sér aðstoðar á spítala og ef honum er illa við að leita sér aðstoðar félagskerfisins, hvað á þessi einstaklingur þá að gera?  Almennt er fólki ekki sagt hvað því stendur til boða og má leiða rök að því að það stafi hreinlega af því að sú aðstoð nægi ekki ef margir leiti í hana.  Þetta er til dæmis málið hjá háskólanum en þar er boðið upp á sálfræðiaðstoð fyrir námsmenn en öll þau ár sem ég eyddi þar heyrði ég aldrei einu orði á það minnst og í dag vekur það furðu fólks í háskólanum þegar það fréttir af því. Reynslan og rannsóknir hafa sýnt að án hjálpar eru miklar líkur á að þessum einstaklingi muni hraka til muna, fara á mis við ýmislegt og ekki njóta lífsins eins og hann ætti að geta.  Þetta verður mun meira áberandi þegar fólk hefur upplifað áföll af einhverjum toga og fær ekki aðstoð við að vinna úr því.  Fólk sem ekki nær að vinna úr alvarlegum áföllum þjáist gjarnan af ýmsum vandamálum sem tengjast beint upplifun þeirra og hefði mátt koma í veg fyrir með því að bjóða aðstoð á réttum tíma.  Vegna vandamálanna verður þetta fólk illa starfshæft og því hefur verið sýnt fram á að í álagsmiklum störfum verður oft mikil mannekla þegar starfsmönnunum er ekki boðin aðstoð.  Vegna þessa hafa flestar þjóðir innlimað sálfræðiþjónustu sem grunnþjónustu við starfsstéttir eins og lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutninga og her.  Þetta höfum við ekki gert.

Hjá nágrönnum okkar dönum þurfti stórslys til þess að hrinda hlutunum í framkvæmd.  Árið 1990 kviknaði í ferjunni Scandinavian Star með þeim afleyðingum að 158 manns fórust.  Vegna gífurlegs þrýsings frá eftirlifendum, ættingjum og þjóðinni allri brást danska ríkisstjórnin við og setti sálfræðiaðstoð og þá fyrst sérstaklega áfallahjálp í almannatryggingakerfið.  Það er sorglegt ef við þurfum álíka hörmungar til þess að vekja fólk til umhugsunar um rétt sinn til hjálpar en svo virðist þó oft vera.  Hér á landi er nóg um áföll og ætti því að vera kappsmál að standa rétt við bakið á þeim sem upplifa þau á einhvern hátt.  Það að gera ekkert kostar okkur sem þjóðfélag mun meira til lengri tíma litið en að bjóða þá aðstoð sem þarf og þannig getum við einnig tryggt að það verði ekkert feimnismál fyrir fólk að leita sér hjálpar þegar því líður illa og á erfitt með að takast á við lífið.

Eyjólfur Örn Jónsson Sálfræðingur