persona.is
Heyrnarskerðing
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Stundum er talað um heyrnarskerðingu sem „ósýnilega fötlun“. Víst er um það að fæstir skilja til fullnustu þau margslungnu vandamál sem heyrnarskerðingu fylgja, enda erfitt fyrir fullheyrandi mann að ímynda sér tilveru án hljóða. Þegar við fæðingu erum við böðuð í hljóðum. Eðlileg heyrn er forsenda þess að við lærum að túlka þessi hljóð, forsenda þess að við lærum að búa til og skilja hin ýmsu hljóðtákn sem smám saman verða meginundirstaða tjáskipta – talað mál. Við þjálfum heyrnina til þess að stjórna raddstyrk og framburði, til þess að nema hættumerki og til þess að njóta umhverfisins. Tiltölulega lítil heyrnarskerðing getur seinkað málþroska og bjagað tal barna. Vaxandi heyrnarskerðing á fullorðinsaldri getur valdið verulegri félagslegri fötlun, óöryggi og þunglyndi, sem oft vill fylgja þeirri auknu einangrun sem af hlýst. Vegna vaxandi tjáskiptaörðugleika kjósa margir þessa einangrun þótt þeir óttist hana um leið. Heyrnarskerðing er eitt algengasta heilsufarsvandamál á Íslandi í dag. Með viðeigandi forvörnum, greiningu og meðferð mætti koma í veg fyrir mjög verulegan hluta tilfella og létta raunir flestra þeirra sem skerðast. Hljóð og heyrn Mannseyrað er furðulega næmt verkfæri sem nemur ótrúlegustu blæbrigði hljóða. Megineinkenni hljóða eru (a) styrkur, þ.e.a.s. hversu öflugt hljóðið er, og (b) tíðni, þ.e.a.s. hvort hljóðið er djúpt eða skrækt. Nánast öll hljóð sem við heyrum eru samansett úr margslunginni blöndu af hljóðum með breytilegum styrk og tíðni. Heilbrigt eyra skynjar þessar samsetningar og túlkar án mikillar fyrirhafnar. Að vísu eru takmörk fyrir skynjunarmörkum mannseyrans. Hljóðstyrkur sem farinn er að valda sársauka (og um leið skaða) er tíu billjón sinnum meiri en veikasti styrkur sem eyrað nemur. Sömuleiðis er tíðniskynjun mannseyrans nokkuð takmörkuð. Þannig heyra hundar mun hærri tíðni en menn, að ekki sé minnst á leðurblökur. Það er gömul hefð að skipta eyranu í þrjá meginhluta, ytra eyra, miðeyra og innra eyra. Hljóðhimnan nemur hljóðbylgjuna, og leiðslukerfi miðeyrans magnar boðin og skilar þeim inn í innra eyra. Heyrnartaugin tekur svo við skilaboðum frá innra eyranu er breytir hreyfiorkunni sem hljóðbylgjan framleiðir í rafboð sem berast til heilans sem síðan túlkar, geymir og líkir eftir, ef við á. Helstu einkenni heyrnarskerðingar Heyrnartap er í megindráttum tvenns konar: a) leiðslutap, b) skyntaugatap. Leiðslutap er bundið við ytra eyra og miðeyra og er hér eiginlega um vélræna truflun að ræða, þ.e.a.s. skerðingu á leiðslu hljóðsins inn í innra eyra. Skyntaugatap á rætur sínar að rekja til innra eyra eða heyrnartaugar. Yfirleitt er um að ræða einhvers konar skerðingu á starfsemi taugafruma í innra eyra. Venjulega er skerðingin að einhverju leyti tíðnibundin, þannig að sum hljóð heyrast betur en önnur. Einnig er talað um blandað heyrnartap þegar um er að ræða bæði leiðslutruflun og skyntaugatap. Einkenni leiðslutaps eru fyrst og fremst þau að hljóð virðast „of dauf“. Með hæfilegri mögnun heyrir viðkomandi nánast eðlilega. Oft fylgir leiðslutapi hella fyrir eyrum. Einkenni skyntaugataps eru mun flóknari, því að ekki er einungis um að ræða skertan styrk, heldur einnig töluverða bjögun hljóða, einkum ef um bakgrunnshávaða er að ræða. Algengast er að hátíðnihljóð séu skert, oft þannig að málhljóð eins og f, þ, s, p, t og k heyrast veik, bjöguð eða jafnvel alls ekki. Hávaðaþol er oft lélegt og eyrnasuð er ekki óalgengur fylgifiskur skyntaugadeyfu. Til þess að átta okkur betur á þessum tveimur tegundum heyrnartaps skulum við líkja eyrunum á okkur við hljómflutningstæki: a) Fyrri samstæðan er með tvo góða hátalara (innri eyru) en veikan magnara. Við heyrum aldrei nógu hátt í tækjunum. Því mætti segja að samstæðan væri með leiðslutap. b) Síðari samstæðan er með tvo slæma hátalara sem bjaga töluvert, líkt og eyru manna með skyntaugatap. Þótt magnarinn sé í lagi dugir ekki allskostar að keyra upp styrkinn. Þegar metið er örorkustig heyrnarskerðingar skiptir öllu máli að metið sé hvers eðlis skerðingin er. Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að flokka heyrnarskerðingu samkvæmt einhverri prósentutölu, t.d. með því að taka meðaltal af næmi eyrans á ákveðnu tíðnisviði, stundum að viðbættum flóknum formúlum. Nær væri, eins og stundum er gert, að meta skerðinguna með tilliti til „félagsgetu“ og taka þá tillit til þess hvernig viðkomandi bjargar sér með viðeigandi hjálpartækjum. Til frekari glöggvunar:  
Leiðslutap
Skyntaugatap staðsetning meins ytra eyra eða miðeyra innra eyra eða heyrnartaug kvörtun hljóð „of dauft“ hljóð óskýr, einkum í margmenni; oft hávaðaóþol og eyrnasuð tíðniskerðing yfirleitt allt tíðnisviðið yfirleitt hátíðnisviðið gagn af endurhæfingu heyrnartæki nýtast mjög vel; talgreining góð yfirleitt talsvert gagn af heyrnartækjum en talgreining oft skert batahorfur góðar yfirleitt slæmar  

Nú á dögum er gerður greinarmunur á heyrnarskertum og heyrnarlausum. Heyrnleysingjar teljast þeir sem eru yfirleitt með svo litlar heyrnarleifar að þær nýtast illa eða ekki til almennra tjáskipta, jafnvel með bestu hjálpartækjum. Heyrnleysingjar þarfnast mikillar sérkennslu og annast Heyrnleysingjaskólinn menntunarþarfir þeirra að mestu.

Allt fram á þessa öld var talað um heyrnleysingja sem „daufdumba“ og af vanþekkingu þannig gefið í skyn að þeir væru vitsmunalega skertir. Og ekki eru nema nokkrir áratugir síðan nafni sérskólans var breytt úr „Málleysingjaskólinn“, rétt eins og heyrnleysingjar hefðu ekkert mál. Heyrnleysingjar á Íslandi teljast liðlega 200, og hafa þeir á síðari árum barist fyrir viðurkenningu á því að teljast málminnihlutahópur sem á sér eigið mál, táknmálið. Í þeirri viðurkenningu felast svo ákveðin réttindi, svo sem táknmálstúlkun (t.d. í framhaldsnámi), textun myndefnis o.fl. Fram til þessa dags hafa fáir heyrnleysingjar aflað sér framhaldsmenntunar, en horfir nú nokkuð til bóta. Mjög hefur fækkað nemendum í Heyrnleysingjaskóla í seinni tíð, og koma þar til betri forvarnir (ekki síst bólusetning gegn rauðum hundum) og meiri blöndun alvarlega heyrnarskertra í almennum skólum. Samfara aukinni blöndun hefur umburðarlyndi gagnvart táknmáli aukist til muna, enda telja nú flestir sem til þekkja fulla ástæðu til þess að nýta til fullnustu alla tjáskiptamöguleika heyrnarskertra og heyrnleysingja. Orsakir og tíðni Þótt mönnum beri ekki saman um það hvernig eigi að skilgreina „eðlilega heyrn“ er óhætt að segja að a.m.k. 10-12% Íslendinga undir fimmtugu séu með heyrnarskerðingu sem veldur einhverjum vandkvæðum. Þegar aldurinn færist yfir okkur eykst þetta hlutfall verulega. Nærri lætur að á hverjum tíma séu 6-7% barna á skólaaldri með skerta heyrn, en í flestum tilfellum er þar um tímabundna skerðingu að ræða, þ.e.a.s. leiðslutap. Í Heyrnleysingjaskólanum sjálfum eru nú ekki nema liðlega 20 börn. Hins vegar annast ráðgjafarþjónusta skólans, í samvinnu við Heyrnar? og talmeinastöð Íslands, faglega aðhlynningu fyrir 80-90 börn um allt land á forskóla? og skólaskyldualdri sem nota heyrnartæki og/eða þarfnast sérstakrar meðferðar eða þjálfunar vegna varanlegrar heyrnarskerðingar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jafnvel smávægileg varanleg heyrnarskerðing á fyrstu árum ævinnar getur orsakað þroskafrávik. Sömuleiðis má færa gild rök fyrir því að fjöldi barna á forskóla? og grunnskólastigi gjaldi fyrir heyrnarskerðingu sem er of væg til þess að „kerfið“ uppgötvi vandamálið. Helstu orsakir leiðslutaps eru: Stífla í hlust, einkum vegna mergtappa eða aðskotahluta.Óvirk kokhlust með eða án vökva í miðeyra. Eyrnabólga og fylgifiskar hennar (t.d. gat á hljóðhimnu, samgróningar í miðeyra, o.fl.). Vefrænar breytingar í miðeyra (einkum otosclerosis). Áverki. Meðfæddir gallar. Helstu orsakir skyntaugataps eru: Erfðir. Vissar tegundir skyntaugataps eru ættgengar og eru ýmist meðfæddar eða gera vart við sig síðar á ævinni.Ýmsir sjúkdómar, ýmist á meðgöngutíma móður (t.d. rauðir hundar) eða síðar á ævinni (t.d. hettusótt og heilahimnubólga), geta skaddað innra eyra eða heyrnartaug. Súrefnisskortur, einkum í fæðingu. Ellihrörnun. Heyrn hrakar smám saman, einkum á hátíðnisviðinu og talgreining skerðist. Eiturverkun lyfja. Sum lyf, einkum ákveðin fúkkalyf, geta valdið varanlegum skemmdum á innra eyra. Hávaði. Þegar hljóð fara yfir ákveðin styrkleikamörk geta þau valdið tímabundnum og oft varanlegum, alvarlegum skaða. Forvarnir, greining og meðferð Miklu skiptir að heyrnarskerðingin uppgötvist sem allra fyrst, þannig að hægt sé að uppræta skaðann ef unnt er og ef ekki, þá að hefja viðeigandi (endur)hæfingu, m.a. heyrnartækjameðferð, þegar í stað. Hægt er að greina alvarlega heyrnarskerðingu þegar á fyrstu dögum ævinnar. Á fæðingardeild Landspítalans hefur Heyrnar? og talmeinastöð Íslands annast leitarpróf á nýburum í allmörg ár. Er þar stuðst við ákveðinn „áhættukvarða“ sem tekur mið af áhættuþáttum í meðgöngu? og fæðingarsögu, auk erfðasögu. Með einföldum kembimælingum hefur tekist að finna börn og hefja hæfingu þegar á fyrstu vikum ævinnar. Ræður slíkt miklu um þroskaferil barnsins. Þegar kemur að forskólaaldri gegna heilsugæsluaðilar mikilvægu hlutverki. Á heilsugæslustöðvum eru víða notuð stöðluð leitarpróf sem miða að því að uppgötva heyrnarskert börn og vísa þeim til viðeigandi meðferðaraðila. Í samráði við Heyrnar? og talmeinastöð Íslands hafa, auk heyrnarmælinga, verið gerðar tilraunir með svonefndar hljóðholsmælingar sem geta gefið til kynna vægt leiðslutap, og lofa þær tilraunir góðu. Ekki hafa slíkar mælingar enn verið stundaðar að neinu gagni í grunnskólanum, en erlendis hafa hljóðholsmælingar samhliða heyrnarmælingum yfirleitt gefið góða raun. Hins vegar hafa staðlaðar heyrnarmælingar í skólum hérlendis verið stundaðar með góðum árangri um áraraðir. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í greiningu og meðferð heyrnarskertra. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að sjá um eða hafa eftirlit með hvers konar heyrnarmælingum, úthlutun heyrnartækja, eftirmeðferð og kennslu. Eins og hliðstæðar opinberar stofnanir hefur fjársvelti takmarkað nokkuð athafnasvið H.T.Í., einkum hvað snertir þjónustu við landsbyggðina. Framvinda og horfur Auknar forvarnir, bætt heilsugæsla og framfarir í læknavísindum hafa dregið allverulega úr tíðni heyrnarskerðingar á Íslandi í seinni tíð. En betur má ef duga skal. Ekki er raunsætt að ætlast til þess að heyrnartæki og önnur heyrnarhjálpartæki fullnægi með öllu þörfum heyrnarskertra. Hins vegar hefur tækninni fleygt fram, og fjöldi ánægðra heyrnartækjanotenda eykst með degi hverjum. Viðhorf almennings og neytenda sjálfra til heyrnartækja er einnig að breytast mjög til batnaðar. Sömu sögu má segja um hávaðavarnir og heyrnarvernd, þótt enn eigum við langt í land á þeim vígstöðvum. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir skaðvaldinum og gera viðeigandi ráðstafanir. En hávaði er því miður enn ein algengasta orsök heyrnarskerðingar í þessum upplýsta heimi, og er sorglegt til þess að vita. Sífellt fleiri heyrnleysingjar um allan heim lifa nú breyttu lífi eftir kuðungsígræðslu, þar sem flókinn móttakari er tengdur beint inn í innra eyra og líkir eftir boðum heyrnartaugarinnar. Þessi tækni er enn í sífelldri mótun en lofar mjög góðu fyrir afmarkaðan hóp heyrnleysingja. Sömuleiðis mætti nefna svonefnd beinskrúfutæki sem nýtast vel þeim sem þjást af ólæknandi leiðslutapi og geta illa nýtt sér venjuleg heyrnartæki. Óhætt er að segja að við þekkjum fjölda úrræða til þess að draga mjög verulega úr tíðni heyrnarskerðingar hér á landi fyrir aldamót. Hins vegar skortir okkur trúlega umboð og fjármagn til þess að sá draumur rætist sem skyldi. Gylfi Baldursson