persona.is
Hegðunarvandamál barna og unglinga.
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Það má í raun segja að allir foreldrar gangi, að einhverju leyti, í gegnum að barnið þeirra eigi við einhverskonar “hegðunarvandamál” að stríða.  Það má sennilega segja að það sé  “eðlilegur” hluti af þroska barna að prófa mörk uppalenda sinna með ákveðnu millibili og þannig læra reglur og viðmið samfélagsins.  Sum börn lenda hinsvegar í að eiga við langvarandi og erfiðari hegðunarvandamál að stríða, og getur hegðun þeirra leitt til þess að þau lenda í árekstrum á heimilum, í skóla, og gagnvart jafnöldrum.  Við það myndast oft vítahringur sem bæði barn og umhverfi geta átt í erfiðleikum með að komast út úr.  Margir foreldrar þessara barna leita sér aðstoðar vegna hegðunar barna sinna.  Önnur börn lenda inn á borði sálfræðinga og annarra fagaðila skóla og/eða félagþjónustu, eftir að árekstrar hafa átt sér stað.  Mörg þessara barna uppfylla þá oft greiningarviðmið fyrir hegðunarröskun (conduct disorder), þá sem þú ert mögulega að vísa í, í spurningu þinni.  Hinsvegar er mikilvægast að horfa á barnið fyrst og fremst sem einstakling í vanda, og skoða hegðun þess í heild sinni í samhengi við umhverfi þess.  Reyna þannig að nýta allar þær upplýsingar sem við höfum til að aðstoða barnið.  Það er mismunandi, eftir því hversu alvarleg einkennin eru, hversu auðvelt (eða erfitt) er að draga úr neikvæðri hegðun þessara barna.  Börn sem eiga við “mildara” hegðunarvandamál að stríða, sem eru minnst skaðleg öðrum, þurfa oft töluvert minni aðstoð og oft er auðveldara að koma í veg fyrir að þau verði stimpluð sem “vandræðabörn”. Þetta eru börnin sem ljúga, skrópa, eru úti of lengi á kvöldin án leyfis, osfrv., og er alveg óþarfi að setja greiningu á þessi börn.  Önnur börn eiga við aðeins meira vandamál að stríða, vegna hegðunar sinnar, og eru meira “skaðleg” umhverfinu, t.d. stela og framkvæma skemmdarverk.   Að lokum eru það börnin með alvarlegustu hegðunarvandamálin, sem líklegri eru til að þurfa inngrips fagaðila og félamálayfirvalda.  Þetta eru börn sem eru í meiri hættu að eiga síðar við frekari vandamál að stríða, og þar af leiðandi er mikilvægt að bregðast við snemma.  Það eru þau börn eða unglingar sem t.d. brjótast inn, beita aðra líkamlegu ofbeldi, og jafnvel kynferðisofbeldi. Það er alltaf mikilvægt að skoða allt umhverfi barnsins, sem og hegðun þess, þegar við ætlum að bregðast við.  Þetta getur verið erfitt foreldrum og þurfa sumir foreldrar að líta í eigin barm og skoða sína hegðun og umhverfi.  Það er líka mismunandi hversu langvarandi erfiðleikar barnsins eru.  Unglingur sem t.d. er í “eðlilegu” félagslífi, hefur ekki áður glímt við hegðunarvandamál á yngri árum, er líklegri til að vera að ganga í gegnum erfitt tímabil sem tekur enda með aðstoð og umhyggju.  Erfiðara getur verið að breyta hegðun unglings sem hefur átt við margvísleg vandamál að stríða sem barn,  hefur t.d. áður fengið einhverskonar greiningu eða átt í öðrum langvarandi erfiðleikum með hegðun.  Eftir að hafa sagt þetta tel ég hinsvegar brýnt að reyna eftir fremsta megni að stimpla ekki barn sem “vandamálabarn” sem “hvort sem er” er líklegt til að verða “vandræðaunglingur”, og því litið á barnið sem vonlaust tilfelli sem lítið er hægt að hjálpa.  Það eru oft aðstæður barna sem þarf að laga og breyta, og mikilvægt er að hjálpa og styðja börnin frekar en að líta á þau sem vandamál.  Mörg þessara barna búa við erfiðar fjölskylduaðstæður, þar sem til staðar geta verið margskonar erfiðleikar, eins og vímuefnavandi foreldra eða systkina, þunglyndi, eða annað sem veldur vanlíðan.  Önnur börn eru með lágt sjálfsmat/sjálfstraust og eiga  í erfiðleikum með nám eða glíma við aðstæður sem gerir það að verkum að vanlíðan barnsins brýst út í reiði og uppreisn gagnvart viðmiðum samfélagsins.  Mikilvægt er að grípa inn eins fljótt og hægt er, því mörg þessara barna eigi á hættu að fara út í mikla vímuefnaneyslu og alvarleg afbrot. Það getur verið erfitt að takast á við hegðunarvandamál hjá barni og getur það krafist mikillar nærveru og þolinmæði, en það mun alltaf verða erfiðara því lengur sem við bíðum. Ef beðið er of lengi er meiri hætta á að barnið/unglingurinn venjist neikvæðu umhverfi og félagsskap, og hegðun þess orðin “harðsvíraðri” sem erfitt getur verið að snúa við.  Hinsvegar höfum við líka oft séð barn/ungling, sem í langan tíma hefur sýnt erfiða hegðun og virst ómögulegt að hafa áhrif á, snúa við blaðinu og ná áttum aftur.
 
 
 
Björn Harðarson Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingar