persona.is
Hegðunarstjórnun í kennslustofum
Sjá nánar » Börn/Unglingar » nám
Í gegnum árin hef ég fylgst með nemendum og kennurum í hundruðum kennslustofa. Ég hef tekið eftir því að hátterni nemenda er mjög breytilegt milli kennslustofa. Sums staðar eru nemendur kurteisir, glaðlegir og duglegir, annars staðar eru nemendur dónalegir, geðillir og latir. Í mörgum tilfellum er ekki hægt að rekja þennan mun til mismunandi bakgrunns nemenda. Hvað veldur? Líklega eru orsakirnar fjölmargar. Ég tel að ein meginorsökin sé mismundandi hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta milli kennara og nemenda. Því hærra sem hlutfall jákvæðra samskipta er, því betra andrúmsloft er í skólastofunni. Nemendur hegða sér betur og læra meira.  Stundum eru neikvæð samskipti milli kennara og nemenda. Af hálfu kennarans felast þau til að mynda í því að gagnrýna líkamsburð nemenda, benda á mistök þeirra, gera kaldhæðnislegar athugasemdir við hegðun þeirra, sýna vanþóknun með svipbrigðum, og svo framvegis. Kennarar sem hegða sér á þennan hátt álíta oft að það sé hlutverk þeirra að benda á það sem á vantar eða ofaukið er hjá nemendum. „Þú lærir af mistökum þínum“, gætu verið einkunnarorð þeirra. Aðrir kennarar leggja áherslu á jákvæð samskipti við nemendur. Þeir hrósa nemendum þegar þeir bera sig vel, benda þeim á það sem vel er gert, lofa félagslega hegðun sem er til fyrirmyndar, brosa til að sýna ánægju sína, og svo framvegis. Þessir kennarar líta svo á að nemendur læri best ef þeim er bent á það sem vel er gert frekar en það sem miður fer.  Í rannsóknum mínum hef ég hvað eftir annað komist að þeirri niðurstöðu að það sé fylgni milli þessara aðferða kennaranna til að stjórna hegðun nemenda sinna og hvernig nemendur hegða sér í skólastofunni. Niðurstöður mínar gefa til kynna að í þeim skólastofum þar sem nemendur stunda námið vel, taka vel eftir, fylgja fyrirmælum og taka virkan þátt í leik og starfi, er hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta 8 á móti 1. Þarna var um að ræða kennara sem hrósuðu, brostu, og áttu önnur jákvæð samskipti við nemendur sína átta sinnum fyrir hvert eitt skipti sem þeir gagnrýndu, skömmuðust, settu upp reiðisvip og fleira í álíka dúr.  Þetta hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta er svipað því sem Betty Hart og Todd Risley segja frá í sinni frábæru bók Meaningful differences in the everyday experience of young american children. Þau rannsökuðu samskipti foreldra og barna á leikskólaaldri og komust að því að á heimilum þeirra barna sem gekk best síðar meir höfðu foreldrarnir jákvæð samskipti við börnin aðra hverja mínútu. Þessi börn og foreldrar höfðu að meðaltali 6 sinnum jákvæð samskipti fyrir hvert eitt skipti sem neikvæð samskipti áttu sér stað. Hart og Risley halda því fram að hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta foreldra og barna hafi langvarandi afleiðingar sem nái langt út fyrir það sem flestir búast við. Ég er á þeirri skoðun að það sama megi segja um samskipti kennara og nemenda.  Fyrir nokkrum árum var ég beðinn um að hjálpa til í skólaumdæmi þar sem forráðamenn höfðu áhyggjur af fjölda nemenda sem þeir höfðu neyðst til að flytja úr almennum bekkjum yfir í sérkennslu og vildu gjarnan draga úr tíðni slíkra flutninga. Skólarnir sem um ræðir voru á svæði þar sem mikið af lágt launuðu verkafólki hafði aðsetur. Heimilisofbeldi, misnotkun áfengis og fíkniefna og önnur félagsleg vandamál voru áberandi á svæðinu. Margir nemendanna áttu við tilfinningaleg vandamál að stríða af þessum ástæðum. Það var ef til vill ein skýringanna hvers vegna 80% nemendur skólanna voru í sérkennslu, og voru greind með ýmis vandamál eins og ofvirkni, hegðunartruflanir, tilfinningaraskanir og námsörðugleika.  Þegar ég fór að fylgjast með kennslu í almennum bekkjum í skólanum komst ég að því að hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta var einn á móti fjórum, þ.e.a.s. kennararnir höfðu venjulega fjórum sinnum oftar neikvæð en jákvæð samskipti við nemendurna. Yfir sumarið tók ég að mér að kenna kennurunum að verða jákvæðari (að brosa, hrósa, snerta blíðlega o. s. frv.) og að forðast skammir, gagnrýni og kaldhæðni. Þetta bar mjög góðan árangur. Næsta skólaár höfðu kennararnir að meðaltali 167 jákvæð samskipti og á móti hverjum fjórum neikvæðum í hverri kennslustund. Hlutfall jákvæðra og neikvæðra samskipta var því 42 á móti einum! Aukið hlutfall jákvæðra samskipta hafði mikil áhrif á andrúmsloftið í kennslustofunum og jók námsárangur nemenda. Einungis 11% nemenda voru flutt úr almennum bekkjum í sérkennslu þetta skólaárið, en 80% voru flutt árið áður, þegar hlutfall jákvæðra samskipta var mun lægra.  Ég lauk nýverið við að kenna á tveggja daga námskeiði fyrir kennara þar sem sérstök áhersla var lögð á að fjölga jákvæðum samskiptum og fækka neikvæðum þannig að hlutfallið yrði að minnsta kosti 8 á móti 1. Eftir námskeiðið fékk ég bréf frá þakklátum kennara. Í bréfinu sagði m.a.: „Frábærar ráðleggingar! Ég vinn í eitruðu andrúmslofti þar sem skólastjórinn leggur fyrir þá ögunaraðferð að „hamra á nemendunum.“ Ráðleggingar þínar hafa sannfært mig um að það sé til betri aðferð við bekkjarstjórnun. Amen!“. Ég tek undir það, amen! Glenn Latham, prófessor og kennsluráðgjafi  www.behavior.org Þýðing: Einar Ingvarsson