persona.is
Hegðunarröskun og mótþróaþrjóskuröskun

Hvað eru mótþróaþrjóskuröskun og hegðunarröskun?

Öll börn eru einhvern tíma óþekk. Allir foreldrar þekkja það að börn þeirra séu frek, geri ýmis prakkarastrik, stríði öðrum börnum og fái stöku sinnum reiðiköst. Færri foreldrar kannast hins vegar við að börn þeirra steli, strjúki að heiman, kveiki í eða píni viljandi dýr eða önnur börn. Þegar ofangreint einkennir almennt hegðun barns er talað um að það sé annað hvort með mótþróaþrjóskuröskun (MÞR) eða hegðunarröskun (HR).  Þegar hegðun barns einkennist yfir höfuð af því að hlýða ekki, gera þveröfugt við það sem því er sagt að gera, sýna mikinn mótþróa og vera mjög neikvætt væri hægt að segja það vera með mótþróaþrjóskuröskun . Erfitt getur verið að greina MÞR frá mikilli óþekkt en til þess þarf sérfræðing á sviði geðraskana barna og unglinga. Almenn greiningarviðmið eru þau að daglegt líf barns einkennist af neikvæðu hegðun þess og að ástandið hafi varað í töluverðan tíma (a.m.k. 6 mánuði).  Hegðunarröskun er alvarlegri röskun en MÞR í þeim skilningi að „óþekktin“ er orðin mun alvarlegri. Barn með HR virðir hvorki rétt annarra né reglur og gildi samfélagsins og brýtur þau iðulega. Sem dæmi um algenga hegðun hjá börnum með HR má nefna að þau stela, eyðileggja eigur annarra, beita ofbeldi, ljúga og blekkja í miklum mæli.

Hver eru einkenni MÞR og HR?

Hver eru einkenni MÞR og HR? Nú þegar hefur verið minnst á nokkur einkenni MÞR og HR og hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir þeim. Eins og áður sagði einkennist hegðun barna með MÞR af miklum mótþróa og neikvæðni í samskiptum. Helstu einkenni sem leitað er eftir við greiningu á MÞR eru:

·         Missir oft stjórn á skapi sínu

·         Rífst oft við fullorðna

·         Reynir oft að ögra fullorðnum eða neitar að hlýða bónum og/eða reglum

·         Reynir oft að angra eða pirra fólk

·         Kennir öðrum oft um eigin mistök 

·         Er oft uppstökk(ur) og lætur aðra auðveldlega angra eða pirra sig

·         Er oft reið(ur) og gramur/gröm

·         Er oft hefnigjarn(-gjörn)

Þegar talað er um að hegðunareinkenni komi oft fyrir er átt við það að þau komi fyrir í meira mæli hjá einu barni en öðrum. Einkennin þurfa þó ekki öll að vera til staðar hjá barni með MÞR, þetta eru einungis þau einkenni sem eru mest ríkjandi í MÞR. Þess ber að geta að þau koma að öllum líkindum einhvern tímann fyrir hjá öllum börnum. Einnig eru líkur á því að eitt einkenni, eins og að hlýða ekki reglum, geti einkennt hegðun barns í einhvern tíma. Því ber að hafa hugfast að til þess að barn sé greint með MÞR þurfa nokkur einkenni að vera til staðar í tiltölulega langan tíma. Þótt barn sé mjög uppstökkt í t.d. tvær til þrjár vikur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að barnið sé með MÞR. Ýmis konar aðstæður í lífi barns, eins og stríðni í skóla, lítill svefn og streituvekjandi aðstæður heima, fyrir geta haft þau áhrif að skap barns sé verra en foreldrar eiga yfirleitt að venjast.  Helstu einkenni sem leitað er eftir við greiningu HR skiptast í fjóra flokka. Þeir flokkar svo og einkenni þeirra eru eftirfarandi: 1) Ofbeldishegðun í garð manna og dýra

·         Hrekkir, hótar eða ógnar oft öðrum

·         Á oft frumkvæði að slagsmálum

·         Hefur notað vopn sem getur valdið alvarlegum áverkum (t.d. kylfu, brotna flösku, hníf eða byssu)

·         Hefur beitt fólki ofbeldi

·         Hefur beitt dýr ofbeldi 

·         Hefur stolið augliti til auglits við þolanda (t.d. stolið veskjum af fólki eða framið vopnað rán)

·         Hefur neytt einhvern til kynferðislegra athafna

2) Skemmdarverk á eignum
  • Hefur viljandi kveikt í með þeim tilgangi að valda skemmdum
  • Hefur viljandi eyðilagt eigur annarra (með öðrum leiðum en íkveikju)
3) Svik eða þjófnaður
  • Hefur brotist inn í hús eða bíla
  • Lýgur oft til að öðlast eitthvað eða koma sér undan skyldum
  • Hefur stolið smærri hlutum án þess að standa augliti til auglits við þolanda (t.d. búðarhnupl). 
4) Alvarleg brot á reglum
  • Er oft úti á kvöldin þrátt fyrir að mega það ekki (byrjað fyrir 13 ára aldur)
  • Hefur a.m.k. tvisvar strokið frá heimili sínu og dvalið frá því heila nótt (eða einu sinni og verið í burtu til lengri tíma)
  • Er oft fjarverandi frá skóla (byrjað fyrir 13 ára aldur)
Líkt og með einkenni í MÞR sýna mörg börn einhver einkenni HR einhvern tíma á ævinni. Þá ber að hafa hugfast að til að barn greinist með HR þarf töluverður fjöldi einkenna að vera til staðar í nokkurn tíma. Þótt barn sé staðið að búðarhnupli tvisvar með skömmu millibili þýðir það ekki að barnið sé með HR. Aðrar ástæður gætu legið að baki eins og slæmur félagsskapur. Það er ekki fyrr en slík hegðun er orðin langvarandi og endurtekin að foreldrar þurfa að hafa áhyggjur af því hvort barn þeirra sé með HR.  Þróun einkenna í HR fylgir oft tveimur meginlínum. Erfiðleikar byrja oft á heimili og færast svo út í samfélagið. Og hegðunin breytist frá því að vera opin og óhulin í það að vera dulin. Opin og óhulin hegðun er til dæmis að slást og rífast í áheyrn og ásýnd annarra. Dulin hegðun er til dæmis að ljúga, hnupla eða allt það sem pukrast er með ekki vekur eftirtekt.  Þess ber einnig að geta að nokkur samfella getur verið milli athyglisbrests með ofvirkni (attention-deficit/hyperactivity disorder; AMO), MÞR og HR. Mörg börn sem eru með MÞR eru einnig með AMO (athugið samt að það eru ekki nærri öll börn með AMO sem fá síðar MÞR). Einnig hafa flest börn sem eru með HR áður verið greind með MÞR (sama athugasemd gildir hér, það er langur vegur frá því að öll börn með MÞR fái síðar HR). Því hafa hegðunareinkenni barna með HR oft fylgt ákveðinni þróun. Fyrstu einkenni eru oftast þau að barn sýnir andstöðu eða þrjóska, seinna koma óvináttu- og reiðieinkenni, þá einkenni sem tengjast árásargirni og eyðileggingu og að lokum afbrotahegðun (ef um er að ræða alvarlegt tilfelli af HR). Þessi þróun hegðunareinkenna getur hins vegar stöðvast á hvaða stigi sem er.

Eru til mismunandi undirflokkar?

Þegar fjallað er um geðraskanir kemur sá vandi upp að hægt er að miða við tvö mismunandi greiningarkerfi. Annars vegar er það ICD-10 greiningarkerfið sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gefur út. ICD-10 greiningarkerfið er mjög útbreitt í Evrópu og á Íslandi er aðallega stuðst við það. Hins vegar er það DSM-IV greiningarkerfið, sem er gefið út af bandarísku geðlæknasamtökunum, og er aðallega notað í Norður-Ameríku. Þótt ICD-10 kerfið sé notað á Íslandi verður stuðst við DSM-IV kerfið í þessari grein. Það er einkum vegna þess að greiningarviðmið og öll umfjöllun í því er skýrari en í ICD-10, að auki koma flestar rannsóknir á þessu sviði frá Bandaríkjunum. Ekki er um reginmun að ræða á milli þessara kerfa en þau eru þó nægjanlega ólík að taka þarf fram við hvort kerfið er stuðst í umfjöllun sem þessari.  Þegar nýjasta útgáfa DSM greiningarkerfisins (DSM-IV) var gefin út urðu nokkrar deilur um það hvort ætti að fella MÞR og HR undir sama hatt vegna svipaðra einkenna þeirra. Á endanum var ákveðið að hafa MÞR og HR aðskildar raskanir en með þeim fyrirvara að ýmis einkenni HR geta jafnframt flokkast til MÞR og gagnkvæmt.  MÞR greinist ekki í undirflokka en tveir undirflokkar HR eru tilgreindir. Í fyrri undirflokknum er a.m.k. eitt einkenni HR áður en barn nær 10 ára aldri (childhood onset). Í hinum síðari hafa engin einkenni HR fundist hjá barninu fyrir 10 ára aldur (adolescent onset). Helsti munurinn á þessum flokkum er þessi: Hegðunareinkenni í fyrri flokknum eru oftast alvarlegri (meira um ofbeldishegðun), og minni líkur eru á bata. Meiri líkur eru aftur á bata ef engin einkenni eru sýnileg fyrir 10 ára aldur. Einnig er kynjahlutfall mun jafnara meðal barna sem sýna einkenni eftir 10 ára aldur en í hinum. Annars er mun algengara að strákar greinist með HR.  Hegðunin þarf að sýna tiltekin einkenni í ákveðinn tíma til þess að hún falli undir greiningarskilmerki. Auk þess sem HR greinist í tvo fyrrnefnda undirflokka eru líka aðskilin mismunandi alvarleg tilfelli hjá börnum. Þegar um vægt tilfelli er að ræða hefur barn ekki mörg einkenni HR og hegðunareinkennin valda öðrum tiltölulega litlum skaða (dæmi um slíkt væri þegar barn lygi og yrði lengur úti en foreldrar þess leyfðu). Þegar um alvarlegt tilfelli er að ræða á barn við margs konar hegðunarvandamál að stríða. Það hefur mörg hegðunareinkenni sem einkenna HR og þau eru þess eðlis að þau valda mun meiri skaða en hegðunareinkenni í vægari tilfellum (dæmi: ofbeldi, að nota vopn, stuldur augliti til auglits við þolanda, innbrot o.fl.). Einnig eru greind tilfelli sem eru þarna mitt á milli. Þá hefur barn nokkuð mörg hegðunareinkenni HR og þau valda í meðallagi miklum skaða (dæmi: að stela án þess að nokkur sjái og skemmdarverk).  Í MÞR geta einnig verið mismunandi alvarleg tilfelli en ekki er gerður formlegur greinarmunur á hvað telst vægt og hvað telst alvarlegt. Það er ætíð matsatriði sérfræðings.

Hverjir fá MÞR og HR?

Flestar rannsóknir gefa til kynna að á bilinu 4-10% barna séu með HR og MÞR, en fleiri börn greinast með MÞR en HR. Mun fleiri drengir en stúlkur greinast með HR og MÞR eða þrír drengir á móti hverri stúlku. Nokkuð dregur úr kynjamun þegar komið er á unglingsár. Í HR eru einkenni breytileg eftir kyni, hnupl og þjófnaður er mun algengari hjá drengjum en hjá stúlkum er algengara að einkenni tengist kynlífshegðun. Algengi HR er breytilegt með aldri þar sem tilfellum fjölgar með aldrinum.

Hvað veldur MÞR og HR?

Margir orsakir hafa verið sagðar liggja að baki MÞR og HR en ennþá hefur ekki tekist að skera úr um hver megin orsökin sé. Þar sem ástæðurnar eru á reiki væri betra að tala um áhættuþætti, þ.e. hvað það er sem getur stuðlað að því að MÞR eða HR þróist hjá börnum. Svipaðir áhættuþættir eru í MÞR og HR og þar af leiðandi á þessi umfjöllun við um báðar raskanirnar.  Fyrst má nefna meðfædda þætti eins og skapgerð og þroskafrávik í m.a. málþroska og hreyfiþroska. Börn fæðast með ólíka skapgerð. Að reiðast auðveldlega gæti til dæmis verið einn áhættuþátturinn. Þá hefur greind undir meðallagi, þá sérstaklega lág munnleg greind (verbal intelligence), verið tengd við MÞR og HR. Einhver erfðaþáttur virðist vera til staðar. Ef annað foreldri barns hefur haft MÞR, HR, AMO eða tilfinningalegar raskanir, eins og þunglyndi, eru meiri líkur á því að barnið fái annað hvort MÞR eða HR en hvorugt foreldri hefur haft þessar raskanir.  Meðal uppeldislegra þátta má nefna neikvæðni í samskiptum foreldra og barna og harðar refsingar. Einnig er talið að ósamkvæmni í uppeldisaðferðum foreldra og að foreldrar skipti sér lítið af lífi barnsins eða hafi lítið eftirlit með því hafi áhrif á þróun þessara raskana.  Þessu tengt hafa ýmsir fjölskylduþættir áhrif, eins og hjónabandserfiðleikar eða skilnaður foreldra og slæmar fjárhagslegar og/eða félagslegar aðstæður. Slakur árangur í skóla er einnig oft nefndur sem áhættuþáttur. Þessi áhættuþáttur er ekki endilega tengdur lítilli greind af því að námsárangur barna með MÞR eða HR er oft mun slakari en ætla mætti miðað við greind þeirra og getu. Að lokum má nefna að erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra er einnig áhættuþáttur.  Af þessu sést að orsakaþættir MÞR og HR eru margvíslegir og erfitt að segja til um hver sé aðaláhrifaþátturinn. Þó má telja að eftir því sem áhættuþáttum fjölgar þeim mun meiri líkur séu á að MÞR eða HR þróist hjá barni.

Þróun MÞR og HR frá fæðingu að fullorðinsárum

Í flestum tilfellum koma einkenni MÞR fram fyrir átta ára aldur og venjulega ekki síðar en snemma á kynþroskaskeiði. Strax þegar barn er á unga aldri geta foreldrar orðið varir við ýmsa skapgerðarbresti hjá barninu eins og hvatvísi, eirðarleysi og tíð skapofsaköst. Eftir því sem barnið eldist ágerast þetta oft og fleiri svipuð hegðunareinkenni koma fram. Þróunin er því yfirleitt sú að til að byrja með eru einkenni fá og væg en þeim fjölgar og verða alvarlegri með auknum aldri. Einkennin láta fyrst á sér kræla á heimili barnsins en geta síðar einnig komið fram við aðrar aðstæður. Í töluverðum fjölda tilfella þróast MÞR í HR með aldrinum. Ef þessi þróun hefur hins vegar ekki átt sér stað innan þriggja til fjögurra ára eftir að einkenni MÞR komu fram eru litlar líkur á því að það gerist síðar. Í allt að 70% tilfella mun MÞR fylgja fólki til fullorðinsára.  Núna verður þróun HR lýst. Ekki fylgja öll börn henni en þetta eru þó þær meginlínur sem oftast sjást. Meðfædd skapgerð getur haft áhrif á þróun HR eins og að framan greindi. Foreldrar barna hafa kannski lengi tekið eftir ýmsum eiginleikum í fari barna sinna á aldrinum 18-36 mánaða, eins og hvatvísi, eirðarleysi og tíðum skapofsaköstum. Á aldrinum þriggja til sex ára eykst oft óhlýðni og minna þarf til að reita barn til reiði. Þá eykst árásargirni og erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra koma fram. Á aldrinum sex til ellefu ára heldur þessi þróun áfram og hegðun barns með HR verður erfiðari viðureignar. Þar sem barnið er byrjað í skóla verða erfiðleikar þess sýnilegri utan heimilis og þá kemur einnig í ljós lélegur námsárangur. Þetta skapar streituvekjandi ástand á heimili barnsins sem getur leitt til neikvæðari samskipta foreldra og barns, m.a. í formi harkalegri refsinga. Á aldrinum 12-14 ára halda vandamál í skóla áfram, bæði í tengslum við nám og í samskiptum við jafnaldra, og barnið getur leiðst út í afbrot. Á unglingsaldri heldur þessi þróun áfram og fíkniefnanotkun hefst oft jafnframt því sem unglingurinn leiðist út í alvarlegri afbrot. Hjá sumum þróast HR í andfélagslega persónuleikaröskun (antisocial personality disorder). Hjá þeim meirihluta barna sem HR þróast ekki út í andfélagslega persónuleikaröskun getur HR valdið þeim vandræðum á fullorðinsárum. Algengt er að það fólk eigi við áfengis- og/eða fíkniefnavandamál að stríða, eigi í hjónabandserfiðleikum eða stundi afbrot.  Þess ber aftur að geta að ekki fylgja öll börn með HR þessari þróun, hún getur stöðvast á hvaða stigi sem er og þá sérstaklega ef einhverri meðferð er beitt.

Hvernig fer greining MÞR og HR fram?

Þar sem MÞR og HR eru mjög víðtæk vandamál þurfa mat og greining einnig að vera víðtæk. Það eru aðallega sálfræðingar og geðlæknar sem sjá um greiningu á þessum röskunum. Mat og greining felst í nokkrum þáttum. Til að byrja með er hægt að nota þar til gerð próf, venjulega spurningalista, til að athuga hversu alvarlegt vandamálið er. Í þessum prófum er spurt um ákveðin hegðunareinkenni barns og hversu algeng þau eru (sjá „Hver eru einkenni MÞR og HR“). Til að fá sem víðtækast mat geta mismunandi aðilar fyllt þessa lista út, báðir foreldrar, kennarar og annað fólk sem umgengst barnið mikið. Þá þarf sálfræðingur eða annað fagfólk að taka viðtal við bæði barn og foreldra til að fá skýrari mynd af vandamálinu.  Einnig þarf að kanna félagslegar aðstæður barnsins svo að hægt sé að útiloka aðrar ástæður fyrir hegðun þess. Ef það kemur til dæmis í ljós að barn er beitt líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á heimili sínu þá er líklegt að endurtekin strok að heiman og skapofsaköst séu sökum þess frekar en að barnið sé með HR. Sjúkrasaga fjölskyldunnar er líka skoðuð og þá sérstaklega með tilliti til geðsjúkdóma. Þá getur sálfræðingur lagt fyrir ýmis próf eins og greindarpróf og hæfnispróf en þau geta gefið skýrari mynd af vandamálum sem barn á við að stríða í tengslum við röskun sína.  Til þess að barn sé greint með MÞR þarf hegðun þess að uppfylla ákveðin viðmið. Hún þarf að einkennast af mótþróa, neikvæðni og fjandsemi í a.m.k. sex mánuði. Á þeim tíma þurfa a.m.k. fjögur þeirra hegðunareinkenna sem talin eru upp í  „Hver eru einkenni MÞR og HR“ að vera til staðar og í meira mæli en hjá jafnöldrum barnsins. Hegðunarvandkvæðin þurfa að vera það alvarleg að þau skaði félagsleg samskipti barns og námsárangur þess. Ef barn uppfyllir þessi viðmið, en einnig greiningarviðmið fyrir HR, þá fær barnið einungis greininguna HR.  Greiningarviðmið fyrir HR eru þau að hegðun þarf að einkennast af endurteknum brotum á rétti annarra og samfélagsreglum viðkomandi aldurshóps í a.m.k. tólf mánuði. Á þeim tíma þurfa a.m.k. þrjú þeirra hegðunareinkenna sem nefnd eru í „Hver eru einkenni MÞR og HR“ að koma fram svo og a.m.k. eitt þeirra einkenna á síðustu sex mánuðum. Hegðunarvandkvæðin þurfa að vera til staðar í svo miklum mæli að þau skaði félagsleg samskipti og námsárangur eða árangur í starfi.

Fylgja aðrar raskanir MÞR og HR?

Það er frekar regla en undantekning að önnur röskun sé einnig til staðar meðal barna sem greinast með MÞR eða HR. Algengasta fylgiröskunin er athyglisbrestur með ofvirkni (AMO). Rannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 75% barna með annað hvort MÞR eða HR eru einnig með AMO. Þegar AMO fylgir MÞR eða HR verða þær raskanir mun erfiðari viðfangs. Hegðunarvandamál verða mun alvarlegri, ofbeldishegðun algengari og félagsleg höfnun verður meiri.  Ýmsar kvíðaraskanir eru algengar hjá börnum með MÞR eða HR þar sem um 22-33% þeirra hafa einhverja kvíðaröskun. Þunglyndi er einnig algengt (um 30%), en það er yfirleitt talið vera afleiðing þeirrar félagslegu höfnunar og vandamála í skóla sem börn með MÞR og HR lenda í. Það er mikilvægt að leita sérstaklega að þunglyndiseinkennum hjá fólki með MÞR eða HR því að hætta á sjálfsvígi hjá því er töluverð.  Mjög algengt er að afmarkaðir námsörðugleikar, til dæmis í tengslum við lestur eða stærðfræði, fylgi einnig MÞR og HR. Þegar komið er á unglingsaldur er algengt að áfengis- og fíkniefnavandamál geri vart við sig. Sú hætta er þó sýnu meiri þegar um HR er að ræða. Það þarf að vera á varðbergi í sambandi við áfengis- og fíkniefnanotkun barna með MÞR eða HR því eins og með þunglyndi þá eykst hættan á sjálfsvígum töluvert ef áfengis- og fíkniefnavandamál fylgja.  Athugið að þótt það sé búið að greina einhverja fylgiröskun hjá barni með MÞR eða HR þá er ekki hægt að útiloka að það hafi aðra. Sama barnið getur haft fleiri en eina fylgiröskun. Dæmi eru um það að sama manneskja hafi auk HR greinst með AMO, þunglyndi, afmarkaða námsörðugleika og áfengis- og fíkniefnavandamál.

Hvaða meðferð er hægt að beita?

Margs konar meðferð hefur verið beitt við MÞR og HR og verður hér tæpt á þeim helstu og fjallað um gagnsemi þeirra. Þar sem svipaðar meðferðir gagnast við hvoru tveggja nægir að fjalla sameiginlega um þær.  Lyfjameðferð Lyfjameðferð er ekki mikið notuð ein og sér. Lyf eru helst notuð við fylgiröskunum eins og AMO og þunglyndi. Ritalin hefur helst verið notað þegar AMO er fylgifiskur MÞR eða HR og dregur það nokkuð úr ofvirkni og árásargirni. Þunglyndislyf hafa ekki bein áhrif á einkenni MÞR eða HR en geta bætt skap þeirra sem eru einnig með þunglyndi og þannig dregið úr skapsveiflum og árásargirni.  Þjálfun fyrir foreldra (Parent Management Training) Í þessari meðferð er foreldrum kenndar aðferðir sem hjálpa til við að stjórna hegðun barns eins og að hrósa því fyrir góða hegðun og gæta þess að styrkja ekki slæma hegðun. Þá eru þeim einnig kenndar aðferðir við að hafa samskipti við börn sín á þann hátt að félagsleg hæfni barnsins aukist. Ýmsar útgáfur eru til af svona ,,meðferðarpökkum“ og hafa þær sýnt nokkurn árangur. Þessar aðferðir duga helst þegar um yngri börn (8 ára og yngri) er að ræða og hegðunarvandkvæði eru ekki mjög alvarleg.  Hugræn atferlismeðferð (cognitive behavior therapy) Í meðferðum af þessum toga er reynt að breyta hugsunarhætti barna. Börn með MÞR eða HR misskilja oft félagslegar aðstæður á þann hátt að það sé verið að gera eitthvað á þeirra hlut. Þessi rangtúlkun leiðir oft til árásargirni og vandamála tengdu því eins og félagslegri höfnun. Börnum er kennt að túlka félagslegar aðstæður rétt, finna réttar lausnir á vandamálum í daglegu lífi og meta afleiðingar af þeim lausnum. Þessar meðferðir duga helst hjá eldri og greindari börnum. Þær hafa sýnt nokkurn árangur, en sjaldan að því marki að hegðun barns hefur getað talist eðlileg.  Fjölskyldumeðferð (Family System Interventions) Ýmsar tegundir eru til af fjölskyldumeðferðum og beinast margar þeirra að unglingum þar sem aðrar meðferðir duga best á yngri börn. Öll fjölskyldan tekur þátt í meðferðinni og eru þær oft nokkur blanda af foreldraþjálfun og hugrænni atferlismeðferð. Reynt er að sníða meðferðina að unglingnum og hvernig sé best að eiga við hann. Það er ekki mikið vitað um árangur þessara meðferða en allt bendir til að þær beri einhvern árangur en nái ekki að koma hegðun í eðlilegt horf.  Hvað virkar best? Foreldraþjálfun hefur sýnt fram á bestan árangur af þessum meðferðum en ókostur hennar er sá að áhrif hennar takmarkast við frekar ung börn.  Flestar þær meðferðir sem nefndar eru er hægt að nálgast hérna. Töluverður fjöldi sálfræðinga hefur sérhæft sig í hegðunarvandkvæðum barna og því ætti að vera auðvelt að finna meðferð við hæfi. Einnig er hægt að komast á almenn námskeið sem kenna foreldrum aðferðir sem hjálpa þeim til að hafa stjórn á hegðun barna sinna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stendur reglulega fyrir einu slíku, SOS-Hjálp fyrir foreldra, og er hægt að nálgast upplýsingar um það í síma 525-4545.  Hverjar eru batahorfur? Því miður eru batahorfur barna með MÞR eða HR ekki mjög góðar. Um það bil 70% barna með MÞR mun eiga við röskunina að stríða á fullorðinsárum og um 30% barna með HR. Helstu vandamál í sambandi við HR eru þau að þótt röskunin hverfi þá eru miklar líkur á áfengis- og fíkniefnamisnotkun og geðröskunum eins og kvíðaröskun og þunglyndi á fullorðinsárum.  Batahorfur fara eftir ýmsu, eins og hvenær vandamálið kom til sögunnar, fjölskylduaðstæðum, fylgiröskunum og fleiri þáttum. Í bæði MÞR og HR eru batahorfur betri ef einkenni komu fyrst fram á unglingsaldri en á barnsaldri. Ef félagslegar og fjárhagslegar aðstæður fjölskyldu barns eru góðar þá eru batahorfur betri en ella. Batahorfur eru einnig betri ef fáar fylgiraskanir eru til staðar. Þá hefur upphafstími meðferðar áhrif á batahorfur. Því fyrr sem meðferð hefst því viðráðanlegri getur hegðun barns orðið.

Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert á að leita? Ef grunur leikur á að þitt barn sé með MÞR eða HR þarf fyrst að hafa samband við heimilislækni eða skólasálfræðing. Það er ekki hægt að fara beint með barnið á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í greiningu þar sem þar er aðeins tekið við börnum sem aðrir fagaðilar vísa til þeirra. Heimilislæknar og skólasálfræðingar geta veitt upplýsingar og ef ástæða þykir til vísað barninu til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.  Hvernig geta aðstandendur veitt hjálp? Aðstandendur eru mjög mikilvægir. Þeir þurfa að vera til staðar fyrir foreldrana, veita þeim huggun og hjálp, ekki síst við að skiptast á að passa viðkomandi barn og hafa ofan fyrir því. Þetta er nauðsynlegt fyrir foreldrana, þeir þarfnast hvíldar þar sem það getur verið mjög erfitt að eiga barn með MÞR eða HR. Einnig þurfa aðstandendur að gæta sín á því að kenna ekki foreldrum um ástand barnsins, en það eru mjög algeng mistök aðstandenda. Foreldrunum líður nógu illa fyrir og hafa örugglega einhvern tíma sjálfir kennt sér um ástand barnsins.

Ævar Þórólfsson, BA í sálfræði