persona.is
Greind
Sjá nánar » nám

Hvað er greind? Hér verður ekki reynt að svara því hvað orðið greind merkir í almennu máli eða í daglegu lífi. En í sálarfræði er með þessu orði átt við það sem mælist á tilteknum prófum sem kallast greindarpróf. Þau hafa reynst hafa forsagnargildi um tiltekna eiginleika manna sem hafa til dæmis áhrif á framtíð þeirra. Greindarpróf sýna meðal annars talsverða fylgni, sem kallað er, við almennan námsárangur manna eða gengi í almennum skólum. 

Lengi hefur blundað í mannfólkinu draumurinn um að lesa á svipstundu eitt og annað um skapsmuni fólks, hæfileika þess og jafnvel örlög. Í sögum og ævintýrum verða ýmiss konar teikn, allt frá stöðu himintungla til tiltekinna líkamseinkenna, frá jólastjörnu til þjófsaugna, til þess að bregða ljósi á framtíð fólks. Lítill angi af þessum draumi eru til dæmis svonefnd próf sem birt eru í skemmti- og fræðsluefni fyrir heimili. Lesendum er þá boðið að athuga eiginleika sína, frá stjórnunarhæfni og snyrtimennsku til frumleika og mannkærleika, og sjá á svipstundu harla margt sem áður var hulið. Flest af þessu er til gamans gert, og fræðileg undirstaða slíkra spádóma er nánast alltaf rýr.  En ekki er þar með sagt að allar forspár séu vitleysa. Auðvitað getur fólk, af hyggjuviti sínu og reynslu af mannfólkinu, spáð ýmsu um framtíð þess og sagt eitt og annað af viti um hvernig einn eiginleiki tengist öðrum. Heiðarlegar tilraunir hafa verið gerðar til að færa slíkar spár í kerfisbundinn eða fræðilegan búning. Á öllum öldum hafa verið til inntökupróf fyrir gráður og embætti af ýmsum toga, og jafnan hafa verið tilbúnar sérstakar prófraunir sem kanna getu fólks til að takast á hendur verkefni. Á nítjándu öld var líka reynt að renna fræðilegum stoðum undir lundernislestur sem byggðist á stærð tiltekinna höfuðbeina. Reynt var að lesa í sálargáfur fólks með því að þreifa á hnúðum og sveigjum í höfuðkúpu þess. Afrakstur þeirra fræða var reyndar enginn.  Segja má að greindarpróf nútímans séu brot af þessum sama draumi – að sjá með einhverri vissu inn í framtíð fólks með tiltölulega litlum tilkostnaði. Þróun prófanna hófst á ofanverðri nítjándu öld og tengdist áhuga Englendingsins Francis Galton, frænda Charles Darwin, á því að bæta mannkynið, sem er göfug hugsjón en þó tvíeggjuð. Hugmynd hans var að fyrst þyrfti að finna afburðafólk og síðan að hvetja það til innbyrðis tímgunar. Þannig mætti fjölga afburðamönnum hér í heimi. Skemmst er frá því að segja að áætlunin – sem greinilega var barn síns tíma – komst aldrei í verk. Engin afburðamannapróf eru til.  En Galton lagði mikla vinnu í verkið, prófaði tugþúsundir á ýmsum þrautaprófum sem áttu að vinsa úr þá bestu. Mikilsverðast í þessum efnum er að hann lagði fræðilegan grunn að nútímaprófum með því að þróa tölfræðiaðferðir sem enn eru undirstaða slíkrar prófunar.  Sálfræðileg próf byggjast í raun á tveimur grundvallarhugmyndum úr tölfræði. Í fyrsta lagi er hugmyndin um staðlaða röðun, og hins vegar hugmyndin um fylgni. Francis Galton var frumkvöðull í þróun og hagnýtingu beggja hugmyndanna, þó að próf hans yrðu reyndar aldrei hagnýt.  Staðlaða röðunin byggist á mannamun, mismun milli manna. Slíkur munur kemur fram í nánast hvaða eiginleika sem unnt er að mæla. Menn eru misháir. Sumir eru mjög stuttir, sumir eru ógnarlangir, flestir eru miðlungsháir. Sama gildir um óáþreifanlegri hluti til dæmis ljóðakunnáttu. Sumir kunna svo til engin ljóð, nokkrir kunna urmul og ógrynni, en flestir kunna miðlungsmörg ljóð. Galton sá að hægt var að nota slíkan mannamun til að raða fólki, ekki bara eftir stærð og bókmenntaáhuga heldur eftir hvaða viðmiði sem vera skal. Hann safnaði því atriðum sem hann áleit tengjast greind fólks, tilgreindi staðlaðar reglur um hvernig mætti leggja þau fyrir, og prófaði fjölda fólks á þessum atriðum. Atriðin voru til dæmis: Hve hratt og hve nákvæmlega finnur fólk miðju beinnar línu? Hvað getur fólk hreyft höndina hratt til að ýta á hnapp? Hve vel greinir fólk að nálarodda sem stutt er á handarbak þess?  Þegar nægilegur fjöldi hefur verið prófaður dreifast niðurstöðurnar eftir svonefndri normal-dreifingu. Það merkir að ýmsir stærðfræðilegir eiginleikar dreifingarinnar eru þekktir. Hér er nóg að tilgreina að normal-dreifing er stöðluð röðun. Ef maður hefur í höndum upplýsingar um normal-dreifingu eiginleika, er nóg að vita einkunn einhvers á prófi sem prófar þennan eiginleika; þá veit maður hve margir standa sig betur á prófinu og hve margir standa sig verr. Galton safnaði því fyrst stöðlunarviðmiðum, og eftir að þau lágu fyrir var nóg að vita um einkunn manns á prófinu. Hún ein nægði til þess að vita hvernig hann stóð sig í samanburði við alla aðra.  Greindarpróf nútímans byggjast á þessari tækni. Fjöldi manna er látinn taka próf, áður en það er tekið í notkun. Tíminn hefur leitt í ljós að sé rétt að farið er hæfilegt að slík forprófun nái til nokkur hundruð einstaklinga. Þeir standa sig misvel á prófinu og mynda viðmiðun eða staðal sem próftakar eru síðan bornir saman við. Greindarpróf eru þannig fljótleg aðferð til að raða fólki á nokkuð öruggan hátt upp á sérstakan kvarða. En staðlaða röðin er bara hálf sagan.  Eftir er að athuga hitt grunnhugtak greindarprófa, fylgnina. Galton þróaði fylgnireikninga til þess að athuga hvernig útkoma á einu prófi spáði fyrir um einhvern annan eiginleika. Ef röð manns á einum kvarða, til dæmis greindarkvarða, spáir fullkomlega um hvar í röðinni hann lendir á öðrum kvarða, til dæmis á ljóðakvarða, þá er fullkomin fylgni á milli kvarðanna. Ef einkunn á einum kvarða spáir engu um gengi manns á öðrum er fylgnin að sama skapi engin. Gagnsemi greindarprófa felst í því að röð á greindarprófi spáir fyrir um röðun annarra eiginleika eða hæfileika fólks, einkum hvernig þeim gengur í skóla.  Vandinn við greindarpróf Galtons var að þau spáðu engu sérstöku um gengi fólks í lífinu. Honum tókst að staðla spurningar og prófatriði vel, honum tókst að safna viðmiðunarhópum, allt var eins og það átti að vera, nema eitt. Prófatriðin hans spáðu engu sérstöku. Þau byggðust í raun á skynjunarnæmi, hreyfileikni og ýmsum þess háttar atriðum sem menn á nítjándu öld töldu vera undirstöður greindar.  Það var ekki fyrr en Frakkinn Alfreð Binet tók að þróa prófatriði af öðrum toga sem greindarpróf fóru að gera gagn. Honum var falið að finna börn sem þurftu á sérkennslu að halda, það er að segja börn sem ekki höfðu full not af venjulegri skólagöngu. Hann notaðist við prófatriði sem líktust mjög því sem börn glíma við í skólum, dálitlar þrautir sem athuguðu fremur hugsun og innsæi en skynjun og hreyfileikni. Prófatriði hans minna á orðadæmi úr reikningi, minnisatriði, skilgreiningar orða, röðun púsluspila og þess háttar verkefni.  Heildarútkoma á prófum Binets spáði harla vel fyrir um gengi í skóla, hún hafði með öðrum orðum nokkuð góða fylgni við námsárangur, ekki fullkomna, en nógu góða til þess að hún gæti gert gagn. Rannsóknir á nytsemi prófa felast auðvitað meðal annars í því að tryggja að aðeins séu notuð próf sem hafa forspárgildi. Útkoma barna á prófi Binets gat hjálpað skólamönnum í París við að finna börnum hæfilega og hentuga kennslu.    Er sannað að greindarpróf verki? Greindarpróf sýna meðal annars talsverða fylgni, sem kallað er, við almennan námsárangur manna eða gengi í almennum skólum. Þau nýtast því til dæmis vel við greiningu og meðferð námserfiðleika. Hins vegar hefur ekki tekist að gera próf sem segi fyrir um árangur á tilteknum, afmörkuðum sviðum eins og tónlist eða íþróttum, eða þá í mannlegum samskiptum. En þó að prófin séu takmörkuð og stundum ofnotuð er ekki ástæða til að leggja þau niður.  Langflest greindarpróf sem nú eru notuð byggjast á þeirri tæknihugsun sem lýst er hér fyrir ofan. Þessi hugsun byggist aftur í raun á tveimur grundvallarhugmyndum úr tölfræði. Í fyrsta lagi er hugmyndin um staðlaða röðun, og hins vegar hugmyndin um fylgni.  Frægust eru próf sem er kennt við Binet sjálfan og bandarísk stöðlun þess, svonefnt Stanford-Binet próf, og síðan greindarpróf sem kennt er við bandaríska próffræðinginn Wechsler. Gerð þeirra er ekki alveg eins, en hvortveggju byggjast á staðlaðri röðun sem sýnt er að hafi fylgni við námsárangur. Á sama grunni byggjast hæfnispróf, skapgerðarpróf og kunnáttupróf af ýmsum toga.  Prófin eru til margra hluta nytsamleg. Þar fást á skömmum tíma upplýsingar sem að öðrum kosti gæti tekið vikur eða mánuði að afla. Þau hafa því reynst vel í greiningu og mati á alls konar námserfiðleikum. Þau hafa líka verið grundvöllur ýmiss konar rannsókna. Til dæmis er sýnt að fylgni milli geindartölu tveggja einstaklinga er því meiri sem þeir eru skyldari og aðstæður þeirra líkari. Fylgni milli greindartölu systkina er lægri en fylgni milli greindartölu tvíeggja tvíbura, sem aftur er lægri en fylgni milli eineggja tvíbura. Greindartölur eineggja tvíburara sem alast upp hvor í sínu lagi hafa líka lægri fylgni en ef þeir alast upp saman. Af þessum rannsóknum hefur þótt sýnt að erfðir ráða allmiklu um greind fólks. Því skyldari, því hærri fylgni. En rannsóknir hafa líka sýnt ítrekað að slök lífsskilyrði tengjast minni greind eins og hún mælist á greindarprófum. Greindarpróf hafa heldur ekki farið varhluta af gagnrýni. Þar kemur ýmislegt til.  Í fyrsta lagi getur oftúlkun prófanna verið háskaleg. Fólk sem ekki áttar sig á eðli prófanna og tæknilegu baksviði þeirra oftúlkar niðurstöður og telur sig hafa í höndum tölur sem eru óyggjandi, þannig að oft hafa á grundvelli prófa verið teknar ákvarðanir sem hafa síðan reynst rangar. Sumar þessar ákvarðana hafa verið afdrifaríkar fyrir þá sem fyrir þeim verða, til dæmis þegar fólki er beint frá skólagöngu eða sett í óþarfa meðferð á grundvelli oftúlkunar á greindarprófum.  Aðrir hafa einnig lagt of mikla merkingu í greindarhugtak prófanna og talið það nánast vera mælikvarða á manngildi. Þannig hafa prófin til dæmis verið ofnotuð við val á fólki til starfa. Í lævi blandinni umræðu um mismun á kynþáttum hefur oftúlkun prófanna líka komið illu til leiðar. Þeir sem semja prófin hafa af þessum sökum lagt mikla áherslu á að aðeins fólk sem hefur fengið sérstaka þjálfun í notkun þeirra og túlkun megi leggja þau fyrir og leggja í þau merkingu. Víðast hvar mega sálfræðingar einir leggja slík próf fyrir.  Einnig hefur verið gagnrýnt að greindarhugtak prófanna sé of afmarkað; það taki aðeins til hluta þess sem kalla má greind. Þetta má til sanns vegar færa; prófin spá fyrir um gengi fólks í hefðbundnu námi, því sem viðkemur lestri, rökhugsun og stærðfræði. Þau spá litlu sem engu um getu fólks í tónlist, í mannlegum samskiptum eða í íþróttum. Þetta er í raun löngu ljóst, en tilfellið er að treglega hefur gengið að semja próf sem taka til annarra eiginleika. Ýmiss konar tilraunir hafa verið gerðar til að semja próf um tilfinningalegt innsæi, tónlistarhæfileika og fleira sem sannarlega skiptir máli í lífinu, en afrakstur þeirra tilrauna er engan veginn álíka og árangurinn af greindarprófum.  Allir viðurkenna nú á greindarhugtak prófanna er afmarkað. Greind er miklu víðfeðmari eiginleiki en svo að hann verði mældur á einhlítan hátt. Enda kemur í ljós að menn skilgreina greind með ólíkum hætti eftir því hvað þeir fást við. Stærðfræðiprófessorar hafa aðrar hugmyndir um greind en prófessorar í verkfræði. Kennarar í bókmenntum kunna að meta aðra eiginleika en kennarar í félagsvísindum og þannig má áfram telja. Ekkert próf tekur til allra þessara eiginleika.  En ofnotkun prófanna og oftúlkun á ekki að verða til þess að þau séu gefin upp á bátinn. Menn hætta ekki að nota bíla þó þeir geti farið út af; menn hætta ekki að nota hnífa þó unnt sé að skera sig á þeim. Öllu skiptir að fara rétt með prófin og nota þau skynsamlega. Þau eru sannarlega til margra hluta nytsamleg. En í grundvallaratriðum byggjast þau á röðun fólks á stöðluðum mælikvörðum. Fræðileg réttlæting mælikvarðanna er í raun aðeins þekkt fylgni þeirra við tiltekin forvitnileg atriði sem hagstætt er að geta spáð fyrir um. Þau gefa ekkert ljósleiðarasamband við guðdóminn, við manngildið, við siðferðið. Þetta þarf að vera ljóst.  

 Sigurður J. Grétarsson dósent í sálfræði við HÍ

  © Vísindavefurinn, 2000. Öll réttindi áskilin.