persona.is
Gerendur kynferðisofbeldis
Sjá nánar » Ofbeldi

Hvað er barnahneigð (Paedophilia)?

Barnahneigð er skilgreind sem síendurtekin og sterk kynþörf ásamt kynórum gagnvart börnum sem hafa ekki náð kynþroskaaldri. Samkvæmt skilgreiningu er einstaklingur, sem haldinn er barnahneigð, 16 ára eða eldri og er að minnsta kosti 5 árum eldri en barnið. Breytilegt er hvort viðkomandi leitar á börn af sama kyni og hvort börnin sem leitað er á séu innan fjölskyldunnar eða utan hennar. Sumir með barnahneigð eru giftir og lifa „eðlilegu“ fjölskyldulífi, (alla vega getur það litið þannig út fyrir utanaðkomandi aðila), og sýna einnig áhuga á kynlífi með fullorðnum. Aðrir lifa aftur á móti einir og oft einangraðir frá umhverfi sínu, og kynþörf þeirra og kynórar beinast eingöngu að börnum.  Formleg skilgreining á barnahneigð er eftirfarandi:

1.        Á minnst 6 mánaða tímabili, endurteknir og sterkir kynórar og kynhvatir, sem leiða af sér kynlíf með barni sem ekki hefur náð kynþroska (yfirleitt 13 ára og yngri).

2.        Einstaklingurinn hefur svalað þessum hvötum sínum, eða finnur til verulegrar vanlíðunar vegna þeirra.

3.        Einstaklingurinn er orðinn 16 ára og er a.m.k. 5 árum eldri en barnið.

Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

Sá sem er haldinn barnahneigð getur svalað hvötum sínum á marga vegu, en ef hann hefur í frammi kynferðislega tilburði gagnvart barni flokkast það undir kynferðislegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum getur tekið á sig margar myndir, t.d. sifjaspell, sýniþörf (exhibitionism), nauðgun, barnaklám og barnavændi. Í þessari umfjöllum verður megináherslan þó lögð á sifjaspell, eða kynferðislegt ofbeldi gegn barni, sem framið er af einhverjum í nánasta umhverfi barnsins, t.d. föður, móður, stjúpforeldri eða öðrum sem er nákominn barninu. Sifjaspell er því allt kynferðislegt atferli milli einstaklinga sem bundnir eru tengslum trausts, þar sem annar aðilinn (barnið) vill ekki slíkt atferli, eða hefur ekki þroska til þess að taka þá ákvörðun, en er undirgefinn og háður ofbeldismanninum á einhvern máta. Mjög hefur verið um það deilt meðal fræðimanna hvernig beri að skilgreina formlega kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Kjarni flestra þessara skilgreininga felst þó í eftirfarandi: Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum felur í sér þátttöku barna eða unglinga í kynferðislegri athöfn, sem þau eru ekki fær um að skilja vegna þroska eða aldurs, og eru af þeim sökum ófær um að segja til um hvort þau vilji taka þátt í þessum athöfnum eða ekki. Undir þessa skilgreiningu fellur meðal annars: Þukl eða káf á kynfærum, þvingun til að horfa á eða hlusta á hvers kyns klámefni, að neyða barn til að afklæðast; neyða barn til að fróa ofbeldismanni eða ofbeldismaður fróar barninu, hafa samfarir við barnið.

Algengi kynferðisofbeldis gegn börnum

Erlendar rannsóknir sýna að u.þ.þ. 10-30% stúlkna og 5-15% drengja hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. Í flestum tilfellum eru karlmenn gerendur, eða í 95% tilfella gegn stúlkum og 80% tilfella gegn drengjum. Frá stofnun Barnahúss, í nóvember 1998, og fram í lok október 1999, höfðu barnavendanefndir vísað málum 130 barna til Barnahúss. Samkvæmt tölum frá 1992-1996 má sjá að einungis lítið hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum leiða til sakfellingar. Af þeim 465 málum sem barnaverndanefndir höfðu til umfjöllunar á þessu tímabili, voru 50-60% rannsökuð af lögreglu, 126 mál eða 27% fóru til ríkissaksóknara, 45 mál eða 10% fóru fyrir dómsstóla, og einungis var sakfellt í 32 málum, eða minna en í 7% allra málanna. Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun ríkisins voru 1-12 einstaklingar dæmdir á ári hverju fyrir kynferðisafbrot gegn börnum á árunum 1987-1998. Þrátt fyrir að fjöldi sakfellinga sé ekki mikill má sjá að þeim fer þó fjölgandi. Til dæmis er fjöldi skilorðsbundinna og óskilorðsbundinna dóma á árunum 1987-1991 einn til fimm á ári hverju, það er að segja minnst einn einstaklingur og mest fimm einstaklingar fengu dóma fyrir kynferðisafbrot gegn börnum. Á árunum 1992-1998 var fjöldi dóma minnst sjö og mest tólf á hverju ári.

Hverjir verða fyrir ofbeldinu og hverjir fremja það?

Algengt er að fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis séu ung að árum. Hugsanlegt er að ofbeldismenn kjósi sér frekar yngri fórnarlömb til þess að koma sér undan refsingu vegna athæfis síns. Ung börn segja síður frá, sérstaklega ef ofbeldismaðurinn er foreldri eða annar umönnunaraðili, og þau eiga líka erfiðara með að skilja hvað er um að vera, og þekkja síður muninn á því hvað eru eðlileg (rétt) og hvað eru óeðlileg (röng) líkamleg samskipti. Þau eiga líka erfiðara með að skýra frá atburðinum, þess vegna er niðurstaðan oft sú að erfitt er að skilja hvað þau eiga við og er þeim því gjarnan síður trúað en eldri fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis. Fræðimenn sem rannsakað hafa einkenni gerenda hafa komið fram með margs konar flokkanir á kynferðisafbrotamönnum. Ein þeirra er þessi:

1.        Gerandinn sem leitar eftir ástúð og hlýju

2.        Gerandinn þar sem allt snýst um kynlíf

3.        Gerandinn sem lætur bælda reiði sína bitna á barninu

4.        Ofbeldisfulli gerandinn

Lítum aðeins nánar á þessa flokkun. Gerandinn sem leitar eftir ástúð og hlýju

Það er tvennt sem er einkennandi fyrir gerendur í þessum hóp. Annars vegar er faðirinn (föðurímyndin) yfirleitt strangur og höfuð fjölskyldunnar og hins vegar finnst honum sem hann eigi frekar samleið með börnum sínum, móðirin er sú sem stjórnar í fjölskyldunni.

Í fyrra tilfellinu er faðirinn mjög stjórnsamur og finnst hann eiga konu sína og börn. Sú gerð kynferðisofbeldis sem hann sýnir börnum sínum líkist kynlífshegðun fullorðinna. Það er að segja kynferðisofbeldið snýst um beina snertingu kynfæra, með fróun eða samförum. Þessi tegund gerenda réttlætir hegðun sína yfirleitt þannig að hann telur sér trú um að hann sé að gera þetta fyrir barnið og finnst jafnvel að hann sé að sýna því ástúð og hlýju með gjörðum sínum. Þessir gerendur verða gjarnan mjög hissa ef þeir komast að því að barninu líkar ekki við þessa hegðun þeirra. Í seinna tilfellinu er um að ræða mann sem finnst hann vera settur í sama hlutverk og börnin á heimilinu, hugsanlega vegna stjórnsemi konu sinnar. Hann fær til dæmis ekki að taka mikilvægar ákvarðanir um stjórnun heimilisins. Kynferðisofbeldi þessara gerenda einkennist gjarnan af kynferðisleikjum. Oft er um að ræða hálfgerða læknisleiki þar sem gerandinn lætur snerta kynfæri sín eða vill skoða og snerta kynfæri barnanna. Þessari gerð gerenda léttir oft þegar upp um hann kemst og yfrileitt er hann tilbúinn að leita sér hjálpar og litlar líkur eru á að hann beiti slíku ofbeldi aftur. Gerandinn þar sem allt snýst um kynlíf

Hér er um að ræða mann sem snýr öllu upp í kynlíf og vill eiga kynferðisleg sambönd við flesta þá sem hann umgengst, líka við börnin sín. Yfirleitt eru allir innan fjölskyldunnar gegnsýrðir af þessari hegðun. Það er oft einkennandi við þessar fjölskyldur að öllum athöfnum er snúið upp í eitthvað kynferðislegt. Til dæmis má enginn í fjölskyldunni borða banana án þess að athugasemdir tengdum kynlífi eru látnar falla, eða þegar barn segir frá sundnámskeiði þá koma upp spurningar eins og: „Horfðu strákarnir/stelpurnar almennilega á ykkur þegar þið voruð að skipta um föt?“ Yfirleitt er kynferðisleg hegðun einu atlotin sem sýnd eru í þessari fjölskyldu og er þetta eina leiðin sem börnin þekkja til að veita ástúð og hlýju og þegar faðirinn hefur samfarir við barn sitt túlkar barnið það sem merki þess að það sé sérstakt og að faðirinn elski það. Yfirleitt hættir þessi hegðun ekki fyrr en barnið er orðið táningur og vill fara að eiga kærasta utan fjölskyldunnar, eða faðirinn snýr sér að yngra barni í fjölskyldunni.

Gerandinn þar sem bæld reiði er látinn bitna á barninu

Einkennandi fyrir þessa gerendur er að þeir beita barnið kynferðislegu ofbeldi til að fá útrás fyrir reiði og vonbrigði sem aðrir en barnið hafa valdið. Í þessum fjölskyldum sýnir faðirinn barninu mikla reiði og beitir það gjarnan ofbeldi. Barnið verður blóraböggull fyrir bælda reiði föðurins gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum. Dæmi getur verið faðir sem beitir dóttur sína kynferðislegu ofbeldi vegna þess að honum finnst kona sín ekki sýna sér nógu mikla umhyggju og ást. Með því að beita dótturina ofbeldi finnst honum að hann sé að refsa konu sinni fyrir hegðun hennar gagnvart honum. Það má segja að meginástæðan fyrir kynferðisofbeldinu sé að sýna vald sitt yfir einhverjum. Gerandanum finnst hann vera máttlaus gagnvart þeirri manneskju sem hann er raunverulega reiður við og tekur út reiði á öðrum með því að nota ofbeldi eða hótanir um ofbeldi.

Ofbeldisfulli gerandinn

Í síðasta flokki gerenda er um að ræða mann sem beitir börn svo miklu ofbeldi að enginn getur verið í vafa um að barnið hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Á bak við kynferðisofbeldið er mikil reiði og gerandanum finnst hann vera í fullum rétti að hegða sér á þennan hátt gagnvart barninu. Margt bendir til að gerandinn sjái barnið ekki sem manneskju, það eru til dæmi um að svona gerendur hafi haft samfarir við tveggja vikna gömul börn, eða selt misnotað barn sitt öðrum sem síðan beita það kynferðislegu ofbeldi, jafnvel á meðan gerandinn horfir á. Í þessari gerð kynferðisofbeldis er alltaf um að ræða ofbeldi og hótanir um ofbeldi og getur það gengið svo langt að gerandinn tekur líf barnsins, til dæmis ef barnið neitar að verða við kynlífsóskum hans. Barnið vill yfirleitt ekki segja frá ef það lendir í geranda af þessu tagi, því að hræðslan við gerandann er svo yfirþyrmandi

Mat á kynferðisafbrotamönnum

Þeir sem fremja kynferðisafbrot eiga yfirleitt ekki eingöngu í vandræðum með kynlífshegðun sína, yfirleitt eiga þeir einnig við einhver önnur geðræn vandamál að stríða. Sálfræðilegt mat á geranda verður því að taka til athugunar á félagslegum, hugrænum, tilfinningalegum, og líkamlegum þáttum gerandans. Meta þarf sjálfan verknaðinn og reyna að greina þá atburði/þætti sem komu á undan og á meðan á verknaðinum stóð. Til dæmis í hvernig skapi brotamaðurinn var, hvort hann hafi haft áætlun um verknaðinn, hvort hann hafi neytt áfengis eða annarra fíkniefna, hvers eðlis verknaðurinn var, og tilfinningar hans til fórnarlambsins. Með viðtölum, sálfræðilegum prófum og lestri skýrslna reynir sá sem metur verknaðinn að varpa ljósi á:

·         Aðdraganda verknaðarins.

·         Hegðun brotamannsins, hvað gerði hann?

·         Hugsun, hvaða hugsanir skutu upp kollinum áður, á meðan og eftir glæpinn?

·         Tilfinningar, hvernig leið honum áður, á meðan og á eftir glæpinn?

·         Afleiðingar, hvaða afleiðingar telur hann að verknaðurinn hafi fyrir fórnarlambið og hann sjálfan bæði til skamms tíma og til langframa?

Í viðtölum við brotamanninn þarf einnig að fjalla um kynferðislegan og félagslegan þroska, þar á meðal samband hans við aðra fjölskyldumeðlimi, og heimilisaðstæður í æsku. Sérfræðingurinn reynir að fá fram hversu oft brotamaðurinn hefur stundað óeðlilegar og eðlilegar kynferðisathafnir og hvernig kynferðisleg hegðun gerandans við maka (fyrrverandi eða núverandi) er háttað. Það þarf einnig að varpa ljósi á ákveðna þætti sem tengjast þeim lífstíl sem gerandinn lifir, svo sem hvort hann neyti áfengis eða annarra vímuefna, einnig þarf að leggja mat á persónuleika hans. Þá er mikilvægt að mat sé lagt á viðhorf brotamannsins til kynlífs, sérstaklega hvaða hugmyndir hann hefur um kynlíf með börnum. Einnig er lagt mat á hugræna þætti, svo sem greind og ýmis konar hæfni við úrlausnir vandamála. Þau persónuleikaeinkenni sem einna helst eru skoðuð í mati á kynferðisafbrotamönnum eru:

·         Sjálfsvirðing

·         Hvatvísi

·         Samkennd

·         Reiði og reiðiviðbrögð

·         Persónuleikatruflun

·         Innhverfa/úthverfa

Meðferð kynferðisafbrotamanna

Margir kynferðisafbrotamenn neita að hafa framið afbrot eða sjá ekki að það sem þeir hafa gert sé rangt. Þess vegna getur verið erfitt að fá þá til að samþykkja meðferð. Markmið meðferðar er yfirleitt að fá afbrotamanninn til að viðurkenna ábyrgðina á afbrotinu og reyna að breyta á hegðun hans svo hann brjóti ekki af sér aftur, þ.e. koma í veg fyrir að viðkomandi fremji samskonar verknað aftur, og að hjálpa geranda að takast á við lífið. Ýmis konar meðferð hefur verið reynd á kynferðisbrotamönnum í gegnum árin. Meðal þess sem gert hefur verið í formi meðferðar er: Læknisfræðileg meðferð (organic treatments), sáleflismeðferð (psychotherapy), hugræn atferlismeðferð (cognitive-behavioural therapy), og fallvörn (relapse prevention). Læknisfræðileg meðferð

Í þessu felst meðal annars heilaaðgerðir, geldingar (með skurðaðgerð), og lyfjameðferð þar sem notast er við „antiandrogen“ lyf til að bæla kynþörfina. Þau lyf sem notast er við eru annars vegar CPA-lyf og hins vegar MPA-lyf. Bæði þessi lyf minnka kynferðislega svörun og tíðni kynferðislegra ímyndana og athafna. MPA minnkar kynferðislega hegðun eins lengi og viðkomandi tekur lyfin, en CPA hefur lengri verkun.

Rannsóknir hafa gefið til kynna að notkun lyfja, sem draga úr kynferðislegri löngun, hafa þau áhrif að kynferðishegðun minnkar eða hættir algjörlega. Þessi meðferð hefur þrátt fyrir það verið gagnrýnd á margan hátt. Því er t.d. haldið fram að hér sé aðeins um bælingu á kynhvöt en ekki um raunverulega „meðferð“ að ræða, og því sé annars konar sálfræðileg meðferð mjög mikilvæg samhliða lyfjameðferðinni. Ef ekki er notuð sálfræðileg meðferð samhliða lyfjameðferðinni, er ákveðin hætta á að hin bælda kynhvöt brjótist út á annan hátt, t.d. með ofbeldi, eða í versta falli mannsdrápi. Önnur gagnrýni snýr að siðferðilegu hlið þessa meðferðarforms. Því er haldið fram að með lyfjameðferð sé verið að bæla eina af frumhvötum mannsins, og þar af leiðandi sé verið að koma í veg fyrir að einstaklingurinn geti þróað með sér eðlilegt ástarsamband í eðlilegu umhverfi. Sáleflismeðferð

Það er samdóma álit flestra fræðimanna að hefðbundin sálgreining sé ekki heppileg meðferð fyrir kynferðisafbrotamenn. Ýmsar aðrar tegundir sálrænna meðferða hafa hins vegar gefið ágæta raun.

Þeir sem aðhyllast sáleflismeðferð telja að vandamál kynferðisafbrotamanna séu afurð vanrækslu í æsku, og að það hafi áhrif á sjálfsálit, traust, og reiðistjórnun. Þeir álíta að þetta séu meginvandamál afbrotamannsins. Meðferðarmarkmiðin eru þau að afbrotamaðurinn viðurkenni að hann eigi við vandamál að stríða, sætti sig við ábyrgð sína á gjörðum sínum, endurskoði viðhorf sín á kynlífi og reiði og geri sér grein fyrir að kynferðisleg árás sé áráttukennd hegðun sem hann verði að geta stjórnað. Hér er notast við endurmenntun sem veitir kynfræðslu, skilning á kynferðislegri árás, og hvaða áhrif árásin hefur á fórnarlambið. Í öðru lagi er notast við endur-félagsmótun (resocialisation) þar sem unnið er með samskiptin milli einstaklinga, reiðistjórnun og hæfileika sem foreldri. Sáleflismeðferð hefur sýnt sig bera árangur í meðferð á kynferðisbrotamönnum. Sérstaklega hefur hópmeðferð verið árangursrík. Í rannsókn þar sem kannaður var árangur hópmeðferðar, voru niðurstöðurnar þær að 8% þeirra einstaklinga sem tóku þátt í hópmeðferðinni, brutu af sér aftur, en 16% þeirra sem enga meðferð fengu frömdu aftur kynferðisglæp. Atferlismeðferð

Í gegnum árin hafa atferlisfræðingar notast við margs konar aðferðir til að reyna að draga úr óeðlilegri kynferðislegri örvun kynferðisafbrotamanna. Á grundvelli rannsókna á klassískri skilyrðingu var til dæmis reynt að draga úr kynferðislegri örvun með því að para saman lyf sem olli ógleði og því sem brotamanninum fannst æsandi. Þannig væri manni með barnahneigð til dæmis sýnd mynd af barni og á sama tíma fengi hann þetta lyf. Ef þetta yrði gert nógu oft myndi hann hætta að finna fyrir kynferðislegri örvun þegar hann fengi að sjá myndina. Þegar þessi meðferð kom fyrst fram voru miklar vonir bundnar við hana, enda hefur hún stundum skilað ágætum árangri, vegna siðferðislegra ástæðna er þessi meðferð lítið stunduð nú orðið.

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð byggir á grunni atferlismeðferðar við kynferðislegum frávikum. Í upphafi þessa meðferðarforms var megináherslan lögð á að breyta kynferðislegum hneigðum gerandans og að bæta félagslega færni hans. Í seinni tíð hefur ýmsum hugrænum þáttum verið bætt við þessa meðferð, einnig er fræðsla mikilvægur hluti meðferðar. Meginmarkmið með hugrænni atferlismeðferð eru að auka sjálfsstjórn, auka félagslega færni, og breyta viðhorfum, áhuga og hugsanabrenglun. Meðferð þarf því að taka til eftirfarandi þátta:

  • Kynferðislegra vandamála

-breyta afbrigðilegri hegðun í viðurkennda hegðun

-breyta viðhorfum, áhuga og hugsanabrenglun

-kynlífsfræðsla

  • Persónuleikavandamála

-efla sjálfsvirðingu

-þjálfa samkennd

-þjálfa félagslega færni

-breyta reiðiviðbrögðum.

Fallvörn (relapse prevention) er eitt form af hugrænni atferlismeðferð sem vert er að skoða sérstaklega. Fallvörn var upphaflega þróuð sem meðferðarfom til að hjálpa fólki með áfengisvandamál og átti að koma í veg fyrir að það félli. Síðan hefur fallvörn verið vinsælt meðferðarfom fyrir afbrotamenn. Fallvörn fyrir kynferðisafbrotamenn gegn börnum, felst í því að kenna einstaklingnum að finna við hvaða aðstæður hann finnur helst fyrir kenndum sínum, þekkja þær hugsanir sem geta verið undanfari afbrigðilegra langana og honum beri að varast. Honum er kennt að forðast þá staði þar sem kynferðisafbrot hans hafa átt sér stað, honum ber einnig að forðast svipaða staði og aðstæður. Dæmi um þetta væri að vera ekki einn með börnum eða bjóðast ekki til að passa börn. Ef það stefndi í að hann yrði einn með barni ætti hann að sjá til þess að einhver annar yrði til staðar. Það sem gerir þessa meðferð frekar erfiða fyrir þennan hóp einstaklinga er að í hefbundinni fallvörn er gert ráð fyrir að lítið fall geti átt sér stað og þá þurfi bara að grípa inní og koma í veg fyrir stórt fall. Þetta er augljóslega ekki mögulegt fyrir kynferðisbrotamenn og þarf kynferðisbrotamaðurinn að koma í veg fyrir, með öllu móti, að fall eigi sér stað. Þetta getur hann gert með því að bregðast rétt við þegar óeðlilegar kenndir eða hugsanir koma upp á yfirborðið. Fallvörn er talin mjög áhrifarík meðferð fyrir kynferðisbrotamenn þegar hugsað er um meginmarkmiðið með meðferðinni, þ.e. að koma í veg fyrir endurtekin kynferðisbrot. Það sem hins vegar er ábótavant er að oft þarf að hjálpa þessum einstaklingum að aðlagast samfélaginu upp á nýtt sem fullgildir þegnar með vinnu og félagslegan stuðning. Það er mikilvægt að kynferðisbrotamennirnir geri sér grein fyrir þessum takmörkunum og leiti einnig eftir aðstoð til að takast á við þessi félagslegu mál. Batahorfur

Ef við skoðum hverjir eru líklegri til að ná árangri í meðferð þá bendir flest til þess að þeir sem eiga fjölskyldur sem styðja þá og eru í tengslum við meðferðarferlið, ná frekar árangri en þeir sem eiga fjölskyldur sem styðja þá ekki. Ef afbrotamaðurinn hefur ekki beitt mörg fórnarlömb kynferðisofbeldi, þekkir fórnarlambið, beitti ekki öðru líkamlegu ofbeldi, hefur góð félagsleg tengsl við annað fólk, hefur haft stöðuga vinnu áður en afbrotið átti sér stað, og viðurkennir að brot hans er afbrot, þá hefur hann meiri möguleika á að geta nýtt sér meðferð. Allir þessir þættir auka líkurnar á að meðferðin muni nýtast afbrotamanninum sem best. Þegar þessu er öfugt farið, t.d. ef afbrotamaðurinn hefur brotið á mörgum, þekkir ekki fórnarlambið, beitti einnig öðru líkamlegu ofbeldi og svo framvegis, eru meiri líkur á að hann brjóti af sér aftur.

Þegar skoðaður er árangur meðferðar á afbrotamönnum vaknar oft gömul spurning um hvort nokkur meðferð virki? Hér áður fyrr var því gjarnan haldið fram að engin meðferð gagnaðist afbrotamönnum. Í kjölfar betri rannsókna og meiri þekkingar á þessum hópi einstaklinga, hefur þessum staðhæfingum, sem betur fer, verið kollvarpað á síðustu árum. Þetta á við um alla afbrotamann og þar af leiðandi einnig um kynferðisafbrotamenn. Rannsóknir síðustu tíu ára benda til að nánast allar gerðir meðferðar eru betri en engin meðferð. Sem dæmi er árangur hópmeðferðar, sem minnst var á áður í þessarri grein. Önnur rannsókn sýndi að 24% kynferðsafbrotamanna, sem fengu einhvers konar meðferð, brutu af sér aftur eftir tiltekinn tíma, samanborið við 52% þeirra kynferðisafbrotamanna sem ekki fengu meðferð. Í enn einni rannsókn höfðu 91% ekki brotið af sér aftur 17 árum eftir að þeir höfðu fengið meðferð. Við gætum haldið því sem næst endalaust að þylja upp tölur, en það sem skiptir máli er að meðferð virðist hafa áhrif og þó að árangurinn mætti vera meiri, þ.e.a.s. að flestir eða allir kynferðisafbrotamenn myndu aldrei brjóta af sér aftur, þá stuðlar meðferð á þessum afbrotamönnum að því að minnka líkurnar á að barn verði kynferðislega misnotað.

Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert er hægt að leita?

Ekki er um auðugan garð að gresja fyrir kynferðisafbrotamenn sem vilja leita sér aðstoðar. Það er þó hægt að nefna átakið Karlar til ábyrgðar. Í því felst sálfræðileg meðferð fyrir karla sem beita heimilisofbeldi, boðið er upp á hópmeðferð sem og einstaklingsviðtöl (einstaklingsviðtöl kosta 1500 kr). Átakið er á vegum Rauða Krossins. Upplýsingar má nálgast í síma 57-0400. Þess ber þó að geta að hér er aðallega um að ræða úrræði fyrir karla sem beita heimilisofbeldi.

Í fangelsum landsins hafa verið starfandi tveir sálfræðingar sem hafa boðið upp á meðferð fyrir þá sem fá dóm fyrir kynferðisbrot. Að öðru leyti eru aðallega úrræði fyrir þolendur. Hér er átt við t.d. Barnahús, Stígamót, Neyðarmóttöku nauðgana og önnur félagasamtök og stofnanir. Þeir sem hafa beitt kynferðislegu ofbeldi og vilja snúa til betri vegar, geta leitað til staða eins og félagsmálastofnunar, göngudeilda geðdeilda, fangelsismálstofnunar og fleiri staða til að leita sér hjálpar. Hvað geta aðstandendur gert?

Þegar um er að ræða einstakling sem beitt hefur kynferðisofbeldi, þá er allra mikilvægast að hann brjóti aldrei af sér aftur. Til þess að svo geti orðið verður hann að leita sér meðferðar. Möguleikarnir á bata ráðast meðal annars af því hversu vel viðkomandi nær að fóta sig í samfélaginu aftur. Þetta getur verið erfitt þar sem ættingjar, vinir og samfélagið snúa oft baki við þessum hópi einstaklinga. Á sama tíma má benda á að ef einstaklingurinn er að gera eitthvað í sínum málum, horfist í augum við skaðsemi þess sem hann hefur gert, og reynir allt til að forðast hugsanir og aðstæður þar sem hann gæti brotið aftur af sér, er félagslegur stuðningur ættingja afar mikilvægur. Þetta getur oft verið erfitt og nánast óyfirstíganlegt fyrir ættingja kynferðisafbrotamannsins, en á sama tíma mikilvægur hlekkur í því að afbrotamaðurinn brjóti ekki af sér aftur.

Það verður þó að benda á mikilvægt atriði, bæði fyrir aðstandendur sem og sérfræðinga sem eru að veita aðstoð. Þó svo að við bjóðum upp á hjálp og veitum trúnað, hefur trúnaður alltaf sín takmörk. Ef grunur er á að kynferðisbrot hafi verið framið gegn barni og einstaklingurinn viðurkennir það, þarf alltaf að „brjóta“ þennan trúnað. Barnaverndarlögin skylda alla að tilkynna grun um kynferðislega misnotkun til réttra aðila, þetta á við um ALLA.  

Björn Harðarson og Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur