persona.is
Fjármálalæsi eftir hrun
Sjá nánar » nám

Fjármálalæsi eftir hrun

Þegar leið á góðærið fór bera á umræðu um fjármálalæsi, eða öllu heldur skort á fjármálalæsi. Úttekt sem gerð ver á vegum Háskólans í Reykjavík leiddi í ljós að fjármálalæsi væri ábótavant og þörf á að taka upp kennslu í fjármálum í grunn- og framhaldsskólum. Reyndar hefur það verið svo að stærðfræðikennsla snýst stundum um það að fara með peninga, en það er ekki alltaf nóg. Eins og nafnið bendir til er fjármálalæsi það að geta aflað sér upplýsinga um fjármál og unnið úr þeim af (fjármála)viti, eða það að kunna að fara með peninga.

Eftir á að hyggja getur litið út fyrir að bankar og sparisjóðir hafi gert út á takmarkaða fjármálaþekkingu unga fólksins. Það var ekkert mál að fá lán og í málflutningi fjármálastofnana var jafnvel gert lítið úr því að binda of mikið af peningum í húsnæði og bílum, það væri miklu betra að taka þetta allt að láni heldur en að vera mörg ár að safna peningum. Þegar grannt er skoðað er það ekki sjálfgefið að það sé lán að skipta við sparisjóðinn eins og gefið var í skyn í auglýsingu. Lán er ekki alltaf lán í merkingunni heppni eða gæfa. Lán er ráðstöfun á framtíðartekjum, sem getur skert frelsi okkar verulega, það hefur orðið krystaltært eftir hrunið.

 

„Engin geimvísindi“

Það var fólk sem kunni að reikna sem stjórnaði fjármálastofnunum, en það voru forsendurnar sem brustu. Það er enginn vandi að áætla greiðslugetu langt fram í tímann miðað við þær forsendur að góðæri haldist. Þegar forsendur bresta er alveg sama hvað við reiknum nákvæmlega ef eitthvað breytist óvænt t.d. gengi íslensku krónunnar sem launin okkar miðast við en upphæðin sem við skuldum í Evrum meira en tvöfaldast. Það eru forsendurnar sem skipta máli. Ef við gefum okkur það sem forsendu að það sé „gott“ að skulda þá sitjum við í súpunni ef það verður allt í einu „vont“ að skulda.

Fyrstu mánuðina eftir hrun fór lítið fyrir auglýsingum banka og sparisjóða, en nú fara þær aftur vaxandi. Það er sérstök ástæða til að staldra við auglýsingar Landsbankans um nám og fyrirfram greidd námslán. Eins og margir vita þurfa háskólanemar að skila ákveðnum fjölda eininga eftir fyrstu önnina til þess að eiga kost á námsláni hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Námslán hjá LÍN eru á hagstæðari kjörum en bankalán. Bankar og sparisjóðir hafa boðist til að brúa bilið með yfirdráttarláni sem væntanleg námslán mundi greiða niður. Þetta virðist einfalt fyrirkomulag, en við nánari skoðun getur verið ástæða til að staldra við. Hvað ef háskólaneminn nær ekki tilskyldum einingafjölda og fær ekki námslán hjá LÍN. Ef námið gengur ekki nógu vel og námslánið kemur ekki situr neminn uppi með lán á óhagstæðari kjörum og þarf að finna leið til að borga það. Skuldin takmarkar síðan frelsi hans til að halda áfram í námi eða fara í annað nám.

Nei, það þarf ekki flókna útreikninga til að sjá gjörbreyttar forsendur í fjármálum. Varkárni er lykilatriði, sem þýðir að það er betra að eiga fyrir því sem við kaupum en að taka peninga að láni. Þetta þýðir að við þurfum oftar að neita okkur um það sem áður var sjálfsagt. Það er góð hugmynd að taka ekki auglýsingar of alvarlega. Líklega er skynsamlegt að líta svo á að auglýsingar fjármálastofnana um lán séu varasamar í þeim skilningi að „vörurnar“ geta bundið hendur okkar um mislanga framtíð. Bankalán er ekki lengur happ heldur skuldbinding sem heftir frelsi okkar. Lán sem byggja á þeim forsendum að allt gangi vel, eins og bankalán sem verði greidd upp þegar við fáum námslán frá LÍN, eru sérstaklega varasöm ef nemandinn er í námi með háa „fallprósentu“.

 

Hvenær borgar sig að taka lán?

Meirihluti þjóðarinnar, 85% fyrir nokkrum árum, býr í eigin húsnæði. Vegna þess að það var erfitt að fá leigt húsnæði til langs tíma á viðráðanlegri leigu var það talið mun hagstæðara að búa í eigin húsnæði. Það var t.d. erfitt fyrir barnafólk sem leigði húsnæði að búa við það óöryggi að láta börnin skipta um skóla árlega vegna flutninga. Annað sem hvatti til að fjárfesta í húsnæði var að fasteignaverð var oftast á uppleið en þá var hægt að líta á hærra verð á sambærilegum eignum sem meiri „eign“ í eigin húsnæði, svo framarlega sem verðið hækkaði meira en verðtryggingin á lánunum. Hvernig er þetta í dag? Það er mun meira í boði af leiguhúsnæði, en fasteignaverð hefur líka farið lækkandi. Leigjandinn hefur meira frelsi að því leyti sem hann getur flutt þegar leigutíminn rennur út og byrjað upp á nýtt annað hvort sem leigjandi eða kaupandi. Ef kostnaður við að búa í eigin húsnæði, þar með talinn vaxtakostnaður, er marktækt lægri en húsaleiga þá borgar sig að kaupa. Þegar það er útkoman þá þurfa flestir að taka lán til þess að láta „drauminn“ rætast.

Önnur gerð af fjárfestingu í framtíðinni er menntun. Í mörgum tilfellum eru skilyrði um menntun í mörgum störfum. Vonin um hærri laun í störfum sem krefjast menntunar er góð ástæða fyrir því að taka lán. Síðustu 30-40 árin hefur menntun í grundvallaratriðum verið opin öllum sem geta lært án tillits til efnahags foreldra. Lán frá LÍN hafa brúað bilið auk þess sem sumarvinna hefur staðið undir verulegum hluta af framfærslukostnaði nemenda á framhaldsskóla- og háskólastigi. Lán frá LÍN eru dæmi um lán sem líklegt er að borgi sig að taka.

 

Þetta er ekki flókið

Hvað er til ráða: Forðast eindregið að skulda. Allar lántökur þurfa að byggjast á því að lánið fari í fjárfestingu sem skilar meiri langtímaarði en sem nemur vöxtunum af því. Lánin frá LÍN gera ráð fyrir endurgreiðslum sem fara að hluta til eftir tekjum að námi loknu, það gildir ekki um bankalán. Svo þurfum við Íslendingar að hafa í huga afborganir af Icesave sem takmarka verulega frelsi okkar til að ráðstafa tekjum okkar í það sem við mundum óska okkur.

 

Jón Sigurður Karlsson

sálfræðingur, cand. psych. & oecon.