persona.is
Félagsfælni
Sjá nánar » Geðsjúkdómar » Kvíði

Hvað er félagsfælni?

Þegar fólk er spurt hvort það sé feimið, þá svara allt að 40% því játandi. Með feimni á fólk trúlega við það að finna stundum til óöryggis við nýstárlegar aðstæður eða í návist ókunnugra. Feimni hefur trúlega oft verið gagnleg áður fyrr, og er það e.t.v. ennþá þar sem hún leiðir til varkárni í samskiptum. Þegar varkárnin keyrir úr hófi fram er hins vegar ekki um feimni að ræða, heldur félagsfælni.

Hvað einkennir félagsfælni?

Félagsfælni einkennist fyrst og fremst af miklum og stöðugum ótta við félagslegar kringumstæður af einhverju tagi eða við að verða veginn og metinn af öðru fólki. Óttinn stafar af því sem einstaklingurinn heldur að gæti hugsanlega gerst, að hann hegði sér með þeim hætti að hann verði að athlægi eða verði sér til minnkunar. Að hendur hans taki að skjálfa og hann missi það sem hann heldur á, eða að hann stami, segi eitthvað óviðeigandi, svitni svo að sjáist o.s.frv. Hann forðast aðstæður sem hann telur að kalli fram vanlíðan hans, og láti hann sig hafa þær fyllist hann afar miklum kvíða og óþægindum. Áður en hann leggur af stað hugsar hann um allt það sem gæti farið úrskeiðis og upp þyrlast atvik þar sem honum finnst engum vafa undiorpið að hann hafi orðið sér til skammar. Þegar á staðinn er komið hverfist athyglin um hann sjálfan, eigin viðbrögð og kvíða. Stundum er þessu líka lýst þannig að eintaklingurinn skynji sjálfan sig eins og hann standi utan sjálfs sín og fylgist með sér. Eins og í annarri fælni getur óttinn birst í sterkum líkamlegum kvíðaeinkennum, eins og örum hjartslætti, óþægindum í meltingarfærum, svita, handskjálfta o.s.frv. Ef greina á félagsfælni sem röskun samkvæmt greiningarkerfi ameríska geðlæknafélagsins þurfa einkennin og/eða hliðrunin hjá aðstæðum (sem oft fylgir félagsfælni) að koma niður á starfi eða samskiptum einstaklingsins eða vera honum verulegt áhyggjuefni. Yfirþyrmandi aðstæður í augum þessara einstaklinga eru einkum þær að lenda í samkvæmum eða á fundum, tala við yfirboðara eða valdamenn og halda ræðu. Óttinn við að halda ræðu er af þessu mestur. Mismunandi undirflokkar

Venjan er sú að greina á milli tvenns konar félagsfælni, almennrar félagsfælni sem kemur fram í ótta við flestar félagslegar aðstæður og sérstaka eða afmarkða félagsfælni eða ótta við tilteknar aðstæður, eins og t.d. að snæða í návist annarra eða halda ræðu. Ýmislegt bendir til þess að munurinn á milli almennrar og sérstakrar félagsfælni felist ekki bara í því að óttinn beinist að fleiru í almennri félagsfælni. Svo virðist sem erfðir komi meira við sögu í hinu fyrrnefnda en því síðarnefnda.

Hverjir eru haldnir félagsfælni?

Á allra síðustu árum hafa augu fólk opnast fyrir því að félagsfælni ( eins og hún er skilgreind hér fyrr) er útbreiddara vandamál en talið var til skamms tíma. Það er reyndar alltaf matsatriði hvenær líta beri á tiltekin einkenni sem vísbendingu um geðröskun en engu að síður benda rannsóknir á félagsfælni eindregið til þess að hér sé um umfangsmikinn vanda að ræða. Rannsóknir í Norður-Ameríku segja að allt að 12-13% fólks sé haldið félagsfælni einhvern tíma á ævinni (sbr. greiningarkerfi bandaríska geðlæknafélagsins, skammstafað DSM-IV). Ef marka má þessar tölur er félagsfælni eitt algengasta vandamálið í geðheilbrigðismálum. Hvað varðar kynjaskiptingu í félagsfælni eru rannsóknir nokkuð misvísandi. Í heildina litið gefa þær þó vísbendingu til þess að félagsfælni sé álíka algeng meðal kvenna og karla, e.t.v. eilítið algengari meðal kvenna. Á hinn bóginn virðast karlar samkvæmt erlendum rannsóknum fremur leita sér meðferðar við henni. Þetta stafar e.t.v. af því að enn háttar þannig til í mörgum löndum að karlar eru fremur í störfum þar sem félagsfælni stendur starfsframa þeirra fyrir þrifum. Það hefur löngum verið talið að félagsfælni komi seinna í ljós en önnur afbrigði fælni. Á hinn bóginn er það svo, eins og síðar verður vikið að, að hlédrægni barna kemur yfirleitt mjög snemma í ljós. Það ræðst því af skilgreiningu á félagsfælni hvenær álitið er að hún komi fram. Á hinn bóginn má ætla að óháð skilgreiningu sé félagsfælni í flestum tilvikum komin til sögu á aldrinum 10-15 ára. En fólk leitar sér aðstoðar mun seinna (kannski eftir 15-20 ár). Hér er tíminn frá því að einkenni gera vart við sig til þess að aðstoðar er leitað mun lengri en t.d. við felmtursröskun (panic disorder). Ein skýringin á þessu sinnuleysi fólks að leita sér hjálpar er álitin vera hugmyndir þess um að ekki sé hægt að ráða bót á félagsfælni (sjá síðar um meðferð). Á hinn bóginn er það svo að ef ekkert er gert til að sporna við vandanum er félagsfælni viðvarandi alla ævi. Félagsfælni hjá börnum og unglingum

Félagsfælni er vafalaust vandamál sem er ekki nægjanlega sinnt hjá börnum og unglingum. Félagsfælin börn kalla ekki á athygli og umönnun á sama hátt og börn með önnur vandamál. Eins og fyrr var minnst á eru börn oft feimin, ekki síst gagnvart fullorðnum. En þau geta líka verið félagsfælin í þeim skilningi sem það hugtak hefur verið notað um félgasfælni fullorðinna. Enda þótt feimni eða félagsfælni geti komið snemma til sögu sýna rannsóknir að ótti við álit annarra eykst mikið síðast á barnsaldri og í byrjun unglingsaldurs. Þegar hér er komið sögu hefur barnið/unglingurinn fengið aukinn þroska til að skilja flókin samskiptamynstur og til að beina athyglinni að sjálfum sér. Hinn aukni skilningur og hæfni til að beina athyglinni að sjálfum sér býður heim þeirri hættu að það sé gert með neikvæðum hætti. Þetta getur komið niður á tengslum við vini og félaga og leitt til félagslegrar einangrunar. Samhliða þessu getur félagsfælni komið mjög niður á skólagöngu og velgengni í skóla. Barnið eða unglingurinn getur farið að forðast að fara í skólann, t.d. af ótta við að þurfa að lesa eða tala fyrir framan bekkinn. Þegar barn eða unglingur vill ekki fara í skólann eða á mannamót er mikilvægt að átta sig á því hvers kyns er. Er hér um félagsfælni að ræða, þunglyndi eða þá e.t.v. hvort tveggja. Meðferð félagsfælni er svipuð hvort börn, unglingar eða fullorðnir eiga í hlut. Það er fremur stutt síðan skipulegar rannsóknir á félagsfælni og meðferð hennar hófust. Meðferðin sem er veitt virðist hins vegar lofa góðu. Mikilvægt er þróa fyrirbyggjandi meðferð sem kemur í veg fyrir að félagsfælni barna og unglinga hafi áhrif á líf þeirra og lífsgæði síðar á ævinni. Það er samt mikilvægt að átta sig á því að enda þótt barn sé afar feimið eru líkurnar sem betur fer litlar til þess að barnið þrói með sér alvarleg kvíðavandamál.

Fylgikvillar

Ýmis önnur vandamál fylgja félagsfælni. Fyrst má nefna prófkvíða. Menn eru ekki fyllilega sammála um hvort líta beri á prófkvíða sem sérstakt afbrigði félagsfælni þótt ýmislegt mæli með því, prófkvíði eins og félagskvíði snýst um ótta við álit eða mat annarra. Ýmis vandamál dafna í kjölfar félagsfælni eða samhliða. Nefna má ofneyslu áfengis og þunglyndi. Félagsfælinn maður gæti leitað á náðir flöskunnar í því skyni að drekka í sig kjark en sú leið hans skapar aðeins nýtt vandamál. Þunglyndi kemur oft sem afleiðing félagsfælni. En þessu getur líka verið öfugt farið, félagsfælni getur verið fylgifiskur þunglyndis og ofneyslu á áfengi og hverfur þegar dregur úr þessu. Félagsfælni getur líka orðið vegna stams, parkinsonssjúkdóms, offitu eða líkamslýta. Ekki er fyllilega ljóst í hve ríkum mæli félagsfælni af slíkum meiði er miðað við félagsfælni almennt. Af þessu er ljóst aðfar mikilvægt er að kanna rækilega hvort álíka kvillar og hér hefur verið talið leynist þegar tekið er á félagsfælni einstaklings.

Hvað veldur félagsfælni?

Það er eins með félagsfælni og flesta kvilla eða raskanir sem fjallað er um á þessum vef að skynsamlegast er að ganga út frá því að flókið samspil margra ólíkra þátta liggi að baki þeirra. Ýmsar orsakir eru þó þekktar. Fyrst er að nefna skapgerðareinkenni sem fólki hlotnast í vöggugjöf. Mjög snemma er hægt að greina hjá börnum hvort þau vilja halda sig til hlés, eru feimin, eða leika við hvern sinn fingur í návist annarra. Hlédræg börn virðast eiga það frekar á hættu að verða félagsfælin en glaðvær börn. Skapgerð er því áhættuþáttur í félagsfælni, þó hann sé trúlega í fæstum tilvikum nægjanlegur einn og sér. Því til viðbótar má nefna eins konar ýkta sjálfsvitund sem bólar á upp úr 10 ára aldri og kemur fram í feimni. Rætur slíkrar sjálfsvitundar eru vitanlega aukinn vitsmunalegur þroski en hjá sumum keyrir hún úr hófi fram í feimni. Þetta kemur heim og saman við frásagnir fólks sem segist hafa verið feimið svo lengi sem það muni eftir sér eða að feimnin hafi byrjað um eða rétt fyrir kynþroskaskeiðið. Erfðarannsóknir (tvíburarannsóknir) hafa beinst að erfðaþættinum í félagslegum ótta og félagsfælni. Þessar rannsóknir eru ekki margar enn sem komið en benda engu að síður til þess að erfðaþátturinn sé nokkur (ef nefna ætti einhverja tölu hér væri sú tala einna helst í kringum 30%). En þá þarf líka að komast að því í hverju erfðaþátturinn/þættirnir felast. Trúlega er þar um að ræða eitthvað í líkingu við þau skapgerðareinkenni sem fyrr var getið. Vísbendingar eru líka í þeim dúr að óheppilegar uppeldisaðferðir og neikvæð tengsl við vini og félaga geti aukið hættuna á því að félagsfælni nái að þróast. Dæmi um óæskilegar uppeldisaðferðir eru t.d. þegar uppburðarlítil börn eru ofvernduð eða þegar foreldrar eru kuldalegir, jafnvel hranalegir, í uppeldinu. Stundum má rekja félagsfælni til sársaukafullrar reynslu, t.d. stríðni, sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir eða jafnvel séð aðra verða fyrir. Þegar hægt er að rekja upphaf fælninnar til slíkrar reynslu er sagt að skilyrðing hafi átt sér stað. Í mörgum tilvikum, einkum þegar um almenna félagsfælni er að ræða er hins vegar ekki hægt að benda á slíkan atburð sem fælnin eigi upphaf sitt í og jafnvel þegar um það er að ræða má ætla að skilyrðing af þessu tæi eigi sér fyrst og fremst stað þegar aðrir áhættuþættir (eins og tilteki skapgerð eru einnig til staðar). Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað viðheldur félagsfælninni til þess að hægt sé að draga úr henni eða vinna gegn. Þeir sem eru félagsfælnir virðast ofmeta í hve ríkum mæli ótti þeirra er sjáanlegur. Þetta eykur óttann enn frekar. Þá beina þeir athygli sinni miklu frekar að sjálfum sér og eigin viðbrögum í stað aðstæða sinna. Þetta hefur í fyrsta lagi í för með sér að þeir kunna að gera ýmislegt sem kann að virðast ankannalegt og í öðru lagi að mat þeirra á því sem gerist ræðst meira af neikvæðum væntingum en því sem í raun og veru fer fram. Það sem einna mestu máli skiptir í að viðhalda félagsfælni er að viðkomandi hliðrar sér hjá erfiðum aðstæðum eða grípur til svonefndrar „öryggishegðunar“. Slík hegðun felst í því að viðkomandi gerir eitthvað til þess að draga úr „hættunni“ við erfiðar aðstæður og finnst eftir á að þetta hafi komið í veg fyrir að hann yrði sér t.d. til skammar. Dæmi um þetta gæti verið að setjast aftast á mannmörgum fundi. Hliðrun gæti falist í því að mæta alls ekki á fundinn. Hegðun af þessu tagi kemur í veg fyrir að sá sem á við félagsfælni að stríða geri sér grein fyrir að það sem hann óttast gerist ekki í raun og veru eða er alls ekki eins ógnvænlegt og honum finnst það hljóti að vera

Hvernig fer greining fram?

Greining á félagsfælni hjá fullorðnum byggist fyrst og fremst á viðtölum. Hjá börnum eru líka viðtöl og foreldrar beðnir um að gefa greinagóðar upplýsingar um barnið. Þegar ákvörðun er tekin hvort líta megi á einkennin sem röskun er yfirleitt tekið mið af greiningarkerfi ameríska geðlæknafélagsins. Niðurstöður sjálfslýsingarprófa (mat foreldra og kennara þegar börn eiga í hlut) eru gagnlegar þegar vandinn er skilgreindur. Það skiptir máli að gera greinarmun á félagsfælni og þunglyndis. Ástæður hvors um sig eru ólíkar þegar fólk með þessa sjúkdóma einangrar sig frá samskiptum við aðra af því að hvort tveggja er ólíkt meðhöndlað . Hvaða próf er notast við?

Ýmis próf eru notuð til að meta félagskvíða, bæði hjá fullorðnum og börnum. Hjá fullorðnum er þar einna helst SPAI (Social Phobia and Anxiety Inventory) sem er 48 spurninga sjálfslýsingapróf. Hjá börnum er það t.d. Revised Manifest Anxiety Scale for Children þar sem einn fjögurra kvarða er félagskvíðakvarði og SPAI-C eða Social Phobia and Anxiety Inventory for Children. Síðastnefndi kvarðinn er notaður bæði í sjálfslýsingar og foreldraútgáfu. Leggja verður ríka áherslu á að þessi tæki er ekki hægt að nota ein og sér til greiningar.

Meðferð

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í lækningu á félagsfælni. Beitt er í meginatriðum tvenns konar meðferð, annars vegar hugrænni atferlismeðferð og hins vegar lyfjameðferð af ýmsu tagi. Lítum fyrst á hugræna atferlismeðferð. Hér er lögð áhersla á að hægt sé að læra að bregðast við félagslegum aðstæðum með öðrum hætti en með hliðrun eða miklum kvíða og ótta. Í slíkri meðferð eru ýmsar leiðir sem hafa mismunandi sess eftir því hvernig vandamálið birtist í hverju og einu tilviki.  

Þjálfun í félagslegri hæfni

Í sumum tilvikum getur langvarandi félagsfælni haft þau áhrif að viðkomandi verður óviss um hvernig eigi að bera sig að í félagslegum samskiptum. Þetta geta verið einföld atriði, eins og hvernig eigi að hefja samræður eða ljúka þeim. Taka ber samt skýrt fram að í fæstum tilvikum er hægt að skýra félagsfælni með skorti á félagsfærni. Í flestum tilvikum er miklu fremur um að ræða vanmat á eigin færni. Vegna ýmissa þeirra þátta sem greint var frá um orsakir vanmeta þeir sem eiga við félagsfælni að stríða færni sína. Í slíkum tilvikum getur t.d. verið gagnlegt að taka upp á myndband hlutverkaleik sem skjólstæðingur tekur þátt í og skoða hann í sameiningu. Hann kemst að því að hugmyndir hans um það hvernig hann kemur öðrum fyrir sjónir eiga ekki við rök að styðjast, og sjálfsálitið eykst.

Þjálfun í að mæta aðstæðum

Þetta er aðferð sem ber nánast árangurí öllum kvíðavandamálum. Hún byggist á því að slá á óttann sem fólk finnur fyrir þegar það mætir aðstæðum sem því finnst það ekki ráði við. Smám saman hjaðnar kvíðatilfinningin, líkt og hafi verið bólusett við henni, og viðkomandi betur í stakk búinn til að mæta aðstæðunum í næsta skipti. Félagsfælið fólk hefur margt hvert reynt álíka upp á eigin spýtur, stundum með litlum árangri. Þetta þarf að framkvæma á tiltekinn hátt og því mikilvægt að það sé gert undir handleiðslu fagmanna. Að sviðssetja aðstæðurnar í stað þess að mæta þeim fyrir eigin hugskotssjónum reynist einfaldlega betur. Samhliða því er fólki kennt að slaka á.

Takast á við hugmyndir um samskipti 

Óraunsæjar hugmyndir um sjálfan sig og samskipti eiga oft, ef ekki oftast, þátt í því að viðhalda félagsfælni. Þessar hugmyndir snúist um það að annað fólk líti niður á það eða finnist það hlægilegt verði því á að mismæla sig eða roðna. M.ö.o. annar á að sjá nákvæmlega hvernig því líður. Hugmyndir af þessum toga þurfa að breytast ef langtímaárangur á meðferð eigi að nást.

Hugræn atferlismeðferð hefur gefið góða raun í að meðhöndla  félagsfælni enda þótt fræðimenn séu ekki fyllilega sammála um hvaða þættir hennar það séu helst sem skila árangri. Skoðum núna lyfjameðferð við félagsfælni. Fjölmörgum lyfjum hefur verið beitt í að lækna félagsfælni, m.a. eldri og yngri þunglyndislyfjum og kvíðastillandi lyfjum. Stóraukin þekking á allra síðustu árum hefur orðið á gagnsemi lyfja við félagsfælni. Lyfjameðferð geta fylgt aukaverkanir og í sumum tilfellum er hætta á ánetjun, en með þessum fyrirvara virðist lyfjameðferð oft bera góðan árangur. E.t.v. gagnast lyfjameðferð samt best þegar henni er beitt samhliða þeim aðferðum sem fyrr voru nefndar (hugræn atferlismeðferð). Sérfróðir fagmenn ættu að meta aðferðir í hverju einstaka tilviki fyrir sig. Þar vegur þungt hvernig vandamálið kemur fram hjá viðkomandi, önnur vandamál sem hann á við að stríða svo og aðgengi hans að fagmönnum sérfróðum á mismunandi meðferðarleiðir. Hverjar eru batahorfurnar?

Eins og fram kemur hér að ofan eru batahorfur góðar fyrir félagsfælinn einstakling ef hann leitar sér lækninga. Fjölmörg meðferðarúrræði haf gagnast vel og verið er að þróa önnur sem væntanlega verða enn betri. Því miður er það enn svo að margir halda að enga hjálp sé að fá eða þeir eiga erfitt með að leita hennar. Vandamálið er einmitt þess eðlis að það er sérstaklega erfitt fyrir þetta fólk að leita sér aðstoðar.

Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert er hægt að leita eftir hjálp?

Starfandi geðlæknar og sálfræðingar þekkja vel til félagsfælni og hafa sumir mikla reynslu af meðferð við henni. Gott er því að leita beint til þessara sérfræðinga. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn þekkja líka til vandamálsins og geta veitt ráð og leiðbeiningar um hvert sé skynsamlegt að leita.

Hvernig geta aðstandendur veitt hjálp?

Það á við um félagsfælni eins og mörg önnur geðræn vandamál að aðstandendur geta fyrst og fremst veitt aðstoð með því að hlusta og styðja fólk til þess að leita sér aðstoðar.

Jakob Smári, sálfræðingur