persona.is
Feiminn þvagblaðra
Sjá nánar » Kvíði

Að eiga í erfiðleikum með að pissa á almenningssalernum eða “feiminn þvagblaðra” (shy bladder, bashful bladder, paruresis) eins og það hefur verið nefnt,  er frekar þekkt vandamál.  Hinsvegar er það kannski ekki vandamál sem mikið er talað um.  Þetta vandamál er venjulega flokkað sem félagslegur kvíði eða félagsfælni. 

Fólk sem er með svokallaða “feimna þvagblöðru” þjáist oft af félagslegum kvíða við aðrar aðstæður en þó alls ekki alltaf.  Það sem einkennir einstaklinga sem þjást af þessu er að þeir eiga í erfiðleikum með að pissa í félagslegum aðstæðum eins og á almenningssalernum.  Það er reyndar mjög mismunandi hversu mikið blaðran er “feiminn“, og þá hversu mikið þetta vandamál truflar einstaklinginn í daglegu lífi.  Sumir eiga aðeins í erfiðleikum með að pissa þar sem þeir geta ekki lokað að sér, aðrir geta alls ekki pissað á almenningsklósetti og enn aðrir geta aðeins pissað heima hjá sér.  Í verstu tilfellum upplifir einstaklingurinn að hann geti aðeins pissað heima hjá sér þegar hann er algjörlega einn og með lokað og læst inn á klósett.  Ef við reynum að átta okkur á því hvað það er sem hefur áhrif á hvort einstaklingur með “feimna þvagblöðru” getur pissað eða ekki eru nokkur atriði sem mikilvægt er að skoða.  Það fyrsta er hvort eitthvað fólk er nálægt viðkomandi og ef svo er hverjir það eru og hversu marga er um að ræða.  Fjarlægðin sem fólk er frá einstaklingnum er mikilvægur áhrifaþáttur á það hvort fólk getur pissað eða ekki.  Hljóð getur líka haft áhrif, þar sem sumum finnst erfitt að pissa ef það er mikill skarkali meðan aðrir eiga auðveldara með að pissa í skarkala.  Það virðist líka sem mismunandi tilfinningasveiflur hafi áhrif á hvort fólk geti pissað en þar er kvíði lang algengasti áhrifaþátturinn.  Þar af leiðandi skiptir miklu máli fyrir einstaklinginn að ná að slaka nægjanlega á til að geta pissað. 

En hversvegna á fólk í erfiðleikum með að pissa? Hjá mörgum er ekki hægt að finna neina sérstaka skýringu á meðan aðrir geta rifjað upp gamla minningu eins og að hafa verið niðurlægð á meðan þau voru að pissa þegar þau voru börn. 

En áður en við fullyrðum að fólk sem á í erfiðleikum með að pissa sé með “feimna þvagblöðru” er mikilvægt að útiloka fyrst önnur líkamleg vandamál með blöðruna.  “Feiminn þvagblaðra” er eingöngu sálfræðilegt vandamál sem tengist því, að í ákveðnum félagslegum aðstæðum kemur sálrænt ástand í veg fyrir að fólk geti pissað.  Fólk getur verið mikið mál að pissa í mjög langan tíma eins og 16-20 tíma en nær ekki að pissa fyrr en það kemst í nægjanlegt næði.  Þessir sömu einstaklingar eiga síðan í engum vandræðum með að pissa í afslöppuðum aðstæðum þar sem ekkert fólk er nálægt.  Ef erfiðleikarnir eru í öllum aðstæðum er mjög líklega um líklamlegt vandamál að ræða. 

            Í Bandaríkjunum hefur borið á mikið af málum þar sem fólk hefur verið ranglega “dæmt” fyrir þetta vandamál.  Algengt er orðið á vinnustöðum, fangelsum og í öðrum aðstæðum að fólk þurfi að gefa þvagsýni til að útiloka neyslu.  Fólk með feimna þvagblöðru getur átt í miklum erfiðleikum með að gefa þvagsýni í þessum aðstæðum og hefur sem dæmi misst vinnu vegna erfiðleika við að gefa þvagsýni.  Þar sem erfitt hefur verið að greina á milli þess hverjir séu með feimna þvagblöðru og hverjir séu með “slæma samvisku” og vilja því ekki pissa, hafa staðir sem krefjast lyfjaprófanna oft verið hvattir til að breyta um aðferðir og nota frekar aðrar prófanir (munnvatn, hársýni, blóðprufur, o.s.frv.)

            Það getur verið mismunandi, eins og áður sagði, hversu mikið feimin þvagblaðra truflar fólk og hvort fólk þurfi að yfirvinna vandann.  Sú aðferð sem hefur reynst best við þessum vanda er byggð á hugrænni atferlismeðferð þar sem einstaklingurinn tekst smám saman á við “erfiðari” og “erfiðari” aðstæður við að pissa og yfirvinnur þannig vandann á mjög skömmum tíma.

 

 

 

Björn Harðarson

Sálfræðingur

Eygló Guðmundsdóttir

Sálfræðingur