persona.is
Fælni
Sjá nánar » Kvíði

Fælni þekkist bæði hjá dýrum og mönnum. Fælni kallast á erlendum málum fóbía og er orðið dregið af Phobos en það var nafn á grískum guði sem vakti mikinn ótta hjá óvinum sínum.

Íslendingum er tamt að tengja fælni við hesta. Taka má dæmi af útreiðatúr. Fyrr en varir tekur hesturinn á rás án þess að knapinn geri sér grein fyrir hvers vegna. Þegar hann nær valdi á hestinum er útreiðatúrnum haldið áfram. Á leiðinni til baka tekur hesturinn á sig krók er hann nálgast þann stað þar sem hann varð fælinn áður. Vanur hestamaður veit hvað gera skal og stígur af baki. Segjum sem svo að hann finni gaddavír þar sem hesturinn fældist og fjarlægi hann. Síðan teymir hann hestinn yfir þann stað þar sem gaddavírinn lá áður og lætur vel að hestinum. Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum. Því næst stígur hann á bak hestinum og fer fetið. Eftir nokkra hríð getur hann greikkað sporið og að lokum hefur honum tekist að láta hestinn yfirvinna óttann og getur riðið honum eins og ekkert hafi í skorist þá leið sem hann veigraði sér við að fara.

Hvað einkennir fælni?

Aðaleinkenni fælni er stöðugur og óraunhæfur ótti við ákveðinn hlut, ákveðnar gerðir eða aðstæður. Þetta veldur sterkri löngun til að forðast það sem óttinn beinist að. Einstaklingurinn veit að óttinn er ýktur og óraunhæfur miðað við raunverulega hættu. Hann hliðrar sér samt hjá óþægilegum staðreyndum og óttinn hjaðnar. Þessi léttir blæs lífi í fælni og kemur í veg fyrir að hún fjari út af sjálfu sér. Hinn fælni óttast eigin viðbrögð, hann óttast óttann. Fælnin festist í sessi því oftar sem hann hliðrar sér hjá einhverju og að lokum fer hún að stjórna lífi hins fælna. Til þess að hægt sé að tala um fælni verður óttinn í senn að valda röskun í daglegu lífi og vera yfirdrifinn. Þá er einnig mikilvægt að greina þá sem hafa getu til einhvers en gera það ekki, frá hinum sem ráða ekki við hluti og framkvæma ekki af þeirri ástæðu. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að fælni einkennist í senn af hugsunum, atferli og lífeðlislegum viðbrögðum. Hin hugrænu viðbrögð einkennast af hugmyndum um neikvæðar afleiðingar þess sem tekist er á við. Hinum fælna finnst hann missa stjórn á sjálfum sér og óttast að gera sig að athlægi, falla í yfirlið eða jafnvel deyja. Hegðunin endurspeglast í flóttaviðbrögðum og/eða hliðrun, „brennt barn forðast eldinn“. Helstu lífeðlislegu breytingarnar sem eiga sér stað samfara fælni eru „hrökkva eða stökkva“ viðbrögðin. Þau einkennast af svita, hitakófi eða hrollkulda, hjartsláttaróreglu eða örum hjartslætti, andnauð eða andþrengslum, yfirliðstilfinningu og almennri vanlíðan. Handskjálfti, að vera tregt um tal og hæsi í rödd eru líka einkenni fælni, sem og almenns kvíða. Það er munur á hræðslu og fælni. Fælni raskar lífi hins fælna og fjölskyldu hans og hverfur ekki með tímanum. Hún er órökrænn ótti sem er bæði hamlandi og kallar á meðferð. Hræðsla er hins vegar eðlilegt viðbragð við yfirvofandi hættu eða ógnun, hefur ekki hamlandi áhrif á athafnafrelsi og krefst ekki meðferðar. Mörk fælni og hræðslu geta þó verið óljós, einkum er erfitt að greina mikla hræðslu frá vægri fælni. Hræðsla er algeng meðal barna, en truflar ekki daglegt líf og hverfur með tímanum. Fælni er hins vegar sjaldgæf meðal barna.

Helstu tegundir fælni

Venja er að greina milli þriggja tegunda fælni, þ.e. einfaldrar fælni, félagslegrar fælni og víðáttufælni. Einföld fælni tengist ákveðnum aðstæðum eða hlutum. Þar má nefna fælni tengda hundum, sprautum, vatni, lyftum, flugvélum, óveðri, tannlækni, rakara og svo framvegis. Annar flokkurinn er félagsfælni og er hún einkum tengd fælni við að tala opinberlega, fælni við að vera innan um fólk, að fælast samneyti við hitt kynið, hræðslu við að borða eða drekka á veitingastöðum o.s.frv. Í þriðja flokknum er víðáttufælni, sem er hræðslan við að vera einn og eiga í erfiðleikum sem tengjast því að fara að heiman. Hinn víðáttufælni óttast ekki einungis að vera einn á berangri heldur er hann oft hræddur við innilokun. Hann óttast að vera innan um fólk, kaupa inn í stórum verslunum, bíða í biðröðum, ganga á fjölförnum götum og torgum, fara í kvikmyndahús, leikhús, veitingastaði, ferðast o.s.frv. ªttinn leiðir til þess að fólk heldur dauðahaldi í staði sem það telur örugga eða fólk sem það getur reitt sig á. Þetta er alvarlegasta tegund fælni og þegar hún birtist í sinni verstu mynd er fólk orðið að föngum í fangelsi án rimla.

Útbreiðsla

Í íslenskri rannsókn kom í ljós að ætla má að 18.500 Íslendingar séu haldnir einhvers konar fælni. Algengi á sex mánaða tímabili var meira meðal kvenna (8,8%) en karla (5,3%). Mestur kynjamunur kom fram meðal þeirra sem haldnir voru víðáttufælni, þar sem 3,1% kvenna voru haldnar víðáttufælni, en 1,7% karla. Einföld fælni var algengust meðal þeirra sem voru á aldrinum 30-39 ára, félagsfælni á aldrinum 40-49 ára og víðáttufælni í aldurshópunum 16-39 ára. Þessar niðurstöður sýna að fælni er næstalgengust sálrænna vandkvæða og kemur næst á eftir ofdrykkju. Fælni bera menn ekki á torg. Hinir fælnu bera harm sinn í hljóði og fyrirverða sig fyrir að eiga erfitt með að framkvæma margt af því sem öðrum reynist auðvelt. Þeir mæta líka skilningsleysi þegar þeir bera sig upp við aðra. Flestar rannsóknir benda til þess að fælni sé algengari meðal kvenna en karla, en engin augljós skýring er á því. Ein skýring kann að vera að strákar séu fremur hvattir til dáða á unga aldri en stúlkur. Þannig þyki ókarlmannlegt af strák að hræðast flugur eða skordýr og honum er líklega att út í að horfast í augu við skorkvikindin, þó að stúlkum líðist að vera haldnar slíkum ótta. Önnur skýring kann að vera sú að kvenmenn séu óhræddari við að viðurkenna ótta en karlar.

Uppruni

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um það hvernig fólk verður fælið og hafa menn einkum beint sjónum sínum að þremur atriðum. Í fyrsta lagi má nefna skilyrðingu. Sem dæmi má taka mann sem lokast inni í lyftu og kemst ekki út fyrr en eftir langan tíma. Á meðan á innilokun stendur magnast líffræðileg viðbrögð. ªþægindi og óvissa um hvenær hann losni út verða allsráðandi. Þegar maðurinn losnar úr lyftunni líður honum betur. Eftir þessa reynslu nægir að beina huganum að því að festast í lyftu til að framkalla sömu viðbrögð og hann fann fyrir þegar hann var innilokaður í lyftunni. Hræðslan við lyftur getur breiðst út til svipaðra aðstæðna, svo sem að vera lokaður inni í herbergi, ferðast með strætisvögnum, lestum og flugvélum og jafnvel til aðstæðna sem ekki er hægt að komast frá fyrirvaralaust, eins og að sitja í stól hjá rakara, hárgreiðslukonu eða tannlækni. Tæplega 60% fælinna eru taldir verða fælnir á þennan hátt. Í öðru lagi getur fælni lærst með svonefndu herminámi. Þar má hugsa sér móður sem fælist hunda eftir að hafa verið bitin á unga aldri. Þegar hún er á gangi með barn sitt og hundur verður á vegi þeirra, hliðrar hún sér hjá hundinum með því að taka barnið í fangið, fara yfir götu, í næsta hús eða í næstu búð. Samtímis vakna lífeðlisleg viðbrögð. Barnið sem móðirin heldur þéttingsfast að barmi sér skynjar viðbrögð og spennu móðurinnar. Þegar barnið eldist og fer að leika sér úti varar móðirin það við flækingshundum, þeir geti bitið og barnið fengið hundaæði. Þá gæti barnið heyrt móður sína segja frá reynslu sinni þegar hún var bitin, hvað það blæddi mikið, frá sársaukanum og þeim sárum sem af hlutust. Smám saman tileinkar barnið sér fælni móðurinnar. Um 17% verða fælnir á þennan hátt. Í þriðja lagi lærist fælni gagnvart ýmsu sem ber fyrir augu í daglegu lífi, í sjónvarpi eða bíói og því sem sagt er frá eða lesið um að geti verið hættulegt. Dæmi um þetta er maður sem horfir á kvikmynd sem fjallar um lítil skordýr og köngulær og verður fælinn við þær upp frá því. Flestir hinna fælnu í fyrrgreindri rannsókn gátu rakið ótta sinn til ákveðins atburðar, þegar þeim leið illa eða fundu fyrir kvíða. Einnig var algengt að þeir hefðu hitt einhvern sem sýndi áköf óttaviðbrögð og/eða kvíða við þær aðstæður sem þeir óttuðust sjálfir.

Meðferð

Þegar tekist er á við fælni skiptir mestu að vita hvað viðkomandi óttast, við hvaða aðstæður fælnin kemur fram og hvaða afleiðingar hún hefur. Minna máli skiptir hvers vegna óttinn beinist að einu fremur en öðru. Þegar fælni er meðhöndluð eru kennd viðbrögð sem hjálpa fólki að bregðast við á réttan hátt þegar það verður hrætt. Eigi að halda fælni í skefjum verða menn að horfast í augu við það sem fælnin beinist að, ekki einungis þangað til fælnin hverfur, heldur þarf að halda áfram að horfast í augu við aðstæður sem áður vöktu hana. Á þann hátt eru rétt og eðlileg viðbrögð fest í sessi.

Eiríkur Örn Arnarson, sálfræðingur