persona.is
Erfiðleikar í námi
Sjá nánar » Börn/Unglingar » nám
Foreldrar Egils eru áhyggjufullir. Egill er níu ára og í fjórða bekk grunnskóla. Hann er enn nánast ólæs og byrjaður að dragast aftur úr í stærðfræði og skrift. Egill var kappsfullur þegar hann byrjaði í 6 ára bekk en nú er áhuginn á skólanámi enginn. Skólabækurnar eru velktar, útkrotaðar og bera með sér lítil afköst yfir skóladaginn. Kennari Egils kvartar yfir ástundunarleysi og telur drenginn eiga erfitt með einbeitingu. Móðir Egils er heimavinnandi og leggur ríka áherslu á að heimavinnunni sé sinnt. Hún hefur áhyggjur af því að heimavinnan taki of langan tíma. Lunginn úr eftirmiðdeginum fer í heimanámið, allt upp í 3-4 tímar. Verst er að megnið af tímanum fer í þras, eftirgangsmuni og undanbrögð. Stundum missir móðir Egils þolinmæðina og tekur son sinn til bæna, en einnig kemur fyrir að hún missi móðinn og geri heimaverkefnin fyrir hann. Egill gegnir pabba sínum betur við heimanámið. Pabbi hans hefur þó takmarkaða þolinmæði og reglulega sýður upp úr milli feðganna yfir heimanáminu. Að heimanámi slepptu er Egill ljúft og þægilegt barn. Ættingjar og fjölskylduvinir hafa orð á því hve prúður drengurinn sé og hann gengst upp í því að hjálpa afa sínum og ömmu með smáviðvik. Móðir hans er því með nagandi ótta um að hún sé að gera eitthvað vitlaust. Sérstaklega hefur hún áhyggjur af því að hann á enga jafnaldra vini; fer hann kannski á mis við allan félagsskap vegna þess hve stíft hún heldur honum að heimanáminu?    Hvaða vandi er hér á ferð? Þessi saga er einkennandi fyrir mörg börn í námserfiðleikum. Í sumum tilfellum gengur foreldrum og börnum þeirra mun betur að takast á við slíka erfiðleika, en í öðrum gengur það sýnu verr en í dæminu hér að framan. Erfiðleikarnir geta einnig birst á allt annan hátt en hér hefur verið lýst. Sameiginlegt flestum ef ekki öllum námserfiðleikum er þó að þeir leggjast þungt á barnið, foreldra þess og kennara. Hver þessara aðila upplifir vandann á sinn hátt. Sjálfsásökun er áberandi en jafnframt er leitað að sök hjá öðrum. Oft er aðstoð við börn í námserfiðleikum árangursrík. Slíkt krefst þó ævinlega að litið sé á vandann sem sameiginlegan skólanum, barninu og foreldrum þess. Mest er í húfi fyrir barnið sjálft, því það mun að lokum sitja uppi með afleiðingar erfiðleikanna. Þegar hinir fullorðnu bregðast kemur það á endanum niður á barninu og hefur áhrif á líðan þess og hegðun. Það ríður á því að hver og einn þessara aðila sýni hinum skilning og sé tilbúinn að leggja sitt ýtrasta af mörkum við lausn málsins. Það má aldrei láta sér nægja að veita aðeins fullnægjandi aðstoð við barn í námserfiðleikum, heldur ber að veita bestu mögulegu aðstoð. Þegar slíkt sjónarmið ræður fá mörg erfið mál farsælan endi.

Námserfiðleikar og námshömlun

Flestir ganga í gegnum skyldunám eða lengra nám, áfallalítið eða áfallalaust. Þótt sumum gangi námið síður er oftast ekki um námserfiðleika að ræða. En ákveðinn hópur á í miklum og langvarandi erfiðleikum við að ná árangri í skólanámi. Þegar rætt er um námserfiðleika er því átt við tiltölulega alvarlegt og langvarandi ástand, en ekki tilfallandi eða minniháttar erfiðleika við nám. Gera má greinarmun á a.m.k. þremur flokkum námserfiðleika: Námserfiðleikum sem stafa (a) af almennum greindarskorti eða öðrum meiriháttar þroskatruflunum, (b) af ófullnægjandi umönnun, tilfinningaerfiðleikum eða erfiðri hegðun og (c) námserfiðleikum sem ekki stafa af þessum ástæðum. Hér verður aðallega fjallað um síðasta flokkinn. Greindarprófum er ætlað að meta almenna hæfileika til náms, þ.e. hversu vel einstaklingi muni ganga að viða að sér nýrri þekkingu og færni. Ein ástæða námserfiðleika er því greindarskortur nemanda. Þroskahömluð börn búa við almenna skerðingu á hæfileikum til náms og eiga auk þess í erfiðleikum með að tileinka sér almenna kunnáttu og leikni í daglegu lífi. Erfiðleikar þeirra í námi eru þannig aðeins angi af miklu almennari vanda. Börn geta einnig verið með litla almenna greind án þess að um þroskahömlun sé að ræða. Erfiðleikar slíkra barna geta verið svipaðir og hjá þroskahömluðum, en vægari. Að síðustu leiða ýmsar aðrar meiri háttar þroskatruflanir gjarnan til námserfiðleika. Þannig hefur málhömlun oft í för með sér erfiðleika í námi. Ófullnægjandi umönnun, lakar heimilisaðstæður, slæm líðan eða erfiðleikar í hegðun barna geta haft í för með sér námserfiðleika. Í sumum tilfellum eru þessi atriði svo alvarlegs eðlis að þau geta ein sér staðið barninu fyrir þrifum í námi. Í öðrum tilvikum þarf svo ekki að vera. Því má álykta að slíkir erfiðleikar komi ekki alvarlega niður á námi nema í tilfellum þar sem um umtalsvert rask á námi og ástundun er að ræða. Slíkt á sér stað þegar hegðun nemenda er orðin svo erfið að það kemur verulega niður á námsástundun eða skólasókn, þegar líðan nemandans er slík að honum verður lítið eða ekkert úr verki í skólastofunni eða þegar umönnun barnsins er með þeim hætti að það fær ekki það tóm til að læra eða einbeita sér, sem er nauðsynlegt fyrir árangur við skólanám. Þriðji flokkurinn er langstærstur og verður aðalumfjöllunarefni þessa kafla. Í þann flokk falla börn sem eiga í erfiðleikum með nám, án þess að skýra megi erfiðleikana með greindarskorti, ófullnægjandi kennslu, annarri umönnun barnanna eða erfiðleikum í tilfinningum eða hegðun. Námserfiðleikar þessara barna hafa fengið ýmis nöfn í gegnum tíðina. Hérlendis hafa þeir verið nefndir m. a. sértækir, sérstakir eða afmarkaðir námserfiðleikar. Þegar erfiðleikarnir birtast í lestri eða stafsetningu hafa þeir ýmist verið nefndir lesblinda, orðblinda, sértækir, sérstakir eða afmarkaðir lestrarerfiðleikar, lestregða eða skrifblinda. Þrátt fyrir þessar fjölbreytilegu nafngiftir og umtalsverða ónákvæmni í orðanotkun eru heitin að mestu jafngild. Öll vísa þau til sams konar erfiðleika sem birtast ýmist í einni námsgrein, svo sem lestri, eða í fleiri en einni námsgrein í einu. Erlendis hafa þessi börn verið nefnd námshömluð börn og þannig lögð áhersla á að erfiðleikana megi rekja til barnanna sjálfra en ekki til kennslu eða umönnunar þeirra. Þeirri hefð verður fylgt hér og talað um námshömluð börn þegar rætt er um þau almennt, en um lestregðu þegar erfiðleikarnir birtast aðallega eða eingöngu í lestri. Í reynd stafa þó erfiðleikar námshamlaðra barna af samspili milli hæfileika barnanna annars vegar og krafna og aðstoðar þjóðfélagsins hins vegar. Þjóðfélagið, og þá sérstaklega menntakerfið, gerir kröfur til afmarkaðra hæfileika sem sum þessara barna skortir. Dæmi um slíka hæfileika er að vera leikin í að tileinka sér hljóð tungumálsins, muna þau og geta tengt þau við bókstafi. Börnum sem gengur illa með þetta veitist gjarnan torsótt að tileinka sér frumatriði í lestri. Þótt barn ráði illa við slíkt, getur það átt auðvelt með aðra hluti sem mikilvægir eru í daglegu lífi. Á sumum sviðum eru ekki gerðar eins afdráttarlausar kröfur og í námi. Sumir einstaklingar eiga t.d. erfitt með söng, en þar sem þjóðfélagið gerir ekki eins afdráttarlausar kröfur til kunnáttu á því sviði og á sviði lestrar, stafsetningar og stærðfræði, veldur það ekki neinum vandræðum í skóla eða í daglegu lífi. Erfiðleikar námshamlaðra barna eru ekki litlir. Þvert á móti geta þeir verið alvarlegs eðlis og skert færni á sviðum sem tengjast mikilvægum þáttum í menningu okkar. Einn slíkur mikilvægur þáttur er almenn lestrarfærni sem er grundvöllur nútímaþjóðfélags og undirstaða þróunar og framfara.

Tíðni námshömlunar

Þótt námshömlun afmarki hóp nemenda sem eiga í erfiðleikum í námi, eru námshamlaðir einstaklingar mjög misjafnir. Hugmyndir eru um að námshömlun sé ekki heildstæður flokkur heldur nokkrir ólíkir flokkar erfiðleika sem rangt sé að steypa saman í einn. Slíkar fræðilegar deilur samfara glundroða í greiningu þessara barna hafa leitt til þess að tíðnitölur eru töluvert á reiki. Með þessum fyrirvara má staðhæfa að tíðni námshömlunar sé einhvers staðar á bilinu 4-10% af nemendum í grunnskóla á hverjum tíma. Stundum sjást enn hærri tölur og eru þá yfirleitt vægari tilvik talin með. Þótt þessar tölur séu ekki nákvæmari en raun ber vitni, sýna þær mjög greinilega að námshömlun er ekki fátíð. Tölurnar verður einnig að skoða í ljósi þess að námshömlun er alvarlegt ástand sem hefur afleiðingar fyrir bæði námsframgang og starfsmöguleika. Það er því eftirtektarvert að tíðni þeirra er miklu hærri en margra annarra alvarlegra erfiðleika sem hrjá börn á skólaaldri.

Hvað veldur námshömlun?

Lengi hefur verið reynt að grafast fyrir um orsakir námshömlunar. Þótt miklar rannsóknir hafi verið gerðar á þessu sviði, fer því fjarri að komin sé endanleg niðurstaða. Það er margt sem gerir fræðimönnum erfitt um vik. Börn með námshömlun eru mjög margbreytilegur hópur. Erfiðleikar þeirra birtast með ýmsu móti, t.d. í ólíkum námsgreinum, og ástæður erfiðleika geta verið mismunandi. Við rannsóknir hefur ekki reynst erfitt að greina á milli námshamlaðra barna og annarra barna, en mörg þeirra atriða sem sérkenna námshömluð börn eru ekki orsakir erfiðleika þeirra heldur afleiðingar þeirra non prescription cialis. Námshömluð börn hafa því stundum hlotið þjálfun í atriðum sem hafa verið talin undirrót erfiðleika þeirra en þjálfunin reynst tilgangslítil. Flest bendir til þess að truflanir á heilastarfsemi einkenni námshamlaða einstaklinga. Þessar truflanir leiða til skertra hæfileika á tiltölulega afmörkuðum sviðum. Fyrir vikið eiga námshömluð börn erfiðara með að tileinka sér suma þá færni sem börnum er mikilvæg til að ná árangri í námi. Lestreg börn eiga t.d. iðulega erfitt með að greina á milli líkra hljóða, muna hljóð bókstafa, greina orð niður í hljóð bókstafanna eða að tengja hljóð saman í orð. Slíkir erfiðleikar eru í eðli sínu afmarkaðir og tengjast ekki öðrum hæfileikum barnanna. Hægt er að vinna gegn slíkum afmörkuðum erfiðleikum. Þetta getur gerst með því að barnið nýtir sér aðrar aðferðir við námið en algengast er, þurfi lengri tíma og ástundun til að ná tökum á námsefninu eða þurfi meiri og sérhæfðari kennslu en önnur börn. Oft nægir slíkt þó ekki og námserfiðleikarnir verða miklir og langvarandi. Námshömluð börn standa öðrum börnum að baki um ýmsa kunnáttu sem nýtist við skólanám. Það er t.d. mjög algengt að þau kunni minni skil á ýmsum aðferðum sem önnur börn nota við skólanám, auk þess sem hegðun þeirra og líðan getur verið mun verri en hjá öðrum börnum. Truflanir á heilastarfsemi Snemma komu upp hugmyndir um að einhvers konar heilaskaði eða truflun á starfsemi heilans orsakaði námshömlun hjá börnum. Hjá mörgum þeirra fundust ýmis einkenni sem líktust þeim sem finnast hjá heilasköðuðum einstaklingum, svo sem afbrigði í hreyfifærni eða málþroska. Því var álitið að þessir einstaklingar hefðu orðið fyrir einhverju áfalli sem skildi eftir sig skemmd í heila. Slík skemmd gæti haft áhrif á hæfileika þeirra, annaðhvort almenna greind eða hæfileika á afmörkuðum sviðum. Skemmd á heila felur í sér að ákveðin svæði hans starfi ekki eða aðeins að takmörkuðu leyti. Skemmd á einhverjum hluta heilans felur í sér að einstaklingur getur ekki eða á afar erfitt með að tileinka sér einhverja færni. Áhrifin geta verið takmörkuð og orsakað afmarkaða erfiðleika, svo sem við hreyfingu einhverra líkamshluta eða við að nota eða skilja talað mál. Heilaskemmdir geta einnig haft almenn áhrif og leitt til almennari vandkvæða og greindarskerðingar. Það er vel þekkt að hjá fullorðnum geta heilaskemmdir, t.d. í kjölfar slysa eða heilablóðfalls, orsakað erfiðleika við lestur, stafsetningu eða stærðfræði. Slíkar heilaskemmdir má staðfesta og staðsetja með athugun taugalæknis, taugasálfræðings eða með sneiðmyndatöku. Þó ekki sé um skemmd í heila að ræða getur starfsemi hans verið afbrigðileg. Starfsemi einstakra svæða hans getur verið minni eða meiri en algengast er eða með öðrum hætti en hjá venjulegum einstaklingum. Slíkar truflanir getur verið erfitt að greina. Þær sjást ekki við sneiðmyndatökur, greinast stundum á heilalínuritum og birtast í svokölluðum vægum einkennum við athugun barnalæknis eða sálfræðings. Athuganir á námshömluðum börnum leiða yfirleitt í ljós slík væg merki um afbrigðilega heilastarfsemi. Hins vegar er ekki talið að um beinar skemmdir á heila sé að ræða hjá þessum börnum. Eftir sem áður liggja fyrir miklar rannsóknir þar sem frammistaða námserfiðleikabarna er borin saman við frammistöðu annarra barna á ýmsum sálfræðilegum prófum sem segja til um starfsemi heilans. Í flestum slíkum athugunum kemur í ljós að frammistaða námserfiðleikabarna er lakari en annarra barna. Beinar skemmdir á heila eru ekki taldar vera orsök námshömlunar nema í tiltölulega fáum tilvikum. Flest bendir þó til að heilastarfsemi námshamlaðra barna sé öðruvísi en annarra barna og í því liggi orsakir námserfiðleika þeirra. Það endurspeglast í hæfileikum þeirra, því oft má greina skerta hæfileika á afmörkuðum sviðum hjá námshömluðum börnum. Listin að læra Þrátt fyrir vaxandi vitneskju um heilastarf sem orsök námshömlunar, fer áhugi og áhersla á ýmsa hugræna færni og vinnubrögð námshamlaðra barna vaxandi. Rannsóknir sýna að námshömluð börn nýta hæfileika sína illa. Sérstaklega er áberandi að þau virðast ekki tileinka sér skynsamleg vinnubrögð í námi, vita ekki hvernig má standa skipulega að lausn verkefna, né þekkja aðferðir sem önnur börn nota til að tileinka sér námsefnið. Undir slíka þætti fellur t. d. vitneskja um þyngd verkefna og val námsaðferða í samræmi við það. Nemendur geta snemma gert sér grein fyrir því hvort verkefni krefst mikillar yfirlegu, endurtekinnar upprifjunar eða annarra aðgerða til að tryggja lausn þess. Með aldri eykst einnig færni við að fylgjast með sjálfum sér við lausn verkefna, gera sér grein fyrir hvort maður þokist að réttu marki og að geta gripið inn í ef með þarf. Sömuleiðis hafa börn umtalsverða þekkingu á eigin minni og aðferðum við að leggja nýja þekkingu á minnið. Þannig vita þau gjarnan hvort erfitt verði að muna tiltekna þekkingu, að hve miklu leyti verkefni byggist á því að leggja þekkingu á minnið, fremur en á skilningi eða verklegri kunnáttu, og þau þekkja aðferðir til að auka líkur á því að muna tiltekið efni. Notkun slíkra aðferða við nám er misjöfn meðal venjulegra barna, en eykst með aldri. Sem hópur standa námshömluð börn illa að þessu leyti. Þeim hættir til að hlaupa yfir erfið verkefni á hundavaði, en eyða þeim mun meiri tíma í einföld og veigalítil verk sem þau geta tiltölulega auðveldlega náð valdi á. Á sama hátt geta þau böðlast yfir kannski heila blaðsíðu af reikningsdæmum, án þess að fylgjast með eigin verki eða leggja dóm á hvernig til tekst. Margir foreldrar og kennarar þekkja þá uppgjafartilfinningu sem fylgir því að taka við heilu verkefnunum, þar sem ekki er heil brú í allri þeirri vinnu sem barnið hefur samviskusamlega innt af hendi. Börnin þekkja þá sneypu að láta kennara eða foreldri þurrka út öll reikningsdæmi á heilli síðu og fara fram á að þau séu reiknuð aftur frá grunni. Hér er um mikilvæg atriði að ræða sem skipta miklu máli, jafnvel þegar um töluverðar truflanir á heilastarfi er að ræða. Þetta er færni sem hægt er að kenna börnunum og góður kennari eða foreldri nær oft góðum árangri með því að leggja hæfilega áherslu á skipuleg vinnubrögð. Innan sálfræðinnar er einnig orðin nokkur hefð á markvissri þjálfun í lausn verkefna, notkun hugans og aðferðum við að leggja upplýsingar á minnið eða endurheimta þær. Annað sem truflar nám Hegðunarerfiðleikar, slæm líðan og ófullnægjandi uppeldisaðstæður hafa slæm áhrif á námsstöðu. Slík staða er tiltölulega algeng hjá námshömluðum einstaklingum og getur aukið á erfiðleika þeirra. Þessi vandi er þó ekki eingöngu orsakavaldur heldur einnig afleiðing námshömlunar. Námshömlun getur verið börnum þungbær og henni fylgt einkenni þunglyndis, minnkaðs sjálfsöryggis, kvíða eða erfiðrar hegðunar. Þetta getur haft áhrif á leikni þeirra við að umgangast annað fólk og valdið vinaleysi en einnig getur hluti af erfiðleikum þeirra falist í annmörkum við að tileinka sér færni í félagslegum samskiptum. Erfiðleikar í tilfinningum eða hegðun hjá námshömluðu barni geta þannig verið afleiðingar námserfiðleika fremur en orsök þeirra. Fjölskyldur námshamlaðra barna eru misjafnlega undir það búnar að takast á við þá erfiðleika sem fylgja því að annast um slík börn. Sum námshömluð börn fæðast inn í fjölskyldur sem standa af einhverjum ástæðum höllum fæti. Einnig geta bestu fjölskyldur lent í miklum vanda og verið mislagðar hendur, þegar þarf að fást við jafnumfangsmikla og alvarlega erfiðleika og geta fylgt námshömlun. Hvort sem slík vandamál hjá námshömluðum börnum og fjölskyldum þeirra eru orsakir eða afleiðingar námserfiðleikanna, er mikilvægt að ráða bót á þeim. Oft er ástæða til umfangsmikillar ráðgjafar og meðferðar fyrir námshömluð börn og fjölskyldur þeirra, þó svo að um ósköp venjulegar fjölskyldur sé að ræða. Það sem í raun greinir fjölskyldur námshamlaðra barna frá öðrum fjölskyldum er í sumum tilfellum það eitt að þær fyrrnefndu hafa fengið það erfiða verkefni sem umönnun slíks barns getur verið.

Hvenær uppgötvast námshömlun?

Námshömlun kemur yfirleitt í ljós við upphaf skólagöngu og er algengast að hún greinist á aldrinum 7-10 ára. Almennt er álitið að æskilegt sé að greina slíka erfiðleika snemma svo veita megi viðhlítandi aðstoð í tíma í því skyni að auðvelda barni og foreldrum skólagönguna. Erfitt er að segja fyrir um námshömlun. Þrátt fyrir umfangsmiklar erlendar rannsóknir virðist ekki kleift að segja með nægjanlegri vissu fyrir um námshömlun á grundvelli athugana á forskólabörnum. Erlendar rannsóknir benda þó til að við 5-6 ára aldur megi afmarka hóp barna sem líkleg eru til að eiga við námshömlun og aðra námserfiðleika að stríða í byrjun grunnskólanáms. En í þessum sama hópi yrðu einnig mjög mörg börn sem ættu ekki eftir að lenda í námserfiðleikum eða myndu aðeins lenda í vægum erfiðleikum í námi. Þessum börnum væri ógagn í því að vera felld í slíkan áhættuhóp. Rannsóknir á lestregðu hafa aflað mikillar vitneskju um þau atriði við upphaf skólagöngu sem segja til um árangur lestrarnáms. Á síðari árum hefur athyglin beinst í auknum mæli að ýmsum þáttum tengdum málfari sem greina á milli nemenda með góða og laka lestrarfærni. Þessir erfiðleikar við upphaf skólagöngu auka líkur á erfiðleikum við lestrarnám. Þetta eru atriði eins og leikni í að ríma, geta bútað orð niður í málhljóð og raðað hljóðum saman í orð, en allt eru þetta atriði sem eru nátengd lestrinum sjálfum. En þrátt fyrir þessa vitneskju er ekki mögulegt að segja með neinu öryggi fyrir um árangur í lestri hjá einstökum börnum. En það hillir undir þann áfanga að hægt sé að afmarka hóp barna sem eiga á hættu að lenda í lestrarerfiðleikum. Ef slíkt tækist mætti bjóða þeim upp á mikla eða sérhæfða lestrarkennslu í því skyni að auðvelda þeim lestrarnámið. Mörg meiri háttar þroskafrávik á forskólaaldri segja til um námserfiðleika í grunnskóla. Áður var nefnt að þroskahömlun fylgja yfirleitt miklir og almennir námserfiðleikar sem ná bæði yfir hefðbundið skólanám og athafnir daglegs lífs. Sömuleiðis fylgja málhömlun gjarnan erfiðleikar í lestri og öðrum bóklegum námsgreinum.

Hvernig farnast námshömluðum börnum?

Námshömlun hefur afleiðingar fyrir börn löngu eftir að grunnskóla lýkur. Athuganir leiða í ljós að skólaganga slíkra barna er styttri og námsárangur lakari en annarra barna. Starfsmöguleikar eru sömuleiðis takmarkaðri, störfin eru ekki eins eftirsóknarverð, verr launuð og atvinnuleysi meira en hjá öðrum. Erfiðleikar í hegðun, samskiptum við aðra og í tilfinningum minnka með aldrinum en eru þó meiri á fullorðinsaldri en hjá öðrum. Mörg námshömluð börn mannast þó vel. Horfurnar eru bestar ef námshömlunin er væg. Þær eru einnig betri ef þjóðfélagsstaða eða menntun foreldra er góð og sömuleiðis eykur mikil almenn greind líkur á velfarnaði. Að síðustu eru framtíðarhorfur verri eftir því sem meiri merki eru um afbrigði í heilastarfi og eru þær sérstaklega slæmar ef um beinan heilaskaða er að ræða.

Guðmundur Arnkelsson