persona.is
Einelti á vinnustað
Sjá nánar » Vinnan
Hvað er einelti á vinnustað? Einelti á vinnustað er skilgreint sem tíðar og neikvæðar athafnir sem beitt er af einum einstaklingi eða fleiri gegn vinnufélaga sem á erfitt með að verja sig. Þessar athafnir valda þeim einstaklingi sem fyrir þeim verður mikilli vanlíðan og grafa undan sjálfstrausti hans.  Að gera lífið óbærilegt Það eru margar aðferðir sem gerendur nota til að gera þolendum lífið óbærilegt; rógburður t.d. slúður, illt umtal og sögusagnir sem beitt er til að grafa undan mannorði þolanda, rangar ásakanir um frammistöðu í starfi, stöðug og óréttlát gagnrýni, niðurlæging í viðurvist annarra, særandi ummæli og nafnaköll, beinar munnlegar eða líkamlegar hótanir, aukið vinnuálag, niðrandi skírskotun til aldurs, kyns eða litarháttar, persónulegar móðganir, háð, árásargirni, stöðugar breytingar á vinnuaðferðum eða vinnutíma, skemmdarverk, tafir í vinnu, útilokun frá veislum, fundum eða ferðum og jafnvel kynferðisleg áreitni.  Allir geta orðið fyrir því að vera lagðir í einelti. Einelti á vinnustað einkennist af röð atvika í stað eins ákveðins atburðar. Eineltið getur því staðið yfir í margar vikur eða mánuði áður en sá sem fyrir því verður áttar sig á því að hann er orðinn fórnarlamb eineltis.  Sá sem stendur fyrir einelti getur verið samstarfsmaður, undir- eða yfirmaður. Það má finna nokkra sameiginlega þætti í fari gerenda eineltis, s.s. skort á sjálfstrausti, óöryggi, félagslega vanhæfni eða vanhæfni til stjórnunar. Til að fela þessa vanhæfni grípur gerandi oft til þess ráðs að varpa henni yfir á vinnufélaga sinn, t.d. með því að leyna hann upplýsingum, gagnrýna hann stöðugt eða bera röngum sökum.  Hvers vegna? Einelti getur átt sér stað á hvaða vinnustað sem er, einnig þar sem vinnuaðstæður er taldar vera til fyrirmyndar. Þó eru ýmsir þættir sem geta stuðlað að einelti á vinnustað, t.d. þegar samkeppni meðal starfsmanna er mikil, ótti er við uppsagnir, öfund ríkir meðal starfsmanna, stöðuhækkanir eru á kostnað annarra, skortur er á þjálfun starfsmanna, lítil virðing er borin fyrir öðrum og skoðunum þeirra, vinnuaðstæður eru slæmar eða henta illa, breytingar eru gerðar á skipulagi, vinnuálag er of mikið, markmiðin of háleit, stjórnun ómarkviss eða í formi valdbeitingar og upplýsingaflæði lélegt.  Afleiðingarnar Afleiðingar eineltis koma fram á ýmsan hátt hjá þolandanum. Hann getur t.d. upplifað:
  • kvíða, 
  • skapsveiflur, 
  • ótta, 
  • biturð, 
  • örvæntingu, 
  • hefndarþorsta, 
  • minnimáttarkennd, 
  • öryggisleysi, 
  • andúð á vinnu, 
  • skerta sjálfsbjargarviðleitni, 
  • hjálparleysi, 
  • þunglyndi, 
  • þráhyggju, 
  • minnkað sjálfsálit, 
  • rýrt traust til náungans, 
  • félagslega einangrun, 
  • minnkandi vinnuafköst, 
  • þverrandi trú á framtíðina, 
  • höfnunartilfinningu, 
  • sjálfsmorðshugleiðingar, 
  • svefnleysi og streitutengda sjúkdóma s.s. höfuðverk, vöðvabólgu o.m.fl. 
Það er ekki einungis sá sem verður fyrir eineltinu sem skaðast. Fjölskylda þolanda er hið ósýnilega fórnarlamb eineltis þar sem álagið á hana eykst.  Lagalegur réttur þinn Vinnuveitanda ber að tryggja starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi, hvort sem er tæknilega eða félagslega. Vinnuveitandi á þannig að sjá til þess að einelti viðgangist ekki á vinnustaðnum. Bregðist hann ekki við með tilhlýðilegum hætti getur starfsmaður sem verður fyrir einelti átt bótarétt gagnvart vinnuveitanda sínum og gerandanum.  Hvað getur þú gert? Ef þú ert þolandi eineltis eða ert vitni að því, skaltu grípa inn í með því að gagnrýna ákveðið þessa hegðun. Ef það dugar ekki skaltu skrá nákvæmlega það sem gerist hverju sinni og jafnframt kanna hvort aðrir vinnufélagar hafi orðið fyrir einelti af hendi sama aðila. Ef svo er, skaltu ræða við þá. Ræddu einnig við trúnaðarmann þinn á vinnustað, starfsmannastjóra eða yfirmann. Gerðu grein fyrir því að eineltið sé vandamál sem varði alla á vinnustaðnum.  Mundu að VR er innan seilingar og getur aðstoðað þig. Hafðu samband við fulltrúa kjaramáladeildar VR í síma 510 1700 og fáðu nánari upplýsingar. 

Verslunarmannafélag Reykjavíkur