persona.is
Börn sem eru of þung
Hvers vegna verða sum börn of þung?

Að minnsta kosti eitt af hverjum fimm börnum í Bandaríkjunum eru of feit og tala þeirra sem berjast við offitu fer stöðugt vaxandi. Á síðustu tveimur áratugum hefur of feitum börnum fjölgað um 50% og tala þeirra sem eru mjög feit hefur tvöfaldast (Arch Pediatr Adolesc Med. 1995:149: 1085-91).

Hlutfall of þungra barna hérna er aðeins lægra en hefur þó farið vaxandi undanfarin ár. Nýleg könnun leiddi það í ljós að íslensk börn eru meðal þeirra þyngstu í Evrópu.

Til þess að segja til um hvort barn sé of þungt þarf að mæla hæð þess og þyngd og reikna út frá því kjörþyngd þeirra. Best er að láta lækna um slíka útreikninga. Börn fá síður sjúkdóma tengda offitu en fullorðnir, engu að síður eru þau í áhættuhópi verða of feitir unglingar og of feitt fullorðið fólk. Offitusjúklingum hættir til þess að fá hjartasjúkdóma, sykursýki, of háan blóðþrýsting og sumar tegundir krabbameins, svo eitthvað sé nefnt. Börn geta orðið of feit af ýmsum ástæðum. Hinar algengustu eru erfðafræðilegir þættir, lítil hreyfing, óhollur matur og óheilbrigt átmynstur, eða sambland alls þessa. Einstaka sinnum er unnt að leita orsakanna til sjaldgæfra sjúkdóma eða eins og innkirtlaröskunar. Heimilislæknir getur gert nákvæma læknisskoðun og tekið blóðprufur til að útiloka þessa möguleika. Erfðalegir þættir

Börn sem eiga of feita foreldra eða systkini eiga það á hættu að verða líka of feit. Þótt offita geti verið ættgeng er ekki þar með sagt að börnin erfi hana. Erfðafræðilegir þættir valda vissulega offitu en lífsmynstur fjölskyldunnar, svo sem matarvenjur og hreyfing, spila einnig stórt hlutverk.

Lífsstíll

Matarvenjur og hreyfing skipta miklu máli fyrir þyngd. Vinsældir sjónvarps og tölvuleikja stuðla að líferni sem felur í sér litla sem enga hreyfingu. Venjulegt bandarískt barn eyðir að meðaltali 24 klst fyrir framan sjónvarpið á viku, tíma sem væri vel varið í hvers konar hreyfingu.

Er barnið mitt of þungt?

Ef þú telur að barnið þitt sé of þungt ættir þú hið fyrsta að ræða við heimilislækninn þinn. Læknir er hæfastur til að meta hvort barnið sé með offituvandamál eða ekki. Læknir vigtar barnið og mælir hæð þess til að sjá hvort þyngd þess sé innan eðlilegra marka. Hann metur einnig aldur barnsins og vöxt til að ákvarða hvort það sé of þungt. Það getur verið flókið að meta offitu í börnum af því að þau geta tekið óvænta vaxtakippi.

Til dæmis er eðlilegt fyrir drengi að leggja í fyrstu meira í þyngd sína en hæð. Best er að láta lækni segja til um hvort barnið komi til með hækka „upp í“ þyngd sína seinna. Ef læknirinn metur það svo að barnið sé of þungt gæti hann beðið þig um að breyta lífsstíl allrar fjölskyldunnar. Hvernig get ég hjálpað barni mínu? Sýndu stuðning

Eitt það allra mikilvægasta sem þú getur gert fyrir barnið þitt er að láta það vita að þér þyki eins vænt um það hversu þungt sem það kunni að vera. Sjálfsálit barns byggist meðal annars á því sem foreldrum finnst um það. Ef þú ert ánægður með barnið þitt eins og það er verður það örugglega sáttara við sjálft sig. Þá er einnig mikilvægt að tala við barnið um þyngdina og leyfa því að deila áhyggjum sínum með þér. Barnið þitt veit sjálfsagt best af öllum að það á við offituvandamál að stríða. Þess vegna þurfa feit börn á stuðningi, hvatningu og viðurkenningu að halda frá foreldrum sínum.

Einbeittu þér að fjölskyldunni

Foreldrar ættu að reyna að einbeita sér að því að breyta matarvenjum allrar fjölskyldunnar og auka hreyfingu í stað þess að einblína á feita barnið. Nái fjölskyldan að sameinast í þessu stuðlar breytingin að heilbrigðari lífsháttum allra í stað þess að einangra feita barnið í breyttum lífsstíl.

Auktu sjálf/ur alla hreyfingu

Regluleg hreyfing ásamt hollu mataræði er tvímælalaust áhrifaríkasta og besta leiðin til að hafa stjórn á vigtinni. Regluleg hreyfing er einnig mikilvægasti þátturinn í heilbrigðu líferni. Einfaldar aðferðir til að hreyfa sig meira gætu verið:

·         Vertu fyrirmynd barnanna þinna. Ef börnin þín sjá að þú hreyfir þig og skemmtir þér við það er mun líklegra að þau taki upp á því líka.

·         Skipuleggðu skemmtun fyrir alla fjölskylduna sem felst í einhvers konar hreyfingu, hjólreiðar, gönguferðir, dans eða sund. Farðu t.d. með fjölskylduna í göngutúr eftir mat í stað þess að setjast fyrir framan sjónvarpið.

·         Taktu tillit til þarfa feita barnsins. Of feitt barn getur veigrað sér við að taka þátt í íþróttum sem því finnst of erfiðar eða gætu verið niðurlægjandi á einhvern hátt. Hjálpaðu því að finna íþrótt sem hentar getu þess og áhugasviði.

·         Dragðu úr þeim tíma sem fjölskyldan eyðir í að horfa á sjónvarp eða spila tölvuleiki.

·         Reyndu að gera sem mest úr allri hreyfingu og hvettu fjölskylduna til hins sama. Gakktu stiga og slepptu lyftunni. Ef þú ert kyrrsetumaður stattu þá reglulega upp og teygðu á þér, hvort sem það er í vinnunni eða skólanum.

Aðalatriðið er að gera hreyfingu auðvelda og eftirsóknarverða í stað þess að líta á hana sem kvöð. Kenndu fjölskyldunni hollar matarvenjur

Því fyrr sem barn lærir að matur er nauðsynlegur vexti og heilsu, því betra. Þess vegna er nauðsynlegt að kenna barni að skoða mat með réttu hugarfari sem allra fyrst. Best er að kynna sér hjá næringarfræðingi hvað barni er nauðsynlegt að borða og leyfa síðan barninu að velja úr hollum og góðum mat sem er á boðstólum. Barnið verður fljótt að komast upp á lagið með það hvað það vilji og hversu mikið það þurfi.

Ekki setja barnið í stranga megrun

Börn ættu aldrei að fara í megrun til að léttast nema því aðeins að læknir mælir með því. Það gæti verið skaðlegt vexti barnsins og þroska að takmarka matinn sem það fær.

Til að viðhalda eðlilegum vexti og forðast offitu ættu foreldrar að gefa börnum sínum mat úr öllum fæðuflokkum.

·         Mest á að borða af kornmeti (6-11 skammtar), grænmeti (3-5 skammtar) og ávöxtum (2-4 skammtar).

·         Daglegt mataræði ætti einnig að innihalda mjólkurvörur (2-3 skammta) kjöt, fisk og baunir (2-3 skammta).

·         Fitu- og sykurríkan mat ætti að reyna að forðast í lengstu lög. Fitu á ekki að skera niður við börn sem eru yngri en tveggja ára.

Einn skammtur í hverjum flokki jafngildir: 

Brauð, korn, hrísgrjón og pasta

1 brauðsneið

30 g morgunkorn

1/2 bolli af hrísgrjónum eða pasta

Mjólk, jógúrt og ostur

1 bolli af mjólk eða jógúrti

45 g af osti

60 g af jurtaosti

Grænmeti

1 bolli af hráu grænmeti eða 1/2 bolli af frystu og soðnu grænmeti

 1/2 bolli af grænmeti (elduðu)

 3/4 bolli af grænmetissafa

Kjöt, fuglakjöt, fiskur, baunir og hnetur

60-90 g af elduðu mögru kjöti, fuglakjöti eða fiski

1/2 bolli af soðnum baunum eða 1 egg (jafngildir 30 g af kjöti)

2 msk hnetusmjöri eða 1/3 bolli af hnetum (jafngildir 30 g af kjöti)

Ávextir

1 meðalstórt epli, banani eða appelsína

1/2 bolli af niðurskornum, elduðum eða niðursoðnum ávöxtum

3/4 bolli af ávaxtasafa

Sértu í vafa um hvernig megi hátta bestu samsetningu á mataræði fyrir fjölskylduna þína skaltu hafa samband við lækni eða næringarfræðing til að fá góð ráð. Dragðu úr neyslu allrar fitu á heimilinu

Gott ráð til að draga úr hitaeiningaríkri fæðu, án þess að skerða næringuna, er að minnka neyslu á fitu. Einföld ráð til þess eru t.d. að nota einungis fituskertar mjólkurvörur, magurt kjöt og fitusnautt brauð. Það þarf einungis að minnka fituneysluna örlítið án þess að það komi niður á því að barnið þitt borði hollan og hitaeiningasnauðan mat. Hins vegar þarftu að tala við næringarfræðing ef þú hefur í hyggja að umturna mataræði barnsins þíns. Þar að auki er ekki ráðlegt að skerða fituneyslu barna yngri en tveggja ára. Eftir það er óhætt að láta barnið neyta fæðu þar sem þú skerð niður 30 % hitaeiningar úr fitu.

Ekki vera of strangur með sætindin

Þótt það sé mikilvægt að forðast mat sem inniheldur mikinn sykur, salt eða fitu, er gott að hafa í huga að allur matur á heima í fæðupíramídanum og hann má borða, í hófi.

Leiðbeindu fjölskyldunni frekar en að predika

Sjáðu til þess að fjölskyldan geti alltaf valið úr úrvali hollrar fæðu á heimilinu. Á þann hátt lærir barnið fljótt að velja skynsamlega.

Hvettu barnið þitt til að borða hægt

Barn getur frekar gert sér grein fyrir því hvenær það er svangt og hvenær það er mett ef það borðar hægt.

Öll fjölskyldan ætti að borða saman eins oft og mögulegt er

Reyndu að hafa matartímana eins ánægjulega og kostur er á. Ekki nota tímann til að rífast og skammast. Ef matartími er kvöl og pína reynir barnið að ljúka honum af eins fljótt og það getur. Það gæti líka farið að tengja matartímann við streitu og kvíða.

Leyfðu barninu að taka þátt í innkaupum og matargerð

Að versla og elda saman gefur foreldrunum tækifæri til að komast að því hvað barninu þykir gott, kennt því ýmislegt um næringu og látið barnið finnast að það sé mikilvægt. Þar að auki gæti barnið frekar verið tilbúið til að prófa að borða eitthvað nýtt fái það að taka þátt í undirbúningnum.

Gerðu ráð fyrir snarli

Stanslaust nart milli mála getur leitt til offitu. Sé hins vegar gert ráð fyrir snarli sem eit af mörgu í hollu mataræði getur það verið af hinu góða. Sjáðu til þess að snarlið sé hollt án þess þó að ræna barnið þeirri ánægju að fá stöku sinnum kexköku eða eitthvað þess háttar. Hér fara á eftir nokkrar hugmyndir að hollu snarli:

·         Ferskir, frosnir eða niðursoðnir ávextir, framreiddir með létt-jógúrt eða osti.

·         Þurrkaðir ávextir eða hnetur.

·         Gróft brauð eða kex með létt-smurosti

·         Frosnir eftirréttir eins og fitulítill ís (úr jurtarjóma), frosin jógúrt, ávaxtakrap, klakar og ávaxtastangir.

Ekki hvetja til neyslu matar við sjónvarpið

Reyndu að leyfa aðeins át á sérstökum stöðum á heimilinu, eins og í eldhúsi og borðstofu. Ef borðað er við sjónvarpið getur það dregið athyglina frá matnum og þar með gert barninu erfitt að meta hvort það sé mett eða ekki.

Sjáðu til þess að sú fæða sem barnið neytir utan heimilis sé holl

Ef það er mötuneyti í skólanum, athugaðu hvernig matur er framreiddur þar, ef þér líst ekki á hann skaltu íhuga að senda barnið með nesti. Passaðu þig einnig á að velja hollan mat þegar farið er út að borða.

Sýndu gott fordæmi

Börn eru fljót að læra. Ef þú sýnir gott fordæmi með því að borða hollan mat og hreyfa þig reglulega er líklegra að barnið þitt fylgi þeim hollustuháttum fram á fullorðinsár.

Ef þú þarft að gera róttækar breytingar á hreyfingu og mataræði fjölskyldunnar er gott að ráðfæra sig við næringarfræðing. Það gæti líka verið kjörið að spyrja heimilislækninn þinn ráða.

Byggt á efni frá heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna