persona.is
Börn sem eru löt að borða
Sjá nánar » Börn/Unglingar

Það er alls ekki óalgengt að börn eigi í einhverjum vandræðum með mataræði, eins og að neita að borða, borða ekki ákveðna fæðu, eða minnka að borða yfir ákveðið tímabil.  Mikilvægt er þá að staldra aðeins við og spyrja sig spurninga um hvort hér sé um mjög óeðlilegt frávik að ræða, sem sé beinlínis skaðlegt barninu, eða hvort (eins og kannski í flestum tilfellum) um minniháttar frávik sé að ræða. 

Ef um er að ræða aðeins minniháttar frávik frá viðmiðum og barnið  borðar í leikskólanum, þar sem barnið fær fjölbreytta og næringarríka fæðu, þá ætti ekki að vera neitt mikið að óttast. 

Þá væri gott að byrja á að skoða nokkur almenn atriði varðandi matarvenjur barna, sem gætu haft áhrif á matarhegðun barnsins.  Byrjum á að skoða hvort og hvað hann/hún er að borða rétt fyrir matartímann.  Ef hann/hún er að borða kex eða eitt og annað fyrir matinn, er mögulegt að hann/hún sé oft saddur/södd og kannski búinn að fá nægjanlegar hitaeiningar þegar að mat kemur, þrátt fyrir að hann/hún sé kannski ekki að fá þá næringu sem hann/hún þarf.  Það eru t.d. dæmi þar sem börn hafa drukkið mikið að djús fyrir mat, það hefur gefið þeim töluvert af hitaeiningum og gert það að verkum að þau eru södd og áhugalaus við matarborðið.  Oft er góð regla að veita aðeins ávexti, grænmeti og vatn fyrir matinn.  Mikilvægt er að venja sig á að borða með börnunum við eldhúsborðið frekar en að leyfa þeim að borða fyrir framan sjónvarpið, þar gleyma þau oft að borða því Lilo og Stitch eru svo spennandi.  Hafa matinn fyrr en seinna, til þess að börnin séu ekki orðin of þreytt til að borða.  Gott þykir líka að reyna að gera matinn spennandi og aðgreina þá frekar fæðutegundir fyrir börnin. Börn vilja frekar gúrkurnar sér, kjötið sér og sósuna sér, frekar heldur en allt í einni kássu, auk þess sem þau vilja oft frekar hafa ferskt grænmeti en soðið.  Það er líka mikilvægt að kynna þau smátt og smátt fyrir nýjum mat og leggja þá í upphafi aðaláherslu á að smakka. 

Að lokum er vert að leggja áherslu á atriði sem getur verið það mikilvægasta varðandi samskipti foreldra og barna – og það eru samskipti ykkar um matinn – sem foreldrar eru oft orðin frekar þreytt og pirruð á.  Þegar barnið virðist vera að fá nægjanlega næringu og kannski að borða vel á leikskólanum, , getur verið mjög mikilvægt að minnka áhersluna á matinn.  Oft eru foreldrar komnir í vítahring með barnið sitt.  Barnið heyrir stöðugt að það borði ekki neitt, borði ekki nægjanlega mikið, sé matvant, og sé alveg að detta í sundur og verði hreinlega að borða meira.  Margt af þessu hefur eflaust sannleiksgildi.  Vandinn er hinsvegar sá að togstreitan, sem verður um matinn, eykur oft og viðheldur vandanum frekar en að auka mataráhuga barnsins.  Upphafið er kannski  kvíði foreldra með fyrsta barn, foreldri sem vant er börnum sem skófla í sig, eða bara ábyrgðafullir foreldrar sem líður illa yfir því þegar barnið er undir “viðmiðum” um tíma.  Síðan byrja foreldrarnir (eðlilega) að ýta á barnið að borða meira, og barnið streitist á móti, eins og börnum er oft líka “eðlilegt”.  Spennan og kvíðinn, ýtnin og togstreitan, eykur síðan oftar en ekki vandann og fjölskyldan er föst í vítahring sem það veit ekki leiðina út úr.  Ég hef fylgst með foreldrum hætta að ýta á þessi börn, setja upp einföld viðmið með áherslu á að börnin smakki allan mat.  Byrja að hrósa þeim fyrir að smakka eða borða aðeins meira en síðast, en hætta algjörlega að krefjast “einn bita í viðbót”.  Mörg þessara barna hafa byrjað að borða meira  þegar kröfurnar minnka.  Einfalda reglan er sú að flest börn borða þegar þau eru svöng og ef við leggjum áherslu á fjölbreytta og holla fæðu munu þau borða það sem þau þurfa.  Eins og ég hef nefnt hér áður er þó ávallt mikilvægt að leggja áherslu á að athuga hvort um sérstaka óeðlilega matarhegðun eða frávik sé að ræða. Ef svo er leita þá frekari aðstoðar, en ef ekki slaka þá aðeins á sjálfur og leggja áherslu á almennar matarreglur sem gera ekki miklar kröfur nema um viðveru og hollustu við matarborðið.

 

 

Björn Harðarson

sálfræðingur