persona.is
Börn og svefn
Sjá nánar » Börn/Unglingar » Svefn
Mörg börn þjást af svefnröskunum. Þar má til dæmis nefna:
  •          Þau vakna oft á nóttinni.
  •        Þau tala upp úr svefni 
  •        Þau eiga í erfiðleikum við að sofna
  •        Þau vakna grátandi
  •        Þau er syfjuð á daginn
  •          Þau fá martraðir
  •         Þau pissa undir
Önnur vandamál tengd svefnröskunum barna eru óreglulegir svefnhættir og kvíði við að fara upp í rúm og að sofna. Svefnröskun bendir oft til tilfinningalegra vandamála. Flest börn, ef ekki öll, þjást af aðskilnaðarkvíða á vissum aldri, fyllilega eðlilegt stig í vitsmuna- og tilfinningaþroska barns. Fyrir venjulegt barn á ákveðnum aldri gæti svefntíminn táknað aðskilnað frá þeim sem þeim þykir vænst um og það þverneitar að fara að sofa. Sum börn gera nánast hvað sem er til að forðast þennan aðskilnað. Besta leiðin til að draga úr kvíðanum er að þróa reglulegt og stöðugt svefnmynstur sem barnið þarf að fylgja. Þegar ungabarni er ruggað fyrir svefn eða því gefið að drekka er það fljótt að sofna. Eftir því sem barnið eldist þarf hins vegar að venja það af þessu, annars lærir barnið ekki að sofna sjálft. Martraðir eru nokkuð algengar, um 10 – 50% barna á aldrinum 3 til 5 ára fá martraðir stöku sinnum. Yfirleitt muna börn eftir ógnvænlegum martröðum. Börn geta fengið martraðir á hvaða aldurskeiði sem er, en það er algengt að fyrstu martraðirnar komi á milli 3 til 6 ára. Þær eru algengari meðal stúlkna en drengja. Hjá sumum börnum eru martraðir tíðar og mjög alvarlegar. Svefnskelfing (sleep terror) er tiltölulega sjaldgæf svefnröskun sem lýsir sér þannig að barnið vaknar snögglega og grætur eða öskrar hástöfum. Það er erfitt að hugga barnið og það virðist vera hálfringlað. Varast ber að rugla svefnskelfingu saman við martraðir, þótt einkennin geti stundum verði svipuð. Algengast er að þessi svefnskelfing byrji á aldrinum 4 til 12 ára. Annað þekkt svefnvandamál meðal barna er að ganga í svefni. Börnin virðast vera vakandi þar sem þau hreyfa sig, en eru í raun og veru sofandi og geta auðveldlega slasað sig. Svefnganga hefst vanalega á aldrinum sex til tólf ára. Svefnskelfing og svefnganga flokkast undir svefnröskun sem heitir parasomnia. Börn með þess háttar svefnröskun fá oftast eitt eða nokkur svona köst. Ef köstin koma nokkrum sinnum á nóttu, eða á hverri nóttu um nokkurra vikna skeið, eða hafa áhrif á hegðun barnsins yfir daginn, gæti verið nauðsynlegt að leita ráðgjafar hjá lækni eða sálfræðingi sem hefur sérhæft sig í svefnröskunum. Sem betur fer rjátlast svefnraskanir oft af börnum þegar aldurinn færist yfir, slíkt er þó ekki mikil huggun fyrir barn sem á við alvarlegar svefntruflanir að stríða.

Byggt á efni frá American Academy of Child and Adolescent Psychiatry