persona.is
Börn og agi
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Börn hegða sér á ólíkan hátt við mismunandi aðstæður og flestum foreldrum er kappsmál að kenna börnum sínum hvað teljist viðeigandi hegðun, og óviðeigandi, á hverjum stað. Það heyrir til undantekninga að börn læri sjálf til hvers sé ætlast af þeim hverju sinni. Eins er með hegðun, þau læra jafnt æskilega sem óæskilega hegðun af umhverfi sínu. Til eru foreldrar sem veigra sér við að sýna aga. Foreldrar ættu ekki að vera hræddir við að beita börn sín skynsamlegum aga, mismikinn eftir aldri barnanna. Þá er líka vitað að engin ein rétt leið er til að ala börn upp. Það gæti samt verið gagnlegt fyrir foreldra að huga að eftirfarandi atriðum:  Börn vilja oftast þóknast öðrum. Foreldrar geta nýtt sér þetta í uppeldinu. 

Þegar foreldrar sýna velþóknun á gjörðum barns síns, styrkir það trú barnsins á því hvað er rétt og líkurnar aukast á því að barnið endurtaki hegðunina. Að sama skapi minnka líkurnar á því að barn sýni óæskilega hegðun sýni foreldrar strax vanþóknun sína þegar barn hefur gert eitthvað rangt. 

Refsingar fyrir misgjörðir ættu að vera skiljanlegar fyrir barnið og alls ekki vera of strangar svo að barnið byrji ekki að efast um ást foreldranna og góðan ásetning. 

Börn og unglingar reita hæglega foreldra sína til reiði og foreldrar þurfa að sýna mikla sjálfstjórn þegar þau reiðast. Til langframa gagnast uppalendum lítið að æsa sig og missa stjórn á skapi sínu. Ef refsa á barni fyrir óæskilega hegðun þarf að gæta sanngirni og varast að refsingin þjóni þeim tilgangi að ná sér niður á barninu. Gott er að hafa í huga að við refsum fyrir hegðun barns en ekki barninu sjálfu. Ef væntingar til barna eru skýrar aukast líkurnar á því að börnin fari eftir einföldum reglum sem foreldrar setja þeim. 

Að forðast árekstra er betra en að reyna að stöðva þá seinna. 

Það er t.d. betra að koma brothættum hlutum fyrir þar sem ungabörn ná ekki til þeirra en að refsa þeim fyrir að brjóta þá. Foreldrar ættu að hvetja til forvitni barna sinna en beina henni í átt að uppbyggjandi verkefnum eins og að púsla, lita eða lesa. 

Með því að fylgja einföldum og sanngjörnum reglum í uppeldinu læra börn sjálfstjórn sem er nauðsynleg til að verða ábyrgðarfullur og tillitsamur einstaklingur. 

Flestir foreldrar leggja á það áherslu að börn þeirra öðlist sjálfstjórn. Þeir ætlast til þess að börn þeirra sýni æskilega hegðun jafnvel þó að þau séu ekki undir eftirliti fullorðinna. Börn læra sjálfstjórn af umhverfi sínu. Með því að kenna þeim að fylgja einföldum en sanngjörnum „reglum“ í samskiptum og gera þeim ljóst til hvers er ætlast af þeim hjálpa foreldrar börnum sínum að öðlast sjálfstjórn. 

Foreldrar arfleiða börnin sín að uppeldisaðferðum 

Ef uppeldisaðferðir gagnast foreldrum ekki er í ráði að fá ábendingar frá utanaðkomandi aðila. Fagfólk,sem er þjálfað í að fást við þroska barna og hegðun, getur veitt upplýsingar um það hvernig börn hugsa og þroskast og bent á nýjar leiðir til að fást við óæskilega hegðun. Með þolinmæði foreldra og hjálp frá fagfólki reynist unnt að auðvelda börnum að finna hvað það er sem samfélagið ætlast til af þeim og ekki síst, hvað þau eiga að ætlast til af sjálfum sér.

Persona.is Byggt á efni frá American Academy of Child & Adolescent Psychiatry