persona.is
Börn ættu að vera vel upp alin!
Sjá nánar » Uppeldi

 Börn ættu að vera vel upp alin! Um það er ekki ágreiningur. Setningin er reyndar svo sjálfsögð að hún er næstum afkáraleg. Hvernig ætti uppeldi annars að vera? Fólk er sammála um að börnum eigi að skapa góð skilyrði til þroska. En samstaðan nær ekki lengra. Oft er ágreiningur um markmið með uppeldi og leiðir að þeim markmiðum. Einum finnst mikilvægast að börn séu öguð, öðrum er í mun að láta þau afskiptalaus. Í sumum samfélögum er fremur ýtt undir sjálfstæði barna en samheldni, en í öðrum er þessu öfugt farið.

Þó að leiðirnar séu fjölbreyttar og markmiðin ólík eftir stund og stað eru þó allir sammála um að uppeldi sé mikilvægt. Uppeldi skiptir fólk máli frá vöggu til grafar. Það mótar þann sem alinn er upp og hefur áhrif á sálarheill þeirra sem að uppeldinu standa. Þegar allt kemur til alls skiptir barnauppeldi jafnvel sköpum fyrir framtíð heimsins. Fólk hefur þess vegna hugsað um uppeldi frá ómunatíð. Í öllum samfélögum hafa mótast venjur og oft strangar hefðir um uppeldi. Í flestum trúarbrögðum er fólki gert að láta uppeldi ungviðis til sín taka og uppeldi er viðfangsefni í fjölmörgum fræði? og bókmenntaverkum fyrri alda. Rit sem fjalla beinlínis um barnauppeldi, bæði alþýðleg og fræðileg, náðu útbreiðslu löngu áður en nokkrar formlegar athuganir voru gerðar í þessum efnum. Síðustu áratugi hefur nokkur trú ríkt á gildi rannsókna fyrir bætt barnauppeldi. Þó að rannsóknir geti gefið vísbendingar er ljóst að einhlítar og algildar aðferðir eru ekki til í uppeldismálum. Engin fræði bjóða upp á endanlega lausn á því að hverju eigi að stefna í uppeldi barns. Það er tæpast viðfangsefni fræðigreinar að njörva niður í formúlu svo margslungið og síbreytilegt efni. Það væri eins og að ætla að gera súputening úr kúahjörð. Svo misjafn er tilgangurinn sem fyrir mönnum vakir að jafnvel almenn og meinlaus markmið eins og „stuðla ber að hamingju barns“ gætu mætt andstöðu. Auðvitað eru margir, bæði fyrr og nú, sem hafna einstaklingsbundinni hamingju eða frelsi sem forgangsverkefni í uppeldi, en leggja þess í stað áherslu á samheldni, reisn eða virðingu tiltekins hóps, ættar, samfélags eða siðar. Markmið og aðferðir í jafnmargslungnu viðfangsefni mótast því ekki af einum sannleik. Hugmyndir um gott uppeldi, hvernig að því skuli staðið, að hverju skuli stefnt og nákvæmlega á hvers ábyrgð það eigi að vera mótast af gildismati, siðferði, menningararfi og reynslu. Það er því ljóst að uppeldismarkmið og leiðir sem mælt er með, til dæmis í þessum bókarkafla, eru ekki endanleg viska, hafin yfir gagnrýni. Umræðan er miðuð við almenn gildi og algengar aðferðir sem hlotið hafa staðfestingu bæði í fræðilegri umfjöllun og af langri reynslu. Minna er sinnt um að kynna allra nýjustu hugmyndir eða skoðanir einstakra fræðimanna. Vegna þess að umræða um uppeldi snýst að mörgu leyti um sömu stefin nú og áður fyrr er eðlilegt að víkja fyrst í sérstökum pistli að uppeldi fyrr á tímum og rismestu hugmyndum í þeim efnum. Einnig er hér pistill um þátt fræðikenninga í uppeldisumræðu og þær hugmyndir um þroska sem efstar eru á baugi nú á tímum og snerta uppeldi. Þá eru nokkrir pistlar þar sem fjallað er um uppeldisaðferðir. Þó að við bendum á ýmsar aðferðir og gefum ráð leggjum við mesta áherslu á að uppeldi sé ekki hægt að stunda með einföldum tæknibrellum. Áhrif uppeldis mótast af afar mörgu, til dæmis þeim andblæ sem ríkir kringum barnið, einkum á heimili þess. Sumt af efninu á við um uppeldi í víðasta skilningi, almenna uppeldisstefnu, uppeldi í skólum, á stofnunum og víðar, en umræðan beinist þó einkum að uppeldi á heimilum og efnisval okkar og dæmi mótast mjög af því. Í byrjun viljum við gera lesendum ljósa meginafstöðu okkar til uppeldis og uppeldisstefnu. Við höldum því ekki fram að afskiptaleysi og óheft frelsi barns sé eðlilegt grundvallaratriði í uppeldi. Og við erum hreint ekki sammála því að kröfur til barna og ögun þeirra hljóti að spretta af harðneskjulegu eða ómannúðlegu hugarfari. Þvert á móti teljum við að alúðlegt uppeldi hljóti einmitt að byggjast á samskiptum uppalanda og barns, samskiptum sem oft geta einkennst af afskiptum. Oft er nefnilega gumað af því hve sjálfstæð æskan á Íslandi er. Þá er sagt að hún sé alin upp í frjálsræði og hafi gagn og gott af því að sjá um sig sjálf. Vissulega má alltaf finna dæmi um börn og unglinga sem sýna dugnað og þrautseigju þótt þeir búi við afskiptaleysi eða stjórnleysi. En með auknum agavanda og jafnvel ofbeldi eru þó margir farnir að efast um ágæti þessa frjálsræðis íslenskra barna og unglinga og efast um að það skili sér einatt í sjálfstæðari og þroskaðri æsku. Því má velta fyrir sér hvort foreldrar séu ekki í raun að firra sig ábyrgð á uppeldi með því að vera of eftirlátir og jafnvel skeytingarlausir um það sem börn þeirra taka sér fyrir hendur. Eru þeir ekki að leiða hjá sér að taka ákvarðanir með börnunum og unglingunum um hvar eðlilegast sé að setja mörkin? Í sumum tilvikum er sennilega um að ræða afskiptaleysi foreldra; í öðrum tilfellum lifir sú kredda trúlega góðu lífi að börn geti alið sig upp sjálf og afskipti fullorðinna séu óhjákvæmilega til ills; í enn öðrum tilfellum er væntanlega frekar um að ræða uppgjöf eða öryggisleysi andspænis erfiðu viðfangsefni. Uppgjöfin kemur gjarnan fram í því að foreldrar láta undan þrýstingi barna sinna þegar þau vísa til þess hvað öðrum börnum leyfist, til dæmis í útivist og fatakaupum. Einnig eru foreldrar lítilla barna oft hræddir um að það muni hefta þroska barns ef því er bannað að gera eitthvað sem það langar til, svo sem rífa niður gardínur eða ganga í skrokk á fólki. Sumir virðast ekki þora eða vilja leggja það á sig að ræða við börn sín og við aðra foreldra um hvar setja skuli mörkin. Dæmi eru meira að segja til um það að foreldrar hafi leitað til skóla og beðið kennara um að setja reglur fyrir heimilin um útivist barna. Foreldrar mega ekki víkja sér undan þessari ábyrgð. Grunnur samskipta, sjálfsaga og sjálfsábyrgðar er lagður á heimilum og þar þarf að halda uppbyggingunni áfram. Þótt skólinn sé mikilvægur við að efla sjálfsaga og sjálfsábyrgð barna er hér um að ræða mál sem heimilin verða að taka á. Að sjálfsögðu er þó mikilvægt að heimili og skóli vinni hér saman og má hvorugur aðili skjóta sér undan ábyrgð. Að sama skapi er það ekki í höndum uppeldis? eða sálfræðinga að skilgreina mörk af þessu tagi. Foreldri sem vill að fimmtán ára unglingur sé kominn heim klukkan ellefu nema í sérstökum undantekningartilvikum á auðvitað að vinna að því í samvinnu við unglinginn og aðra foreldra. Þó að til komi einhver sjálfskipaður sérfræðingur og segi að best sé að ungmenni ráði sínum ferðum sjálf eiga foreldrar auðvitað frekar að treysta eigin sannfæringu en slíku hjali. Staðreyndin er sú að aðhald og regla eru börnum jafnnauðsynleg og ástúð og umhyggja. Við leggjum því á það áherslu að uppeldi er og verður viðfangsefni fólks, nokkuð sem allir verða að láta sig nokkru skipta. Það væri hrapallegt slys ef þjóðin afsalaði sér ábyrgð á uppeldi til sérstakra fulltrúa uppeldisfræða, jafnbagalegt og að nota í engu það sem vel er gert í uppeldisfræðum. Hér verður eins og endranær að leita jafnvægis, axla eðlilega ábyrgð á því sem við verður ráðið og sætta sig við hitt sem er utan eigin áhrifasviðs.

Sigurður Grétarsson, sálfræðingur og Sigrún Aðalbjarnardóttir, uppeldisfræðingur