persona.is
Atvinnuleysi og (van)líðan
Sjá nánar » Vinnan

Jón Sigurður Karlsson

Samhengi atvinnuleysis og (van)líðanar

Sálfræðilegar og félagsfræðilegar rannsóknir á áhrifum atvinnuleysis

Þessi grein birtist í Vinnunni, tímariti ASÍ í desember 1992, en þá var vaxandi atvinnuleysi sem náði hámarki í janúar 1994. Með greininni var varpað ljósi á samhengi atvinnuleysis og líðanar. Helstu spurningar voru: Fylgjast vanlíðan og atvinnuleysi að? Er munur á líðan eftir lengd atvinnuleysis? Hvernig kemur hugsanleg vanlíðan fram? Ef um vanlíðan er að ræða, við hvaða aðstæður eykst hún og hvaða þættir draga úr henni? Hefur líðanin áhrif á atvinnumöguleika? Er samhengi milli atvinnuleysis og geðrænna truflana?   Nú á haustdögum 2008 er ört vaxandi atvinnuleysi og þess vegna er greinin birt aftur á www.persona.is . Margar rannsóknir hafa verið gerðar til þes að kanna áhrif atvinnuleysis á líðan og (geð)heilsu. Rannsóknir af þessu tagi þekkjast allt aftur til kreppunnar miklu kringum 1930. Við samningu þessarar greinar var árið 1992 farið yfir 12 greinar í virtum tímaritum á þessu sviði. Niðurstöður rannsóknanna eru á einn veg – fá dæmi finnast um annað en neikvæð áhrif atvinnuleysis. Rannsóknaraðferðum má skipta í tvo flokka: Annars vegar eru úttektir á heildaráhrifum þar sem rýnt er í atvinnuleysistölur og tölur um atriði sem gætu verið vísbendingar um afleiðingar atvinnuleysis. Dæmi um slíkt eru ýmsar vísbendingar um líðan, andlega og líkamlega heilsu, dánartíðni af ýmsum ástæðum. Niðurstöður sýna oftast fylgni milli atvinnuleysis og vísbendinga um aukna vanlíðan og streitu, að svo miku leyti sem slíkt birtist í hagtölum. Hins vegar eru rannsóknir á einstaklingum og hópum þar sem ástand þeirra er kannað með viðtölum, spurningalistum og ýmsum mælingum. Í mörgum tilvikum er um langtímarannsóknir að ræða og stundum eru notaðir til samanburðar hópar í vinnu. Þessar síðastnefndu rannsóknir gefa nánari og marktækari svör varðandi líðan einstaklinganna. Rannsóknir á heildaráhrifum Árið 1976 birtust niðurstöður af athugunum á afleiðingum atvinnuleysis í Bandaríkjunum 1973-1974, som kom í kjölfar olíukreppunnar 1973. Þar kom fram hækkun á dánartíðni að meðtöldum sjálfsvígum (2,3%) vegna aukinnar streitu, innlögnum á geðdeildir hafði fjölgað um 6%, og handtökum lögreglu fjölgaði um 6%. Við gagnrýna skoðun dregur úr marktækni niðurstaðnanna. Í þessari rannsókn fannst fylgni milli atvinnuleysis og mælikvarða á streitu, en þar með er ekki sagt að orsakasamband sé fundið. Aukin áfengisneysla hefur víða fylgt uppsveiflu í efnahagslífinu. Hins vegar verður að athuga að oftast er það minnihlutinn sem drekkur megnið af áfenginu. Áhrif atvinnuleysis á áfengisneyslu gætu því gengið í gagnstæðar áttir: Annars vegar gætu margir sparað við sig í áfengiskaupum, hins vegar hafa þeir sem ekki eru í vinnu meiri tíma til drykkju, en um leið minni fjárráð. Það sem af er þessu ári (1992) hefur t.d. orðið 7% samdráttur í sölu hjá ÁTVR, en það hefur líka borið meira á heimabruggi. Einstaklingsrannsóknir Hagtölulegar rannsóknir gefa takmarkaðar upplýsingar um líðan einstaklinga og hópa. í rannsóknum á einstaklingum og hópum er oftast beitt viðtölum og spurningalistum. Til þess að fá sem marktækastar niðurstöður eru rannsóknir gerðar á hópum sem eru án atvinnu og til samanburðar eru athugaðir hópar sem eru í vinnu. Þær rannsóknir sem segja mest fylgja hópunum eftir í nokkur ár einkum til þess að áttta sig á langtímaáhrifum atvinnuleysis og einnig til að athuga hvaða breytingar verða á líðan og heilsu þegar menn komast aftur í vinnu. Nokkrar rannsóknir taka fyrir stóra vinnustaði sem er lokað, t.d. skipasmíðastöð í Danmörku þar sem unnu um 1.200 menn eða verksmiðju í Svíþjóð með 3-400 starfsmenn. Starfsmenn vorur rannsakaðir þegar ákvörðun um lokun lá fyrir og þeim var fylgt í nokkur ár og einstaklingarnir athugaðir eftir því hvort þeir voru í vinnu eða ekki. Til samanburðar eru rannsakaðir hópar á sams konar vinnustöðum sem voru áfram í rekstri. Öllum sem hafa rannsakað þetta ber saman um að hópar atvinnleysingja finni að meðaltali fyrir meira álagi og neikvæðum tilfinningum en sambærilegir hópar í vinnu. Þeir sýna færri vísbendingar um “hamingju”, lífsgleði og jákvæðar tilfinningar en fólk í vinnu. Þegar hópnum er fylgt eftir í langan tíma eru þeir sem komast í vinnu á tímabilinu að meðaltali sambærilegir varðandi vísbendingar um líðan við þá sem hafa verið í vinnu allan tímann. Viðbrögð við atvinnuleysi eru einstaklingsbundin allt eftir persónulegum einkennum og aðstæðum. Á bak við meðaltölin getur verið mikil fjölbreytni en engu að síður virðast áhrifin ganga í svipaða hátt hjá flestum. Reynt hefur verið að bera saman annars vegar andlega líðan eins og kemur fram í svörum á spurningalistum og hins vegar mælingar á líkamlegum þáttum sem koma fram í rannsóknum á blóði og þvagi. Í stórum dráttum er samsvörun milli þessara vísbendinga. Þetta kemur t.d. fram í hærra meðaltali af streituhormónum í blóði hjá atvinnulausum. Oft koma vísbendingar um lakari líkamlega heilsu meðal atvinnulausra og minnkaða mótstöðu gegn sjúkdómum. Hvernig orsakar atvinnuleysi vanlíðan og streitu? Helstu skýringar á lakara andlegu ástandi hjá atvinnulausum eru einkum tvenns konar: Í fyrsta lagi versna lífskjör skyndilega, oft niður fyrir fátækramörk þegar bótamöguleikar og sparifé er tæmt. Í öðru lagi er sú breyting á lífsstíl sem oftast fylgir með atvinnuleysinu. Enda þótt ekki séu allir atvinnulausir fátækir þá hafa þeir líklega allir ástæðu til fjárhagsáhyggna þegar þeir missa reglulegar tekjur. Reynsla þeirra sem búa áfram við allgóðan efnahag og þeirra sem lenda í fátækt virðist að ýmsu leyti lík, þannig að ógnun við afkomuöryggi er ekki eina skýringin. Auk launataps hefur atvinnumissir afleiðingar sem skýra frekar sálfræðilega viðbrögð sem koma fram án tillits til efnahagslegrar stöðu. Í rannsókn í Michigan í Bandaríkjunum var reynt með tölfræðilegri greiningu að meta vægi afkomáhyggna. Talið var að u.þ.b. helming streitunnar mætti rekja til afkomáhyggna. Nú verður að taka þessari niðurstöðu með nokkrum fyrirvara þar sem atvinnuleysisbætur eru misjafnlega háar eftir starfsgreinum, svæðum og löndum og þar af leiðandi gætu afkomuáhyggjur verið mismunandi. Auk þess er torvelt að mæla samsetningu orsakaþátta í hugarangri. Flestum er það eðlilegt að vinna að einhverju, maðurinn þarf að hafa einhver viðfangsefni til að fást við. Það að mæta í vinnu er hluti af skipulagi dagsins, í vinnunni fáum við félagslegum þörfum fullnægt. Menn finna gjarnan sameiginlegan tilgang með starfinu og starfið er hluti af sjálfsmynd margra. Við atvinnumissi er þetta allt í uppnámi, kvíði tekur við og daprar hugsanir fylgja gjarnan í kjölfarið. Hugarangur vegna atvinnumissis gerir okkur enn viðkvæmari fyrir mótlæti á öðrum sviðum það þarf minna til að fylla mælinn. Oft eykst spenna og togstreita innan fjölskyldunnar. Spennan getur leitt til meiri óróleika hjá börnunum sem aftur eykur líkur á ósamkvæmni í uppeldi og vítahringur getur komist af stað. Skilnaðir eru tíðari há atvinnulausum en fólki í vinnu. Það er hins vegar mjög einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við. Sum hjón verða samheldnari við mótlæti, hjá öðrum eykst sundurlyndi. Svo virðist sem þeir sem helga sig algjörlega starfinu og hafa ekki önnur áhugamál missi mest. Þeir sem eiga önnur hugðarefni geta fengist við þau í auknum mæli. Þegar þolendur atvinnuleysis eru sjálfir spurðir um orsakir vanliðanar benda flestir, verkamenn jafnt sem sérfræðingar á atvinnuleysið. Miðaldra karlmenn verða fyrir meira hugarangri en ungir menn eða rosknir. Þetta tengist líklega meiri fjárhagslegum skuldbindingum þeirra og mismunandi hlutverkum eftir aldri. Útivinnandi húsmæður sem missa vinnuna virðast hafa tilhneigingu til að taka sér meiri tíma í heimilisstörf, atvinnuleysið verður þeim oft léttbærara þess vegna. Þegar konur hafa verið eina fyrirvinna fjölskyldunnar eru áhrif atvinnuleysis á þær sambærileg við þau áhrif sem það hefur á karla. Hvernig birtist vanlíðan vegna atvinnuleysis? Einhvers konar depurð eða óyndi er algengasta tegund vanlíðanar hjá atvinnulausum.   Depurðareinkenni tengjast almennt missi, en kvíði er líka áberandi. Oft er kvíðinn mestur rétt áður eða um það leyti sem fólk missir vinnuna, allt eftir því hvort það hefur verið einhver aðdragandi. Algengt er að sjálfsásakanir vegna atvinnumissisins séu hluti af dapurleikanum. Sjálfsmat lækkar og margir finna fyrir tilgangsleysi. Eitt mikilvægasta atriðið í andlegri vellíðan er tilfinning um að maður geti haft áhrif á gang mála. Algengt er að atvinnulausum finnist þeir hafa lítil eða engin áhrif, þeir séu að miklu leyti leiksoppar örlaganna og geti ekki tekið málin í eigin hendur. Hjá flestum leiðir þetta meinta áhrifaleysi til aukinnar streitu. Sjálfstraust minnkar við atvinnumissi og það sem fylgir á eftir. Leitin að nýrri vinnu getur verið erfið, margar umsóknir þarf oft að fylla út áður en nýtt starf er fengið. Þegar það gengur illa er hætt við að menn missi móðinn eftir að hafa verið margsinnis hafnað. Afleiðingin getur verið minna frumkvæði, margir leggja árar í bát. Óvirknin nær þá yfir flest svið í tilveru margra, auk þess sem hugarangur vegna atvinnuleysis gerir menn enn viðkvæmari fyrir mótlæti á öðrum sviðum. Atvinnumissir minnir að mörgu leyti á ástvinamissi eða áföll að því leyti sem hann leiðir til svipaðra viðbragða. Menn ganga oft í gegnum svipuð stig í úrvinnslu sorgarinnar. Einn helsti munurinn er þó að þegar menn komast aftur í vinnu hverfur þessi vanlíðan oftast að mestu eða öllu leyti, það er oft hægt að fá aðra vinnu en horfnir ástvinir koma ekki aftur. Örvænting? Ekki er óalgengt að menn reyni, með misjöfnum árangri, að draga úr kvíða og hugarangri með áfengi. Hætta á misnotkun áfengis virðist oft aukast við atvinnuleysi, en niðurstöður eru ekki ótvíræðar. Samdráttur í efnahagslífi getur virkað bæði til minnkunar og aukningar á áfengisneyslu. Þá má líka búast við því að áfengisvandamál sé stundum meðorsök atvinnumissis eða torveldi atvinnuleit. Það er því erfitt að henda reiður á orsakasambandi milli atvinnuleysis og misnotkunar áfengis. Tíðni sjálfsvígstilraun, sem sérfræðiingar telja oftast vera ákall um hjálp, er mun hærri meðal atvinnulausra en annarra. Hins vegar er ekki þar með sagt að það sé orsakasamband milli atvinnuleysis og sjálfsvígstilrauna, enda þótt um fylgni sé að ræða. Rannsóknir þar sem reynt hefur verið að finna slíkt orsakasamband leiða ekki í ljós ótvíræðar niðurstöður. Hvað með þá sem hafa aldrei verið í vinnu? Til eru langtímarannsóknir á nemendum sem útskrifast úr skólum. Andlegt ástand þeirra var athugað fyrir útskrift og þeim síðan fylgt eftir. Þeir sem ekki komust í vinnu sýndu fleiri merki vanlíðanar, en það breyttist til batnaðar eftir að þeir fengu vinnu. Svipaðar niðurstöður hafa fengist þegar athuguð er líðan heimavinnandi húsmæðra sem vilja fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé en fá ekki vinnu. Mikilvægt er að gera greinarmun á eiginlegum geðrænum truflunum og eðlilegum viðbrögðum við vonbrigðum og áföllum, en mörkin milli sjúklegs þunglyndis og eðlilegra viðbragða við áföllum geta verið óljós. Munurinn er oft fólginn í því að sjúklegt þunglyndi getur haldið áfram eftir að ræst hefur úr aðstæðum. Hjá atvinnulausum er sjaldnast um að ræða eiginlegt þunglyndi, en hins vegar minni lífsgleði en þegar þeir höfðu vinnu. Þegar borin eru saman stig á algengum depurðar/geðlægðarkvarða í mjög fjölmennri rannsókn kemur í ljós að meðaltal þeirra sem eru í vinnu er 5,5 stig en hjá atvinnulausum 11 stig. Á þessum kvarða eru 0-9 stig talin eðlileg en 10-19 stig talin gefa vísbendingu um væga geðlægð. Verri líðan þarf því ekki að vera sjúkleg, hins vegar eiga atvinnulausir oftar en aðrir á hættu að fá geðrænar truflanir, einkum þunglyndi. Samkvæmt sænskri rannsókn sýnir u.þ.b.einn af hverjum fimm vísbendingar um geðrænar truflanir sem þarfnast meðferðar, en það er hærri tíðni en hjá þeim sem eru í vinnu. Margir þeirra þurfa þó frekar á vinnu að halda en meðferð. Þegar ástand á vinnumarkaði versnar eftir að full atvinna hefur verið ríkjandi er líklegt að þeir sem standa tæpt vegna andlegrar og/eða líkamlegrar vanheilsu verði með þeim fyrstu sem missa vinnuna. Eftir því sem atvinnuleysis eykst bitnar það bæði á góðum vinnukrafti og slæmum. Í rannsókn á atvinnuleysissvæði í Michigan í Bandaríkjunum var kannað hvort hægt væri að segja fyrir um það hverjir fengju aftur vinnu. Svo heppilega vildi til að heldur rofaði til á tímabilinu og tæpur helmingur atvinnulausra í úrtakinu fékk vinnu. Þegar athugað var samhengi milli vísbendinga um streitu (einkum kvíða og depurð) og atvinnustöðu kom í ljós að þeir sem virtist líða verst voru að jafnaði líklegastir til að komast aftur í vinnu. Skýringin á þessu gæti legið í því að þeir sem sýndu mesti merki vanlíðanar þurftu mest á atvinnu að halda og hafi þar af leiðandi verið virkastir í atvinnuleitinni. Þetta átti einna helst við um kvænta karlmenn sem voru eina fyrirvinna fjölskyldunnar. Þar með er þó ekki sagt að því verri líðan, því meiri líkur á að fá vinnu. Þegar andleg og líkamleg vanlíðan er komin yfir viss mörk gæti hún torveldað atvinnuleitina. Mismunur eftir svæðum Athuganir á svæðum með mismunandi mikið atvinnuleysi gefa til kynna að atvinnuleysingjum líði að meðaltali skást á þeim svæðum þar sem atvinnuleysið er mest. Það er e.t.v. minni “skömm” að vera atvinnulaus eftir því sem það er tíðara á svæðinu. Við slíkar aðstæður hættir mönnum miklu síður til að kenna sjálfum sér um eigið atvinnuleysi. Hagtölulegar rannsóknir milli svæða gefa yfirleitt vísbendingar um aukna streitu með auknu atvinnuleysi. Hins vegar er líklegt að sameiginleg ógnun eins og atvinnuleysið þjappi fólki saman og þar eru fleiri þjáningarsystkin sem hægt er að ræða við. Slíkur gagnkvæmur stuðningur eða frá vinum getur gert ástandið léttbærara. Það er líklega mismunandi eftir löndum hversu mikil áhersla er lögð á að allir vinni. Á Íslandi mætti ætla að atvinnuleysi væri erfiðara en víða annars staðar vegna landlægrar vinnusemi. Íslendingar eru góðu vanir, oft hefur verið meira en nóg atvinna í boði. Því má búast við að það líði nokkur tími þangað til þeir venja sig almennt við tilhugsun um atvinnuleysi.   Langvarandi atvinnuleysi   Niðurstöður rannsókna benda til að menn finni mest fyrir streitu rétt áður en þeir missa vinnuna, þegar þeir vita það með nokkrum fyrirvara. Eftir að þeir hætta að vinna er eins og þeim líði heldur skár. Síðan aukast að meðaltali vísbendingar um vanlíðan og ná hámarki ári eftir atvinnumissi. Eftir það er eins og menn hafi að nokkru leyti lagað sig að ástandinu enda þótt þeim virðist líða verr en sambærilegum hópum í vinnu. “Aðlögun” að langvarandi atvinnuleysi getur líka verið í því fólgin að setja markið lægra en áður og leggja meira og minna árar í bát. Í breskum rannsóknum kemur t.d. fram að um 40% atvinnulausra hafi verið stöðugt án vinnu í meira en ár, um 25% í meira en tvö ár.   Svo virðist sem atvinnurekendur forðist frekar að ráða fólk sem hefur verið lengi atvinnulaust. Telja að það sé almennt lélegur starfskraftur. Margs konar endurmenntun og –hæfing er ætluð til þess að auðvelda atvinnulausum að komast aftur í vinnu. Meðal danskra skólamanna hefur t.d. komið upp umræða um að skólinn ætti líka að búa nemendur undir atvinnuleysi, það sé ekki náttúrulögmál að allir vinni. Það er umdeilt hvort þetta beri vott um raunsæi eða ótímabæra uppgjöf.   Óbein áhrif atvinnuleysis   Óttinn við atvinnumissi: Í rannsóknum kemur oft í ljós að þeir sem óttast atvinnumissi sýna fleiri merki um andlega vanlíðan. Það er auk þes líklegt að þeir sem eru í ótryggum störfum geti lent í þeim vítahring að vera undir álagi ýmist vegna lítils atvinnuöryggis eða atvinnuleysis.   Atvinnuleysið breytir valdahlutföllum á vinnumarkaði atvinnurekendum í hag. Þeir þurfa t.d. ekki að hafa eins mikið fyrir því að halda fólki í vinnu, geta gefið í skyn að hægt sé að fá nóg af fólki ef þeim finnst starfsfólkið ekki leggja sig nógu mikið fram. Sænsk könnun gefur t.d. vísbeningar um að yfirvinna hafi aukist í nokkrum iðngreinum þegar atvinnuleysi fór vaxandi. Þetta er skýrt með því að starfsfólk hafi síður viljað neita að vinna yfirvinnu af ótt avið að missa starfið. Frá sjónarmiði atvinnurekenda gæti verið hagkvæmt að láta þá sem fyrir eru vinna meira til þess að spara tilkostnað vegna þjálfunar nýrra starfsmanna.   Enda þótt atvinnuleysi geti virst óskastaða fyrir atvinnurekendur getur því líka fylgt nokkurt óhagræði. Þegar starfsmenn eru óöruggir og kvíðnir eykur það líkur á einbeitingarerfiðleikum og mistökum. Þeir starfsmenn sem halda áfram eftir fjöldauppsagnir geta líka fyllst beiskju vegna illrar meðferðar á fyrrum vinnufélögum, þeir geta spurt: Verð ég næstur? Auk þess er ekki óalgengt að þeir fái sektarkennd sem virðist skyld þeirri sektarkennd sem kemur oft fram hjá þeim sem lifa af slys (survival guilt). Allt þetta getur gefið bakslag þegar til lengri tíma er litið.   Margir sem hafa fjallað um þessi mál hafa bent á að aðstæður í kreppunni miklu séu gjörólíkar þeirri velferð sem nú er í gildi, en atvinnuleysistryggingar ættu að gera atvinnuleysið léttbærara fjárhagslega. Þrátt fyrir þetta eru niðurstöður varðandi sálfræðileg áhrif atvinnuleysis í kreppunni miklu annars vegar og síðustu 15-20 ár hins vegar keimlíkar. Í Bretlandi er talið að atvinnulausir fái að meðaltali mili 45 og 60% af fyrri launatekjum, breytilegt eftir starfsgreinum. Í Svíþjóð geta heildarbætur vegna atvinnuleysis numið mest 92% af fullum launum. (þetta hlutfall lækkaði verulega eftir 1992). Menn geta í mesta lagi verið á þessum bótum í 60 vikur, en þá þurfa þeir að fara í starfsþjálfun eða –menntun. Þrátt fyrir þennan mun milli Svíþjóðar og Bretlands eru niðurstöður varndani andlega líðan svipaðar. Hér kann einhver að spyrja um misnotkun atvinnuleysisbóta, en svo virðist sem slíkt heyri til undantekninga og er ekki fjallað um það í þessari grein.     Helstu niðurstöður   Rannsóknir benda eindregið til verri líðanar hjá atvinnulausum borið saman við fólk í vinnu. Fjárhagsáhyggjur eru ekki það eina sem þjakar menn. Einkenni um depurð og kvíða eru mest áberandi að viðbættum tilfinningum um tilgangsleysi og áhrifaleysi. Þessi vanlíðan lagast að miklu leyti þegar menn komast aftur í vinnu.   Í u.b.b. 80% tilfella er ekki um eiginlegar geðrænar truflanir að ræða, oftast er atvinna besta meðalið. Vanlíðan tengd atvinnuleysi virðist emst rétt áður en uppsagnarfrestur rennur út. “Aðlögun” að langvarandi atvinnuleysi felst oft í því að setja markið lægra en áður, eftir u.þ.b. ár fer líðan oft að skána. Vanlíðan er ekki að öllu leyti slæm að því leyti sem hún hvetur menn til dáða í atvinnuleitinni.   Reykjavík, sept-okt. 1992   Jón Sigurður Karlsson cand. psych. & oecon. Sálfræðingur