persona.is
Athyglisbrestur með ofvirkni (ofvirkniröskun)
Sjá nánar » ADHD » Börn/Unglingar

 Hvað er ofvirkni?

Við fyrstu kynni af ofvirku barni er ekki víst að fólk taki eftir að eitthvað ami að. Barnið lítur eðlilega út og hagar sér jafnvel eins og önnur börn. Oft getur það tekið ókunnugt fólk töluverðan tíma að átta sig á því að barnið býr við mikla erfiðleika. Sum ofvirk börn eiga til dæmis erfitt með að ljúka því sem þau byrja á, þau vaða úr einu í annað og verða fljótt leið á verkefnum eða leikjum. Þau virðast oft vera annars hugar og eiga í erfiðleikum með að einbeita sér. Önnur eru sífellt á ferðinni, eru hvatvís og gengur illa að vera kyrr. Eins og gefur að skilja getur oft verið mjög erfitt fyrir þessi börn að fóta sig í umhverfi þar sem ætlast er til að þau fylgi fyrirmælum, sitji kyrr og einbeiti sér. Vandamál í skóla eru þessu vegna mjög algeng hjá þessum börnum.  Nú til dags eru börn með framangreind einkenni sögð hafa athyglisbrest með ofvirkni (AMO), sem einnig er nefnt ofvirkniröskun. Það er mikilvægt að átta sig á því að ofvirkniröskun og athyglisbrestur með ofvirkni eru tvö greiningarhugtök sem ná yfir samskonar einkenni. Ástæðan fyrir ólíkum nöfnum er til komin vegna þess að í hinum vestræna heimi er notast við tvö greiningarkerfi, annars vegar DSM-IV og hins vegar ICD-10. DSM-IV er greiningarkerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna en ICD-10 er gefið út af Alheimsheilbrigðisstofnuninni (WHO). Í þessari umfjöllun er tekið mið af DSM greiningarkerfinu.  Í daglegu tali gengur AMO undir heitinu ofvirkni. Þess ber þó að geta að barn sem greinist með AMO þarf ekki nauðsynlega að hreyfa sig of mikið. Það getur alveg eins verið að athyglisskortur eða hvatvísi sé megin vandamálið. Of mikil hreyfivirkni er því ekki nauðsynleg til þess að hægt sé að greina barn með ofvirkni, eins einkennilega og það kann að hljóma.

Hvað einkennir ofvirkni?

Það eru ekki til nein læknisfræðileg próf, eins og blóðprufur, sem meta hvort barn sé með AMO eða ekki. AMO er einungis hægt að finna með því að fylgjast með því hvernig börnin hegða sér. Gróflega má skipta hegðun barna með AMO í þrjá flokka.

Athyglisskortur. Eins og nafnið gefur til kynna eiga börn með athyglisskort erfitt með að beina eftirtekt sinni að einhverju einu í tiltekinn tíma. Þeim gengur oft vel að fylgjast með því sem þeim þykir skemmtilegt eða því sem er mjög fjölbreytt, s.s. sjónvarpsefni eða tölvuleikjum. Þau eiga hins vegar í miklum erfiðleikum með það að skipuleggja og ljúka verkefni sem fyrir þau eru lögð. 

Ofvirkni. Fólk sem er ofvirkt virðist aldrei geta eirt sér. Það er í vandræðum með að sitja kyrrt og talar oft mjög mikið. Að sitja kyrr í heila kennslustund getur því verið nánast útilokað. Þurfi ofvirkt barn að sitja kyrrt, til dæmis í skólanum, er það oft allt á iði, það danglar fótunum, snertir allt í kringum sig eða lemur blýantnum í borðið sitt. Ofvirkir unglingar og fullorðnir tala gjarnan um eirðaleysi sem hrjáir þá og að reyna að koma mörgu í verk samtímis. 

Hvatvísi. Fólk sem er hvatvíst á í erfiðleikum með að halda aftur af sér. Það talar oft án þess að hugsa, framkvæmir það fyrsta sem í hugann kemur án þess að íhuga hverjar afleiðingarnar gætu orðið. Hvatvísin gerir það að verkum að þeim gengur oft erfiðlega að bíða þar til röðin kemur að þeim eða að skiptast á að leika sér með tiltekið leikfang. 

Það er misjant eftir einstaklingum hvað af ofangreindu er meginvandamálið. Rannsóknir hafa bent til þess að AMO megi gróflega skipta í þrjá undirflokka. 
  1. Aðallega athyglisbrestur 
  2. Aðallega ofvirkni og/eða hvatvísi. 
  3. Sambland af hvorutveggja. 
Rannsóknir hafa leitt í ljós að samsetning þessara hópa er ólík. Í fyrsta hópnum er líklega hærra hlutfall stúlkna en stráka; hjá þeim byrjar vandinn seinna. Og það eru meiri líkur á slakri frammistöðu í skóla í samanburði við hina hópana.  Flestir, ef ekki allir, þekkja af eigin raun það að eiga stundum í erfiðleikum með að einbeita sér, eða að vera eirðarlausir og tala án þess að hugsa. Það þýðir samt ekki að um AMO sé að ræða. En hvernig má þá greina á milli þess sem er eðlilegt og þess sem sérfræðingar kalla AMO? 

Hverjir fá ofvirkni?

Meðal barna er AMO ein af algengustu geðröskununum. Talið er að á bilinu 3-5% barna þjáist af því. Að meðaltali má því ætla að um það bil eitt ofvirkt barn sé í hverri skólastofu. Drengir eru þrisvar til fimm sinnum líklegri til að greinast með AMO heldur en stúlkur. AMO finnst víðar heldur en í vestrænu samfélagi. Faraldsfræðirannsóknir benda til að röskunin er jafn algeng í vestrænum samfélögum eins og hún er í Kína, Japan og Indónesíu.  Geta fullorðnir verið með AMO? Ólíkt því sem áður var talið, er AMO ekki einungis bundið við börn. Í fyrstu var talið að AMO myndi rjátlast af börnum á unglingsaldri eða snemma á fullorðinsaldri. Nú er hins vegar vitað að um helmingur barna með AMO mun einnig eiga í erfiðleikum á fullorðinsaldri. Fólk getur hins vegar lært að lifa með röskuninni og gert sér grein fyrir hvar veikleikar þess liggja. Kennsla og þjálfun í að hafa hemil á ofvirkninni og aðferðir til að bæta athyglina geta þess vegna skipt miklu máli, en einnig getur lyfjameðferð komið að gagni.

Hvað veldur ofvirkni?

Til þess að þróa megi betri meðferð og (vonandi einhvern tíma) fyrirbyggja að fólk fái AMO verður að leita að orsökum röskunarinnar. Rannsóknir benda til þess að heimilisaðstæður og uppeldi valda ekki AMO, heldur megi finna orsakir AMO í starfsemi heilans. Fjöldinn allur af orsakakenningum hefur litið dagsins ljós. Sumum þessara kenninga hefur verið hafnað, aðrar hafa leitt af sér fjölmargar spennandi rannsóknir.  Ein af kenningunum sem miklar vonir voru bundnar við var sú að AMO mætti rekja til vægs heilaskaða, sem hugsanlega gæti átt sér stað vegna erfiðleika við fæðingu eða sýkingar. Þó svo að vissar tegundir heilaskaða valdi einkennum svipuðum og í AMO þá var þessari kenningu hafnað vegna þess að hún gat einungis útskýrt tilurð AMO hjá mjög fáum.  Önnur kenning, vinsæl á sínum tíma, var á þá leið að AMO mætti rekja til sykurneyslu og aukaefna í matvælum. Foreldrar voru hvattir til að láta börn sín hætta að borða mat sem innihélt sykur, litarefni og rotvarnarefni. Eftir fjöldann allan af rannsóknum komust vísindamenn að því að slíkir matarkúrar drógu einungis úr einkennum hjá um 5% barna, stærsti hópur þessara barna var með einhvers konar fæðuofnæmi.  Menn hafa oft gripið til einfaldra útskýringa á orsökum AMO. Rannsóknir hafa sýnt að AMO orsakast ekki af: 

·         Of miklu sjónvarpsáhorfi 

·         fæðuofnæmi 

·         of mikilli sykurneyslu 

·         slæmum heimilisaðstæðum 

·         lélegum skólum. 

Lengi hefur verið vitað að AMO er algengari í sumum fjölskyldum en öðrum. Í ljósi þessa fóru menn að velta fyrir sér hvort erfðir hafi áhrif á það hvort börn fá AMO eða ekki. Rannsóknir síðustu ára benda mjög sterklega til þess að svo sé. Til marks um það má geta þess að börn með AMO eiga oftast eitt náið skyldmenni sem einnig hefur röskunina. Einnig hefur komið í ljós að rúmlega einn þriðji allra feðra sem hafa haft AMO eignast börn með AMO. Það skal þó haft í huga að ekki er hægt að fullyrða um erfðaþátt eingöngu út frá slíkum niðurstöðum, allt eins gæti verið að börnin lærðu þessa hegðun af foreldrum sínum. Það sem þykir samt benda til að erfðir skipti máli í þessu sambandi er að miklar líkur séu á því að greinist annar eineggja tvíburi með AMO, þá greinist hinn líka með röskunina. Fjölmargar tvíburarannsóknir hafa leitt þetta í ljós, sem og ættleiðinga- og fjölskyldurannsóknir. Nú til dags telja fremstu vísindamenn á þessu sviði að erfðaþátturinn sé mjög sterkur. Á undanförnum árum hafa verið þróuð ný rannsóknartæki sem gera vísindamönnum kleift að rannsaka heilastarfssemi. Þessi tæki hafa verið notuð til að grennslast fyrir um orsakir AMO. Rannsóknir á athygli og einbeitingu fólks eru fyrirferðamestar. Eins og eðlilegt er þá eru tengsl á milli þess hversu vel fólki gengur að halda athygli og virkni á vissum stöðum í heila. Rannsakendur hafa komist að því að í verkefnum sem krefjast einbeitingar er minni virkni á vissum svæðum í heila hjá fólki með AMO heldur en hjá öðrum. Það er mikilvægt að hafa í huga að þótt tekist hafi að sýna fram á skík tengsl, er orsök vandans ekki þar með fundin. Vísindamenn eiga eftir að komast að því HVERS VEGNA þessi munur er til staðar. Fjölmargar rannsóknir eru nú í gangi til að reyna að svara þeirri spurningu.  Rannsóknir á orsökum AMO beinast einnig að þroska heilans í móðurkviði. Kenningin sem menn ganga út frá er sú að hugsanlega þroskist heili þeirra sem hafa AMO ekki rétt, það er að segja taugafrumurnar (heilafrumur) mynda ekki rétt tengsl við aðrar taugafrumur. Ástæðan fyrir því er óljós, en meðal þess sem menn eru að rannsaka eru áhrif lyfjaneyslu á meðgöngu, eitranir og erfðir.  Ýmsilegt bendir til að vímuefnaneysla móður á meðgöngu geti stuðlað að aukinni áhættu á að barnið fái AMO. Reykingar og óhófleg áfengisneysla kunna að auka hættuna á að barnið greinist með AMO. Ástæðan er líklega sú að þessi efni geta valdið truflun á eðlilegum þroska taugafrumna. Það skal þó haft í huga að hér er um aukna áhættu að ræða, mjög lítill hluti mæðra sem reykja á meðgöngu eignast börn með AMO. Þetta bendir til þess að um flókið samspil ýmissa þátta koma við sögu í meingerð AMO.

Hvernig er hægt að greina ofvirkni?

Það er eðlilegt að börn hreyfi sig meira, séu fjörugri og eigi stundum erfiðara með að einbeita sér heldur en fullorðnir. Það kemur ekki óvart að börnum gengur einnig verr að fylgja fyrirmælum heldur en fullorðnu fólki og ljúka ekki alltaf því sem þau byrja á. Þegar foreldrar kvarta undan því við aðra að barninu þeirra gangi illa að einbeita sér, sé alltaf á ferðinni og of hvatvíst, segja margir að það sé bara eðlilegt, þetta sé eðlilegur eiginleiki barna og það sé engin ástæða til þess að hafa áhyggjur. Oft er þetta satt og rétt, en í sumum tilfellum getur verið að barnið sé með AMO. Ef foreldrar hafa áhyggjur af þessum eiginleikum barna sinna ættu þeir að leita til sérfræðinga og fá úr því skorið hvort um eðlilega hegðun miðað við aldur sé að ræða eða hvort barnið sé með AMO.  Börn á sama aldri geta verið mjög ólík. Sum eru fyrirferðamikil og vaða úr einu í annað. Slíkt þarf ekki endilega að benda til þess að barnið sé með AMO. Það getur allt eins verið að það sé aðeins seinna til heldur en önnur börn eða sé einfaldlega fjörugt og ærslafullt. Sérfræðingar geta skorið úr um hvort barn er með AMO eða ekki með því að nota ýmsar matsaðferðir. Sálfræðingar og barnageðlæknar eru fagstéttir sem hafa mikla þekkingu á AMO og eru vel til þess fallnir að greina röskunina. Einnig er hægt að fara með barnið til barnalækna sem sérhæfðir eru í taugaþroska barna eða heimilslæknis. Innan allra þessara stétta er mikill munur á því hversu mikla þekkingu sérfræðingar hafa á röskuninni. Það er því mikilvægt að fólk leiti til þeirra sem hafa sérhæft sig í greiningu og meðferð AMO.  Sama hver bakgrunnur sérfræðingsis er þá mun hann byrja á því að safna upplýsingum til að reyna að útiloka aðrar mögulegar skýringar á hegðun barnsins. Þetta gerir hann t.d. með því að fara yfir þroska- og félagassögu barnsins, heilbrigðisskýrslur og gögn frá skóla eða leikskóla. Hann reynir að átta sig á því hvort óregla er á heimili og í skólastofu og hvernig samskiptum er háttað við barnið heima og í skóla. Ef læknisskoðun hefur ekki farið fram nýlega getur verið mikilvægt að athuga heyrn barnsins og sjón.  Þessu næst leitar sérfræðingurinn eftir upplýsingum um hegðun barnsins til þess að bera hana saman við viðurkennd greiningarskilmerki (sjá töflu 1). Þessar upplýsingar fær sérfræðingurinn með því að tala við foreldra og barnið sjálft. Æskilegast er að sérfræðingurinn hafi tök á því að fylgjast með hegðun barnsins inni í skólastofu og annars staðar við aðrar aðstæður. Greiningarskilmerki athyglisbrests með ofvirkni. (DSM-IV) A.  A. Í annað hvort (1) eða (2) verða a.m.k sex einkenni að hafa verið til staðar í a.m.k. 6 mánuði. Einkennin verða að hafa valdið skertri aðlögunarhæfni og vera í ósamræmi við þroska barnsins. 

1. Athyglisskortur a. Hugar oft illa að smáatriðum og gerir fljótfærnislegar villur í skólaverkefnum, starfi eða öðrum athöfnum. b. Á oft í erfiðleikum með að halda athygli vakandi í leik eða starfi. c. Virðist oft ekki heyra þegar talað er beint til hans/hennar. d. Fylgir oft ekki fyrirmælum til enda og lýkur ekki við heimaverkefni eða skyldustörf á heimili eða vinnustað (hegðunin stafar ekki af mótþróa eða skilningsleysi á fyrirmælum). e. Á oft erfitt með að skipuleggja verkefni sín og athafnir. f. Líkar oft illa við, forðast eða tregðast við að takast á við verkefni (t.d. heimanám og verkefni í skóla) sem krefjast beitingar hugans. g. Týnir oft hlutum sem hann/hún þarf á að halda til verkefna sinna eða athafna t.d. leikföngum, skriffærum, heimaverkefnum, bókum eða áhöldum. h. Truflast oft auðveldlega af utanaðkomandi áreitum. i. Gleymir oft því sem á að gera yfir daginn. 

2. Ofvirkni-hvatvísi a. Er oft mikið með hendur og fætur á hreyfingu eða iðar í sæti. b. Yfirgefur oft sæti sitt í skólastofu eða við aðrar aðstæður þar sem ætlast er til að setið sé kyrr. c. Hleypur oft um eða prílar óhóflega við aðstæður þar sem slíkt á ekki við (hjá unglingum og fullorðnum lýsir þetta sér oft sem eirðarleysi). d. Á oft erfitt með að vera hljóð(ur) við leik eða tómstundastarf. e. Er oft „á fleygiferð“ eða er eins og „þeytispjald“. f. Talar oft óhóflega mikið. g. Grípur oft fram í með svari áður en spurningu er lokið. h. Á oft erfitt með að bíða þar til röðin kemur að honum/henni. i. Grípur oft fram í eða ryðst inn í það sem aðrir eru að gera (t.d. samræður eða leiki). 

B. Einhver einkenni um athyglisskort eða ofvirkni-hvatvísi eru til staðar fyrir 7 ára aldur. C. Einkennin valda skerðingu í tveimur eða fleiri aðstæðum. D. Einkennin verða að valda klínískt marktækri skerðingu í félagslífi, skóla eða í starfi.  Sérfræðingurinn hefur einnig samband við kennara barnsins og leggur fyrir þá stutta matskvarða og ræðir við þá og aðra sem þekkja barnið vel. Matskvarðar eru einnig lagðir fyrir foreldra barnsins og barnið sjálft. Allt þetta er gert til þess að sérfræðingurinn geti áttað sig á því hvort vandinn er fyrir hendi í fleiri en einum aðstæðum og hvort hegðunin er óhófleg miðað við jafnaldra.  Nánast alltaf er lagt mat á greind og námshæfileika barns sem kemur til greiningar vegna gruns um AMO. Eina fagstéttin sem hefur leyfi til að leggja fyrir greindarpróf á Íslandi eru sálfræðingar. Það er mikilvægt að mat sé lagt á greind barnsins til þess að betur megi kortleggja styrkleika og veikleika þess í skólanum. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli ef líkur eru á að barnið þurfi á sérúrræðum að halda í skólanum, en námserfiðleikar eru algengir meðal barna með AMO.  Þegar sérfræðingurinn fer yfir gögnin sem hann hefur safnað veitir hann sérstakri athygli hvernig barnið bregst við í umhverfi sem er óskipulagt og hávaðasamt sem og í umhverfi sem krefst þess að barnið einbeiti sér að einhverju tilteknu í töluverðan tíma, t.d. við lestur eða reikning. Sérfræðingurinn leggur minni áherslu á hegðun sem barnið sýnir þegar það er í frjálsum leik eða þegar það er undir ströngu eftirliti frá fullorðnum.  Með ofangreindar upplýsingar í huga reynir sérfræðingurinn að svara eftirfarandi spurningum: 

·         Er samræmi á milli greiningarskilmerkja og hegðunar barnsins? 

·         Hve oft sýnir barnið viðkomandi hegðun? 

·         Við hvaða aðstæður acheter cialis sans ordonnance? * Hversu lengi hefur barnið sýnt viðkomandi hegðun? 

·         Hversu gamalt var barnið þegar erfiðleikarnir hófust? 

·         Veldur hegðunin truflun í daglegu lífi barnsins, t.d. í félagahópnum, í skólanum eða heimilislífinu?

·         Á barnið við einhverja aðra erfiðleika að stríða? 

Svör við þessum spurningum gefa vísbendingar um hvort ofvirkni, athyglisskortur og hvatvísi barnsins eru alvarleg og hvort ástæða sé til að greina barnið með AMO. Þegar fullorðnir eru greindir með AMO byggir matið aðallega á frammistöðu þeirra heima fyrir og í vinnu. Einnig eru foreldrar þeirra oft beðnir um að fylla út matskvarða til að hægt sé að átta sig á hegðun þeirra þegar þeir voru börn. Maki eða góður vinur getur einnig veitt mikilvægar upplýsingar. Mestu skiptir samt hvernig viðkomandi upplifir erfiðleikana sjálfur.

Fylgja önnur vandamál ofvirkni?

Eitt af vandamálunum við að greina barn með AMO er að mjög oft á barnið við einhver önnur geðræn vandamál að stríða. Það er í raun og veru undantekning ef barn greinist með AMO án þess að greinast jafnframt með einhverja aðra röskun. Til dæmis þjást mörg börn með AMO einnig af sértækum námsörðugleikum. Þau eiga í vandræðum með að ná tökum á hæfni í tilteknum námsgreinum, oftast lestri eða stærðfræði. AMO fellur ekki undir námsörðugleika, en þar sem vandinn felst oftast í því að börn eiga í vandræðum með að einbeita sér eiga börn með námsörðugleika samhliða AMO mun erfiðara með að tileinka sér námsefnið heldur en þau sem þjást eingöngu af afmörkuðum námsörðugleikum.  Um það bil helmingur allra drengja sem greinast með AMO þjást einnig af röskun sem nefnist mótstöðu-þrjósku röskun (oppositional defiant disorder). Börn sem uppfylla greiningarskilmerki fyrir þessa röskun eru oft mjög þrjósk, fá oft reiðiköst og ganga þvert gegn fyrirmælum foreldra og kennara. Þessi börn eru líklegri en önnur til að lenda í vandræðum í skóla vegna hegðunar sinnar. Einnig er nokkuð algengt að þeir sem greinast með hegðunarröskun (conduct disorder) séu einnig greindir með AMO. Hegðun barna með hegðunarröskun getur oft haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, börnin leiðast jafnvel út í þjófnað, íkveikjur og eignarskemmdir. Það er mjög mikilvægt að þessi börn fái aðstoð eins fljótt og auðið er til að afstýra megi svo alvarlegum vandamálum.  Um það bil einn af hverjum fjórum drengjum með AMO finnur einnig fyrir kvíða. Þunglyndi meðal barna með AMO er einnig mjög algengt. Þegar barn kemur til greiningar er afar mikilvægt að sérfræðingur leggi einnig mat á þessa þætti svo hægt sé að veita viðhlítandi meðferð.

Er hægt að lækna ofvirkni?

Lyfjameðferð  Til fjölda ára hafa lyf verið notuð til að meðhöndla einkenni AMO. Örvandi lyf virðast skila bestum árangri, bæði hjá börnum og fullorðnum. Það lyf sem sýnt hefur bestan árangur og er mest rannsakað er Rítalín. Hjá um það bil tveimur af hverjum þremur barna með AMO dregur Rítalín verulega úr ofvirkni og eykur athygli. Á Íslandi hefur einnig mikið verið notast við svokölluð þríhringlaga geðdeyfðarlyf (t.d. Amilin, Noritren og Klomipramin), til að meðhöndla AMO. Þessi gerð lyfja hefur ekki fengið jafnmikla athygli vísindamanna eins og örvandi lyf. Gagnsemi og langtímaafleiðingar af notkun þessara lyfja við AMO hjá börnum hafa ekki verið jafnmikið rannsökuð eins og áhrif Rítalíns. 

Árangur lyfjanna er oft sýnilegur strax frá upphafi lyfjameðferðar. Því miður heldur fólk því oft að rétt lyfjameðferð sé allt sem þarf. Þessi lyf lækna ekki AMO, með þeim er hægt að halda einkennum röskunarinnar niðri tímabundið. Þó svo að lyfin hjálpi fólki að einbeita sér og þar með ljúka við verkefni sín, þá auka þau ekki á þekkingu eða bæta námsstöðu barnanna. Lyfin ein og sér hjálpa fólki ekki að takast á við vandamálin sem fylgja röskuninni. Þess vegna er nauðsynlegt að huga einnig að annars konar meðferð og stuðningi. 

Notkun örvandi lyfja Margir foreldrar eru mjög uggandi yfir því að barnið þeirra sé sett á örvandi lyf. Þó svo að slík lyf séu oft misnotuð af fullorðnum eru þau ekki skaðleg eða vanabindandi ef þau eru notuð samkvæmt læknisráði. Skammtarninr sem notast er við eru svo smáir að þeir valda ekki vímu, þess í stað hjálpa lyfin börnum og fullorðnum að hafa hemil á ofvirkninni og bæta athyglina. 

Þó oft megi ná góðum árangri með örvandi lyfjum eru slík lyf ekki alltaf án aukaverkana, frekar en önnur lyf. Meðal algengustu aukaverkana slíkra lyfja eru svefntruflanir og minnkuð matarlyst. Sjaldgæfari aukaverkanir eru aukinn hjartsláttur, magaverkur, höfuðverkur, pirringur, kækir og leiði. Oft má draga verulega úr aukaverkum lyfjanna með því að minnka lyfjaskammtinn. 

Margir læknar mæla með því að börn, sem fá örvandi lyf vegna AMO, séu tekin af lyfjunum öðru hvoru, t.d. um helgar eða á sumrin. Þetta er meðal annars gert vegna þess að rannsóknir þóttu benda til að við langvarandi samfellda notkun gæti dregið úr vexti. Ef hlé væri gert á lyfjagjöfinni mætti vinna upp þennan vöxt. Nýjustu rannsóknir á þessu sviði benda þó til að örvandi lyf dragi ekki úr vexti barna. Það ber þó að hafa í huga að hlé á lyfjagjöf getur samt verið nauðsynlegt til þess að athuga hvort barnið þurfi enn á þeim að halda. 

Ef AMO er meðhöndlað með örvandi lyfjum er nauðsynlegt að farið sé reglulega með barnið til læknis og staðan metin. Það getur verið erfitt að finna út hvaða skammtar henta hverju barni og þess vegna þarf oft að prófa margar mismunandi skammtastærðir. Læknirinn fylgist einnig með þyngd og hæð barnsins og aukaverkunum sem kunna að koma upp. 

Möguleg vandamál vegna notkun örvandi lyfja Ef barn með AMO fær örvandi lyf og gengur betur í skóla og á auðveldara með að eiga samskipti við félagana er ekki hægt að segja annað en meðferðin hafi skilað góðum árangri. Það er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðstandendur hrósi barninu sjálfu fyrir árangurinn en leggi ekki of mikla áherslu á lyfið. Þær breytingar sem verða á hegðun barnsins byggjast að sjálfsögðu á þeirra eigin styrkleikum og hæfni. Ef lyfinu er eignaður allur árangurinn af bættri hegðun barnsins fær það á tilfinninguna að það sé í raun og veru óhæft og án lyfsins væri það lítils virði. Það er því afar mikilvægt að hrósa barninu en ekki lyfinu. 

Þá er einnig mikilvægt að börnin séu sátt við lyfjatökuna. Það kann að vera að barnið skammist sín fyrir að þurfa að taka lyfið og að því finnist það vera öðruvísi en allir hinir í bekknum. Leiðandi samtök fólks með AMO í Bandaríkjunum (Children and Adults with ADHD) benda á nokkrar aðferðir sem foreldrar og kennarar geta beitt til að barnið sé sátt við lyfjatökuna. 

·         Berið töflurnar saman við gleraugu, spangir og ofnæmistöflur sem önnur börn í bekknum þurfa að nota. Útskýrið að lyfið sé bara ákveðið „tæki“ sem hjálpar barninu að einbeita sér og fylgjast betur með. 

·         Bendið barninu á að það sé í raun og veru lán að hægt sé að hjálpa því. Hvetjið barnið til að koma auga á hvernig lyfið getur hjálpað þeim að líða betur í skólanum og að eignast vini. 

Um hvað áttu að spyrja ef læknir telur að barnið þitt þurfi á lyfjameðerð að halda? Ef læknir sem þú ferð til mælir með því að barnið þitt fái lyf við AMO, skaltu að minnsta kosti spyrja eftirfarandi spurninga. 

1. Hvaða áhrif mun lyfið hafa og hverjar eru skammtíma og langtíma aukaverkanir þess? 2. Hvaða skammtastærðir verða notaðar og hversu oft þarf að gefa barninu lyfið? 3. Hversu oft þarf barnið að koma í skoðun til að meta stöðuna? 4. Hvenær á að gera hlé á lyfjatökunni til þess að kanna hvort það þurfi enn á lyfinu að halda? 5. Eru einhverjir tilteknir drykkir eða matur sem barnið má ekki borða á meðan það er á lyfinu? 6. Hefur þú samband við skólann til að kanna áhrif lyfjanna á hegðun barnsins í skólanum eða þarf ég að gera það? 7. Ef svo óheppilega vill til að barnið fær of stóran skammt af lyfinu hvað á ég að gera? 8. Getur þú látið mig hafa blað eða bækling með upplýsingum um lyfið? 

Ýmsar rangfærslur/goðsagnir um örvandi lyf

·         Goðsögn: Notkun örvandi lyfja við AMO leiðir til vímuefnavandamála seinna á lífsleiðinni. Staðreynd: Örvandi lyf geta hjálpað börnum að einbeita sér og þar með ganga betur í skólanum og í félagslífinu. Það að koma í veg fyrir að barninu líði illa í skóla og eignist góða vini getur í raun og veru komið í veg fyrir frekari geðræn vandamál og vímuefnaneyslu. 

·         Goðsögn: Ef góður árangur næst með örvandi lyfjum sannar það að barnið er með AMO. Staðreynd: Örvandi lyf gera nánast öllu fólki kleift að einbeita sér betur og fylgjast betur með, hvort sem það er með AMO eða ekki. Það ber meira á þessum mun hjá þeim sem hafa AMO í samanburði við aðra. 

·         Goðsögn: Lyfjagjöf á skilyrðislaust að hætta þegar barnið nær unglingsaldri. Staðreynd: Ekki rétt! Um það bil 80% þeirra sem þurfa á lyfjagjöf að halda sem börn þurfa einnig á henni að halda á unglingsárunum. Um það bil 50% geta einnig þurft á meðferð að halda á fullorðinsárum. 

Önnur meðferðarform Eins og áður segir auka lyf ekki við þekkingu barnanna eða kenna þeim áhrifaríkar aðferðir til að eignast vini og kunningja. Líf barna með AMO getur oft verið mjög erfitt. Þau lenda oft í vandræðum í skóla og missa tengsl við félagana Athyglisskorturinn gerir það stundum að verkum að þau þurfa að glíma við tiltekin heimaverkefni mun lengur en aðrir, síðan er allt eins víst að þau gleymi verkefninu heima og fái skammir fyrir að ljúka ekki við það! 

Það er erfitt að takast á við þessi vandamál og í raun eðlilegt að börnin verði stundum pirruð. Eðlilega verða foreldrar þessara barna einnig oft þreyttir á því að barnið á erfitt með að fylgja fyrirmælum, týnir nýju skólatöskunni eða „missir stjórn á skapi sínu“ útaf einhverjum smámunum. Foreldrum finnst þeir oft standa ráðþrota gagnvart barninu. Venjulegar uppeldisaðferðir eins og að ræða málin eða að útskýra hlutina duga oft skammt. Oft skapast eins konar vítahringur í samskiptum barnsins við foreldrana. Foreldrar grípa stundum til örþrifa ráða til að hafa hemil á barninu. Barnið á erfitt með að skilja af hverju pabbi eða mamma eru allt í einu öskureið vegna þess að hann/hún gleymdi einhverju eða gleymdi að hann/hún mátti ekki gera eitthvað. Pabbi og mamma eiga líka oft erfitt með að skilja hvers vegna barnið „hlustar aldrei á þau“ eða „gerir allt þveröfugt við það sem því er sagt“. 

Lyfjameðferð læknar ekki þessi vandamál. Lyfin draga úr einkennum AMO en samskipti barnsins við foreldra og vini eru oft kominn í farveg sem erfitt er að breyta. Það er þess vegna nauðsynlegt -ef langvarandi árangur á að nást- að gripið sé til aðgerða samhliða lyfjameðferðinni. 

Atferlismeðferð Rannsóknir benda til þess að ef lyfjameðferð er beitt samhliða atferlismeðferð megi oft ná mjög góðum árangri. Atferlismeðferð beinist þá sérstaklega að því að bæta hæfni barnsins á tilteknum sviðum í daglega lífinu eða í skólanum. Þá er notast við kerfi sem gengur út á verðlaun og sektir. Í samvinnu við barnið tilgreina foreldrar eða kennarar hvaða hegðun er æskilegt að það sýni í tilteknum aðstæðum. Ef barnið hagar sér í samræmi við það sem til var ætlast fær það verðlaun fyrir, ef ekki er hægt að sekta það. Markmiðið með þessu er að hjálpa barninu að hafa stjórn á eigin hegðun og sýna því fram á að æskilega hegðunin er í raun áhrifaríkari heldur en óæskilega heðgunin sem það sýndi áður. Það er t.d. æskilegra að spyrja fallega hvort barnið megi leika sér með leikfang sem félagi þess er með í stað þess að rífa leikfangið af honum/henni. Þessi tækni virkar mjög vel á öll börn, þegar börn með AMO eru annars vegar þarf að huga sérstaklega vel að því að verðlauna þeim oft og ríkulega. 

Atferlismeðferð má einnig beita þó svo að barnið sé ekki í lyfjameðferð. Atferlismeðferð ein og sér hefur margsannað gildi sitt sem áhrifarík meðferð við hegðunarvandkvæðum, en þess ber að geta að ef hún að gagnast krefst það mikillar vinnu og staðfestu af hendi foreldra. Foreldrar ættu því að leita sér ráðgjafar frá fagaðila áður en farið er af stað með slíka meðferð. Margir sálfræðingar búa yfir mikilli þekkingu á atferlismeðferð, einnig eru starfandi hér á landi nokkrir atferlisfræðingar.

Þjálfunarnámskeið fyrir foreldra Á grundvelli atferlismeðferðar hafa margir sérfræðingar þróað þjálfunarnámskeið fyrir foreldra sem eiga börn með AMO. Á þessum námskeiðum er foreldrum kennd ýmis hagnýt ráð sem miða að því að auk jákvæð samskipti barna og foreldra. Á slíkum námskeiðum er foreldrum meðal annars kennt hvernig þeir geta hjálpað barninu að hafa hemil á hegðun sinni án þess að beita ströngum refsingum eða skömmum. Oft er foreldrum einnig kennt hvernig best er að setja upp verðlaunakerfi til að hafa áhrif á hegðun barnanna. Hér á landi eru a.m.k. þrjú svona námskeið í boði. Barna-og unglingageðdeild Landspítalans stendur reglulega fyrir námskeiði sem ætlað er foreldrum barna með AMO. Einnig stendur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir námskeiðinu S.O.S. – hjálp fyir foreldra. Þetta námskeið er opið öllum sem vilja kynna sér áhrifaríkar uppeldisaðferðir. Þá stendur Eirð fyrir tvenns konar námskeiðum um AMO, annars vegar fræðslunámskeiði um AMO sem haldið er í samvinnu við foreldrafélag misþroska barna og hins vegar þjálfunarnámskeiði sem ætlað er foreldrum barna með AMO eða önnur hegðunarvandkvæði. 

Ráðgjöf Foreldrar barna með AMO geta einnig leitað eftir sérstakri ráðgjöf hjá sálfræðingum, geðlæknum, atferlisfræðingum eða félagsráðgjöfum – allt eftir því hver vandinn er. 

Umdeild meðferðarform Skiljanlega eru foreldrar tilbúnir til að gera nánast hvað sem er til að hjálpa barninu sínu við að takast á við AMO. Fjölmörg meðferðarform virka mjög sannfærandi, en ganga í raun bara út á að féfletta fólk. Það er þess vegna afar mikilvægt að fólk staldri við áður en það trúir og treystir því að um góða og gilda meðferð sé að ræða. 

Hér að neðan eru nokkur meðferðarform sem ekki hefur tekist að sýna fram á með vísindalegum aðferðum að virki hjá meirihluta fólks með AMO.

·         Líftemprun (biofeedback). 

·         Sérstakir matarkúrar. 

·         Ofnæmismeðferð.

·         Lyf til að laga vandamál í innra eyra. 

·         Vítamínkúrar. 

·         Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun (Cranio-Saccral Therapy). 

·         Meðferð við gersýkingu. 

·         Augnþjálfun. 

·         Lituð gleraugu. 

Ein og ein saga um stórfenglegan árangur ofantalinna meðferðarforma kemur ekki í staðinn fyrir staðfestingu úr vísindalegum rannsóknum. Þar til slíkar rannsóknir sýna að umrædd meðferð beri árangur ætti fólk ekki að eyða tíma, fjármunum og væntingum í tískubólur og fölsk loforð um undraverðan árangur.

Hvert á að leita aðstoðar og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert á að leita eftir aðstoð? Ef foreldrar telja ástæðu til að athuga hvort barn þeirra sé með AMO er algengast að leitað sé fyrst til heimilislæknis. Einnig er mjög algengt að leitað sé til sálfræðiþjónustu viðkomandi skóla eða leikskóla. Þá er einnig hægt að fara með barnið beint til sálfræðings eða barnageðlæknis á stofu. Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vinnur þverfaglegt teymi að greiningu og meðferð AMO. Ekki er hægt að leita þangað beint, einungis er tekið á móti börnum ef þeim er vísað þangað af fagaðilum í heilsugæslu eða skólakerfinu.  Hvernig geta aðstandendur veit aðstoð? Það mæðir mjög mikið á aðstandendum barna með AMO. Það er í raun og veru mjög lítið hægt að gera til að hjálpa barninu nema með fullum stuðningi foreldra. Foreldrar eru yfirleitt þeir sem þurfa að takast á við hegðun barnanna. Þess vegna er mjög mikilvægt að þeir fái fræðslu um hvernig er best að meðhöndla erfiða hegðun barnsins. Einnig er mikilvægt fyrir þá að hafa samskipti við aðra foreldra sem eiga við svipuð vandamál að stríða. Það má ekki gleymast að foreldrar barna með AMO þurfa oft á mkilum stuðningi að halda. Það krefst mikils úthalds og mikillar orku að ala upp barn með AMO. Foreldrar barnanna mega ekki gleyma að hugsa um sjálfa sig líka, aðstandendur þeirra geta veit ómetanlega aðstoð bara með því að vera til taks ef eitthvað bjátar á.  

Ægir Már Þórisson, BA í sálfræði