persona.is
Ástvinamissir
Sjá nánar » Áföll » Tilfinningar

Sorg og sorgarferli

Við syrgjum eftir nánast hvers kyns missi, mest eftir dauða þess sem við unnum. Sorg er ekki ein tilfinning heldur tilfinningaferli sem tekur tíma að vinna sig í gegnum og ekki er hægt að hraða því ferli. Þrátt fyrir að við öll séum einstök, raðast tilfinningar í sorgarferlinu ótrúlega líkt hjá okkur öllum. Fyrstu tímana eða dagana eftir andlát náins ættingja eða vinar eru flestir höggdofa, eins og þeir trúi því ekki hvað hafi í raun gerst, líka þótt dauðans hafi löngu verið vænst. Þessi tilfinningadoði getur hjálpað fólki að komast í gegnum undirbúning þess sem framundan er, eins og að tilkynna öðrum ættingjum um látið og skipuleggja jarðarförina. Engu að síður verður þessi óraunveruleikatilfinning að vandamáli dragist hún á langinn. Að sjá líkið gæti reynst nauðsynlegt sumum til að yfirvinna hana. Á sama hátt byrjar raunveruleikinn að segja til sín hjá mörgum þegar komið er að jarðaförinni eða minningarathöfninni. Vera má að það sé sársaukafullt að sjá líkið eða sækja jarðaförina en þetta er sá háttur sem hafður er á þegar við kveðjum ástvini. Mörgum finnst eins og þetta sé of sársaukafullt og láta hjá líða að kveðja á þennan hátt. Hins vegar veldur það oft djúpri eftirsjá með árunum. Brátt hverfur þessi tilfinningadoði og í stað hans kemur hræðilegt tilfinningalegt uppnám og ógurleg þrá eða löngun eftir hinum látna. Hið eina sem kemst að er að hitta hann, þrátt fyrir augljóslegan annmarka. Þessi líðan gerir afslöppun og einbeitingu nánast ómögulega og svefnleysi getur orðið að vandamáli. Draumar vekja oft óhugnað. Sumum finnst sem þeir sjái hinn látna hvarvetna, úti á götu, í garðinum, í húsinu eða hvar sem þeir hafa eytt tíma sínum saman. Fólk verður mjög oft reitt á þessu stigi, reitt við lækna og hjúkrunarfólk sem gat ekki komið í veg fyrir dauðann, við vini og ættingja sem ekki gerðu nóg, og líka við hinn látna fyrir að yfirgefa sig. Önnur algeng tilfinning er sektarkennd. Fólk veltir fyrir sér fram og til baka öllu því sem það hefði átt að segja eða gera. Það veltir jafnvel fyrir sér hvernig það hefði getað komið í veg fyrir dauðann. Dauðann er venjulega ekki hægt að hafa áhrif á og sá sem syrgir þyrfti jafnvel að vera minntur á þau sannindi. Sektarkennd getur líka brotist fram hafi sá sem eftir lifir fundið fyrir létti að kveðja ástvin eftir sársaukafullan og langvarandi sjúkdóm. Þessi léttir er eðlilegur, fullkomlega skiljanlegur og mjög algengur. Þetta skeið geðshræringar er í hápunkti u.þ.b. tveimur vikum eftir andlátið, en í kjölfarið kemur svo tímabil sorgar og þunglyndis, fólk dregur sig til hlés. Þessar skyndilegu breytingar á líðan geta verið ruglandi fyrir vini og kunningja en eru í hæsta máta eðlilegur þáttur í sorgarferlinu. Þótt geðhræringin réni, verða tímabil þunglyndis mun algengari og ná hámarki u.þ.b. fjórum til sex vikum síðar. Sorgarköst hellast yfir minni eitthvað syrgjandann á hinn látna. Öðrum gæti fundist erfitt að skilja það ef syrgjandinn brysti skyndilega í grát, að því er virðist að ástæðulausu. Á þessu stigi gæti komið löngun til að halda sig frá fólki sem ekki virðist skilja sorgina eða deila henni fyllilega með syrgjandanum. Hvað sem því líður, þá er ekki gott að forðast annað fólk, það gæti dregið dilk á eftir sér. Best er að reyna að byrja að taka þátt í eðlilegu hversdagslífi eftir u.þ.b. tvær vikur. Í þessar vikur gæti utanaðkomandi virst sem svo að syrgjandinn eyddi miklum tíma í að sitja og gera ekki neitt. Í raun er hann að hugsa um þær stundira sem hann fékk með hinum látna, bæði góðar og slæmar. Þetta er þögull en nauðsynlegur tími þess að sætta sig við missinn. Með tímanum minnkar hinn ógurlegi sársauki sorgarinnar. Þunglyndinu léttir og það reynist aftur kleift að fara að hugsa um annað, hlakka jafnvel til framtíðarinnar. Hins vegar hverfur tilfinningin um að maður hafi tapað hluta af sjálfum sér aldrei fyllilega. Sá sem eftir lifir af pari, er stöðugt minntur á að nú er hann einn með því að sjá elskendur saman og endalausar hamingjusamar fjölskyldur í fjölmiðlum. Að nokkrum tíma liðnum reynist mögulegt að verða heill á ný, þó svo að „hluta af manni vanti“. Þó er hægt að standa sjálfan sig að því að tala eins og hann eða hún væru hérna ennþá. Þessi mismunandi sorgarstig geta verið samofin og komið fram í ólíkum myndum hjá ólíku fólki. Flestir jafna sig á miklum missi innan tveggja ára. Síðasta stigið er að sleppa takinu af hinum látna og hefja einhvers konar nýtt líf. Þunglyndið hverfur, svefn lagast og orka verður hin sama og fyrr. Kynlöngun, sem gæti hafa horfið, kemur aftur. Þetta er fullkomlega eðlilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. Að þessu öllu sögðu, þá er enginn ein leið til að syrgja. Við erum öll einstaklingar og syrgjum öll á okkar einstaka hátt. Þar að auki fer eftir siðmenningu hvernig kljást er við sorgina. Í gegnum aldirnar hefur fólk í ólíkum heimshlutum fundið sínar eigin leiðir til að fást við dauðann. Fyrir suma er dauðinn aðeins eitt skrefið í hringrás, fremur en endastöð. Hjá sumum eru sorgarviðbrögð opinber og sýnileg eða þá að þau eru eingöngu í einkalífi fólks. Sums staðar er sorgartímabilið fastákveðið, annars staðar ekki. Sorgartilfinningarnar geta verið líkar milli samfélaga, en leiðir til að tjá þær og fást við þær ærið ólíkar.

Hvernig bregðast börn og unglingar við?

Börn skilja ekki dauðann fyrr en þau ná þriggja eða fjögurra ára aldri. Engu að síður bregðast þau við missi ástvinar á mjög svipaðan hátt og fullorðnir. Það er vitað að jafnvel frá ungbarnaskeiði syrgja börn. Hins vegar er tímaskyn þeirra frábrugðið fullorðnum og sorgerferlið getur tekið styttri tíma. Börnum getur fundist eins og þau beri ábyrgð á dauða ástvinar og þau þarfnast stöðugrar hughreystingar við. Ungt fólk vill jafnvel ekki tala um sorg sína af ótta við að verða byrði á fullorðna fólkinu sem er í kringum það eða taka tíma frá því. Þörf barna og unglinga til að syrgja ætti ekki að vera hunsuð þegar fjölskyldumeðlimur deyr. Þau ætti að hafa með í ráðum í sambandi við jarðaförina.

Hvað geta aðstandendur gert?

Vinir og fjölskylda hjálpa heilmikið með því að gefa sér tíma með syrgjanda. Huggunarorð eru kannski ekki endilega það sem þarf, heldur umhyggja sem kemur fram í því í því að vera ætíð tilbúinn til að dvelja hjá syrgjandanum á erfiðum stundum. Samúðarfullt faðmlag sýnir væntumþykju þegar orða er vant. Syrgjanda er mikilvægt að finna að hægt sé að gráta hjá vini og tala um tilfinningar sínar án þess að verða sagt að taka sig saman í andlitinu. Tíminn deyfir sorgina en þangað til hefur syrgjandinn þörf fyrir að tala og gráta. Sumum kann að finnast skrýtið hvers vegna syrgjandinn þarf að fara yfir sömu hlutina aftur og aftur en þetta er skref til þess að vinna sig út úr sorginni. Ef þú veist ekki hvað þú átt að segja eða veigrar þér jafnvel við að tala um dauðsfall, vertu hreinskilinn og segðu frá því. Þetta mun gefa þeim sem syrgir tækifæri til að segja þér hvað honum finnst. Fólk forðast oft að tala um hinn látna af ótta við að það valdi sársauka. En fyrir þann sem syrgir lítur svo úr sem allir í kringum hann hafi gleymt hinum látna og hættir til að einangra sig sem ekki er á bætandi við sorgina sem fyrir er. Hafa skal í huga að hátíðisdagar, svo sem afmæli, brúðkaupsafmæli og dánardagur, eru sérstaklega erfiðir. Vinir og ættingjar ættu að gera sér far um að deila þessum dögum með þeim sem eftir lifir. Að fá hjálp til að takast á við hversdagslífið, eins og að þrífa, versla og passa börnin, gæti dregið úr vanlíðan syrgjandans. Ef hann er fullorðinn, þyrfti hann kannski á aðstoð að halda við það sem hinn látni sá vanalega um, einsog að borga reikninga, að elda, sinna húsverkum, annast bílaviðgerðir o.s.frv. Það er þýðingarmikið að gefa fólki nægan tíma til að syrgja. Sumir virðast jafna sig fljótt, aðrir þurfa lengri tíma. Ekki búast því við of miklu og of fljótt frá vini eða ættingja sem syrgir. Hver þarf sinn tíma til að syrgja!

Óútkljáð sorg

Svo getur virtst sem svo að sumir syrgi ekki neitt. Þeir gráta ekki við jarðaförina, forðast að tala um missi sinn, og snúa aftur til síns fyrra lífs á mjög skömmum tíma. Þetta er bara þeirra leið til að taka á sorginni og hentar þeim best, á meðan aðrir þjást, jafnvel af líkamlegum kvillum og þunglyndi árum saman eftir lát ástvinar. Sumir fá ef til vill ekki tækifæri til að syrgja til fullnustu. Kröfur fjölskyldunnar eða vinnu leyfa einfaldlega ekki alltaf tíma til að syrgja. Stundum er litið svo á að missirinn hafi ekki verið „alvöru“ eða nógu alvarlegur. Hugsunarháttur sem þessi, studdur af umhverfinu, einkennir stundum þá sem missa fóstur eða fæða andvana barn, eða fara jafnvel í fóstureyðingu. Tíð skeið þunglyndis gætu orðið afleiðingin. Sumir byrja að syrgja en „festast“ einhvers staðar í ferlinu. Upprunalega tilfinning áfalls og vantrúar heldur bara áfram. Árin líða og þeim sem syrgir finnst enn ótrúlegt að sá sem þeir elskuðu sé í rauninni látinn. Aðrir halda áfram, ófærir um að hugsa um nokkuð annað, og búa jafnvel til helgidóm úr herbergi og eigum hins látna.

Hjálp frá fagaðilum

Svefnröskun í kjölfar áfalls eins og ástvinnamissis getur orðið alvarleg, jafnvel svo að læknir skrifar upp á nokkurra daga skammt af svefnlyfjum. Ef þunglyndi versnar og hefur áhrif á matarlyst, orku og svefn er nauðsynlegt að leita sér lækninga. Stundum henta þunglyndislyf, í öðrum tilfellum er hentugara að fara í sálræna meðferð. Geti einhver ekki unnið úr sorg sinni, er hægt að fá hjálp frá lækni, sálfræðingi, presti eða einhverjum úr þeim samtökum sem fást við sorg og sorgarviðbrögð. Fyrir suma er nóg að hitta og tala við fólk sem gengið hefur í gegnum sömu reynslu. Aðrir þurfa á faglegri hjálp að halda. Ástvinamissir er hræðilegasta reynsla sem við verðum fyrir En hvað sem öðru líður er sorgin hluti af lífinu og öll þurfum við, fyrr eða síðar, að kljást við sorgina og komast í gegnum hana.