persona.is
Andlegt heilbrigði og geðvernd
Sjá nánar » Annað » Geðsjúkdómar
Það er alls ekki eins einfalt að skilgreina hugtakið andleg heilbrigði og ætla mætti. Við gefum því ekki gaum hversdagslega hvað í því felst og finnst kannski að slíkt megi sjá í hendi sér. En þegar málið er athugað nánar hefur það á sér fleiri hliðar og vill vefjast fyrir okkur. Við eigum jafnvel auðveldara með að skilgreina hvað er andlegur sjúkdómur heldur en hvað er andleg heilbrigði. En sjúkdóminn hlýtur að verða að skoða í ljósi hins heilbrigða ástands. Læknandi verður að hafa skýra mynd af því hvað heilbrigði er, enda er það takmarkið sem hann ætlar að ná með lækningunni. Ef markmiðið með lækningunni er óljóst er þess ekki að vænta að lækningin verði markviss eða árangursrík. Á sama hátt verður hver einstaklingur sem stundar andlega heilsurækt að gera sér nokkra grein fyrir markmiði sínu. Í hverju er þá andleg heilbrigði fólgin?

Vellíðan

Sumir líta svo á að maður sé andlega heilbrigður, ef honum sjálfum líður vel og hann er hamingjusamur án tillits til þess hversu afbrigðileg hegðun hans er eða úr samræmi við umgengnisvenjur þess þjóðfélags sem hann lifir í. Það er nokkuð augljóst að þessi skoðun fær ekki staðist. Vellíðan eða vanlíðan getur ekki verið mælikvarði á andlega heilbrigði nema að nokkru leyti. Öllum líður einhvern tíma illa, eru kvíðnir, daprir eða óhamingjusamir. Reyndar yrði það að teljast óheilbrigt ef mönnum liði ekki illa undir vissum kringumstæðum, svo sem við meiri háttar áföll, slys eða ástvinamissi. Á hinn bóginn getur mikil vellíðan og kæti stundum verið einkenni á alvarlegum geðsjúkdómi, enda er þá vellíðanin ekki í neinu samræmi við kringumstæður.

Að vera normal

Aðrir halda hinu gagnstæða fram, að maður sé andlega heilbrigður svo fremi hann lagi sig að þjóðfélaginu án tillits til persónulegrar vellíðunar. Hann stundar sína vinnu, sér fyrir sínu heimili, lifir í samræmi við stöðu sína og efnahag og hegðar sér á annan hátt eins og venjulegur maður, eins og þjóðfélagið ætlast til af honum. Þetta segir hins vegar ekkert um hvernig honum líður eða hvort hann sé hamingjusamur.

Þessi mælikvarði á andlega heilbrigði er trúlega mjög almennur og var reyndar lengi sá mælikvarði sem fræðimenn tóku aðallega mið af þegar meta skyldi andlega heilbrigði. Við skulum því líta á þetta svolítið nánar. Þessi mælikvarði er nátengdur því hugtaki, sem oft er notað í sambandi við andlega heilbrigði, þ.e. hvort maður sé normal eða ekki. Við eigum ekkert eitt gott orð yfir þetta hugtak í íslensku. Við notum það bæði um það sem er í meðallagi, eða staðtölulegt norm, og einnig um það sem er eðlilegt eða venjulegt, eða þjóðfélagslegt norm. En oftast felur það í sér að normal maður sé heilbrigður maður. Hið staðtölulega norm eða meðaltal má skýra með mælingum á greind. Flestir eru í meðallagi greindir, en fækkar eftir því sem greindin er lægri eða hærri miðað við meðallag. Aðeins mjög lítill hluti manna er vangefinn og sömuleiðis eru mjög fáir afburðagreindir. Báðir eru afbrigðilegir, hvor á sinn hátt. Við lítum þó aðeins á annan hópinn sem sjúkan, þar eð hann er ekki fyllilega fær um að bjarga sér í þjóðfélaginu. Hinn afburðagreindi er ekki andlega sjúkur, þótt hann sé andlega afbrigðilegur. Það er mikið vafamál hvort sá sem er í meðallagi hvað snertir alla sálræna eiginleika og hæfileika sé endilega andlega heilbrigður. Allir menn hafa sín séreinkenni og víkja í einhverju frá meðallaginu, og líklega væri sá sem er meðalmaður í öllu tilliti svo sjaldgæfur einstaklingur að hann yrði að teljast verulega afbrigðileg persóna. Við höfum reyndar skýr dæmi um það á öðrum sviðum að meðallagið getur ekki talist heilbrigt. Langflestir fá einhvern tíma skemmd í tennur og kvef. Þótt hvorugt sé heilbrigt er hvort tveggja normalt. Þannig er það líka á geðræna sviðinu. Það er ekki normalt að vera við fullkomna andlega heilsu.

Hið þjóðfélagslega norm

Lítum nú á hið þjóðfélagslega norm. Þjóðfélagið væntir þess að einstaklingarnir fari í hegðun sinni eftir þeim reglum og siðum sem hafa skapast eða tíðkast hverju sinni. Ef einhver sker sig úr, bindur bagga sína öðrum hnútum en samferðamenn, vekur hann athygli og menn segja: „Hann er ekki eins og fólk er flest, hann er eitthvað undarlegur“ – og í því felst gjarnan að hann sé ekki fyllilega heill á sönsum.

Fyrir allnokkrum árum skáru þeir menn sig úr á Íslandi sem söfnuðu alskeggi og flokkuðust undir einkennilega menn. Nú telst slíkt venjulegt og þykir fara vel. Enn telst það undarlegt og vekur athygli ef fullorðnir menn í frakka og með hatt fara á reiðhjóli um götur bæjarins. Annars staðar er það sjálfsagður hlutur. Ef maður drepur mann á Íslandi getur hann ekki verið með réttu ráði, en stríðsmaður í útlöndum sem drepur marga menn gerir aðeins skyldu sína. Menn sem bera á borð óvenjulegar og róttækar skoðanir þykja ekki með öllum mjalla. Menn sem fremja óvenjuleg afbrot hljóta að vera veikir. Þau dæmi sem hér hafa verið talin upp eru ólík og litin mismunandi alvarleg? um augum. Menn láta sig ekki ýkja miklu skipta hvort maður klæðist afkáralega eða ferðast um á hjóli, en ef hátterni hans veldur truflun í viðkomandi þjóðfélagskerfi horfir málið svolítið öðruvísi við. Þá er viðbúið að aðlögunarhæfni hans sé talin eitthvað skert og hann geti ekki eða vilji ekki semja sig að sið? unum, með þeim afleiðingum að hann lendir í stöðugum árekstrum við þjóðfélagið.

Aðlögunarhæfni

Lykilorðið í hinum þjóðfélagslega mælikvarða á andlega heilbrigði er einmitt aðlögunarhæfni. Sá sem ekki getur lagað sig eftir aðstæðum er ekki nægilega andlega heilbrigður. En hér skiptir miklu máli hvort viðkomandi getur ekki eða hvort hann vill ekki laga sig að aðstæðunum. Við getum vel hugsað okkur að þjóðfélagið sé sjúkt, en einstaklingurinn heilbrigður og vilji ekki laga sig að eða gera að sínum þau lífsgildi sem þjóðfélagið byggist á, finnist jafnvel að honum beri siðferðileg skylda til að berjast gegn þeim. Við þekkjum sjúk þjóðfélög úr sögunni. Hið forna Rómaveldi leið undir lok vegna þess að óheilbrigð lífsviðhorf voru orðin ríkjandi. Þýskaland Hitlers var einnig sjúkt og við lítum á þá sem heilbrigða og heilsteypta einstaklinga sem vildu ekki semja sig að þeim siðum og börðust gegn þeim. Margir munu þeirrar skoðunar að ýmis þjóðfélög nú á dögum séu meira eða minna sjúk, en þó eru það oft þeir sem ekki vilja semja sig að þeim sem eru úrskurðaðir andlega vanheilir.

Við sjáum því að það er ekki algildur mælikvarði á andlega heilbrigði hvernig menn laga sig að siðum, háttum og lífsskoðunum þjóðfélagsins. Það getur jafnvel verið merki um óvenjulega mikla andlega heilbrigði, ef menn gera það ekki. Það þarf styrk til að synda á móti straumnum og berjast gegn almenningsálitinu, og það eru oft slíkir afbrigðilegir einstaklingar sem opna fjöldanum nýja lífssýn. Hinu megum við ekki gleyma, að afbrigðileg hegðun á oft rætur að rekja til andlegs sjúkleika. Allur fjöldi þeirra, sem ekki uppfyllir þær kröfur sem þjóðfélagið gerir til þeirra, hefur ekki endilega aðrar lífsskoðanir, heldur vantar einfaldlega aðlögunarhæfni, getur ekki lagað sig að öðrum og er því ekki nægi? lega andlega heilbrigður.

Áhrifavaldur á umhverfið

Á síðari árum hafa fræðimenn gert sér ljóst, að hvorki persónuleg vellíðan né þjóðfélagsleg aðlögun eru, saman eða sitt í hvoru lagi, viðhlítandi mælikvarðar á andlega heilbrigði. Ný sjónarmið hafa rutt sér til rúms sem leggja áherslu á að andleg heilbrigði einstaklingsins byggist á því að hann sé sjálfstæður, óháður og skapandi, áhrifavaldur á umhverfi sitt en ekki þræll þess. Góð aðlögun sé í því fólgin að vera virkur þátttakandi. Sálkönnuðurinn Otto Rank benti á þau þverstæðu öfl í sálarlífi mannsins sem annars vegar berðust fyrir sjálfstæði og sjálfskennd, en hins vegar jafnframt fyrir sameiningu við aðra menn. Svipuð skoðun kom síðar fram hjá fræðimönnum eins og Carl Rogers og Abraham Maslow, sem telja að andleg heilbrigði sé fólgin í því að bestu eiginleikar og hæfileikar mannsins fái að koma fram og njóta sín.

Margir hafa orðið til að taka undir þessar hugmyndir, hver á sinn hátt. Sálkönnuðurinn Erich Fromm talar um að framfylgja mannlegu eðli. Maðurinn hafi vissar grundvallarþarfir, svo sem þörfina fyrir mannleg tengsl, þörfina fyrir rótfestu, þörfina fyrir sköpun og þörfina fyrir sjálfstæði, og andleg heilbrigði byggist á því að hann uppfylli þessar þarfir sínar í sem bestu samræmi við mannlegt eðli. Ýmsir hafa sett fram mælikvarða á andlega heilbrigði í samræmi við þessi viðhorf og verða hér taldir upp nokkrir þeir helstu. Sjálfsmyndin Ríkur þáttur í andlegri heilbrigði er tilfinningin fyrir sjálfum sér, hversu örugg, sterk og skýr hún er. Sjálfsmynd einstaklingsins er það hvernig hann skilgreinir sjálfan sig sem persónu, hver hann er, hvað hann er og hvernig hann greinir sig frá öðrum. Sjálfsmyndin er í stöðugri mótun alla ævi og byggist á þeim tengslum sem við myndum við annað fólk. Maðurinn þarf að hafa innsæi í eigið sálarlíf og hlutlægt mat á kostum sínum og göllum. Hann má hvorki ofmeta sig né vanmeta. Ef óskir manns og draumar fá að lita sjálfsmyndina leiðir það til ofmats. Ef ótti við eigin tilfinningar og getu nær yfirhöndinni leiðir það til vanmats. Andlega heilbrigður maður þekkir og viðurkennir tilfinningar sínar, en afneitar þeim ekki, þótt þær brjóti í bága við siðferðismat samfélagsins. Hann upplifir sig sem sjálfstæðan einstakling með örugga sjálfskennd sem greinir hann frá öðrum. Hann skynjar hlutverk sitt og stöðu í umhverfinu. Hann hefur sjálfstætt siðferðismat og hæfilega sjálfsvirðingu. Raunveruleikaskyn Andlega heilbrigður maður hefur rétt raunveruleikaskyn. Það er ekki óhæfilega litað af innri þörfum hans og óskum. Hann getur skoðað heiminn hlutlægt og gert greinarmun á innri hugarheimi og ytri raunveruleika. Hann er jafnframt næmur fyrir öðru fólki, skynjar tilfinningar þess og þarfir og getur sett sig í spor þeirra, án þess að hans eigin tilfinningar rugli réttan skilning. Sköpunarþörf Maðurinn hefur ríka sköpunarþörf, þörf fyrir að fullnægja hæfileikum sínum og getu, láta eitthvað af sér leiða eða eftir sig liggja. Sköpunarþörfin þarf að fá útrás hjá öllum. Andleg heilbrigði byggist m.a. á því að hún fái útrás á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Heft sköpunarþörf brýst engu að síður út, en á neikvæðan hátt með því að eyðileggja eða tortíma. Sköpunin eflir manninum sálarþroska og gerir hann meiri mann. Heilsteyptur persónuleiki Persónuleiki mannsins þarf að vera heilsteyptur til þess að hann geti talist fyllilega andlega heilbrigður. Þá er átt við að samræmi sé á milli hinna einstöku persónuleikaþátta, jafnvægi á milli hinna sálrænu afla og atferlis hans. Persónuleikinn þarf að vera sveigjanlegur, geta tekið andlegum áföllum án þess að þau raski undirstöðum hans. Heilbrigð samskipti við umhverfið Maðurinn þarf að eiga heilbrigð samskipti við umhverfi sitt. Hann þarf að hafa hæfileika til að elska, geta notið fullnægju í ást, starfi og leik. Hann þarf að finna til öryggis í samskiptum við aðra og finna að hann tilheyri hópnum. Hann þarf að geta lagað sig að aðstæðum og lært af reynslunni. Hann þarf bæði að geta hagrætt umhverfi sínu eftir sjálfum sér og sjálfum sér eftir umhverfi sínu. Hann þarf að hafa hæfileika til að takast á við hagnýt vandamál, skynja þau, finna réttu leiðina og framkvæma. Hann þarf að hafa ábyrgðarvitund, sýna öðrum tillitssemi og geta haldið aftur af eigin hvötum og löngunum, þegar þær brjóta í bága við óskir hópsins sem hann vill tilheyra. Tilfinningar hans og geðbrigði þurfa að vera í réttu hlutfalli við aðstæður. Hann þarf að geta haft hæfilega stjórn á tilfinningum sínum án þess að bæla þær eða meina þeim útrás. Að vera sjálfum sér nógur Til þess að mega njóta einveru þarf maðurinn að fá fullnægt þörf sinni fyrir mannleg samskipti og þar með hafa náð að þroska tilfinningalíf sitt svo að hann sé sjálfum sér nógur. Barnið, sem veit af móður sinni hjá sér eða finnur öryggi og ást hjá foreldrum sínum, getur dundað sér eitt. En hitt, sem fær ekki fullnægt þörfum sínum fyrir náin tilfinningaleg tengsl, er órótt, öryggislaust og ónógt sjálfu sér. Það þolir ekki einveruna og er stöðugt leitandi að einhverju sem það veit ekki hvað er. Til að geta lifað einn þarf maðurinn fyrst að hafa lært að lifa með öðrum og tileinkað sér þá samfélagskennd innra með sér sem gerir hann sjálfstæðan og heilsteyptan. Það er hluti lífshamingjunnar að geta notið einveru, og svo misskipt er gæðum lífsins að þeir hinir sömu sem kunna best að vera einir með sjálfum sér fá einnig best notið samfélags við aðra. Hinir sem fara á mis við tilfinningatengsl og mannleg samskipti þjást einnig af einmanaleika í einveru sinni. Margt mætti enn telja sem verið gæti mælikvarði á andlega heilbrigði einstaklingsins. Allt snýst þetta þó um nokkur meginatriði, sem sé að einstaklingurinn sé sjálfstæður, virkur og skapandi þátttakandi í mannlegu samfélagi, fullnægi eiginleikum sínum í sem bestu samræmi við sitt mannlega eðli og uppfylli þar með bæði sínar eigin grunnþarfir og þarfir hópsins eða samfélagsins. Fáir menn uppfylla öll þessi atriði nema að takmörkuðu leyti, en teljast þó andlega heilbrigðir, enda hlýtur stigsmunur að vera á andlegri heilbrigði og erfitt að ákvarða nákvæmlega hvar skilja ber á milli þess sem telst innan marka heilbrigðs ástands og hins sem telst óheilbrigt. Framantaldir mælikvarðar á andlega heilbrigði verða því að teljast markmið sem æskilegt sé að stefna að til þess að hver einstaklingur fái notið sín sem best. Þetta eru markmið geðverndar í víðasta skilningi.

Geðvernd

Skipta má geðverndarstarfi í þrjú stig: 1) aðgerðir til að fyrirbyggja geðsjúkdóma og skapa skilyrði fyrir heill og hamingju einstaklingsins, 2) lækningar á geðsjúkum, 3) endurhæfing geðsjúkra. Heilbrigðisþjónustan sinnir tveimur seinni stigunum og er fjallað um það annars staðar í þessu riti. Þetta eru þeir þættir geðverndar sem menn hafa einkum beint kröftum sínum að til þessa, bæði hér og erlendis. Lækning og hjúkrun sjúkra krefst venjulega bráðrar úrlausnar og hefur því forgang fram yfir aðrar aðgerðir. Geðlækningar hafa þróast mjög ört á undanförnum áratugum og skilað árangri sem hefur m.a. skapað skilyrði fyrir endurhæfingu sjúklinga, sem áður urðu að vera langdvölum á geðsjúkrahúsum, vistun þeirra á heimilum utan sjúkrahúsa og þjálfun til starfa og sjálfshjálpar.

Nú hefur áhugi fyrir fyrsta stigs heilsuvernd, eiginlegum forvörnum, farið mjög vaxandi og verulegur árangur hefur náðst, t.d. á sviði hjartasjúkdóma, með öflugu fræðslu? og áróðursstarfi um mataræði og reykingar. Flestir eru sammála um að fyrirbyggjandi aðgerðir verði æ ríkari þáttur í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á næstu árum og áratugum, enda séu það bæði áhrifaríkustu og ódýrustu aðgerðirnar þegar til lengri tíma er litið. Í framtíðinni eru bundnar mestar vonir við auknar forvarnir til að koma í veg fyrir að geðsjúkdómar nái að búa um sig. Forvarnir á sviði geðverndar hvíla e.t.v. ekki á jafntraustum þekkingargrunni og aðgerðir á sumum öðrum heilbrigðissviðum, en þó hafa rannsóknir í sálfræði, félagsfræði og læknisfræði sýnt fram á tengsl fjölmargra þátta í bernsku og uppvexti fólks við geðræn vandamál síðar á ævinni. Skipta má forvörnum á sviði geðverndar í nokkra samverkandi þætti, eftir því á hvaða vettvangi er unnið: 1) rannsóknir, 2) foreldrauppeldi, 3) skólinn, 4) starfið, 5) almenningsfræðsla og 6) persónuleg heilsurækt. Margar grunnrannsóknir í sálfræði og uppeldisfræði hafa leitt í ljós áhættuþætti í bernsku og á unglingsárum sem gætu verið illur fyrirboði um geðræna og félagslega erfiðleika síðar og brýnt er að ráða bót á áður en þeir leiða til alvarlegra geðrænna veikinda. Dæmi um þetta eru m.a. rannsóknir á tilfinningalífi barna og hvaða umhverfisáhrif geta valdið þeim skaða (sjá glugga). Fræðsla eða bein kennsla kemur rannsóknaniðurstöðum til foreldra og annarra uppalenda sem sveigja viðhorf sín og aðferðir að þessum upplýsingum. Grunnurinn að framtíðarheill barnsins er að jafnaði lagður á heimilinu í samskiptum við foreldra og systkini. Þar fær barnið sína fyrstu reynslu af nánum mannlegum samskiptum og þar fær það fyrirmynd að réttri hegðun hjá foreldrum og eldri systkinum, sem verður mótandi fyrir hegðunarmynstur þess allt lífið. Sálfræðin kennir okkur margt um uppeldisaðferðir sem nota má markvisst í foreldrauppeldi. Foreldrar umbuna barninu ef það hegðar sér eða stendur sig vel að þeirra mati og styrkja þar með æskilegt atferli. Á sama hátt refsa þau á einhvern hátt fyrir það sem þau telja óæskilegt. Hins vegar skortir oft á að viðbrögð foreldranna séu markviss að þessu leyti. Þeir eru ekki alltaf sjálfum sér samkvæmir í uppeldinu, enda eru þeir hluti af þeim nánu mannlegu samskiptum sem heimilislífið er og hafa sínar eigin tilfinningar og vandamál sem torvelda þeim stundum að sjá hlutina í réttu ljósi. Í skólanum er að sumu leyti unnið markvissar að því að móta barnið, enda er kennarinn í nokkuð annars konar hlutverki en foreldrarnir. Í skólanum er unnið að verkefnum og þar er að jafnaði nokkur regla og agi. Það er mikilvægt fyrir framtíðaraðlögun barnsins að skólagangan sé farsæl, þroski og víkki samskiptahæfni barnsins og temji því góð vinnubrögð og úthald. Mikilvægt er að barnið haldi út skólagöngu sína, helst til fullra starfsréttinda. Meðal áhættuþátta sem geta skipt sköpum um gang geðsjúkdóms og batahorfur sjúklings er það hvort viðkomandi hafi flosnað upp úr skóla á miðri leið og ekki náð að ljúka námi eða starfsþjálfun, sem gæti veitt honum fagleg réttindi eða möguleika á áhugaverðu starfi. Góð starfsaðlögun einstaklingsins er vafalaust ein mikilvægasta forsenda fyrir andlegri líðan hans og heilbrigði. Snemma fær einstaklingurinn hugmyndir um hvað hann ætlar að verða þegar hann er orðinn stór. Orðalagið eitt – hvað hann ætlar að verða – bendir til þess að í því sé fólgið eitt megininntak tilvistar hans sem sjálfstæðs einstaklings, stærsta hlutverk hans í lífinu, starfið. Þeir sem eru svo heppnir að hafa aflað sér menntunar og komist í starf við hæfi eru mun betur settir þegar geðsjúkdóm ber að höndum og eiga auðveldara með að snúa til baka í fyrra starf og til fyrri heilsu. Starfið stuðlar beinlínis að bata þeirra og gerir þeim kleift að endurheimta sjálfstraust sitt og sjálfstæði. Áhugi á heilbrigðum lífsháttum hefur aukist geysilega hin síðari ár. Segja má að heilsurækt ýmiss konar sé í tísku. Í nútíma upplýsingaþjóðfélagi á fólk kost á fjölbreyttri fræðslu um allt sem getur stuðlað að betri heilsu, fyllra og lengra lífi, og boðið er upp á námskeið og þjálfun af ýmsu tagi. Þetta á ekki hvað síst við um andlega heilsurækt. Slík fræðsla og þjálfun er einkum ætluð venjulegu heilbrigðu fólki sem glímir við sammannleg vandamál eins og kvíða og streitu, en sækist einnig eftir meiri lífsfyllingu og meiri skilningi á sjálfu sér og tilverunni. Eftirspurnin er mikil og samkvæmt eðli markaðslögmálsins sprettur upp mikið og fjölbreytt framboð á móti. Margt af því sem reynt er að selja fólki undir vörumerkinu hugrækt á þó lítið skylt við sálvísindi, telst fremur til dulrænu og trúarbragða, en í versta falli til óprúttinna blekkinga. Margir fá lífsfyllingu við að sökkva sér niður í slík fræði og aðrir nokkra skemmtun, en hætt er við að sumir verði ekki aðeins fyrir vonbrigðum heldur geti jafnvel viðkvæmt jafnvægi í huga þeirra og tilfinningalífi raskast. Úr nógu er þó að velja fyrir þá sem vilja stunda andlega heilsurækt á grundvelli tiltölulega traustrar þekkingar á sálarlífinu. Rannsóknaniðurstöður og aðferðir atferlisfræðinnar hafa einkum verið til þess fallnar að þjálfa fólk til aðlögunarhæfra viðbragða og hugarástands. Námskeið í slökun gegn streitu eða í sjálfsstyrkingu fyrir þá sem vilja efla sig í mannlegum samskiptum eru aðferðir runnar af þessum rótum. Heilbrigð hugrækt, sem byggist á traustri þekkingu, er þegar orðin þáttur í daglegri heilsurækt fólks og á vonandi eftir að koma fram í betra andlegu heilsufari Íslendinga og draga úr geðsjúkdómum í framtíðinni.

Gylfi Ásmundsson, sálfræðingur