persona.is
Almenn Kvíðaröskun
Sjá nánar » Kvíði

Við þekkjum flest það að hafa áhyggjur af hinum ýmsu hlutum, eins og t.d. samskiptum við aðra, verkefnum, börnum okkar og fleiru. Hinsvegar er töluvert af fólki sem virðist svo heltekið af kvíða og áhyggjum að það hamlar lífsgæðum þess.. Þegar svo er flokkast kvíðinn undir það sem nefnist almenn kvíðaröskun (Generalized Anxiety Disorder). Þar er átt við að einstaklingur þjáist af stöðugum kvíða og tengist hann mörgum mismunandi þáttum í lífi einstaklingsins eins og t.d. fjölskyldu, samböndum og vinnu svo eitthvað sé nefnt. Þessi kvíði einkennist af stöðugum og langvarandi áhyggjum, sem eru „óeðlilega“ miklar og yfirleitt mjög óraunhæfar, og geta áhyggjurnar haft mikil neikvæð áhrif á daglegt líf einstaklingsins.

Kvíðinn tengist mjög gjarnan stöðugum áhyggjum um að eitthvað fari úrskeiðis. Það sem greinir þennan vanda frá „eðlilegum“ áhyggjum, sem við flest þekkjum, er að einstaklingur sem þjáist af þessari röskun hefur áhyggjur af nánast öllu. Það getur t.d. snúist um einfaldan hlut eins og að skrifa bréf eða þvo þvott.

Einstaklingurinn hefur stöðugar áhyggjur af því hvernig honum muni takast til. Hann verður þar af leiðandi mjög lengi að gera alla hluti, forðast verkefni og erfið umræðuefni. Einstaklingurinn notfærir sér einnig áhyggjur sínar til að reyna að koma í veg fyrir að kvíðahugsanir hans verði enn verri. Jafnframt telur hann að áhyggjur sínar muni hjálpa honum við að vera viðbúinn ef eitthvað slæmt muni gerast. Það er að segja, ef móðir t.d. hræðist að barnið sitt lendi í slysi, þá telur hún áhyggjurnar gera hana betur undirbúna andlega ef eitthvað í þá átt muni gerast.

Þar af leiðandi verða áhyggjurnar nauðsynlegt tæki fyrir einstaklinginn, þ.e. hann telur sér trú um að áhyggjurnar séu honum nauðsynlegar til að komast af í daglegu lífi. Á sama tíma og áhyggjurnar eru stöðugar trúir einstaklingurinn oftast að hann geti alls ekki stýrt þessum hugsunum eða áhyggjum. Sú trú hans að hann geti ekkert gert við þessum áhyggjum og hafi ekki stjórn á þeim framkallar í mörgum tilfellum lélegt sjálfsmat.

Hér erum við komin með vítahring stöðugra áhyggna og kvíða um eigin getu sem er oft mjög óraunsær því mjög oft er um einstaklinga að ræða sem án kvíða og áhyggna myndu auðveldlega valda verkefnum sínum. Einstaklingurinn með þennan kvíða þróar með sér líka einskonar „radar“ á slæma hluti, tekur eftir fréttum um bílslys,flugslys, árásir ofl. og verður við það oft skelfingu lostin að t.d náin ættingi sem er í bænum eða á ferðalagi hafi lent í þessu eða muni lenda í svipuðu.

Úrlausnir:

Þegar kemur að almennri kvíðaröskun þarf einstaklingurinn næstum undantekningarlaust að leita sér aðstoðar fagaðila, þar sem kvíðin er það mikill að viðkomandi nær ekki að vinna úr því sjálfur.

Hugræn atferlismeðferð

Hugrænni atferlismeðferð hefur verið beitt árangursríkt við almennri kvíðaröskun. Þar lærir einstaklingurinn á kerfisbundinn hátt að þekkja þær aðstæður þar sem kvíðatilfinningin kemur upp, lærir að þekkja ósjálfráðar órökréttar hugsanir sem magna upp kvíðann og bregðast við þessum hugsunum. Einstaklingurinn lærir líka að takast á við kvíðann með atferlistækni, lærir að forðast áráttuhegðun eins og að„tékka“ á sínum nánustu til að „minnka“ kvíða. Slökun er einnig mikilvæg í meðferð við almennri kvíðaröskun.

 

Lyf

Lyf geta í sumum tilfellum verið mjög gagnleg þegar kemur að meðferð við almennri kvíðaröskun. Nokkrar tegundir kvíðastillandi lyfja eru til en markmið lyfjanna er að slá á einkenni kvíða og þar með hjálpa einstaklingnum að slaka á og minnka kvíðahugsanir sínar. Bensódíazepínlyf er ein tegund kvíðastillandi lyfja sem löngum hafa verið notuð til að slá á einkenni kvíða.Kvíðastillandi áhrif bensódíazepenlyfja koma yfirleitt fram innan nokkurra klukkustunda eða skemur, en skammtastærðir eru mismunandi eftir einstaklingum sem og hversu oft á dag lyfið er tekið. Notkun bensódíazepínlyfja fylgir hætta á þolmyndun og er ánetjun og misnotkun lyfjanna þekkt. Lyfin henta því ekki til langtímameðferðar.

Þunglyndislyf hafa verið notuð við almennri kvíðaröskun, sérstaklega ef kvíðanum fylgir þunglyndi. Einn flokkur þunglyndis- eða geðdeyfðarlyfja eru hin svokölluðu SSRI-lyf. Virkni SSRI-lyfjanna er m.a. aukin líkamleg virkni, minni skapsveiflur, og meiri áhugi á daglegu lífi. Lyf úr þessum flokki lyfja hafa verið notuð í meðferð á almennri kvíðaröskun og hafa það fram yfir bensódíazepinlyf að þeim fylgir ekki hætta á þolmyndun og misnotkun.

Önnur lyf:

Eitt af nýlegri lyfjum sem gefið hafa góða raun við almennri kvíðaröskun er pregabalín (Lyrica). Kvíðastillandi áhrif Lyrica sjást yfirleitt eftir um það bil viku meðferð eða minna og hefur lyfið bæði áhrif á andleg og líkamleg einkenni kvíða.

Rannsóknir á almennri kvíðaröskun sýna að langbestur árangur næst með samspili kvíðastillandi lyfja og samtalsmeðferðar og eykur það einnig líkurnar á að einstaklingurinn nái fullum bata og að bati hans hans verði stöðugur eftir að meðferð lýkur.

 

Höfundar eru sálfræðingar

Björn Harðarsson

Eygló Guðmundsdóttir