persona.is
Áfengis- og vímuefnaneysla unglinga
Sjá nánar » Börn/Unglingar » Fíkn
Á unglingurinn í erfiðleikum: Nokkur einkenni sem gætu bent til vímuefnavanda Hvernig gerir vímuefnavandi unglings vart við sig í augum okkar sem fullorðnir erum? Hvernig veit ég að barnið mitt er „komið út í vímuefni“? Hér verða raktar nokkrar vísbendingar sem ættu að gefa okkur tilefni til að ætla að unglingur stríði við áfengis- og vímuefnavanda. Áður en þessi einkennalisti er skoðaður og ályktanir dregnar er rétt að hafa nokkur atriði í huga: Unglingsárin einkennast af breytingum. Þau einkenni sem hér er bent á geta sum verið dæmi um eðlilegar og tímabundnar breytingar sem eru unglingsárunum eðlilegar. Verði breytingar á mörgum sviðum eða róttækar og varanlegar er ástæða til að líta þær mjög alvarlegum augum. Þær breytingar sem hér verða raktar þurfa ekki allar að vera dæmigerðar fyrir ungling í vímuefnavanda. Unglingar sem hafa áfengis- eða vímuefnavanda eru ekki allir eins. Margir þættir hafa áhrif á hvernig vandinn lýsir sér eins og persónueinkenni og ytri aðstæður, aldur unglingsins, gerð vímuefnanna sem neytt er og loks hve lengi unglingurinn hefur neytt áfengis/vímuefna. Einkennalistinn samanstendur af nokkrum breytingum á ýmsum sviðum sem venjulegt fólk á að geta tekið eftir án þess að hafa sérstaka kunnáttu eða þjálfun. Hér er fyrst og fremst um hagnýtar vísbendingar að ræða en ekki greiningartæki. Það er lækna, sálfræðinga og ráðgjafa að greina hvort unglingur stríðir við vímuefnavanda. Sjúkdómsgreining er ekki hlutverk uppalendanna. Þeirra er að taka eftir vísbendingum um vandamál og leita eftir aðstoð. Ástæða er til að brýna fyrir foreldrum og öðrum sem eiga samskipti við unglinginn að forðast fljótræði. Ekki er ráðlegt og því síður sanngjarnt að ákæra unglinginn fyrir drykkjuskap, vímuefnaneyslu og rugl á grundvelli óljósra grunsemda. Grunsemdir gefa okkur tilefni til frekari athugana-að fylgjast skipulega og vel með hegðun og ástandi unglingsins og spyrja hann spurninga. Þannig fáum við beinharðar upplýsingar sem við getum síðan byggt skynsamleg viðbrögð okkar á. Þó oftast sé fótur fyrir grunsemdum foreldra, geta vandamálin stundum verið önnur en vímuefni. Vanhugsaðar fullyrðingar eru óheppilegar við slíkar kringumstæður. Hafi unglingurinn vímuefnavanda í raun og sannleika er mikilvægt að við höfum skýra mynd af staðreyndunum en ekki aðeins óljósa og óttablandna tilfinningu fyrir vandanum. Unglingurinn er í vanda sem hann ræður ekki við og æskilegt er að hann finni að foreldrarnir búi yfir öryggi og dómgreind. Daglegt háttalag Fyrst ber að taka eftir daglegu háttalagi unglingsins. Þó unglingsárin færi með sér fjölþættar breytingar á börnunum eru þau söm við sig. Breytingarnar eru sjaldan svo róttækar að foreldrar og kennarar þekki viðkomandi ekki sem sama barn og flestar breytingarnar eru af því tagi að þær koma okkur yfirleitt ekki á óvart. Þessari tilfinningu okkar fyrir börnunum er okkur óhætt að taka mark á. Við þekkjum vel barn sem við höfum alið upp. Breytingar sem okkur þykja óeðlilegar eða óvæntar ættu að vara okkur við. Dæmi: ·         Fáskiptinn og dvelur mikið einn í herberginu sínu. ·         Tekur lítinn þátt í samskiptum á heimilinu. ·         Óábyrgur og kærulaus um heimilisverk og almennar umgengnisvenjur. ·         Virðist ekki bera neina virðingu fyrir útvistarreglum og tilkynningaskyldu. ·         Getur ekki gefið greinargóð svör við því hvar hann hefur dvalið og skýrt tímasetningar. ·         Hefur tilhneigingu til að vera óheiðarlegur, virðist standa í einhverju leynimakki, fer ítrekað á bak við foreldrana, skrökvar og á erfitt með að standa við loforð. ·         Breyttar svefn- og matarvenjur. Geðslag og lundarfar Þegar unglingur er farin að neyta vímuefna eða drekkur áfengi reglulega og mikið, hefur það áhrif á skapferli hans og tilfinningar. Eiturverkanir efnanna og eftirköst neyslunnar koma fram í miðtaugakerfinu og raska tilfinningalífinu. Einnig megum við ekki gleyma því að unglingar hafa samvisku eins og annað fólk og fá sektarkennd vegna hegðunar sinnar; finnst þeir vera að bregðast foreldrum sínum. Þeir eru einnig að leggja út í óvissuna einir og óstuddir þegar þeir neyta vímuefna og það setur að þeim kvíða. Einkenni: ·         Skyndilegar persónuleikabreytingar sem foreldrar taka eftir. ·         Miklar skapsveiflur; gjarnan bráðlyndi. Dæmi um þetta er að unglingurinn æsir sig óvænt og yfirdrifið þegar rætt er við hann um eitthvað sem varðar hann sjálfan, skyldur hans eða framkomu við aðra. ·         Lundarfarið einkennist yfir lengri tímabil af depurð eða þunglyndi. Breytt og trufluð hugsun Sömu eiturverkanir og valda tilfinningatruflunum hafa áhrif á vitsmunalífið. Einnig verður hugur unglingsins mjög upptekinn af vímuefnum og öllu því sem þeim tilheyrir. Hugsanir hans eru oft uppteknar af því að jafna sig eftir síðasta fyllirí og undirbúa og skipuleggja það næsta með tilheyrandi eftirvæntingu. Eftirfarandi eru dæmi um hugsanatruflanir: ·         Minnisleysi. ·         Einbeitingarskortur. ·         Skilningssljór. ·         Brenglað tímaskyn. ·         Erfiðleikar að halda þræði í samræðum. ·         Glápir stundum út í loftið eða starir og virðist annars hugar og utangátta. ·         Viðbrögð unglingsins við þessum truflunum eru gjarnan áhugaleysi sem hann réttlætir (hann bregst við þverrandi námsgetu með því að bera við áhugaleysi á náminu og réttlæta það). Breytingar í skólanum Vímuefnavandi unglings kemur venjulega fram á námsárangri hans og hegðun í skóla. Samt eru dæmi um undraverða getu unglinga til ná góðum einkunum þrátt fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu og halda sig innan velsæmismarka í hegðun og framkomu. Flestum unglingum tekst þó ekki að dylja vanda sinn fyrir glöggum kennurum sem þekkja þá vel og foreldrar ættu auðveldlega að taka eftir breyttri afstöðu til náms og skóla ef þeir fylgjast vísvitandi með unglingnum um eitthvert skeið. Dæmi: ·         Lækkandi einkunnir í skóla og stigversnandi frammistaða. ·         Kemur oft of seint, hverfur úr skólanum og skrópar. ·         Sýnir neikvætt viðhorf til náms og skóla. ·         Einangrast í bekknum. ·         Dregur sig út úr almennu félagslífi í skólanum. ·         Unglingurinn vinnur ekki heimaverkefnin sín og verður utanveltu í dagskrá skólans (hefur ekki réttu bækurnar meðferðis, vantar ritföng, fylgist illa með stundaskránni). ·         Kemur drukkinn eða vímaður á skólaskemmtanir þar sem þeirri stefnu hefur verið fylgt að skólastjórnendur bregðast jafnan við og hafa samband við foreldra. Félagslegar vísbendingar Töluverðar sviftingar geta orðið í félagslífi unglinga sem telja verður eðlilegar. Snemma á unglingsárunum fær jafningjahópurinn mikla þýðingu og unglingurinn verður mjög háður áliti hans og á erfitt með að skera sig úr. Smám saman verður hann sjálfstæðari gagnvart hópnum um leið og hann tengist og finnur samstöðu með útvöldum vinum. Vísbendingar um að ekki er allt með felldu á þessum ferli gætu verið eftirfarandi: ·         Nýir vinir koma til sem eru mjög ólíkir þeim sem unglingurinn hefur hingað til hallað sér að. ·         Er í félagahópi þar sem áberandi eru krakkar sem almannarómur segir að eigi í vandamálum með áfengi eða vímuefni, gangi illa í skóla og komi frá „vandræðaheimilum“. ·         Félagsskapurinn er breytilegur eða breytingar á kunningsskap virðast tíðar. ·         Eignast „ósýnilega vini“ sem koma aldrei á heimilið, foreldrar hafa aldrei séð og unglingurinn forðast að veita um þá upplýsingar. ·         Hættir að sinna fyrri áhugamálum. ·         Undarleg áhugamál sem koma foreldrum á óvart. Dæmi um þetta er skyndilegur áhugi á myrkri dulspeki (jafnvel Satan-fræðum), grunn og andfélagsleg hugmyndafræði í anarkistaklæðum, Hitlers-aðdáun, alls konar merki og tákn sem bera vott um vímuefnadýrkun, aðdáun og drýkun popphetja sem farist hafa í vímuefnahremmingum. ·         Afskipti lögreglu. Bein ummerki um vímuefnaheiminn Hér eru nokkur ummerki um að unglingurinn neytir vímuefna reglulega og er virkur þátttakandi í samfélagi vímuefnaneytenda, kominn inn í vímuefnaheiminn ef svo má segja: ·         Vímuefni finnast í herbergi, hirslum eða fatnaði unglingsins. ·         Ílát, tæki og tól tengd áfengis- og vímuefnaneyslu finnast í fórum unglingsins. ·         Peningar, tékkhefti, skartgripir, seljanlegar bækur eða önnur verðmæti hverfa af heimilinu. ·         Ýmsir hlutir í umsjá unglingsins án eðlilegra skýringa: Fatnaður, geisladiskar, hljómtæki, farsími og jafnvel hlutir sem hann hefur engin not fyrir (s.s. ljósmyndavélar eða verkfæri). Þetta eru vísbendingar um óeðlileg fjárráð og/eða stolna muni. Líkamlegar vísbendingar Við getum séð ýmis líkamleg einkenni á unglingi í vímuefnavanda ef við veitum honum sérstaka eftirtekt. Þessi einkenni geta farið framhjá foreldrum og þeim sem umgangast unglinginn daglega þó þau séu öðum ef til vill augljós. Oft viljum við ekki trúa því versta og finnum okkur því aðrar skýringar á ástandi unglingsins. Við eigum líka erfitt með að fylgjast með því sem breytist smátt og smátt fyrir framan augu okkar. Hægara er að sjá breytingar hafi einstaklingurinn verið fjarverandi um nokkurt skeið. Af öllum þessum ástæðum kemur fyrir að þjálfaður fagamaður merkir vímuefnaneytanda í einni svipan þegar hann hittir ungling sem hefur sukkað án vitundar foreldranna mánuðum saman. Mæður eru oft næmar fyrir heilsufari barna sinna og skynja stundum betur en þau sjálf þegar það breytist. Slíkri næmni eða tilfinningu eiga foreldrar að taka mark á. Þegar móðir hefur á tilfinningunni að drengurinn hennar sé „eitthvað svo slappur og skrýtinn“ er undantekningalítið fótur fyrir því hvort sem það er vímuefnavandi eða annað. Þjóðráð er að draga unglinginn á heilsugæslustöðina og láta skoða hann. Hver veit nema eitthvað komi í ljós. Eftirfarandi eru vísbendingar sem allir taka eftir ef þeir veita unglingnum sérstaka athygli: ·         Fölt andlit. ·         Rauðeygður og voteygur. ·         Útþandir augasteinar. ·         Þvalur í lófunum. ·         Óskýr í máli. ·         Ýmsar hreyfingar sem virðast ósjálfráðar og benda til spennu. ·         Reikandi gangur. ·         Hirðuleysi um hreinlæti og næringu. ·         Tapar holdum og léttist. ·         Endurteknar og óljósar líkamlegar kvartanir, t.d. um höfuðverki, svefnleysi, slappleika, syfju, kviðarholsverki o.fl. Þróun vímuefnavanda hjá unglingi og viðeigandi viðbrögð á hverju stigi

Nauðsynlegt er að bregðast við allri áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga. Eðli þessara afskipta er þó mismunandi eftir því hvort þau beinast að hópum unglinga eða einstaklingum og hve alvarlegur vandinn er. Af þessum sökum er ekki úr vegi að lýsa þróun vímuefnavanda unglings og benda á þau viðbrögð sem við eiga á hverju stigi.

Unglingar eru ólíkir Erfiðara er að draga upp trúverðuga mynd af þróun vímuefnaneyslu unglinga en fullorðinna. Ein ástæða þess er áhrif hinna hröðu þroskabreytinga sem eiga sér stað á unglingsárunum og ásýnd vandamálanna getur verið breytileg eftir því á hvaða aldri unglingurinn byrjar neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Önnur ástæða er að vandi unglinga getur litið mismunandi út eftir því hvaða vímuefni þeir nota helst. Svo dæmi sé tekið er nokkur munur á einum unglingi sem notar fyrst og fremst áfengi og öðrum sem neytir kannabisefna nær einvörðungu. Þriðja ástæðan er að félagsleg staða unglinga er breytileg og tilfinningalíf þeirra er mismunandi. Margir unglingar eru félagslega vel staddir þar sem fjöldi fólks skiptir sér af þeim á einn eða annan hátt, en aðrir hafa færri til að leita til og eru eftirlitslausari. Vímuefni hafa líka mismunandi tilfinningalega þýðingu fyrir unglinga. Sumir unglingar lifa við tilfinningalega vanlíðan og kynnast vímuefnum og læra að nota þau til að glíma við þessa líðan. Aðrir unglingar upplifa vímuefni ekki sem slíkt tæki heldur sem gleðigjafa og fjörefni. Ljóst er af þessu að þróunarferill unglinga í vímuefnavanda getur haft mjög breytilega ásýnd og full ástæða er til að vara við einhliða mælikvörðum sem margir hverjir spretta af fordómum og fáfræði. Engu að síður er nokkurt vit í því að reyna að draga upp mynd af þróun vímuefnaánauðar unglinga. Tilgangurinn er ekki að draga upp raunsanna mynd af veruleikanum, heldur gera okkur grein fyrir að vandamálin þróast og hvert þróunarstig gerir kröfur til mismunandi aðgerða af hálfu þeirra sem umhugað er um velferð unglingsins. 1. Stig: Tilraunir – Lærir um breytta líðan Fyrsta þróunarstigið felst venjulega í fyrstu kynnum unglingsins af áfengi. Þetta gerist yfirleitt í þröngum hóp og ef til vill fyrir tilviljun. Hér er um eins konar „innvígslu“ að ræða. Tilraunin getur verið afar mikilvæg fyrir unglinginn: Hér kynnist hann nefnilega efni sem breytir líðan hans og hugarástandi. Þessi reynsla getur haft sérstaka þýðingu fyrir suma unglinga. Krakkar sem eru tilfinningalega og félagslega illa staddir þykir sem þeir hafi uppgötvað stórkostlegt hjálpartæki sem vert er að kynnast nánar. Hér fá svokallaðir áhættuþættir tækifæri til að leika skeinuhætt hlutverk sitt og geta stýrt framhaldinu. Helstu einkenni:
 • Kynnist áfengi.
 • Lærir að áfengi breytir líðan.
 • Lítið þol-auðvelt að komast í vímu.
Forvarnir: Unglingur á þessu stigi getur vart talist hafa vanda af áfengis- eða vímuefnaneyslu. Hér skiptir aldurinn miklu máli. Þegar börn og yngri unglingar eiga í hlut lítum við þessar tilraunir alvarlegum augum. Þau afskipti sem við eiga og skilað geta árangri felast í fræðslu og alvarlegri umræðu, unglingum kennt að hafna tilboðum um áfengi eða vímuefni, þeim sýndur áhugi og virðing heima fyrir og í skóla og leitast við að rækta samband við þá, áhugi þeirra á heilbrigðum viðfangsefnum örvaður og vímulausir valkostir í boði. Margir koma að þessu verki: skóli, félög og samtök, félagsmálayfirvöld, lögregla, heilsugæsla og foreldrar. Þessi afskipti flokkast undir forvarnarstarfsemi, beina og óbeina, sem miðast við unglinga almennt og aðgerðir foreldra í uppeldisstarfinu. 2. Stig: Marksækin neysla – Sækist eftir breyttri líðan Unglingurinn neytir áfengis reglulega, venjulega um helgar og jafnvel ekki í hverri viku. Áfengisþolið eykst og áfengi verður þáttur í lífsstíl unglingsins og setur mark sitt á hegðun hans og hugsun. Þó ýmsar uppákomur verði er ekki um merkjanleg vandamál að ræða sem rekja má til áfengisneyslunnar til að byrja með. Í lokin rekst unglingurinn þó á andstöðu foreldranna sem taka eftir óæskilegum breytingum eða þróun sem þeir hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af (kemur seint heim, lætur ekki vita af sér, slæm framkoma við einhverja aðra á heimilinu, einkenni um kæruleysi og áhugaleysi um nám og áhugamál o.fl.). Unglingurinn tekur skrefið inn í næsta þróunarfasa þegar hann heldur áfram uppteknum hætti þrátt fyrir andstöðu hinna fullorðnu. Helstu einkenni:
 • Drekkur oftar en áður.
 • Hlakkar til að „detta í’ða“, gerir áætlanir og svipast um eftir tækifærum.
 • Áfengisþol eykst og meira magn drukkið nú en áður.
 • Drykkjumunstur byrjar að myndast.
 • Hér getur unglingurinn verið opinn fyrir að gera tilraunir með önnur vímuefni.
 • Fyrstu árekstrar við foreldra.
 • Réttlætir og sættir sig við vandamál og óþægindi; finnst það „þess virði“. Stefnir í að áfengi/vímuefni verði þungamiðja í lífsstíl unglingsins.
Íhlutun: Hér stefnir í vandræði. Ekki þurfa vandamál að hafa komið fram í námsárangri eða hegðun í skóla. Þær breytingar sem þar gera vart við sig getur verið erfitt að greina frá venjulegri „unglingahegðun“. Engu að síður er þýðingarmikið að líta ekki framhjá vísbendingum og „vægari“ uppákomum. Unglingum er hollast að slíkt sé tekið mjög alvarlega og „gert að máli“. Hér reynir mjög á foreldra að hafa kjark og styrk og jafnvægi til að hafa skýra stefnu og semja við unglinginn um skilyrði og reglur um eðlilega hegðun af hans hálfu. Afskiptaleysi, misskilið frjálslyndi eða uppgjöf getur haft slæmar afleiðingar. 3. Stig: Stjórnleysi – Upptekin af að breyta líðan Á þessu stigi byrjar líf unglingsins að fara úr skorðum. Á þessu skeiði mundi unglingurinn fá formlega greiningu um áfengis- eða vímuefnamisnotkun. Í lok þess og í upphafi hins næsta fengi hann greiningu um áfengis- eða vímuefnasýki. Á þessu skeiði er líklegt að unglingurinn fari að neyta reglulega annarra vímugjafa en áfengis (kannabisefni algengust). Helstu einkenni:
 • Áberandi stjórnleysi með auknu dómgreindarleysi og ofurölvun.
 • Sker sig úr félagahópnum og byrjar að tapa stjórn á því hvenær vímugjafa er neytt.
 • Fer að neyta annarra vímugjafa eða neytir þeirra meir sé hann þegar byrjaður á því.
 • Drekkur áfengi eða neytir annarra vímugjafa utan félagahópsins og/eða í miðri viku; sækir í annan hóp með svipuð áhugamál.
 • Greinileg áhrif á frammistöðu í skóla og áhugamálum.
 • Fjölskyldan greinir að unglingurinn er kominn í annað félagslegt umhverfi en áður.
 • Árekstrar aukast mjög innan fjölskyldunnar sem veit ekki hvernig skynsamlegast er að bregðast við.
 • Unglingurinn hefur sektarkennd yfir framferði sínu og stöðu.
 • Gerir tilraunir til að draga úr, stjórna eða hætta vímugjafaneyslu án árangurs.
 • Þróar með sér sjálfsblekkingar: Afneitun, átyllur, réttlætingar, afsakanir, ásakanir í garð annarra, dregið úr alvöru málsins o.s.fr.
 • Ófáanlegur til að ræða vandamálin.
Íhlutun: Hér kemur til kasta íhlutunar sem hefur að markmiði að leiða unglingnum fyrir sjónir að hann þarf að breyta hegðun sinni á róttækan hátt og getur jafnvel þurft til þess hjálp. Byrja þarf á að semja við hann um að taka sig á og standa við einhverja áætlun. Samkomulagið þarf jafnframt að fela í sér að unglingurinn gangist við því að hann þurfi aðstoð standist hann ekki sína eigin áætlun. Dugi þessar aðferðir ekki til að leiða unglinginn af óheillabrautinni eða koma honum í tengsl við heppilega ráðgjöf/meðferð er nauðsynlegt að foreldri eða skóli stefni að áhrifaríkari íhlutun og leiti sér ráðgjafar um hvernig best er að haga aðgerðum. 4. Stig: Ánauð – Neytir vímuefna til að líða eðlilega Nú er unglingurinn orðinn ánauðugur. Það eina sem getur hjálpað honum er viðeigandi meðferð sem hefur varanlegt bindindi að markmiði og líkamlega, andlega og félagslega uppbyggingu á öllum sviðum. Helstu einkenni:
 • Unglingurinn þarf að neyta vímugjafa reglulega til að líða eðlilega.
 • Tapar endanlega vinum og kunningjum sem ekki eru í „rugli“.
 • Getur ekki staðið við eðlilegar skuldbindingar í skóla eða vinnu.
 • Lögbrot (þjófnaðir, byrjar að selja/dreifa fíkniefnum, tekinn með fíkniefni, ölvunarakstur o.sv.fr.).
 • Ástandið í fjölskyldunni orðið óbærilegt-ekkert samband næst við unglinginn, árekstrar og ógnir.
 • Unglingurinn reynir að bæta úr með ýmsum árangurslausum breytingum-skipt um skóla eða vinnu, flytur að heiman, flytur í annað byggðarlag.
Íhlutun: Hafi fyrri aðgerðir ekki verið reyndar fram að þessu bera að grípa til þeirra. Í framhaldi af því – hafi árangur ekki náðst – þarf að opna augu unglingsins fyrir staðreyndum vímuefnaneyslu hans með skynsamlega skipulögðum aðgerðum fjölskyldunnar og jafnvel annarra sem unglingurinn á samskipti við og skipta hann máli. Þetta er gert með því að fólk segir unglingnum frá staðreyndum um hann sjálfan (fordómalaust og án ásakana) og hvernig viðkomandi líður yfir ástandinu. Hafi unglingurinn brotið fyrri samninga eða margoft misheppnast að fylgja eftir eigin áætlunum er honum gert að leita sér meðferðar. Ekki verður gripið til íhlutunar af þessu tagi nema með góðum undirbúningi. Neyðarástand Hægt er að bæta við þróunarstigi sem við getum kallað „neyðarástand“. Hér er um ungling að ræða sem verður að teljast í lífshættu. Hann er með öllu ófær um að hjálpa sér sjálfur út úr vandanum, þeir sem honum standa næst hafa misst öll tengsl við hann og finna fáar leiðir til að nálgast hann eða hafa áhrif. Alvarleg hættumerki:
 • Tapar öllum tengslum við fjölskyldu.
 • Algjört stjórnleysi-undir áhrifum dögum saman.
 • Hirðulaus um útlit, ásýnd og hreinlæti.
 • Líkamlegur heilsubrestur-tapar holdum, kviðarholsverkir, velgja, uppköst, niðurgangur.
 • Trufluð hugsun, tilhæfulaus ótti, minnisleysi, „flashback“, stöðugur kvíði, þunglyndi.
 • Hættir endanlega í vinnu og/eða skóla.
 • Yfirþyrmandi sektarkennd, léleg sjálfsvirðing, sjálfsfyrirlitning með tilheyrandi reiði, andúð og árásargirni.
 • Dauði: Slys, yfirskammtar, sjálfsvíg.
Íhlutun: Áður en við fórnum höndum ættum við fyrst að spyrja hvað hefur verið reynt og hve viturlega hefur verið staðið að aðgerðum. Oft er það svo að illa gengur að ná til eða hafa áhrif á unglinginn vegna þess að fólk hefur misst stjórn á sjálfu sér í öllum áhyggjunum og vanlíðaninni, hefur ekki samráð við rétta fagfólkið eða hefur ekki getu eða kunnáttu til að hegða sér skynsamlega. Þegar þessu stigi er náð er líklegt að unglingurinn hafi komist í kast við fleiri en foreldra og starfsfólk skóla. Líklegt er að hann hafi komist undir hendur lögreglu og komist í tæri við heilsugæsluna. Mikilvægt er þá að þessir aðilar taki þátt í íhlutuninni því þeir hafa mikið vægi. Hafa ber í huga að þegar ástandið er orðið svona alvarlegt geta foreldrar verið í þeirri stöðu að þeir eru ófærir um að hafa forystu um að eitthvað sé gert. Aðrir verða að koma til og stjórna aðgerðum (skóli, heilsugæsla, félagsmálayfirvöld). Viðbrögð fjölskyldunnar: Þegar áfengis- og vímuefnasýki nær tökum á unglingi

Þegar unglingur leiðist út í áfengis- og vímuefnavanda hefur það mikil áhrif á foreldra hans og fjölskyldu. Hinir fullorðnu reyna að bregðast við óheillaþróuninni í samræmi við uppeldisaðferðir og reglur sem þeir hafa tamið sér og lært. Þessi venjubundnu og viðteknu viðbrögð og aðferðir skila ekki árangri. Þá er farið að beita örþrifaráðum sem venjulega gera lítið til að bæta ástandið og geta jafnvel gert það verra.

Þegar foreldrum finnst þeir vera í vandræðum með unglinginn sinn eru þeir oft ómeðvitaðir um hvernig fyrir þeim sjálfum er komið. Þeir hafa verið svo uppteknir af vanda unglingsins að þeir taka ekki eftir hvaða afleiðingar þeirra eigin sársauki hefur á hjónalífið og samskipti þeirra við systkini vímuefnasjúklingsins. Þeir taka ekki heldur eftir því að oft truflar vanlíðanin og úrræðaleysið dómgreind þeirra. Hér er gert grein fyrir algengum viðbrögðum sem fjölskyldur sýna þegar unglingur leiðist út í áfengis- og vímuefnavanda. I. Afneitun Fyrstu viðbrögð fjölskyldunnar þegar áfengis- eða vímuefnavandi gerir vart við sig hjá unglingi er afneitun. 1.        Í byrjun sættir fjölskyldan sig við fyllirí og vímu sem tímabundna og „eðlilega“ hegðun unglingsins. Þess er vænst að unglingurinn komist yfir „tímabilið“. 2.        Þegar unglingurinn stofnar til vandræða, verður fyrir óhöppum drukkinn eða veldur skaða er gripið til björgunaraðgerða af ýmsu tagi. Foreldrarnir taka á sig afleiðingar af gjörðum unglingsins og taka ábyrgð á lausn vandamála. Þessi viðbrögð eru okkur foreldrum eðlislæg og oft skynsamleg þegar um venjuleg hagnýt vandamál er að ræða þar sem búast má við að barnið/unglingurinn læri af reynslunni. Á hinn bóginn missa þessar gömlu aðferðir marks þegar rót vandamálanna er áfengis- eða vímuefnaneysla. Þá fara foreldrar óvitandi að stuðla að frekari þróun vímuefnavandans. 3.        Fjölskyldan verður æ meira upptekinn af vandamálum og hegðun unglingsins. 4.        Ef til vill koma foreldrarnir auga á áfengis- og vímuefnaneysluna sem vandamál en þeir sjá hana ekki sem aðalvandann sem glíma verður við milliliðalaust. Þeir telja rót vandans annan og óljósari. 5.        Þegar unglingurinn verður miðpunktur athyglinnar og áhyggjuefni fjölskyldunnar koma foreldrarnir ekki auga á að samskipti milli annarra fjölskyldumeðlima breytast og versna. 6.        Dæmigert er fyrir afneitun fjölskyldunar er að kenna slæmum félagsskap um ástand unglingsins. II. Stjórnun og eftirgjafir Þegar ekki verður lengur litið framhjá vandanum er gjarnan gripið til stjórnunar- og þvingunaraðgerða af ýmsu tagi. Kemur þá oft í ljós að foreldrum þykir stjórnunin óraunhæf og grípa þá til eftirgjafa. 1.        Reynt er að höfða til skynsemi unglingsins. 2.        Unglingurinn settur í útivistarbann og honum lagðar ýmsar hamlandi reglur. 3.        Unglingnum er bannað að umgangast félaga sem sagðir eru „hafa slæm áhrif“ á hann. 4.        Tilskipanir og stjórnunaraðgerðirnar skila ekki árangri þrátt fyrir rifrildi, hótanir og átök. Foreldrar vilja eðlilega forðast að neyta líkamlegs aflsmunar og flestir átta sig á að afleiðingar þess geta verið ófyrirsjáanlegar. Leiðin sem nú er valin eru eftirgjafir. Slakað er á reglunum og ramminn sem áður var reynt að setja víkkaður til muna í þeirri óraunhæfu von að unglingurinn haldi sig innan hans. 5.        Fyrir kemur að foreldrar grípa til þess að flytjast búferlum eða flytja unglinginn til. III. Vanmáttur og reiði Þegar foreldrar finna til vanmáttar síns fer tilfinningaleg vanlíðan að gera alvarlega vart við sig. 1.        Aukin spenna og óánægja einkennir heimilislífið. 2.        Fjölskyldan er tortryggin, á varðbergi og gröm. 3.        Reiði og vonbrigði yfir því að unglingurinn sem er í vímuefnavanda lætur ekki af stjórn. 4.        Áfengi/vímuefni hvíla eins og mara á hugum fjölskyldumeðlima. 5.        Hlutverk fjölskyldumeðlima fara að breytast og fólk skiptist í flokka allt eftir afstöðu og viðmóti við fíkniefnaneytandann. 6.        Tilfinningaleg vandamál koma fram hjá öðrum börnum í fjölskyldunni. 7.        Hjónalífið er undir álagi og tjáskipti foreldranna í milli brenglast og undir niðri krauma ásakanir sem skjóta upp kollinum og valda fólki sársauka. IV. Þunglyndi og örvænting 1.        Foreldrar fyllast sektarkennd, sjálfsvorkunn og örvæntingum. Hvað gerðum við rangt? Hvað höfum við vanrækt? Hvar höfum við brugðist? Þessar spurningar gerast áleitnar og undan þeim svíður. 2.        Fjölskyldumeðlimir fara að temja sér ósveigjanlegt hegðunarmunstur til að forðast árekstra eða flýja fjölskylduerfiðleikana. 3.        Allir óttast það sem framtíðin kann að bera í skauti sínu. 4.        Hugsanlegt er að streitutengdir sjúkdómar geri vart við sig hjá fjölskyldumeðlimum eins og höfuðverkir, svefntruflanir, kvíði og kvartanir út frá meltingarvegi. V. Kreppan og viðbrögð við henni ·         Vissulega bera foreldrar enn umhyggju fyrir unglingnum en fjölskyldan þolir ekki lengur óbreytt ástand. Samskiptin versna mjög og unglingurinn er rekinn að heiman, hrökklast í burt eða flýr. Fjölskyldan situr eftir reið, sakbitin og óttaslegin og unglingnum hrakar fjarri fjölskyldunni. ·         Önnur leið er þó fær: Fjölskyldan leitar sér ráðgjafar og leiðsagnar og nær að grípa til aðgerða sem bætir líðan hennar og beitir sér til að koma unglingnum í tengsl við rétta hjálparaðila sem tekst á endanum öllum til mikils léttis. Hvað ættum við síður að gera? Þegar vandi unglingsins er okkur augljós þurfum við að gera upp við okkur hvort við viljum vera hluti af vandamálinu eða þátttakendur í að leysa það. Þegar í stað getum við leitast við að breyta skaðlegri hegðun í eigin fari: ·         Ekki hafa í hótunum, öskra eða vera með yfirdrifin viðbrögð eins og heimsendir sé í vændum annan hvern dag. ·         Viðurkenndu ekki að víma og ölvun sé eðlileg hegðun af hálfu unglingsins. ·         Ekki reyna að ræða alvarlega við unglinginn eða gera upp sakirnar þegar hann er vímaður eða drukkinn. ·         Hættu að benda á sökudólga eða búa þér til afsakanir fyrir hegðun og ástandi unglingsins. ·         Hættu að lýsa yfir yfirlætisfullum dómum um óeðlilega hegðun unglingsins („aumingjaskapur, ræfildómur“) og varastu stimpla og merkimiða („dópisti, klikkaður, geðveikur“ o.þ.h.). ·         Gefðu ekki upp alla von og sættu þig aldrei við að unglingnum þínum verði aldrei bjargað. Unglingar hafa náð bata fái þeir viðeigandi meðferð, líka þeir sem eru mótþróafullir og þversum í byrjun. Hvað ættum við frekar að gera? Við eigum ef til vill langa ferð fyrir höndum þó okkur takist að breyta um stefnu. Kannski næst árangur tiltölulega fljótt. Um þetta vitum við ekkert fyrirfram. Við getum þegar í stað gripið til aðgerða sem leiða okkur inn á rétta braut og skila sér smám saman: ·         Við ættum aðeins að tala við unglinginn þegar vímuáhrifin hafa runnið af honum. ·         Við ættum að láta í ljós áhyggjur okkar, umhyggju, væntumþykju og viljan til að hjálpa. ·         Við ættum að leyfa unglingnum að fá að reyna og finna fyrir afleiðingum hegðunar hans jafnvel þótt þessar afleiðingar séu óþægilegar fyrir okkur eða skammarlegar. ·         Við ættum að leitast við að fræðast um alkóhólisma og vímuefnasýki. ·         Við ættum að setja okkur í samband við Al-Anon samtökin og fara þar á fundi. ·         Við ættum að leita til fagmanna sem eru sérhæfðir í að fást við áfengis- og vímuefnasýki og fá hjá þeim ráð og leiðbeiningar.

Pétur Tyrfingsson, áfengisráðgjafi og BA í sálfræði

.