persona.is
Áfallið eftir innbrot
Sjá nánar » Áföll » Ofbeldi

Flestir ganga í gegnum einhver óþægindi eftir innbrot, en það er þó mismunandi eftir fólki og eðli innbrotsins hversu mikil óþægindin eru og hversu lengi þau vara.  Fyrstu viðbrögð eru oft þau að fólk á erfitt með að trúa að innbrot hafi átt sér stað, sem þróast oft yfir í mikla reiði, pirring og hræðslu. 

Sumir eru alveg rólegir í fyrstu, á meðan einstaka fólk fær mjög mikið áfall.  Þessum viðbrögðum fólks, eftir innbrot, hefur verið skipt niður í þrjú stig, það fyrsta á sér stað fyrstu dagana eftir innbrotið og þá eru viðbrögðin t.d. hræðsla, og margir upplifa þá tilfinningu um að innbrotsþjófurinn hafi þröngvað sér inn í einkalíf og friðhelgi þess.  Á þessu stigi á fólk oft erfitt með að losna við hugsunina um innbrotið úr huga sínum.  Um 65% finna ennþá fyrir þessum tilfinningum 4-10 vikum seinna auk þess að finna fyrir stöðugu öryggisleysi.  Lítill hluti fólks missir almenna trú á fólki yfirleitt, á í miklum svefnerfiðleikum og finnst allar eigur sínar vera skítugar og ógeðfelldar.  Á þessum tíma er fólk á svokölluðu miðstigi, það reynir að ná stjórn aftur með því að vinna með lögreglunni, komast að því hverju var stolið, fá bætur frá tryggingafélagi, setja upp lása, króka og viðvörunarkerfi svo eitthvað sé nefnt.  Á þessum tíma er fólk líka að leita skýringa á verknaðinum, t.d.: ”afhverju braust innbrotsþjófurinn inn”; ”afhverju ég”; ”afhverju braut hann hluti eða ekki”; ”afhverju tók hann þetta og ekki hitt”.  Fólk fer oft að gruna alla í kringum sig, vini, blaðberann, sölumanninn sem kom vikuna áður, osfrv. og finnst jafnvel að allir í kringum sig hafi slæmar áætlanir, þ.e. hafi áform um að gera þeim eitthvað slæmt. Þriðja stigið er svo þegar fólk reynir að koma lífi sínu aftur í eðlilegt horf, t.d. með því að fara í burtu af heimilinu í styttri og lengri tíma.

Þegar skoðað er hverjir eiga erfiðara með að komast yfir atburð eins og þennan,  þá virðist það oft vera fólk sem fyrir innbrotið hefur fundið meira fyrir ákveðnu öryggisleysi en aðrir, eins og t.d. þeir sem búa einir, ekkjufólk, osfrv.  Það fer líka eftir innbrotinu sjálfu, t.d hefur það meiri áhrif ef að tilfinningalegum hlutum er stolið frekar en dýrum hlutum.  Stór hluti af ástæðu þess að innbrot á heimili valda oft miklum andlegum erfiðleikum, er sá að heimilið er staður sem við tengjum við öryggi. Við ráðum hverjir koma inn og hverjir ekki, heimilið er okkar einkasvæði tengdur minningum og tilfinningum og þegar brotist er inn missum við oft þessa tilfinningu um öryggiskennd, sem heimilið á að veita okkur og einkamál okkar virðast vera orðin opin almenningi.  Öryggisleysið tengist oft líka því að þótt flest innbrot eigi sér stað þegar enginn er heima, og án ofbeldis, tengir fólk innbrot mjög oft við eitthvað sem gerist þegar það er sofandi og varnalaust og í huganum imyndar fólk sér oft á tíðum að innbroti fylgi yfirleitt ofbeldi af völdum innbrotsþjófsins.

            Það getur verið einstaklingbundið hvað fær fólk til að finna fyrir öryggi aftur og ná að vinna sig úr áhrifum innbrotsins.  Það sem oft virkar best er að gera ráðstafanir til að gera heimilið öruggara og tryggja sig betur fyrir innbrotum, hvort sem um er að ræða lása, tryggingar, meira eftirlit eða annað.  Auk þess virðist það virka vel að gera smá grín að atburðinum, skoða vel hver áhrif innbrotsins höfðu á aðra meðlimi fjölskyldunnar, og reyna að finna jákvæðni í þessarri neikvæðu og erfiðu reynslu svo eitthvað sé nefnt.  Það er mjög mikilvægt að fá stuðning frá vinum og fjölskyldu og að allir vinni saman að því að koma lífinu í fastar skorður aftur.  Það sem mikilvægast er, er að hver og einn finni út hvað veiti þeim meiri öryggiskennd þannig að hægt sé að fara lifa lífinu aftur án þess að finna fyrir stöðuðum kvíða og hræðslu. 

 

Björn Harðarson

sálfræðingur