persona.is
Áfallaröskun/áfallastreita
Sjá nánar » Áföll

Hvað er áfallaröskun?

Áfallaröskun er íslenska heitið á enska sjúkdómsheitinu PTSD, sem stendur fyrir Post Traumatic Stress Disorder.  Þegar einstaklingur hlýtur greininguna áfallaröskun eða PTSD þarf hann að hafa upplifað einhvern atburð sem hefur ógnað lífi, heilsu og/eða öryggi. Á meðan á atburðinum stóð, einkenndust viðbrögð hans af skelfingu, hjálparleysi eða hryllingi, og síðar hefur hann þjáðst af einkennum áfallaröskunar í a.m.k. einn mánuð.  Hvað er áfall? Áföll eru margs konar, hægt væri að nefna sem dæmi: 

·         Alvarleg slys – s.s. flugslys, bílslys, eldsvoðar 

·         Stórslys, náttúruhamfarir – s.s. jarðskjálftar, snjóflóð, eldgos, ofsaveður, fárviðri, flóð 

·         Líkamlegt og kynferðisleg ofbeldi – s.s. nauðgun, líkamsárás 

·         Líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á börnum eða alvarleg vanræksla barna 

·         Heimilisofbeldi

·         Verða vitni að alvarlegu ofbeldi eða áfalli 

·         Samfélagslegt ofbeldi – s.s. stríðsátök 

Önnur ,,vægari“ áföll eins og að slíta samvistir við maka, missa vinnu, falla á prófi, og ástvinamissir geta vissulega sett mark sitt á fólk. Þessi áföll orsaka þó sjaldan PTSD eða áfallaröskun.

Hver eru einkenni áfallaröskunar?

Í framhaldi af alvarlegu, og oft lífshættulegu áfalli, finnur einstaklingurin aðallega fyrir þremur megineinkennum:  1) Það sem gerðist leitar stöðugt á hugann, eða farið í gegnum áfallið aftur og aftur á marga vegu: 

·         Skelfilegar minningar um atburðinn skjóta upp kollinum sí og æ 

·         Slæmir draumar, martraðir 

·         Hafa það á tilfinningunni að atburðurinn sé í þann veginn að endurtaka sig 

·         Ofsafengnar tilfinningar og líkamleg viðbrögð við staði, hluti eða persónur sem minna á það sem gerðist 

2) Reynt í lengstu lög að forðast áreiti sem tengjast áfallinu eða viðbrögðin eru deyfð. Þetta kemur m.a. fram í: 

·         Að forðast hugsanir, tilfinningar, samræður, fólk eða staði sem minna á atburðinn. Líka að hafast eitthvað að sem gæti minnt á það sem olli áfallinu. 

·         Muna ekki mikilvæga atburði sem gerðust meðan á áfallinu stóð 

·         Doða og sleni, minni áhugi á, eða minni þátttaka í áhugamálum sem áður heilluðu. 

·         Að deyfa tilfinningar sínar og finna því síður sterkar tilfinningar eins og ást, reiði, eða hatur. 

·         Fjarlægjast sína nánustu, í kjölfarið kemur tilfinningin um að standa utan við mannlegt samfélag. 

·         Styttri framtíðarsýn. 

3) Að vera alltaf meira eða minna í viðbragðsstöðu eða andlegri spennu. Þetta felur í sér: 

·         Svefnerfiðleika 

·         Pirring eða reiðiköst 

·         Einbeitingarerfiðleika 

·         Vera stöðugt á varðbergi 

·         Að bregðast skjótt við, t.d. við óvænt hljóð eða einhvers annars í umhverfinu

Önnur tilfinningaleg vandamál

Áfallastreitu getur einnig fylgt ýmislegt annað af tilfinningalegum toga.  Hræðsla Hræðsla er algeng í kjölfar áfalla, að svipaður atburður hendi aftur og líka við það að eitthvað hræðilegt komi fyrir þá sem okkur þykir vænst um. Drengur sem lenti í bílslysi var til að mynda stöðugt hræddur um að eitthvað kæmi fyrir foreldra hans og þurfti sífellt að vita hvar þeir voru niðurkomnir. Hræðslan getur einnig beinst að okkur sjálfum, að við séum að brotna saman, eða að missa stjórn á sjálfum okkur.  Ofsahræðsla Einstaklingar með áfall að baki geta fengið angistarkast eða ofsahræðslu þegar eitthvað minnir óþægilega á atburðinn, oft kallað panik. Kona sem var ökumaður í bíl, sá af tilviljun karlmanninn sem nauðgaði henni út um bílrúðuna. Henni brá svo mikið að hún keyrði yfir gatnamótin á rauðu ljósi og var nærri því búin að orsaka alvarlegt umferðarslys. Ofsahræðsla er mjög óþægileg reynsla, auk hræðslunnar fylgir líkamleg vanlíðan og hræðsluhugsanir. Hitakóf, köfnunartilfinning, öndunarerfiðleikar, ör eða þungur hjartsláttur, flökurleiki, sviti, skjálfti og doði í útlimum er algengt. Líka tilfinningin að maður sé að ganga af vitinu eða að fá hjartaáfall.  Þunglyndi, sektarkennd og skömm Þunglyndi hrjáir marga í framhaldi af áfalli. Áföll hafa oftast í för með sér missi af einhverjum toga, stundum verulegar lífsbreytingar. Sektarkennd og skömm tengjast gjarnan þunglyndi t.d.yfir því að hafa ekki bruðist rétt við. Fórnarlömb áfalla ásaka sum sjálfa sig fyrir hafa ekki aðhafst það sem ,,hefði“ komið í veg fyrir eða dregið úr því sem gerðist. Dæmi um slíkt er t.d. drengur sem bjargaðist út úr eldsvoða en fannst hann hefði átt að bjarga systur sinni sem dó og ásakar sjálfan sig fyrir. Skömm er enn ein algeng tilfinning í kjölfar áfalla. Fórnarlömbum finnst sem þau hafi eitthvað að skammast sín fyrir. Taka má dæmi af barni sem verður fyrir líkamsárás jafnaldra og vill ekki að segja neinum frá því.  Sjálfsmorðshugleiðingar Stundum verður vanlíðunin slík af áfallinu að fólk fer að íhuga að binda endi á líf sitt. Þeir sem finna fyrir svona hugleiðingum ættu strax að leita sér hjálpar hjá fagmanni. Reiði Reiði er algeng í kjölfar áfalla og getur tekið á sig margbreytilegar myndir, reiði yfir því sem gerðist, reiði gagnvart þeim sem olli því eða leyfði því að gerast, reiði yfir óréttlætinu, tilgangsleysinu, skömminni og vanvirðingunni. Gildar ástæður eru oft fyrir reiðinni, en hún getur líka verið mjög varasöm og hindrað að þolendur áfalla nái sér sem skyldi. Mikil reiði getur aukið á vandann t.d. valdið því að einstaklingur á erfitt með að umgangast aðra, bæði á heimili sínu og á vinnustað. Mikil reiði getur líka komið niður vinnunni með meðferðaraðilum.  Áfengis- og lyfjamisnotkun Sumir nota áfengi eða lyf til þess að deyfa sársauka sinn eftir áföll, kannski skiljanleg viðbrögð en ekki skynsamleg. Áfengisdrykkja og misnotkun lyfja hjálpa örskamma stund en til lengdar auka þau á vandann og gera erfiðar aðstæður enn verri.  Erfiðleikar í samskiptum Fólk með áfallaröskun þarfnast enn frekar návist annarra mannvera en aðrir. Áfallið hefur þau áhrif að því finnst það vera einangrað og öðruvísi en aðrir og að enginn geti raunverulega skilið þá hræðilegu reynslu sem það lenti í. Hjónabandserfiðleikar og erfiðleikar í samskiptum við þá nánustu eru til að mynda algengir eftir áföll. Dæmi um það er reynslusaga sjómannskonu eftir að maður hennar lenti í alvarlegu sjóslysi. Hún sagði:  ,,Við fluttum frá sjónum og ákváðum að hann færi aldrei aftur á sjóinn. En það hjálpaði ekki. Hann er ekki eins þolinmóður eins og hann var áður, hann öskrar á börnin og suma dagana aðhefst ég ekkert rétt í hans augum. Hann er dapur og einangrar sig. Stundum situr hann og grætur allan daginn og það eina sem ég get gert er að vera til staðar fyrir hann. Stundum öskrum við og rífumst yfir smámunum sem við hefðum áður ekki tekið eftir. Stundum eru langar þagnir þar sem við hefðum áður rætt málin. “  Sumum hefur reynst mjög erfitt með að treysta öðru fólki eigi þeir að baki alvarleg áföll, t.d. einstaklingur sem hefur orðið fyrir sifjaspelli sem barn.  Stór þáttur í bata er að þora að nálgast aðra, vera í samskiptum og treysta öðrum fyrir sér. Góð tengsl við meðferðaraðila geta einnig hjálpað mikið.

Hvenær er um eðlileg viðbrögð að ræða?

Áföll leggjast mismunandi á fólk og flestir finna fyrir einhverjum af ofangreindum einkennum. Versti tíminn er oftast fyrst eftir áfallið. Þessi einkenni hverfa oft fljótlega án þess að til nokkurrar meðferðar hafi komið. Þetta eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Þegar einkenni áfallastreitu hafa hins vegar varað lengur en í einn mánuð og þau hindra manneskuna í venjulegu daglegu lífi er talað um bráða áfallaröskun. Þeir sem finna fyrir sterkum einkennum áfallaröskunar lengur en í einn mánuð eftir áfall ættu að leita ráðlegginga frá einhverjum í heilsugæslustétt. Það er talað um viðvarandi (króniska) áfallaröskun þegar einkennin hafa varað í lengri tíma heldur en í þrjá mánuði og þá er ólíklegt að þau hverfi án meðferðar.  Það sem eykur líkur á áfallaröskun og það sem dregur úr líkum á áfallaröskun Því verra sem áfallið er og því lengur sem það varir eru meiri líkur á áfallaröskun í kjölfarið. Sömuleiðis eru meiri líkur á áfallaröskun hafi sama manneskja áður orðið fyrir alvarlegu áfalli.  Það eru meiri líkur á áfallaröskun ef áfallið orsakast af mannavöldum heldur en ef það orsakast af völdum nátturunnar. Mannvera sem verður fyrir því að vera nauðgað, pyntuð eða niðurlægð er mun hættara við áfallaröskun heldur en sú sem lendir í snjóflóði eða jarðskjálfta.  Stuðningur í framhaldi af áfalli skiptir miklu, því betur sem vinir, ættingjar og samfélagið styður við bakið á þolendum áfalls því meiri eru batalíkurnar. Á sama hátt er hættara við áfallaröskun sé mannvera ein á báti og skynjar sig aleina og yfirgefna eftir áfall.

Hverjir greinast með áfallaröskun?

Flestir sem verða fyrir alvarlegum áföllum fá ekki áfallaröskun. Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að um 70% af fullorðnum Bandaríkjamönnum hafi einhvern tíma á æfi sinni orðið fyrir a.m.k. einu meiriháttar áfalli. Jafnframt er talið er að um 8% íbúa hafi þjáðst af áfallaröskun einhvern tíma lífs síns og á degi hverjum sé um 5% bandarísku þjóðarinnar með áfallaröskun.  Á Íslandi var kannað með spurningalistum hver áhrif snjóflóðanna voru á Vestfjörðum, í Súðavík og á Fateyri. Niðurstöður bentu til að 35% Súðvíkinga höfðu einkenni áfallaröskunar 12-14 mánuði eftir að flóðið féll og að 48% Flateyringa höfðu einkenni áfallaröskunar 3-4 mánðuðum eftir flóðið. Þegar sömu listar voru lagðir fyrir í sambærilegu sjávarþorpi þar sem engin snjóflóðahætta leyndist, reyndist algengi áfallaröskunar vera 9% eða nokkru hærra en erlendar rannsóknir gefa til kynna. Þessi munur gæti verið fólginn í mismunandi rannsóknaraðferðum. (Sjá grein eftir Gylfa Ásmundsson og Ágúst Oddsson.)  Allar rannsóknir gefa skýrt til kynna að konum er hættara við áfallaröskun heldur en körlum.  Börn og áföll Lengi vel var ætlað að börnum stafaði síður hætta af áfallaröskun en fullorðnum. Rannsóknir sýna þó að áfallaröskun finnst einnig meðal barna og er jafn algeng meðal barna og fullorðna.  Viðbrögð barna við áföllum fara að miklu leyti eftir aldri þeirra og þroska.  Forskólabörnin skilja ekki hvað er að gerast en þau skynja óttann sem liggur í loftinu. Algeng einkenni hjá börnunum eru að þau verða pirruð, hrædd, þau gráta meira, eða eru þögul, sum fá martraðir, öðrum er illt einhvers staðar, þau geta líka misst nýlærða færni, s.s. tal eða að halda sér hreinum. Í leik margra endurspeglast áfallið og getur oft hjálpað þeim því að leikurinn er aðferð barna til þess að halda utan um tilveruna.  Skólabörnin finna fyrir mörgu af því sama og forskólabörnin. Þau geta verið döpur og kvíðin, auðsæranleg og varnarlaus, þau geta líka verið árásargjarnari en áður. Sum börnin kenna sér um eða finnst þau á einhvern máta ábyrg, að þau hefðu átt að koma í veg fyrir það sem gerðist. Ræða þarf slíkar hugmyndir við þau og leiðrétta þær. Börn á skólaaldri fýsir oft að tala um atburðinn og sjálfsagt er að hvetja þau til þess, m.a. í því skyni að fyrirbyggja að þau misskilji eða kenni sér um.  Unglingarnir skilja hvað gerst hefur og tilfinningaleg viðbrögð þeirra líkjast fullorðnum, en eru einnig mjög einstaklingsbundin. Sumir unglingar reyna að verða fullorðnir of snemma, eru mikið úti á við og taka óþarfa áhættur sem þeir geta ekki valdið. Aðrir bregðast þveröfugt við, halda sig lengur heima og þurfa meira á vernd foreldra sinna að halda en áður. Unglingar eru eins og annað fólk, þeir jafna sig frekar og betur á áfalli geti þeir rætt um það sem gerðist, langbest væri að þau tali við þann sem býr yfir þekkingu og reynslu til að hjálpa þeim.

Hvað skiptir máli fyrst á eftir áfall?

Hvað skiptir máli fyrst eftir áfall Eftir áfall er gott að taka sér þann tíma sem hver og einn þarfnast til þess að sofa, hvílast, hugsa og vera nálægt þeim sem eru manni nánastir.  Best er að nýta tækifæri sem gefast til þess að fara yfir það sem gerðist. Ekki forðast að tala um það, ekki byrgja tilfinningar inni og ekki búast við því að gleyma öllu saman.  Það er gott að halda halda deginum í eins föstum skorðum og unnt er, senda börn t.d. aftur í skólann og láta þau halda iðju sinni og tómstundum sínum áfram.  Það er ástæða til að gæta sín í umferðinni, sýna aðgát í akstri og aukna aðgát því að eftir mikla streitu eykst tíðni slysa. Ekki gleyma að börnunum þínum líður líkt og okkur sjálfum. Foreldrar ættu því að leitast við að hjálpa börnunum við að tala um tilfinningar sínar og leyfa þeim að tjá sig í leikjum og með teikningum.  Að hjálpa öðrum hjálpar manni sjálfum. Ræddu málið við fleiri sem hafa lent í því sama og þú og nýttu þér þá áfallahjáp sem í boði er. Leyfðu sjálfum þér að verða þátttakandi í hópi fólks sem lætur sig málið varða.  Hvað geri ég réttast ef þróast með mér áfallaröskun eftir áfall sem ég lendi í? Það er margt hægt að gera til þess að hjálpa sér að læknast af áfallaröskun. 

·         Kynntu þér sjúkdóminn, lestu og lærðu um hann 

·         Talaðu um vandamálið við fólk sem þú treystir 

·         Settu sjálfa/n þig í aðstæður sem minna þig á það sem gerðist 

·         Leitaðu þér meðferðar 

·         Ef þú þarft að taka lyf, taktu þá lyfið inn samviskusamlega og segðu lækninum þínum frá öllum aukaverkunum 

·         Forðastu áfengi og ólögleg vímuefni 

·         Ekki hætta í meðferðinni, þótt hún verði þér erfið 

Hvenær er ástæða til að leita sér hjálpar? Ef þú þjáist af einkennum áfallaröskunnar í meira en mánuð eftir áfallið. Ef ástandið fer ekki batnandi, þú heldur áfram að finna fyrir doða eða þú ert stöðugt á ferðinni og þarft að sýsla eitthvað til þess að flýja tilfinningar þínar. Ef þú heldur áfram að vera með martraðir og sefur illa.  En athugaðu, það er líka full ástæða til þess að leita sér hjálpar í framhaldi af áfalli þótt þú uppfyllir ekki öll þessi skilyrði fyrir áfallaröskun. Það nægir til að mynda að finnast sem þú hafir misst stjórn á lífinu á einhvern hátt. Dæmi um slíkt er ef þér finnst þú tóm/ur, rugluð/aður, eða undir stöðugu álagi. Eða ef þú ferð að neyta áfengis eða taka lyf í óhófi eftir áfallið.  Áföll hafa einnig áhrif á samskipti við aðra. Versni samskipti þín við aðra verulega, þér gengur ver í vinnunni, ferð að finna fyrir kynferðislegum vandamálum, eða þér finnst þú ekki geta rætt um tilfinningar þínar við neinn, skaltu staldra við. Þetta eru allt gildar ástæður fyrir því að þú leitir þér hjálpar.  Það er sérstaklega mikilvægt að leita strax eftir hjálp ef þig langar ekki til að lifa lengur og sjálfsmorðshugleiðingar leita á hugann.

Hvað meðferð er í boði?

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áfallaröskun á síðustu 10 árum og þekking á sjúkdómnum fer sífellt vaxandi. Í dag er hægt að vænta verulegs bata af meðferð.  Til að meðhöndla áfallaröskun er bæði notað samtalsmeðferð og lyfjameðferð. Sumir jafna sig á áfallaröskun með samtalsmeðferð einni saman, öðrum vegnar best með lyfjagjöf samhliða samtalsmeðferð. Enn aðrir notast eingöngu við lyfjameðferð.  Samtalsmeðferð ein og sér gæti hentað þér ef: 

·         Þú gengur með barn eða ert með barn á brjósti 

·         Þér er illa við að taka lyf og vilt helst ekki gera það 

·         Einkennin eru mildari 

·         Þú ert haldinn veiki sem enn frekari lyfjanotkun gæti haft áhrif á 

Það er oft þörf á lyfjum jafnhliða samtalsmeðferðinni ef: 

·         Einkennin eru alvarleg, eða þú hefur verið með einkenni áfallaröskunar í langan tíma 

·         Jafnhliða áfallaröskun hefur þú einnig aðra geðræna erfiðleika (t.d. þunglyndi eða kvíða) sem gera þér erfitt fyrir um að á þér. 

·         Þú hugsar mikið um sjálfsmorð 

·         Það er mikil önnur streita í lífi þínu 

·         Þér gengur mjög illa að fóta þig í daglegu lífi 

·         Þú hefur reynt samtalsmeðferð en ert ennþá með mörg alvarleg einkenni áfallaröskunar. 

Samtalsmeðferð Eðlileg varnarviðbrögð fólks eru að forðast það sem er óþægilegt. Eftir áfall er reynt að gleyma því slæma og halda áfram lífsgöngunni. Því miður er þessi leið líkleg til þess að misheppnast. Ef við ýtum minningunum til hliðar eða jörðum þær er líklegt að einkennin versni. Það er því mikilvægt að horfast í augu við það sem gerðist, þar með talið er að finna fyrir tilfinningunum, hversu sárar sem þær eru, og vinna sig í gegn um þær.  Miklar framfarir hafa orðið í samtalsmeðferð til að takast á við áfallaröskun og sú meðferð lofar góðu. Færir meðferðaraðilar kunna ennfremur fleiri sérhæfðari leiðir sem hafa reynst vel til þess fallnar að takast á við áfallaröskun.  Hugræn meðferð Hugræn meðferð leggur einkum áherslu á að grípa neikvæðar hugsanir sem fara sjálfvirkt í gegn um hugan á okkur og hafa veruleg áhrif á líðan okkar og hegðun. Margir finna t.d. fyrir skektarkennd í framhaldi af áfalli eins og þegar fórnarlamb nauðgunar ásakar sjálfa sig fyrir að hafa ekki gætt sín betur. Hugræn meðferð leggur áherslu á að skoða hugsanir, viðhorf og trú sem gera okkur erfitt fyrir, rök fyrir þeim og rök gegn þeim og tileinka okkur raunhæfari hugmyndir sem hjálpa okkur til þess að vera í betra jafnvægi.  Tækni til þess að takast á við hræðslu Það eru til ýmsar hjálparaðferðir til við því að takast á við hræðslu. Meðal þeirra er aðferð til að ná stjórn á öndun og læra að slaka á. Hugræn meðferð leggur áherslu á, eins og áður sagði, að skoða neikvæðar hugsanir sem festa vandamálið í sessi og beina síðan huganum í farveg sem raunverulega hjálpar. Dæmi: Í stað þess að leyfa staðhæfingum eins og ,,ég get þetta ekki“ að festast, er komið að uppbyggilegri hugsun eins og ,,ég hef gert þetta áður og ég get gert þetta aftur“. Stundum spólum við í neikvæðum hugsunum og komumst ekki út úr þeim. Meðferðaraðilinn myndi þá kenna þolandanum að stoppa hugsanir sínar, t.d. með því að hrópa ,,HÆTTU“ innra með sér þegar neikvæðar kvíðahugsanir taka völdin.  Eftir áfall skiptir máli að takast á við aðstæður, fólk, hluti, minningar eða tilfinningar sem minna á áfallið og valda óraunhæfum ótta. Þetta er hægt að gera með því að fara yfir áfallið aftur og aftur og tala um það, þar til að það veldur ekki ótta lengur. Einnig er hægt að hjálpa þolandanum að takast á við öruggar aðstæður í lífi sínu sem hann reynir að forðast vegna óþæginda og hræðslu sem þær valda. T.d. að keyra aftur Keflavíkurveginn hafi hann lent þar bílslysi. Hræðslan fjarar smám saman út ef þolandinn þvingar sjálfan sig til þess að vera kyrr í stað þess að flýja. En það skiptir ekki síður máli að finna fagmann sem þolandi treystir og getur leitt hann skref fyrir skref og hjálpað að takast á við hræðsluna.  Aðrar meðferðarleiðir Dáleiðsla hefur verið notuð sem meðferð við PTSD, einnig hefur á síðustu árum svokallað EMDR rutt sér leið sem meðferð við áfallaröskun. EMDR stendur fyrir ensku orðin Eye Movement Dessensitization and Reprocessing og er flókin aðferð sem byggir á því að augnhreyfingar hjálpi heilanum að vinna sig út úr erfiðri reynslu. Það er ekki vitað nákvæmlega hvað gerist í heilanum, en e.t.v. er þetta svipað ferli og í svefni þegar okkur dreymir.

Hvernig geta aðstandendur og vinir hjálpað?

Það er sárt að horfa upp á þann sem manni þykir vænt um þjást af áfallaröskun. Mörgum verður á að ráðleggja vini sínum að hætta að hugsa um það sem gerðist, reyna að gleyma því og snúa sér þess í stað að framtíðinni. Fortíðinni verður hvort sem er ekki breytt. En þessi skynsamlega ráðgjöf, að því er virðist, getur gert illt verra.  Það hjálpar best ef vinur þinn getur deilt með þér sárum minningum sínum og þjáningu. Hann gæti þurft að tala aftur og aftur um það sem gerðist. Besta hjálpin þín er að veita honum samkennd, sýna honum þolinmæði og hlusta vel. Mikilvægt er að veita honum tilfinningalegan stuðning, sérstaklega ef vinur þinn er með óraunhæfa sektarkennd eða sjálfsásakanir. Gefðu honum skýr skilaboð: ,,þetta var ekki þér að kenna“ og ,,þú ert ekki einn, við stöndum með þér“.  Aflaðu þér fróðleiks um sjúkdóminn, þá skilur þú vin þinn betur.  Hvettu hann til að leita sér hjálpar og hjálpaðu honum að halda meðferðinni áfram. Í meðferðinni verður hann knúinn til að standa andspænis tilfinningum sínum, það getur reynst mjög erfitt, og honum langað mest til að hætta. Þá skiptir óendanlegu miklu að þú hvetjir hann til dáða og styður hann svo að hann gefist ekki upp heldur haldi meðferðinni áfram. Þú gætir líka verið beðinn um að hjálpa til við heimaverkefni, t.d. að fylgja honum á slysstaðinn eða þar sem áfallið varð.  Ef þú ert foreldri barns sem hefur orðið fyrir áfalli Reyndu að skapa aðstæður sem auðvelda barninu þínu að tala við þig um það sem gerðist. Oft er gott að spjalla þegar börnin eru að dunda sér, t.d. við kubba eða að lita. Börn setjast síður niður eins og fullorðnir og ræða sérstaklega málin, en þau heyra hvað er sagt í kring um þau og fylgjast með viðbrögðum hinna fullorðnu. Stundum vilja þau að fyrra bragði ræða sjálf um það sem hefur gerst. Þá skiptir máli að vera til staðar og hafa góðan tíma. Svaraðu spurningum. Reyndu að miða svör þín við aldur og þroska barnsins. Börn finna það á sér þegar þeim er svarað heiðarlega og hvenær þau geti rætt um óþægilega hluti.  Nýttu þér bækur, sögur og tónlist til að róa barnið þitt, sérstaklega á nóttunni þegar óþægilegar hugsanir leita á barnið og fylla það hræðslu.  Oft getur nærveran ein og snerting sagt meira en mörg orð.  Gættu þess að barnið þitt einangri sig ekki. Hjálpaðu því við að halda tengslum við trausta vini.  Virtu sorg barnsins hafi það orðið fyrir missi, sorgin tekur tíma – líka hjá börnum.  Láttu skólann og leikskólann vita um það sem barnið hefur gengið í gegn um og leyfðu kennurum að fylgjast með gangi mála.  Leitaðu þér ráðgjafar frá fagfólki og ræddu málin við þá sem hafa reynt eitthvað svipað. Sérstaklega ef þú ert óörugg/ur, barninu líður illa, eða þegar vandinn er flókinn, t.d. ef barnið vill ekki tala um skelfilega reynslu sína.

Hvert er hægt að leita?

Miðstöð áfallahjálpar í Háskólasjúkrahúsi við Fossvog Neyðarmóttaka Háskólasjúkrahúsins við Fossvog sinnir þolendum í nauðgunarmálum.  Göngudeild Geðdeildar Landsspítala Íslands  Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans Læknar og hjúkrunarfræðingar heilsugæslu geta vísað til sérfróðra aðila ef þörf krefur.  Félagsþjónusta í heimabyggð getur vísað til sérfróðra aðlila og hefur sumstaðar heimild til að styrkja fórnarlömb áfalla hvað varðar greiðslur til sérfræðinga.  Einnig eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig til að sinna áföllum.

Margrét Arnljótsdóttir sálfræðingur