persona.is
Áfallahjálp
Sjá nánar » Áföll » Meðferð

Fólk hefur upplifað áföll um ómunatíð. Stríð, hungursneyð og hamfarir hafa ávallt haft áhrif á líf okkar og svo virðist sem að nútíminn einkennist einna helst af hamförum.  Hvort heldur sem það er flóðbylgja eða fellibylur sem veldur dauða og hörmungum, eða hryðjuverk og stríð sem skilja eftir sig sviðna jörð, virðast slík áföll gerast sífellt oftar og hvert þeirra orsaka meiri harm en það síðasta.

Þó eru það ekki einungis náttúruhamfarir og stríð sem geta haft eyðileggjandi áhrif, heldur gerast ótal áföll daglega eins og umferðarslys, dauði einhvers nákomins eða veikindi sem geta haft hrikaleg áhrif á þá sem upplifa þau. Undanfarið hefur til að mynda borið talsvert á umferðarslysum hér á landi og hafa herferðir til að sporna við þeirri þróun sprottið fram. 

Þéttbýlismyndun nútímasamfélagsins hefur gert fólk mun viðkvæmara fyrir áföllum og nálægð fólks hefur leitt til þess að áfall eins verður óhjákvæmlega sameiginleg reynsla margra.  Tölfræðin segir okkur að allt að 84% okkar muni upplifa allavega eitt alvarlegt áfall um ævina.  Þrátt fyrir þetta ótrúlega algengi búum við öll yfir ótrúlegri hæfni til að takast á við slík áföll en á endanum getum við aðeins tekist á við ákveðið mikinn harmleik áður en við bugumst.

Þegar við upplifum mikið áfall er mikilvægt fyrir okkur að takast á við það og vinna úr því, en þegar áföllin hrannast upp verður það erfitt og jafnvel okkur ofaukið.  Eðli áfallsins og tengsl þeirra við okkur ráða hversu mikil áhrif áfallið hefur en þegar ákveðnum punkti er náð getum við hreinlega ekki meir.  Það hvernig við vinnum úr þessum áföllum ræður úrslitum um það hvort okkur muni farnast vel eða illa.  Ef illa er unnið úr áfalli upplifir fólk mikið tilfinningalegt óöryggi og rót sem gerir það aftur viðkvæmara fyrir frekari áföllum.  Þessi viðkvæmni stafar af því að áfallið hefur brotið varnarkerfi einstaklingsins og því verður hann einnig líklegri til að reyna að flýja vandann með því, til dæmis, að drekka sig frá honum, vinna mikið eða álíka.  Ef ekki er að gáð getur slæm úrvinnsla áfalls leitt til þess að einstaklingurinn upplifir svokallaða áfallastreitu en það er mjög alvarlegt form af streitu sem einkennist meðal annars af svefntruflunum, einbeitingarskorti og mikilli vanlíðan.  Miðað við nýlega tölfræði má áætla að á Íslandi  þjáist rúmlega 25.000 manns af áfallastreitu og hjá allt að 15 þúsund þeirra verður þessi streita þrálát.  Það er því afar mikilvægt þegar áföllin dynja á að fólki sé hjálpað að takast á við áfallið og vinna úr því.  Sé rétt unnið úr áfallinu getur það styrkt einstaklinginn og gert honum kleift að lifa eðlilegu lífi að því loknu. 

Samkvæmt nýlegri norskri rannsókn vildu 85% allra sem lent höfðu í áfalli fá aukna hjálp við að vinna úr því.  Hér á landi líkt og í Noregi er áfallahjálp í flestum tilfellum af skornum skammti og ósjaldan hefur maður heyrt um eða hitt fólk sem ekki býðst nein slík hjálp.  Þó þurfum við ekki að horfa langt til að sjá áfallahjálp sem virkar, en nágrannar okkar í Danmörku hófu innlimun áfallahjálpar inn í heilbrigðiskerfi sitt fyrir tuttugu árum síðan.  Í dag finnur maður eitt umfangsmesta og viðurkenndasta áfallahjálparprógram í heimi hjá dönum en þar eru fleiri áfallasálfræðingar og sérfræðingar á hvern íbúa en nokkursstaðar í heiminum.   

Afleyðingar áfalls birtast oft ekki strax í sinni réttu mynd og því getur fólk hæglega talið sér trú um að það hafi ekki orðið fyrir neinum áhrifum.  Almennt erum við íslendingar ekki neitt sérstaklega sérhlífnir heldur hugsum sem svo að þetta muni lagast af sjálfu sér og því verður ennfremur að bjóða fólki hjálp og gera því þannig auðveldara að sækja sér þá aðstoð sem það þarf.  Ef að fólk fær aðstoð eða nær að vinna úr áfallinu strax þá er hægt að koma í veg fyrir að það þrói með sér alvarlegri vanda í kjölfarið. 

 

Eyjólfur Örn Jónsson Sálfræðingur