persona.is
Aðskilnaðarkvíði
Sjá nánar » Börn/Unglingar » Kvíði
Aðskilnaðarkvíði einkennist af miklum kvíða við að fara af heimilinu eða fara frá manneskju sem einstaklingurinn er tilfinningalega tengdur, eins og foreldrum.  Börnin hræðast að eitthvað komi fyrir ástvini sína þegar þeir eru í burtu og fá martraðir fyrir aðskilnaðinn og á meðan aðskilnaðurinn er. Eðlilegt er að mjög ung börn finni fyrir kvíða við aðskilnað og mörg börn eiga í einhverjum erfiðleikum með að fara og vera í burtu frá foreldrum sínum á fyrstu árum í leikskóla.   Þar af leiðandi eru þessi börn ekki greind með aðskilnaðarkvíða.  Við tölum ekki um raunverulegan aðskilnaðarkvíða fyrr en barnið er orðið töluvert eldra.  Í raun má segja að því eldra sem barnið er þeim mun mikilvægara er að bregðast við einkennum aðskilnaðarkvíða og það má í raun segja að þrátt fyrir að flest börn losni við aðskilnaðakvíða, þá eru dæmi um einstaklinga sem þjást ennþá af einkennum aðskilnaðarkvíða eftir tvítugt.    Áætlað hefur verið að um það bil 4% barna þjáist af aðskilnaðarkvíða þó svo að það megi reikna með að fleiri börn finni fyrir einkennum aðskilnaðarkvíða við ákveðnar aðstæður, þar sem einkennin geta verið misalvarleg.  Vægustu einkennin væru t.d. að eiga erfitt með að fara í skólann á morgnanna, spyrja stöðugt um hvernig dagurinn eigi að verða, og þurfa stöðugt að geta náð í foreldra sína í síma ef börnin fara til vina eða ættingja.  Mun alvarlegri einkenni væru t.d. að neita að sofa í eigin herbergi, geta ekki litið af foreldrum sínum, gera sér upp veikindi, neita að fara í skóla, og strjúka heim úr skóla og gæslu.  Orsökin fyrir aðskilnaðarkvíða er mismunandi og er líklega í flestum tilfellum fleiri en einn þáttur, og mismunandi á milli barna. Í sumum tilfellum getur verið um uppeldisáhrif að ræða, þar sem t.d. foreldri “ofverndar” barnið sitt og þjáist kannski sjálft af einskonar aðskilnaðarkvíða.  Viðkomandi foreldri á þá oft erfitt með að sleppa barninu frá sér og talar stöðugt um hættur við barnið.  Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að nokkuð algengt er að mæður barna sem þjást af aðskilnaðarkvíða þjáist sjálfar af kvíða, þar sem algengasti kvíðinn er ofsakvíði.  Aðrar orsakir aðskilnaðarkvíða má rekja til aðstæðna sem valda streitu, eins og flutningur, eða atburðir eins og veikindi eða dauði ástvinar, eða aðrar breytingar sem valda streitu hjá barninu.  Hinsvegar bregðast systkini oft mjög mismunandi við þessum aðstæðum sem gerir það að verkum að hægt væri að álykta að börn með ákveðna skapgerð séu líklegri til að þróa með sér aðskilnaðarkvíða en önnur börn. Ein þeirra meðferðarleiða sem hefur reynst vel við aðkilnaðarkvíða er hugræn atferlismeðferð, þar sem meðal annars er unnið með að hjálpa barninu skref fyrir skref að takast á við aðstæður sem valda kvíða.  Mikilvægur þáttur í þessari meðferð er að þjálfa foreldra í að hjálpa barninu.  Þegar við ætlum að hjálpa börnum okkar að takast á við aðskilnaðarkvíða er mikilvægt að hjálpa þeim skref fyrir skref að takast á við “erfðari” og “erfiðari” aðstæður.  Gefa barninu lengri aðlögunartíma að nýjum aðstæðum og reyna að undirbúa barnið vel með útskýringum eða lestri bóka um nýjar aðstæður.  Reyna að leggja áherslu á að kveðja barnið alltaf þrátt fyrir að það sé erfitt, en reyna jafnframt að eyða ekki of miklum tíma í það því minningin um erfiðar langar kveðjustundir hjálpa ekki barninu.  Leggja áherslu á að hrósa barninu fyrir dugnað þegar það er í burtu. Björn Harðarson sálfræðingur