persona.is
Að tala við börn sín um kynlíf
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Að tala við börnin sín um ást, umhyggju og kynlíf er mikilvægt hlutverk foreldra. Þegar þessi málefni ber á góma ættu foreldrar að vera meðvitaðir um að gera þau ekki erfiðari fyrir með því að vera sjálfir spenntir og óöruggir. Of margir foreldrar fresta umræðu af þessu tagi eða drepa á dreif. Börn og unglingar þarfnast fræðslu og handleiðslu frá foreldrum sínum til að vera sjálf fær um að taka heilbrigðar og réttar ákvarðanir í sambandi við kynhegðun sína. Í nútímasamfélagi er auðvelt að verða ringlaður og afvegaleiddur af öllu sem þau sjá og heyra sem snertir kynlíf. Það reynist oft vandræðalegt að tala um kynlíf, bæði fyrir foreldrana og unglinginn. Foreldrar ættu að reyna að meta hverju sinni hversu langt þeir ganga í fræðslu, veita hvorki meiri né minni upplýsingar en barnið kærir sig um og er fært um að skilja. Ef foreldrar eiga í miklum erfiðleikum með að ræða þessi mál gæti verið hjálplegt að leita eftir aðstoð frá lækni, sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi eða öðru fagfólki. Bækur með skýringarmyndum gætu einnig aukið skilning barnsins og auðveldað umræðurnar. Börn eru í eðli sínu mismunandi áhugasöm eða forvitin um kynlíf. Foreldrar ættu að nota orð sem börnin þekkja og líður vel með til að auðvelda umræðuna um kynlíf. Fimm ára gamalt barn þarf e.t.v. ekki að vita meira en það að börn komi úr sérstöku frækorni sem vaxi inni í mömmunni. Pabbinn hjálpi svo til við að láta barnið vaxa. Átta ára barn vill kannski fá að vita hvernig pabbinn hjálpar til. Foreldrar gætu þá sagt að sæði komi úr typpi pabbans sem blandist við egg (frjókorn) mömmunnar í leginu. Síðan vaxi barnið í legi mömmunnar þangað til að það er orðið nógu sterkt til að fæðast. Ellefu ára gamalt barn vill sjálfsagt fá að vita meira og foreldrar gætu til dæmis sagt frá því hvernig maður og kona hittast og fella hugi saman og ákveða upp frá því að njótast. Það er afar mikilvægt að tala um ábyrgðina og afleiðingarnar sem fylgja því að lifa kynlífi. Þungun, kynsjúkdómar og tilfinningar tengdar kynlífi þarf skilyrðislaust að ræða. Með því að tala við barnið þitt um kynlíf auðveldar þú því að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvað það sjálft vill gera og hvað ekki. Og leggir þú áherslu á að þetta séu ákvarðanir sem þarfnast þroska og umhugsunar eru meiri líkur til þess að barnið/unglingurinn taki réttu ákvarðanirnar. Unglingar ræða gjarnan um ást og kynlíf í sömu andrá og sambönd. Flestir þurfa hjálp til að kljást við tilfinningar sínar gagnvart kynlífi, oft skortir þá fræðslu um kynlíf eða eru jafnvel í efa um eigin kynhneigð. Áhyggjur yfir sjálfsfróun, tíðum, getnaðarvörnum, þungunum og kynsjúkdómum eru algengar. Sumir unglingar þurfa einnig að fást við siðferðilegar spurningar frá fjölskyldu sinni, trúarbrögðum og samfélaginu. Opinskáar umræður milli unglings og foreldra auka líkur á því að unglingurinn fresti því að byrja að stunda kynlíf og noti getnarvarnir þegar að því kemur. Þegar þú talar við unglinginn gæti verið gott að hafa þetta í huga:

·         Hvettu hann til að spyrja

·         Reyndu að vera róleg(ur) og ógagnrýnin(n) þegar þið spjallið saman

·         Notaðu orð sem eru skiljanleg og þægileg

·         Reyndu að meta hversu mikið barnið þitt skilur og veit

·         Haltu kímnigáfunni og fyrir alla muni vertu ekki feiminn við að viðurkenna að þetta er líka vandræðalegt fyrir þig

·         Tengdu kynlíf við ást, umhyggju og virðingu fyrir sjálfum sér og makanum

·         Vertu opinská(r) um eigin gildi og áhyggjur

·         Ræddu um mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin vali og ákvörðunum

·         Hjálpaðu barninu þínu við að íhuga valmöguleikana

Með því að koma á opnum og hreinskilnum tjáskiptum um ábyrgð, kynlíf og valkosti geta foreldrar hjálpað unglingum að læra um kynlíf á heilbrigðan og jákvæðan máta.

Byggt á efni frá American Academy of Child and Adolescent Psychiatry