persona.is
Að taka árangursríka ákvörðun er ferli
Sjá nánar » Annað
Lífið er uppfullt af vali og ákvörðunum. Margar ákvarðanir eru minniháttar, en alltaf kemur að þeirri stund þar sem við stöndum frammi fyrir erfiðri ákvörðunartöku. Að sjálfsögðu er afar mikilvægt að vanda sig vel þegar um er að ræða ákvörðun sem getur skipt sköpum fyrir líf okkar. Þess vegna gæti verið gagnlegt að hafa nokkur eftirtalinna atriða í huga þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Þvingunar- og valfrelsisákvarðanir. Það segir sig sjálft að ákvarðanir eru margs konar, allt frá því að vera mjög raunhæfar yfir í afar ómarkvissar ákvarðanir. Svo finnast líka ákvarðanir sem þarf nauðsynlega að taka, ákvarðanir sem hægt er að fresta eða jafnvel aldrei að taka. Stundum þarf að taka raunhæfa (concrete) ákvörðun. Þú þarft til að mynda að ákveða þig hvort þú ætlar að búa í þessu húsi þangað til að lánin falla á þig og húsið fer á nauðungaruppboð, þá er í raun búið að taka ákvörðunina fyrir þig. Oft stendur val þitt milli nokkurra kosta, t.d á ég að breyta um lífstíl, bíl eða húsnæði? Hvort sem valið er háð þvingun eða frelsi, þá stendurðu oftast frammi fyrir nokkrum möguleikum við ákvörðunartökuna. Þó svo þú þurfir nauðsynlega að taka ákvörðun, þá hefurðu oftast eitthvað val um hvernig þú framkvæmir hana. Að taka ákvörðun í raunveruleikanum. Ákvarðanir þínar eru að öllum líkindum bundnar raunveruleikanum eins og fjármálum, vinatenglsum, fjölskyldu, vinnu o.þ.h. Allt er þetta bakgrunnur þeirra ákvarðana sem þú tekur. Og til að flækja svolítið, þá er oft fleiri en ein „rétt“ ákvörðun og fleiri en ein „röng“ ákvörðun. En það eru til leiðbeiningar sem gætu hjálpað þér við að hugsa um og komast að, ekki endilega „réttri“ ákvörðun, heldur viðeigandi og áhrifaríkri ákvörðun. Að taka viðeigandi ákvörðun. Þegar þú hugsar um viðeigandi ákvörðun, veltu þá fyrir þér þeirri staðreynd að margar þinna ákvarðana hafa afleiðingar, bæði fyrir þig og mögulega fyrir aðra. Þegar þú hugsar um ákvarðanir veltu þá fyrir þér þessum þremur punktum:

·         Ábyrgð. Sumar ákvarðanir snúast alls ekki um val, miklu frekar um kröfu, einkum og sér í lagi þegar þú ert tengd(ur) persónulegri ábyrgð gagnvart einhverjum. Ef þú ert t.d. foreldri þarft þú að ábyrgjast heilbrigði og öryggi barna þinna. Veltu sérstaklega fyrir þér á hvern eða hverja ákvörðunin muni hafa áhrif á og gagnvart hverjum þú berð ábyrgð.

·         Ósjálfræði eða bráðlyndi. Stundum er engin ástæða til að bíða með að taka ákvörðun, oft er farsælast að taka ákvörðun í skyndi. Stundum er bráðnauðsynlegt að leyfa hvatvísu innsæi sínu að ráða án þess að hugsa lengi og yfirvegað um ákvörðun sína. Ef þú aftur á móti ákveður alltaf án þess að hugsa gæti það bent til bráðrar lundar þinnar og glannaskap. Þegar þú ákveður þig hugleiddu þá muninn á því að vera svolítið óyfirvegaður eða bráðlátur.

·         Langtímaáhrif. Mundu að ákvarðanir núna gætu haft afleiðingar í för með sér sem fylgdu þér til lengri eða skemmri tíma. Að kaupa föt og fylla fataskáp á einu bretti, leita sér að nýju starfi eða flytja frá einum stað til annars gæti reynst þér erfitt að taka ákvörðun um þótt engin þessara breytinga þyrfti nauðsynlega að verða þér róttæk. Að selja íbúðina og flytja búferlum til annars lands eða hætta í vinnunni eru mun mikilvægari ákvarðanir þegar litið er til lengri tíma, ákvarðanir sem erfitt er að taka aftur fari eitthvert úrskeiðis.

Þrepin að áhrifaríkum ákvörðunum. Hér á eftir fara einfaldar leiðbeiningar, í nokkrum þrepum, sem þú getur stuðst við í ákvarðanatöku. Fullvissaðu þig fyrst um að þú getir valið milli tveggja eða fleiri ákvarðana. Í flestum tilfellum ertu ekki einungis aðgerðarlaus áhorfandi að því hvernig allt „verður“ að vera.

·         Reyndu að greina kjarnann frá hisminu. Hvert er málið, vandamálið eða aðstæðurnar sem þú þarft að velta fyrir þér?

·         Hugsaðu um alla möguleikana sem þú hefur um að velja. Skráðu hvern þeirra niður, líka þessa fáránlegu. Gefðu hugmyndafluginu lausan tauminn um það hvaða ákvarðanir væri hægt að taka, mögulegar og ómögulegar.

·         Skrifaðu alla þessa möguleika niður á blað. Settu þá í tvo dálka, í annan fer það sem er í raun óraunverulegt og ómögulegt, í hinn koma allir mögulegir valmöguleikar.

·         Leggðu mat þitt á þá. Hugsaðu um alla þá mögulega kosti sem þú hefur í raun og veru. Hver passar best við þær aðstæður sem þú ert í, og þann vanda sem þú ert að reyna að leysa? Ef aðeins einn möguleiki kemur í ljós þá ertu kannski kominn strax með augljósa ákvörðun.

·         Afleiðingar. Hverjar eru slæmu hliðarnar á þeim möguleikum sem þú hefur? Á hvern hafa þær áhrif og hvernig? Hvernig munu þessi möguleikar hafa áhrif á líf þitt, fjármál, og sambönd þín við fólk?

·         Speglun. Veltu fyrir þér þessari ákvörðun sem þú ert að hugsa um að taka: Hvernig mun þér líða þegar þú tekur hana? Hvernig mun þér líða ef þú tekur ekki ákvörðunina? Er ákvörðunin sem þú ert að glíma við endanleg eða er hægt að snúa henni við?

·         Veltu öllu vandlega fyrir þér. Það er mikilvægt að kunna aðferð sem hjálpar þér í allri ákvörðunartöku. Reyndu að styðjast við ferli sem fær þig til að taka ákvarðanir að vel ígrunduðu máli. Því mikilvægari sem ákvörðunin er, því mikilvægari er ferlið við að taka ákvörðunina.