persona.is
Að lesa yfir sig og annar miskilningur um geðklofa
Sjá nánar » Geðsjúkdómar
Geðklofi er sú geðröskun sem almennt er talin vera alvarlegasta geðröskunin og er sú geðröskun sem einna helst krefst innlagna á geðdeild. Það getur hinsvegar verið mismunandi eftir einstaklingum hvernig einkennin birtast og hversu alvarlegur geðklofinn verður. Sumir verða mjög veikir, einkennin langvarandi og tímabilin sem einkennin liggja niðri stutt. Aðrir veikjast aðeins einu sinni eða sjaldan og geta lifað eðlilegu lífi þess á milli. Algengt er að upphaf einkenna eigi sér stað í kjölfar mikils álags, líkt og gerðist hjá kunningja þínum. Einstaklingurinn virðist þá oft veikjast mjög skyndilega og eru þá einkennin mjög áberandi. Þessi tími fyrstu einkenna hefur hinsvegar lengi valdið töluverðum misskilningi, þar sem fólk hefur tengt álag eins og próflestur við upphaf geðklofaeinkenna og því litið á álagið sem orsakavald geðklofa. Margir þekkja örugglega setninguna: „Hann las yfir sig.“ Þegar talað er um að „lesa yfir sig“ er oft gert ráð fyrir að álagið við lærdóminn sé hin raunverulega orsök og hefur miskilningur, í gegnum tíðina, jafnvel gert sumt fólk hrætt við nám og þá sérstaklega langskólanám. Þegar maður ræðir við fólk sem á ættingja eða vini sem „lásu yfir sig“ er það gjarnan sannfært um að ef einstaklingurinn hefði ekki farið í nám hefði ættinginn eða vinurinn aldrei veikst. Hinsvegar er mikilvægt að átta sig á að álag, eins og erfið próf eða krefjandi nám, er einungis það sem kemur einkennunum af stað en er ekki orsakavaldur geðklofans og einstaklingurinn hefði að öllum líkindum veikst við önnur skilyrði og þá kannski í kjölfar annars konar álags. Geðklofi fyrirfinnst í öllum samfélögum og hrjáir fólk alls staðar, að því er virðist, um það bil 1% fólks í þjóðfélaginu. Ef álagið eða lærdómurinn væri orsök geðklofans ættu einkennin að vera algengari í vestrænum samfélögum þar sem meira er um að fólk fari í langskólanám og almenn streita í umhverfinu meiri. Einstaklingar veikjast yfirleitt fyrst á aldrinum 18-35 ára, sem er sá aldur þar sem fólk er gjarnan í námi, og getur það að hluta til skýrt misskilning fólks. Ef lærdómurinn væri orsök ættum við að hafa orðið var við mikla aukningu á síðustu árum í samfélagi eins og okkar, þar sem krafan til náms er meiri og sífellt fleiri sækja lengra nám. Hinsvegar hefur ekki orðið aukning á geðklofa síðustu ár og ef eitthvað er virðist nýgengi (ný tilfelli) hafa farið lækkandi milli ára.   Annað atriði sem er algengur miskilningur (mýta) varðandi geðklofa er að fólk með geðklofa verði eins og margar persónur, er í raun annar algengur misskilningur sem er mjög útbreiddur um geðklofa. Margir telja að geðklofi sé það sama og margskiptur persónuleiki/klofinn persónuleiki, þar sem einstaklingur hefur tvo eða fleiri, oft mjög mismunandi, persónuleika. Þetta er mikill misskilningur, þar sem geðklofi einkennist af skynvillum, hugsanatruflunum og ranghugmyndum, svo dæmi séu nefnd, en alls ekki af mörgum persónuleikum. Þeirri röskun sem einkennist af tveimur eða fleiri persónuleikum, og nefnist klofinn persónuleiki, hef ég áður lýst í svörum mínum hér og er allt annar hlutur. Þessi misskilningur er mjög útbreiddur og er t.d. að finna í spurningarspilinu „Trivial Pursuit“ þar sem spurt er um hvað hafi hrjáð Evu í sögunni og myndinni Þrjú andlit Evu. Rétt svar er klofinn persónuleiki en misskilningurinn kemur fram í röngu svari í spilinu, þar sem því er ranglega haldið fram að það sé geðklofi. Það er engin spurning að ef fólk er hrjáð af alvarlegum geðröskunum getur álag eins og mikil streita, miklar vökur og þær streituaðstæður, sem próftímabil oft einkennast af, valdið því að einstaklingurinn veikist eða honum versnar. Aftur á móti er það mikill misskilningur að þetta álag sé orsök geðklofa.  Þar af leiðandi ættir fólk ekki að hafa miklar ahyggjur að hefja langskólanám.
 
Björn Harðarson sálfræðingur