persona.is
Að leita sér hjálpar
Sjá nánar » Geðsjúkdómar » Meðferð

Hvað er geðheilsa?

Þegar sjúklingur kemur til læknis með vandamál sín þá er venjulega um að ræða einhver áberandi einkenni svo sem hita, verk, doða, útbrot, bólgur, beinbrot o.s.frv. Í flestum tilfellum er hægt að komast til botns á einkennunum því að heilsu og veikindi er hægt að mæla og meta á ýmsa vegu. Þegar fólk leitar sér faglegrar aðstoðar vegna geðheilsu sinnar eru einkennin hinsvegar oft óljós, tilfinning, skynjun eða einhver ýkt hegðun. Jafnvel alvarleg geðræn vandkvæði þarf að meta í víðu samhengi til að öðlast skilning á þeim. Þá er átt við samskipti fólks við aðra, atvinnu þess, vini og fjölskyldulíf. Greining á tilfinninga- og sálarástandi er því ekki auðveld í framkvæmd. Ástæðan fyrir því að fólk leitar sér aðstoðar getur verið allt frá vandamálum daglegs líf alvarlegra geðsjúkdóma. Greiningin byggist að stóru leyti á lýsingu á innra ástandi, eða hvað viðkomandi skynjar og hugsar, og þá lýsingu getur verið erfitt að höndla og staðfesta með mælitækjum. Þá reynist oft vandkvæðum bundið að afla gagna sem annað hvort styðja eða hafna afmarkaðri greiningu á geð- eða tilfinningavandamálum.

Hvenær á að leita eftir aðstoð?

Ef þú eða einhver sem þér er annt um á í vandræðum með daglegt líf eða á við verulegt andlegt ójafnvægi að stríða, er það ekki alltaf ljóst hvort þörf sé fyrir faglega aðstoð eða að málin leysist af eigin rammleik. Stundum nægir að tala við heimilislækni. Nokkur viðtöl við sálfræðing eða geðlækni gætu líka dugað til að komast á ný á beinu brautina, eða orðið upphaf að langri og ítarlegri meðferð. Ástæður þess að menn leita sér hjálpar geta verið af ýmsum toga. Mörgum finnst þeir kvíðnir, vonlitlir eða þunglyndir. Stórvægilegar breytingar í lífi manna geta gert það að verkum að þeir þurfi á hjálp að halda, s.s. við atvinnumissi eða fráfall einhvers nákomins. Aðra vantar ráðleggingar vegna hjónabandsörðugleika, með barn sitt eða út af líkamlegri vanheilsu sinni. Stundum sækir fólk hjálp eigi það við hegðunarvandkvæði að stríða eða hefur ánetjast einhverri fíkn. Enn aðrir gætu þurft aðstoð vegna hugsana sem sækja á þá eða hugmynda sem þeir ráða ekki við eða jafnvel ofskynjunar. Enn fleiri ástæður eru fyrir hendi þótt ekki séu taldar upp fleiri hér. Oft er það vegna samverkandi þátta sem fólk leitar sér hjálpar. Því líður illa og maki, foreldrar, vinir, vinnufélagar, yfirmenn eða jafnvel nágrannar geta veitt því athygli að eitthvað er ekki eins og ætti að vera og stuðla að því að ákvörðun er tekin um að leita sér hjálpar. Ákveðin einkenni og vísbendingar hafa þá verið viðvarandi í einhvern tíma sem verða aðalástæða þess að hjálpar er þörf, og hennar er leitað. Meðal annarra gætu það verið einhver af eftirfarandi einkennum:

·         Vinnugeta eða framistaða í skóla minnkar umtalsvert.

·         Lélegur árangur í vinnu eða skóla, þrátt fyrir góða ástundun og kostgæfni.

·         Yfirþyrmandi áhyggjur eða kvíði, viðloðandi svefnvandamál, vangeta til að takast á við ný vandamál eða erfiðleikar við að halda vina- eða ástarsambandi.

·         Stöðugt eirðarleysi, óróleiki, áhyggjur eða ótti.

·         Misnotkun áfengis eða fíkniefna.

·         Vangeta til að takast á við kröfur og vandamál daglegs lífs.

·         Óraunhæfur ótti.

·         Mikið þyngdartap eða sveiflur í þyngd sem ekki eiga rót að rekja til lyfja.

·         Þrálátar áhyggjur vegna fæðu eða ótti við að verða fyrir barðinu á offitu þrátt fyrir eðlilega líkamsþyngd.

·         Verulegar breytingar á svefni og/eða matarvenjum.

·         Þrálátir líkamlegir kvillar eða kvartanir út af þeim.

·         Réttur annarra ekki virtur með eða án ofbeldis, svik, þjófnaðir, íkveikjur eða skemmdarverk.

·         Sjálfsvígshugsanir eða hvöt til að meiða sjálfan sig eða aðra.

·         Sjálfspíningar, sjálfskaðandi hegðun eða mjög áhættusöm hegðun.

·         Viðloðandi mikil depurð, þyngra skap eða neikvæð viðhorf gagnvart sjálfum sér, oft er því samfara minnkuð matarlyst, svefnvandamál eða hugsanir um dauðann.

·         Tíð reiðiköst eða gremja sem er ekki í samhengi við aðstæður.

·         Ofskynjanir eða aðrar óeðlilegar skynjanir.

Eftir að ákvörðun er tekin um að leita aðstoðar finnst mörgum heilbrigðiskerfið bæði ruglingslegt og erfitt að fóta sig í gegnum það í leitinni að réttri faglegri aðstoð. Hérna ríkir líka sú bagalega hefð eða hugsunargangur að leita sér ekki hjálpar fyrr en allt er í þrot komið. Menn ríghalda oft á tíðum í staðhæfingar eins og „þetta reddast“ eða „maður harkar þetta bara af sér“. En langbest væri að fara af stað sem fyrst að leita sér hjálpar áður en vandamálin verða of stór. Fæstir bíða til dæmis eftir því að bíllinn verði bensínlaus og útvega sér bensín áður en tankurinn verður galtómur. Þá hefur líka þótt ,,skömm“ að því að viðurkenna andlega krankleika sína. Sem betur fer er áðurnefndur hugsunarháttur að breytast hjá landanum og fólki er farið að þykja sjálfsagt að vandamál geti verið af öðrum toga en líkamlegum og engin minnkun sé að leita sér leiðsagnar í félagslegum eða sálrænum vanda.

Hvert á að leita eftir aðstoð?

Að heimsækja heimilsilækni er oft fyrsta skrefið hjá mörgum sem leita sér hjálpar með geðheilsu sína. Stundum virðist sú leið ekki vera ásættanleg fyrir einhverja og þá er hægt að panta viðtal á Göngudeild geðdeildar eða fara þangað ef vandamálið er brýnt. En það getur líka í fyrstu sýnst ógnvænlegt fyrir suma „að fara á geðdeild!“ og hvað er þá til ráða? Það væri hægt að útvega sér tíma hjá geðlækni, sérfræðingi eða sálfræðingi. Eins og kerfið er byggt upp á Íslandi þá er það dýrara að leita til sálfræðings en geðlæknis af því að Tryggingarstofnun ríkisins greiðir ekki niður vinnu sálfræðinga eins og geðlækna. Sálfræðinga er að vísu hægt að nálgast í gegnum Göngudeild geðdeildar og þá á niðursettu verði. Ef bráðtilvik koma upp er leitað til slysa- og bráðamóttöku spítalanna. Í skólum er reynt að fylgjast eins vel og á verður kosið með börnum okkar. Komi einhver vandkvæði upp er reynt að vinna úr þeim af hálfu skólans en verður þó alltaf að verða háð samþykki foreldra. Skólasálfræðingar eru líka til staðar við að leiðbeina foreldrum svo og námsráðgjafar í auknum mæli. Stundum þarf að vísa málum áfram til Barna og Unglingadeildar Landspítalans Dalbraut (BUGL) en þar eru sérfræðingar í að greina og veita meðferð við tilfinninga- og hegðunarerfiðleikum barna og unglinga. Þangað hafa farið um 500 tilvísanir árlega undanfarin ár. Börnum sem eiga í erfiðleikum er einnig vísað til Greiningar og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Margir foreldrar eru fljótir til að ásaka sig og vanmeta sig sem foreldra. Þetta eru ekki óeðlileg viðbrögð og eru miklu fremur merki um tengsl, styrkleika og hreysti foreldranna en hið gagnstæða. Það er langt í frá að vera auðvelt að ala upp barn sitt sem stendur höllum fæti, samhliða daglegu amstri og oft án faglegra ráða eða aðstoðar. Ef um ávana og fíkniefnaneyslu er að ræða er hægt að snúa sér beint til SÁÁ Vogi, þar sem ráðgjöf og aðstoð er veitt ef á þarf að halda. Meðferðarstöð fyrir unglinga er rekin á Stuðlum.

Hvað er geðlæknir?

Geðlæknar hafa allir farið í gegnum læknisnám og starfað við almennar lækningar í eitt ár eða lengur áður en þeir héldu áfram í sérnámi í geðlækningum sem tekur allt að sex ár. Vegna bakgrunns síns eru þeir mjög vel að sér er varðar líkamlegar ástæður og afleiðingar geðkvilla. Geðlæknar geta skrifað upp á lyf og hafa sérþekkingu í geðsjúkdómum og geðlyfjum sem oft eru óhjákvæmileg þegar um er að ræða erfiða kvilla eins og geðklofa eða geðhvörf (oflæti/þunglyndi). Lyf geta reynst nauðsynleg við upphaf meðferðar til að skjólstæðingurinn sé í stakk búinn að gangast undir annars konar meðferð. Líkt og með aðra sérfræðingslækna er þjónusta geðlækna greidd niður af Tryggingastofnun ríkisins.

Hvað er sálfræðingur?

Sálfræðingar hafa allir lokið í það minnsta fimm árum í sálfræðinámi, flestir mun fleiri. Sálfræðingur með doktorsgráðu hefur að lágmarki átta ára nám að baki. Til að öðlast starfsleyfi sem sálfræðingur þarf að uppfylla viss skilyrði sem sett eru samkvæmt reglugerð Heilbrigðisráðuneytis um sálfræðinga.  Til að öðlast sérfræðingsviðurkenningu þarf að uppfylla enn stífari skilyrði, t.d. að hafa unnið í fimm ár í viðkomandi fagi og endurmenntað sig. Það er mjög mismunandi hvað sálfræðingar gera og í hverju þeir sérhæfa sig. Hugsanlegt væri í fyrstu tilraun að skjólstæðingur hitti ekki á sálfræðing sem henti honum. Sálfræðingar þekkja hver til annars og vísa skjólstæðingum umsvifalaust til annarra telji þeir að það sé skjólstæðingi til góða. Það væri til dæmis ekki það heppilegasta fyrir foreldra barns með námsörðugleika að leita til sérfræðings í hjónabandsráðgjöf, eða hvað? Sálfræðingar hafa langt nám að baki þar sem þeir hafa lært um starfsemi hugar og heila. Nám, minni, þroski, hegðun, hugræn geta, tilfinningar, viðhorf, líkindi og líðan eru meðal annars inntak í þeirra námi. Margar mismunandi meðferðir fyrirfinnast og fer það eftir sálfræðingnum hvernig meðferð hann veitir. Sálfræðingur getur ekki skrifað upp á lyf, og sálfræðingur á stofu er ekki innan vébanda Tryggingastofnunar enn sem komið er og því er dýrara að leita til sálfræðing á stofu en geðlæknis. Þetta stendur vonandi til bóta þar sem Samkeppnisráð hefur úrskurðað um mismunun þessara starfstétta, sem annars starfa samhliða hvor annarri góðum árangri og fást oft við svipuð vandamál.

Sigurður Levy, BA í sálfræði