persona.is
Að komast í gegnum gelgjuskeiðið
Sjá nánar » Börn/Unglingar

Breytingar unglingsáranna

Breytingar unglingsáranna hefjast þegar stúlkur eru u.þ.b. 11 ára og piltar 13 ára. Hórmónabreytingarnar sem þessu valda byrja í raun og veru nokkrum árum fyrr og geta þá valdið skapstyggð og eirðarleysi. Breytingarnar hefjast fyrr hjá stúlkum en piltum og fyrstu þrjú, fjögur árin virðist sem þær þroskist mun hraðar en piltarnir. Eftir það fara strákarnir að ná stelpunum í þroska. Um 17 ára aldur verða börnin orðin ungt fólk, kannski jafnstór foreldrum sínum og geta sjálf eignast börn. Dóttirin er líkamlega tilbúin eignast börn kannski um það leyti sem móðirin fær tíðahvörf. Tækifærin og skemmtanirnar sem bjóðast unglingunum fær foreldra til að líða eins og þeir séu orðnir gamlir, jafnvel finna þeir fyrir vott af afbrýðisemi.  Í ljósi þessara öru breytinga veldur það tæpast undrun að unglingar hafi miklar áhyggjur af útliti sínu. Þeir þurfa mikillar hughreystingar við, sérstaklega ef þeir vaxa og þroskast ekki jafn hratt og vinir þeirra. Unglingarnir og foreldrar hefðu örugglega minni áhyggjur ef þeir vissu hvað mikill munur væri á því hvenær vöxtur og þroski hefst, hvenær stúlkur byrja að hafa á klæðum og hvenær piltar fara í mútur. Í allan þennan vöxt og þroska þarf heilmikla orku sem gæti aftur verið ástæðan fyrir því hvers vegna unglingar þurfa svo mikinn svefn. Auðvitað getur verið ergjandi hversu lengi þeir sofa frameftir en yfirleitt er ekki leti um að kenna.  En unglingar stækka ekki bara á þessum aldri, byrja að raka sig og hafa blæðingar. Þeir fara að hugsa öðruvísi og líðan þeirra er önnun en var. Unglingar byrja að mynda náin sambönd utan fjölskyldunnar og eignast vini á eigin reki. Sambandið við fjölskylduna breytist einnig þar sem vinátta utan hennar verður mikilvægari.  Ágreiningur verður fyrst nú þegar unglingurinn fer að hafa eigin skoðanir sem foreldrarnir deila e.t.v. ekki með honum. Eins og allir vita eyða unglingar afskaplega miklum tíma hver með öðrum, saman eða í síma. Þótt þessi sífellda samveri ergi margt foreldri er það vitað mál að hún er afskaplega mikilvæg fyrir unglinginn. Hann þroskar sjálfsvitund sína utan fjölskyldunnar á þennan hátt. Vináttubönd sem myndast á gelgjuárunum hjálpa unglingunum að læra að umgangast annað fólk. Föt og útlit verða mjög mikilvæg, bæði til að sýna samtöðu með vinum og til að minna foreldra á sjálfstæði sitt. Foreldrum líður oft sem þeim sé hafnað og á vissan hátt er raunin sú. Höfnunin er unga fólkinu nauðsynleg til að verða að fullorðnu fólki með eigin persónuleika. Tuð og rifrildi á heimilinu gætu verið daglegt brauð. Engu að síður bera unglingar yfirleitt mikla virðingu fyrir foreldrum sínum. Höfnunin og rifrildin koma kannski foreldrunum sjálfum sem mannverum lítið við, unglingurinn er öllu heldur rífast við „foreldrahlutverkið“. Unglingurinn verður smám saman að öðlast sjálfstæði sitt til að geta höndlað eigið líf.  Í baráttunni við að verða sjálfstæð neytir ungt fólk ýmissa bragða en uppgötva oft reynsluleysi sitt ef í harðbakkann slær. Þetta ójafnvægi kemur fram í sjálfsöryggi þeirra og hegðun, þau virðast fullorðin eina stundina en lítil og hjálparþurfi þá næstu. Þegar sjálföryggið þrýtur, eða unglingurinn er í uppnámi, finnst honum hann vera barnalegur og í stað þess að sýna það á hreinskilinn hátt fer hann í fýlu. Foreldrar þurfa að vera sveigjanlegir til að kljást við breytingar unglingsáranna og þeim finnst þeir oft vera undir talsverðu álagi.  Að taka áhættur Gelgjuskeiðið er tíminn þegar byrjað er að sjá heiminn raunsæjum augum og reynt að fótfesta sig í honum. Þetta leiðir af sér margs konar tilraunir af hálfu unglinganna, margar hverjar hættulegar. Fólk á þessum aldri þráir einnig spennu sem flestum fullorðnum finnst erfitt að skilja og æsandi athafnir eru oftast hættulegar. Sem betur fer fá flestir unglingar útrás í gegnum tónlist eða íþróttir sem krefjast líkamlegrar orku en fela í sér litla hættu.  Hvers konar tilraunastarfsemi á sér stað, hvort sem er drykkja, reykingar eða fíkniefnaneysla, oftast í félsgsskap annarra. Þeir sem „fikta“ í einrúmi eru í mikilli hættu. Varnaðarorð frá öðrum unglingum hafa nefnilega oftast meiri áhrif en fortölur fullorðinna.

Algeng vandamál á unglingsárum

Tilfinningaleg vandamál Rannsóknir sýna að fjórum af hverjum tíu unglingum hefur einhvern tíma liðið svo illa að þeir hefðu helst viljað gráta og komast burt frá öllu og öllum. Á meðan á gelgjuskeiðinu stendur líður einum af hverjum fimm svo illa að þeim finnst lífið ekki þess virði að lifa því. Þessar algengu tilfinningar geta komið af stað þunglyndi sem öðrum er ekki auðvelt að koma auga á. Ofát, syfja og stöðugar áhyggjur af útliti geta einnig verið merki um vanlíðan. Ýmis konar fælni og kvíðaköst eru til staðar. Nýlegar rannsóknir sýna að jafnvel fjölskyldu og vinum getur yfirsést þessi andlega vanlíðan. Kynferðisleg vandamál Hinar stórkostlegu líkamlegu breytingar sem verða á unglingsárunum geta verið óþægilegar, sér í lagi þeim sem eru feimnir og veigra sér við að spyrja. Aðrir hafa óeðlilega mikinn áhuga á kynlífi og monta sig óspart af reynslu sinni á því sviði. Meira en helmingur ungs fólks mun hafa samfarir fyrir 16 ára aldurinn og að óttinn við þungun tekur sinn toll á unglingsárunum. Þar að auki er ólöglegt að hafa kynmök fyrir 18 ára aldur. Þeir sem byrja kynlíf ungir eru í meiri hættu en jafnaldrar, bæði hvað varðar ótímabæra þungun og heilsufarsleg vandamál. Alnæmi veldur mörgum unglingnum áhyggjum. Líka gæti unglingur verið í vafa um kynhneigð sína.  Stuðningur, handleiðsla og nákvæmar upplýsingar um hinar ýmsu hliðar kynlífs eru vel þegnar, bæði frá foreldrum, skólanum eða heimilislækni.  Flestir unglingar eru varkárir í vali sínu á bólfélaga. Lauslæti eða endurtekið áhættusamt kynlíf án getnaðarvarna eru oft merki um tilfinningaleg vandamál. Það gæti líka verið merki um áhættusamt líferni, unglingar sem taka áhættur á einu sviði eiga það til að taka áhættur á öðrum sviðum.  Hegðunarvandamál Unglingar og foreldrar kvarta hver yfir hegðun annars. Foreldrum finnst þeir hafi misst stjórnina eða áhrifin yfir börnunum sínum. Svo er ekki. Unglingar vilja að foreldrar setji þeim skýrar reglur en þeir taka það engu að síður óstinnt upp finnist þeim reglur foreldranna ósanngjarnar og komi í veg fyrir frelsi sitt og sjálfstæði. Foreldrar og unglingar eru oft ósammála, enda er sundurlyndi einn þáttur þess að verða að sjálfstæðum einstaklingi. Allt er þetta eðlilegt innan vissra marka, en getur farið úr böndunum. Foreldrar missa þá algerlega stjórnina, vita ekki lengur hvar barnið er niðurkomið, hvað það aðhefst eða yfir höfuð hvað er að brjótast um í því. Reynslan sýnir að unglingum getur verið mikil hætta búin ef enginn veitir þeim eftirtekt og fylgist með þeim, hvar þeir séu, hvað að gera og með hverjum. Það er því mikilvægt fyrir foreldrana að spyrja óspart.  Vandamál í skóla Þegar unglingur neitar að fara í skólann er orsakanna oftast að leita til aðskilnaðarkvíða þess frá foreldrunum að gera. Má vera að slíkt hafi líka komið fyrir í barnaskóla. Þessi börn þjást jafnan af líkamlegum einkennum, svo sem höfuðverk og magaverk.  Önnur mæta í skólann en skrópa svo. Venjulega eru þetta börn óhamingjusöm heima fyrir og óánægð í skólanum og kjósa að eyða deginum með einhverjum öðrum sem líður álíka.  Tilfinningaleg vandamál hafa áhrif á frammistöðu í skóla. Að vera með sífelldar áhyggjur af líðan sinni eða vandamálum heima fyrir veldur einbeitingarskorti.  Þrýstingur frá foreldrum og kennurum um að standa sig vel er oftast af hinu góða af því að unglingar vilja gjarnan skara fram úr. Sífellt tuð og nöldur hefur venjulega þveröfug áhrif á það sem til var ætlast.  Að komast upp á kant við lögin Flest unglingar brjóta ekki lögin og þeir sem það gera eru í meirihluta piltar. Oftast er um að ræða eitt einstakt tilfelli. Endurtekin afbrot endurspegla e.t.v. heimilislífið en gætu líka endurspeglað óhamingju eða tilfinningalegt uppnám. Eigi unglingur í vandræðum við laganna verði er nauðsynlegt að komast að líðan hans.  Átvandamál Algeng ástæða óhamingju er offita sem kemur mörgum unglingnum í vítahring vanlíðunar. Of feitir unglingar sem grín er gert að, í skóla, heima og annars staðar verða þunglyndir og fá brátt ógeð á sjálum sér. Þeir einangrast smám saman, borða sér til huggunar og vandamálið verður sífellt verra. Megrun getur einnig aukið á vandann ef ekki er rétt staðið að. Mun mikilvægara er að gæta þess að unglingurinn sé ánægður, hvort sem hann er feitur eða mjór. Margir unglingar eru í megrun, sér í lagi stúlkur, en sem betur fer eiga fáar við átraskanir að stríða, eins og lystarstol eða lotugræðgi. Þessir sjúkdómar er líklegri til að hrjá þær sem hefja stranga megrun, hafa lítið sjálfsálit, eru undir álagi og hafa verið feitar sem börn.  Fíkniefni, leysiefni og áfengi Flestir unglingar nota aldrei fíkniefni eða leysiefni og þau sem prófa hætta því eftir nokkur skipti. Þrátt fyrir að áróðurinn beinist nánast allur að eiturlyfjum er áfengi algengasta fíkniefnið sem veldur unglingum vandamálum. Misnoti unglingur einhver slík efni ætti það ekki að fara framhjá foreldrum hans, sérstaklega ef hann sýnir miklar skapgerðarbreytingar.  Misnotkun Að lokum má nefna að líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi getur komið upp á unglingsárum og valdið öllum vandamálunum sem eru talin upp hér að framan. Fjölskyldur sem í þessu lenda þurfa aðstoð frá fagfólki og ætti skilyðislaust að leita hennar.  Óalgeng vandamál Breytingar á hegðun og skapi geta verið upphafið að mun alvarlegri geðrænum vandamálum. Geðhvarfasýki og geðklofi eru ekki algengir sjúkdómar en hefjast oft á gelgjuskeiði eða fyrri hluta fullorðinsára. Ef unglingurinn dregur sig alveg til baka frá öllu gæti það vísað til geðklofa þótt oft finnist aðrar skýringar á slíku hátterni. Foreldrar sem óttast þetta ættu að ræða við lækni.

Hvernig kemst maður af?

Unglingsárin geta verið tíminn þegar ungt fólk fær tækifæri með auknum þroska sínum að gera jákvæðar breytingar og leysa vandamál sem áður hefur íþyngt því. Gelgjuskeiðið er nefnilega ekki bara erfitt þótt það sýnist svo stundum.  Kvíðinn sem foreldrarnir ganga í gegnum jafnast á vissan hátt við óöryggi, tilfinningasveiflur og óhamingju sem unglingarnir finna. Engu að síður bera flestir unglingar og foreldrar gæfu til þess að þróa með sér jákvæð samskipti með tímanum.  Flest vandamálin sem fylgja unglingsárunum eru hvorki alvarleg né viðvarandi. Þetta er ef til vill lítil huggun þeim sem eru á gelgjuskeiðinu einmitt núna. Foreldrum finnst jafnvel sem þeim hafi mistekist hlutverk sitt sem uppalandi. Hvað sem því líður og hvað svo sem er sagt í augnabliksreiði, þá eru foreldrarnir mikilvægur þáttur í lífi barna sinna.  Einn þáttur foreldrahlutverksins er að vera örugg höfn fyrir börnin sín. Til þess að geta það þurfa foreldrarnir að vera samstíga og styðja hvort annað. Ef annað foreldri tekur málstað barnsins gegn hinu er voðinn vís.  Annar þátturinn eru reglur. Hversu fljótt sem börnin kunna að vaxa úr grasi þá eru það foreldrarnir sem sjá fyrir þeim og þeir ættu að ákveða grundvallarreglurnar. Þótt unglingurinn mótmæli hástöfum þá eru skynsamlegar reglur undirstaða öryggis og sannmælis. Reglurnar verða að vera skýrar, allir verða að vita hvar þeir standa andspænis þeim, og reglunum verður að fylgja eftir af stöðuglyndi. Reglur ættu að vera réttlátar og fækka eftir því sem barnið eldist og verður ábyrgara. Foreldrar verða að ákveða hvað sé miklvægt og hvað ekki, þótt ekki séu búnar til reglur um allt.  Refsingar eins og t.d. að taka vasapeninga af unglingnum bera tilætlaðan árangur viti unglingurinn að refsingin „að taka af honum vasapeninga“ sé til, það gagnast lítið að ákveða og beita refsingum tilviljunarkennt. Aldrei á að hóta refsingum sem verður aldrei beitt.  Enn eitt starf foreldris er að vera uppspretta ráðlegginga, samúðar og huggunar. Þetta næst því aðeins að unglingurinn viti að foreldrarnir munu ekki ráðast á sig með fordómum, gagnrýni eða ofnotuðum ráðleggingum. Mikilvægast er að hlusta.  Foreldrar ættu ekki að búast við þakklæti frá börnum sínum, þau verða sjálfsagt ekki kurteis fyrr en þau eignast börn sjálf og skilja hversu erfitt starfið er!  Kennarar eru augljóslega í lykilaðstöðu að gefa góðar upplýsingar komi upp vandamál í skólanum. Kennarinn mun jafnvel stinga upp á tíma hjá námsráðgjafa eða sálfræðingi. Með því væri hægt að komast til botns í vandamálinu, hvort sem það stafaði af námsörðugleikum eða tilfinningalegum vandamálum. Unglingurinn hefur oft áhyggjur yfir líkamlegum breytingum gelgjuskeiðsins, hvort þær komi of snemma, of seint eða að það bóli bara alls ekki á þeim. Sjálfsagt er að benda unglingi í vanda á að ræða við heimilislækninn.  Unglingum sem líður illa í lengri tíma, eru kannski með viðvarandi þunglyndi, kvíða, átröskun eða hegðunarvandamál. Þá þarf oftast á utanaðkomandi hjálp að halda. Félags- eða námsráðgjafi gæti hjálpað ef strax er tekið á vandanum. Ef vandinn er viðvarandi eða alvarlegur gæti þurft að leita til barna- og unglingageðlæknis eða klínísks sálfræðings.

© Byggt á efni frá Bresku geðlæknasamtökunum