persona.is
“að hoppa út í djúpu laugina” og meðferð við kvíða og fælni.
Sjá nánar » Kvíði » Meðferð
Það sem er verið að vísa í með þessum orðum er að hægt er að yfirvina ótta með því að skella sér í þær aðstæður sem við óttumst mest.  Ef við skoðum það bókstaflega þá er eins og allir gera sér væntanlega grein fyrir að vísa í að vatnshræddur einstaklingur getur losnað við vatnshræðsluna með að hoppa út í djúpu laugina.  Síðan hefur þessi setning orðið nokkurn vegin almenn tilvísun í að hægt sé að yfirvinna allan kvíða og fælni með því að fara í erfiðustu aðstæðurnar.  Aðferðin getur í fyrstu virkað frekar harkaleg á okkur en er á sama tíma oft sem er að virka og byggir á faglegum grunni.  Í flestum tilfellum erum við ekki að hvetja fólk til að gera eitthvað hættulegt þar sem einkenni kvíða og fælni er ótti gagnvart aðstæðum sem eru aðeins metin sem hættulegar og óyfirsíganlegar.    Þessi aðferð byggir að mestu leiti á aðferðum atferlisfræðinnar og er áherslan lögð á að fólk viðhaldi ótta sínum með því að forðast aðstæðurnar sem það óttast en getur losnað við óttan með því að “mæta örlögum sínum” og fara í þessar aðstæður.  Þrátt fyrir að það virki sem pína þá má í raun segja að þegar aðferðin er notuð rétt þá gefur hún í raun góðan árangur.  Má nefna sem dæmi að Albert Ellis sem er einn af þeim sem hefur haft einna mest áhrif á þróun sálfræðilegrar meðferðar á síðustu öld.  Hann hefur lagt ríka aáherslu í sinni nálgun að fólk geri það versta sem það geti hugsað sér.  Dæmi um hans aðferðir væri að ráðleggja einstaklingi sem óttast mikið að gera sig að fífli að fara niður í bæ á 17 júni með banana í bandi og talaði við bananann eins og hann væri hundurinn hans.  Annað dæmi væri fyrir einstakling sem óttaðist að það myndi líða yfir sig innan um annað fólk, færi á MacDonalds á föstudegi klukkan 18 og henti sér í gólfið.  Hugmyndin eins og áður sagði byggir á að ef við gerum það sem við óttumst mest, sjáum við að við getum komist yfir þær aðstæður.  Þá höfum við í raun og veru  ekki lengur neit lengur að óttast.    Margir telja hinsvegar í dag að “hoppa strax út í djúpu laugina” og gera það sem erfiðast er sé of hörð aðferð og þar af leiðandi þróaðist atferlismeðferðin meira að fólk er hvatt áfram stig að stigi nær og nær þeim aðstæðum sem það óttast og þannig reynt að koma í veg fyrir ofsakvíða.  Það er talið frekar líklegra til árangurs að fara hægt og rólega nær og nær aðstæðunum.  Á hverju stigi fyrir sig er lögð áhersla að ná taki á kvíðanum áður en lengra er haldið.  Þannig stjórnar sá sem kvíðin er hraðanum og komið er í veg fyrir ofsakvíða.  Dæmi um þetta væri t.d einstaklingur sem er hræddur við hunda byrjar á að skoða mynd af hundi, sjá hund síðan í fjarlægð og smám saman færa sig nær og nær hundinum þangað til einstaklingurinn er farinn að gleyma sér í leik með hundinum.  Reynslan sínir mjög fljótan og góðan árangur á þessarri aðferð og er oftar fyrir valinu í dag en að “henda fólki strax út í djúpu laugina”.  Atferlismeðferðin hefur auk þess þróast töluvert út í að vinna líka með hugsanirnar og hugmyndir fólks um hætturnar í aðstæðunum og einstaklingum hjálpað að breyta hugmyndum sínum um aðstæðurnar.  Þá er ekki einungus farið skref fyrir skref nær aðstæður sem fólk hræðist, heldur líka töluvert unnið með þær ósjálfráðu hugsanir sem fara af stað í huganum við kvíðavekjandi aðstæður.  Nefnist sú meðferð hugræn atferlismeðferð við kvíða og fælni og er mitt persónulega mat að oftast nær næst besti árangurinn þegar unnið er í samvinnu við skjólstæðingin bæði með því að nálgast óttavekjandi aðstæðurnarnar stig af stig og vinna með hugsanir og túlkanir, en engum sé hent út í djúpu laugina.  Einu skiptin sem ég tel að það sé líklegt til árangurs að “henda fólki út í djúpu laugina” er þegar það sjálft er tilbúið að taka þátt í þeirri nálgun.  Með faglegri vinnu, áhuga og mannúð getur sú aðferð verið stutt og árangursrík. Það er svo mikilvægt að nota ekki þrýsting og ganga gegn vilja fólks sem kvíðið er.  Það er alveg eins líklegt til að auka óttann frekar en að yfirvinna hann.   Björn Harðarson Sálfræðingur