Ţunglyndi / Fréttir

19.08.2008

Ársţing AmSál. - Geđdeyfđarlyf, ţunglyndi og akstur

Frá 116. þingi Ameríska Sálfræðingafélagsins 14-17. ágúst 2008

Þunglyndir ökumenn á lyfjum stóðu sig verst í ökuhermi - Niðurstaða rannsóknar

Svo virðist sem fólk á geðdeyfðarlyfjum aki verr en þeir sem ekki eru á slíkum lyfjum. Þeir sem eru á geðdeyfðarlyfjum og eru enn þá þunglyndir eiga í mestum erfiðleikum við að einbeita sér og bregðast rétt við. Þetta eru ályktanir af rannsókn sem var kynnt á ársþingi AmSál. (APA).

Sálfræðingarnir Holly Dannewitz PhD og Tom Petros PhD við University of North Dakota fengu 60 manns til að taka þátt í tilraun í ökuhermi þar sem þátttakendur þurftu að taka röð af venjulegum ákvörðunum og bregðast við aðstæðum í “akstri”, t.d. að bregðast við bremsuljósum, stöðvunarmerkjum, umferðarljósum og voru á sama tíma að fást við önnur áreiti eins og hraðamerkingar, dýr, aðra bíla, þyrlur eða hjólreiðafólk. Ökuhermirinn skráði stýringu, einbeitingu og yfirsýn. Helmingur var á geðdeyfðarlyfjum hinir á engum lyfjum.

Þeir sem voru á geðdeyfðarlyfjunum var skipt í tvo hópa eftir því hve hátt þeir skoruðu á þunglyndisprófi. Þeir sem voru á geðdeyfðarlyfjum og voru með mörg þunglyndiseinkenni stóðu sig marktækt verr en samanburðarhópur. Þeir sem voru á geðdeyfðarlyfjum og með færri þunglyndiseinkenni (lyfin farin að bera árangur) stóðu sig jafnvel og samanburðarhópurinn, eins vel að meðaltali og þeir sem ekki voru á lyfjum.

“Þeir sem taka geðdeyfðarlyf ættu að vera vakandi gagnvart hugsanlegum áhrifum á hugarstarfsemi sem geta haft áhrif á frammistöðu í námi og starfi auk þess að hafa áhrif á aksturshæfni” segja Holly Dannewitz og Tom Petros. “Hins vegar virðist það vera lundarfarið, eða öllu heldur geðdeyfðin sem tengist frammistöðunni, miklu frekar en notkun geðlyfja”.

Fréttaskýring: Vil gjarnan undirstrika að þunglyndi á háu stigi fylgir m.a. skert einbeiting og hægari viðbrögð sem hvort tveggja hefur áhrif á aksturshæfni. Þess vegna er meðferð við þunglyndi mikilvæg, hvort sem það er lyf, viðtalsmeðferð eða hvort tveggja. Það getur verið ástæða til sérstakrar varúðar í akstri þegar þunglyndi er á háu stigi og (lyfja)meðferðin er ekki farin að bera verulegan árangur. JSK


Til baka


 


© Copyright 2004, Persóna.is. Allur réttur áskilinn.