persona.is
Tilfinningar og geðshræringar
Sjá nánar » Tilfinningar

Flokkun tilfinninga

Tilfinningar okkar eru ekki allar af sama bergi brotnar. Svo mjög er þeim ólíkt farið að við gætum freistast til að spyrja hvað í ósköpunum tannpína og heimshryggð, stolt og þorsti, gleði og ótti eigi sameiginlegt annað en að falla undir hið óljósa hugtak tilfinning, hugtak sem nær yfir alls kyns geðbrigði, langanir, ástríður, kenndir og síðast en ekki síst, geðshræringar. Síðustu tuttugu árin eða svo er orðið viðtekið að skipta tilfinningum (e. „feelings“) í tvo meginflokka: annars vegar kenndir (e. „feels“ eða „raw feelings“) og hins vegar geðshræringar (e. „emotions“). Á sama tíma hefur svokölluð vitsmunakenning um geðshræringar orðið allsráðandi meðal sálfræðinga og heimspekinga sem fjallað hafa um tilfinningalífið. Hvergi er hægt að ganga að vísum neinum tæmandi lista yfir allar mannlegar geðshræringar. Reiði er geðshræring, sem og samúð, meðaumkun, ótti, sorg, blygðun, öfund, afbrýðisemi, gleði, stolt og iðrun. Enn fleiri tilfinningar eiga óumdeilanlega heima á þessum lista; um aðrar leikur tvímælum. Þess ber að geta að þegar getið er einstakra geðshræringa hér að neðan er alla jafna átt við stundlegar geðshræringar, þ.e.a.s. geðshræringar sem vara í ákveðinn tíma: „Pétur er alveg þrælafbrýðisamur út í Dag síðan Sigga sagði Pétri upp og fór að vera með Degi.“ Auðvitað kann Pétur að hafa verið afbrýðisamur gagnvart Degi í gær líka af einhverju öðru tilefni, og ef til vill verður hann einnig afbrýðisamur á morgun af þessari eða einhverri annarri ástæðu. Við værum þó enn að fást við stundlegar tilfinningar. Ef allar þessar staðreyndir um Pétur stæðust væri á hinn bóginn ekki úr vegi að lýsa honum almennt sem „afbrýðisömum einstaklingi“. En þar með væri ekki lengur um að ræða stundlega geðshræringu heldur varanlegt skapgerðareinkenni: þá hneigð að finna einatt til geðshræringarinnar afbrýðisemi við ákveðnar aðstæður. Annað ber að nefna: Þótt ást, vinátta og leti séu stundum tekin sem dæmi um geðshræringar er slíkt vafasamt þar sem þau eiga meira skylt með flóknum skapgerðareinkennum, hneigðum, en einstökum geðshræringum. Ástfangni maðurinn finnur til gleði í örmum ástvinu sinnar, afbrýðisemi er hún gefur öðrum undir fótinn, reiði þegar hún er misrétti beitt o.s.frv. En hæpið virðist að lýsa ástinni sem einstakri, sjálfstæðri geðshræringu, utan og ofan við allar hinar sem hún vekur. Hvaða samkenni hafa geðshræringar þá og hvað greinir þær frá einberum kenndum? Til að skilja mun kennda og geðshræringa og um leið kjarnann í hinni ríkjandi vitsmunakenningu um geðshræringar er ekki úr vegi að huga að þeim tveimur meginkenningum sem mótuðu sýn fræðimanna á tilfinningar á öndverðri 20. öld og fram yfir hana miðja: skyn- og atferðiskenningu.

Skynkenning um geðshræringar

Samkvæmt skynkenningu er það hin óbrotna skynjun eða „upplifun“ sem gerir tilfinningu að ákveðinni geðshræringu og greinir hana frá öðrum slíkum. Í hugskoti okkar birtist allt í einu skynjanlegur eiginleiki sem við sjálf (og aðeins við sjálf) eigum aðgang að með sjálfsskoðun. Ég er afbrýðisamur þegar ég finn fyrir hinni sérstöku kennd sem tilheyrir afbrýðisemi og er eðlisólík öðrum kenndum sem ég þekki einnig af eigin raun: kenndum er auðkenna reiði, blygðun o.s.frv. Við sjáum að skynkenningin leggur þannig í raun að jöfnu geðshræringu og upplifaða kennd. Fylgismenn hennar voru þó á öndverðum meiði um uppruna eða orsakir kenndanna, hvort þær teldust umfram allt sálræns eðlis eða hvort skýra mætti tilvist þeirra með hreinum lífeðlisfræðilegum hætti. Er blygðun til dæmis einhvers konar „innri upplifun“, af „andlegu“ tagi, eða felst hún ekki í öðru en skynjun lífrænna ferla: aukins blóðstreymis sem hleypir roða í kinnar okkar, kökks í hálsi og þar fram eftir götunum? Segja verður hverja sögu eins og hún gengur og svo vill til um skynkenninguna að forsendur hennar dagaði smám saman uppi. Sálfræðingar gáfust fljótt upp á sjálfsskoðunaraðferðinni. Náttúran reyndist ekki hafa gefið manninum „glugga á brjóstið“ svo að hann gæti gengið úr skugga um það með vissu hvað honum byggi innanrifja. Fyrr en varði kom þannig í ljós að niðurstöður sjálfsskoðunar voru í besta falli ósambærilegar, í versta falli öldungis ómælanlegar og huglægar. Einn gat lýst iðrun sinni sem magapínu, annar sem möru er hvíldi á honum, sá þriðji sem samviskubiti (hvað sem það merkir nákvæmlega) og þannig í það óendanlega. Sami einstaklingurinn kunni jafnvel að lýsa skynjun sömu geðshræringar á ólíkan hátt í ólík skipti. Hver var þá hin rétta kennd, sú sem auðkenndi geðshræringuna iðrun? Hér reyndist fleira til vansa en það eitt að annmarki væri á sjálfsskoðunaraðferðinni. Mergurinn málsins er sá að ekki virðast vera nein nauðsynleg tengsl milli tiltekinna geðshræringa og tiltekinna skynjana. Það er einfaldlega engin kennd til sem lýsa má með ákveðnum hætti sem gleðikenndinni, reiðikenndinni eða óttakenndinni. Stundum getur einstaklingur naumast kyngt vegna geðshræringar, stundum vegna þess að hann er að skrælna af þorsta. En munnþurrkurinn er einn og hinn sami. Merkar lífeðlisfræðilegar rannsóknir hafa stutt þessa niðurstöðu: Sjálfboðaliðum var gefinn ótæpilegur skammtur af adrenalíni um leið og þeim var talin trú um að tilefni væri að skapast til mikillar geðshræringar. Og þátttakendur fundu allir til sterkra kennda. En þeir höfðu ekki hugmynd um hver geðshræringin var fyrr en þeim var gefin í skyn trúleg ástæða (ekki efnisleg orsök) hamagangsins innra með þeim. Sumum var þá sagt að þau hefðu verið rangindum beitt – þau fundu jafnskjótt til reiði; öðrum að þau stæðu frammi fyrir háska – þau fundu til ótta; hinum þriðju að þau hefðu orðið fyrir láni – þau fundu til gleði. Þannig virtist í raun enginn lífeðlisfræðilegur munur vera á þessum þremur, að maður skyldi ætla gjörólíku, geðshræringum: reiði, gleði og ótta. Ein villa skynkenningarsinna virtist vera sú að horfa framhjá tilefnum geðshræringa og um leið röklegu eðli þeirra. Það er meira en einfalt reyndaratriði að við finnum ekki til iðrunar nema gagnvart einhverjum athöfnum sem við höfum þegar framkvæmt og skömmumst okkar fyrir. Gæti það gerst einn góðan veðurdag að maður tæki upp á því að iðrast ódrýgðra glæpa – eða þeirra góðverka sinna úr fortíðinni sem hann er stoltastur af? Skynkenningin getur í raun ekki útilokað þessa kosti, svo fremi að „rétta kenndin“ geri vart við sig. Fljótt á litið virðist hins vegar mikil freisting til að álykta að slík undur séu í einhverjum skilningi ókleif, ef ekki í reynd þá að minnsta kosti þannig að þau geti ekki gerst hjá neinum rökvísum einstaklingi. Til frekari áréttingar alls þessa má nefna að manni getur skjátlast um geðshræringar sínar í skilningi sem ekki á við um kenndir. Berum saman tvær fullyrðingar: a) „Ég hélt ég væri svo hryggur þegar langamma geispaði golunni og eftirlét mér eigur sínar, en nú er ég búinn að átta mig á að innst inni var ég himinlifandi“ og b) „Ég hélt ég væri með tannpínu í gærkvöldi en nú er ég búinn að átta mig á að svo var ekki.“ Það sýnist fátt athugavert við fyrri fullyrðinguna en sú síðari er vægast sagt mjög dularfull, nema hún merki einfaldlega að verkurinn sem ég hélt að væri tannpína hafi átt upptök sín annars staðar: kannski í tannholdinu eða gómnum. Manni getur ekki skjátlast um einbera kennd, eins og sársauka í munni; annaðhvort finnur maður til hennar eða ekki. Það er því engin hending að ljóðlínur Sigurðar Grímssonar, „mér fannst ég finna til“, hafa svo oft verið hafðar í flimtingum. Bókmenntir heimsins eru hins vegar uppfullar af dæmum um fólk sem misskildi geðshræringar sínar: villtist á ást og losta eða heilbrigðum metnaði og illgjarnri öfundsýki. Að lokum má nefna um skilsmun kennda og geðshræringa að hinar síðarnefndu hverfa oft, en hinar fyrrnefndu ekki, þegar okkur uppljúkast ný sannindi. Ef ég átta mig á því að velsæmisbrotið sem ég hélt að ég hefði framið hafi í raun verið fullkomlega viðeigandi atferli þar sem það átti sér stað hætti ég umsvifalaust að finna til blygðunar vegna þess, að minnsta kosti sé allt með felldu um hugsun mína. Einstaklingur sem vaknar eftir skurðaðgerð með sáran verk í fæti hættir hins vegar ekki að finna til hans um leið og honum er sagt að fóturinn hafi verið numinn brott. Á móti vegur að vísu sú staðreynd að fólk getur skynjað sársauka sterkar eða veikar eftir því hvað það þekkir vel til orsaka hans. Þegar læknirinn kveður upp úr um að stingurinn í kviðarholinu á mér sé vindverkur en stafi ekki af botnlangabólgu þá hætti ég að gefa óþægindunum jafnmikinn gaum og áður, tek vart eftir þeim lengur. En það breytir því ekki að sé um raunverulegan lífeðlisfræðilegan verk að ræða hverfur hann naumast við það eitt að heyra þessi gleðitíðindi. Af öllu framansögðu má ráða að þótt geðshræringum fylgi einatt, og jafnvel alltaf, einhvers konar kenndir þá séu geðshræringar ekki kenndir. Það var í raun réttri ekki annað en þessi barnslega einfalda ályktun sem á endanum kvað skynkenninguna í kútinn.

Atferðiskenning um geðshræringar

Víkjum þá stuttlega að atferðiskenningu um geðshræringar. Samkvæmt henni koma geðshræringar kenndum ekkert við, og röklegum skilyrðum ekki heldur; geðshræring er ekki annað en tiltekið lært atferðismynstur: Maður er afbrýðisamur þegar hann bregst við ytra áreiti með þeim hegðunarvenjum, töktum, keipum og kenjum sem auðkenna afbrýðisemi. Sama gildir svo um reiði, gleði, iðrun o.s.frv. Hvað gerist eða gerist ekki innra með okkur er hins vegar aukaatriði. Tvíþætt rök gegn þessari kenningu blasa við: í fyrra lagi að geðshræring geti auðveldlega átt sér stað án þess að henni fylgi nokkurt sérkennandi atferði (hversu oft sem þetta tvennt kann að haldast í hendur) og í síðara lagi að fólk sýni iðulega af sér dæmigert atferði geðshræringar án þess að geðshræringin sjálf sé fyrir hendi. Fyrra atriðið byggist meðal annars á þeirri einföldu alþýðuspeki að margur beri djúpa und þótt dult fari. Reiður maður hækkar einatt róminn, gnístir tönnum og kreppir hnefa, en það virðist hæpið að halda því fram að hann geti ekki verið reiður án einhverra (eða allra) þessara ytri merkja. Bregst maður ekki einmitt stundum við þveröfugt því sem ætla hefði mátt: sýnir hinum hataða yfirdrifna elskusemi og hinum elskaða kuldalegt þel? Og hvað um ómeðvitaðar tilfinningar eða þann viljastyrk að geta haldið geðshræringum sínum í skefjum? Freistandi væri að álykta að atferðissinnar villtust á algengum vísbendingum um geðshræringar og eðli geðshræringanna sjálfra. Þeir eiga þó þann útveg að segja að reiði þurfi ekki endilega að koma fram með beinum reiðilátum; nóg sé að viðkomandi hafi tilhneigingu (niðurbælda eða ekki) til slíkra láta. En þessi viðbára rýrir óneitanlega skýringargildi kenningarinnar, nema þá að unnt sé að sýna fram á að „tilhneigingin“ birtist jafnan með einhverjum mælanlegum hætti: smágervum titringi, andlitskippum, vöðvaspennu eða þess háttar. Vandinn er hins vegar sá að slíkt hefur aldrei verið leitt í ljós. Þvert á móti bera sjúklingar sem þolað hafa algjöra vöðvalömun af völdum lyfsins curare að þeir hafi engu að síður fundið til geðshræringa. Síðari rökin gegn atferðiskenningunni varða látalæti. Gamalt íslenskt máltæki segir að ekki séu allir jafnhaltir og þeir hinkra. Sé reiði sama og ákveðið atferðismynstur hvað þá um þann sem læst vera reiður með því að gnísta tönnum, kreppa hnefa og þar fram eftir götunum, en er það í raun og veru ekki? Það sýnist útilokað að greina þar á milli veruleika og uppgerðar nema með skírskotun til hugarástands – þess haldreipis sem atferðissinnarnir hafa sjálfir skorið á. Ef svar þeirra er hins vegar að upp komist svik um síðir, látalætin séu aldrei meir en ómerkilegur leikaraskapur sem auðvelt sé að sjá í gegnum, þá kunna fagurfræðileg rök allt í einu að skipta máli. Og þar segja sumir að góðir leikarar hafi fyrir löngu kveðið upp hinn endanlega dauðadóm yfir atferðiskenningunni um geðshræringar.

Vitsmunakenning um geðshræringar

Varast ber að spretta of gáleysislega á böndin milli geðshræringa annars vegar, kennda og atferðis hins vegar. Dæmigerð geðshræring er vissulega knýtt við hvort tveggja. En um leið er hún annað og meira en einber kennd eða einbert atferði. Þetta eru fylginautar hennar – en hver er hún sjálf? Samkvæmt vitsmunakenningu (e. „cognitive theory“) skiptir höfuðmáli að gera sér grein fyrir eðlismun kennda og geðshræringa. Kenndirnar hafa enga tilvísun utan sjálfra sín; nauðsynlegt og nægilegt skilyrði þeirra er það eitt að vera skynjaðar sem slíkar. Geðshræringarnar hafa hins vegar „stefnu“ eða „viðfang“ sem vísar út á við. Að segjast vera reiður, punktur og basta, er í raun ekki annað en stytting á því að segjast vera reiður við einhvern, vegna einhvers. „Ég er sárreiður við þig að þú skyldir dirfast að mæta drukkinn í afmælið mitt!“ gæti ég sagt við mág minn. Tökum eftir því að tilefni eða viðfang reiðinnar þarf ekki nauðsynlega að vera hið sama og orsök hennar. Kannski varð ég reiður við aumingja manninn af þeirri orsök einni að ég var illa fyrir kallaður: hafði ekki sofið dúr nóttina fyrir afmælið. Og það að hann birtist drukkinn í veislunni hefði getað kallað fram reiði við einhvern annan, til dæmis systur mína að hún skyldi giftast öðrum eins lúða. Kenndir (til dæmis líkamlegur pirringur vegna svefnleysis eða vellíðan eftir góðan málsverð) geta þannig á stundum skapað sér tilefni, eða eins og Sigurður Nordal orðaði það eitt sinn svo skemmtilega: sest „á þau tilefni, sem við hendina eru, eins og hrævareldar á siglutré, en svo lítur út eins og siglutrén hafi framleitt logann.“ Þetta breytir þó ekki því að geðshræring, svo sem reiði mín við máginn í dæminu að ofan, er jafnraunveruleg þó að orsökin hafi verið einhver allt önnur en hegðun hans sjálfs. Það væri blekking ef ég segði við hann daginn eftir að ég hefði ekki raunverulega verið reiður heldur svefnlaus. Ég var reiður. Hins vegar gæti ég beðið hann afsökunar með því að kannast við að reiði mín hafi verið ástæðulaus eða óviðeigandi (sjá síðar): „Vitaskuld var ekkert athugavert við að þú mættir góðglaður í veisluna; þarna var hvort eð er annar hver maður í kippnum.“ Hugleiðingar af því tagi sem hér hafa verið fram bornar urðu stofninn að svokallaðri vitsmunakenningu er bylt hefur hugmyndum manna um geðshræringar síðustu tvo til þrjá áratugi. Vitsmunakenningin leysti að mörgu leyti úr læðingi staðnaða umræðuhefð. Eins og flestar „nýjar“ fræðikenningar byggist þessi þó á gömlum grunni. Sá grunnur var meðal annars lagður af Stóuspekinni grísku, en þar var því haldið fram að geðshræringar okkar væru af ætt dóma eða skoðana, ekki kennda. Á tæknimáli nútímaheimspeki er komist svo að orði um það eðli geðshræringanna að beinast út á við að þær hafi yrðanlegt inntak ( e. „propositional content“): þær séu um eitthvað í hinum ytra heimi sem taka megi hugartökum. Staðhæfingin: „Ég er reiður við Jón fyrir að hafa tekið bílinn minn“ felur í sér að Jón hafi beitt mig einhverjum rangindum (Siða)dómurinn sem reiði mín ber með sér er ekki dómur um reiðina. Hann virðist í einhverjum skilningi vera sjálf reiðin. Í fyrstu var fundið að því að vitsmunasinnar um geðshræringar einblíndu á skynsemiseðli geðshræringanna en gleymdu viljaþættinum. Vit án vilja skapar ekki geðshræringu. Ef mér stendur á sama þótt Jón steli bílnum mínum þá reiðist ég ekki við hann þó að ég haldi að hann hafi gert það. Flestir vitsmunasinnar hafa nú innlimað þennan viljaþátt í kenningu sína: Geðshræringar eru skoðanir, blandnar sterkri hvöt, þrá eða löngun, segja þeir. En hvað þá með sjálfan hrifvakann, það sem á endanum „hrærir geðið“? Er ekki hugsanlegt að bæði vit– og viljaskilyrðið sé uppfyllt, ég trúi því að Jón hafi tekið bílinn ófrjálsri hendi og mér sé að auki mjög annt um að eigur mínar séu látnar í friði, en ég fyllist samt engri reiði: ég sé annaðhvort svellkaldur eða sinnulaus? Varla væri hægt að lýsa slíku ástandi sem geðshræringu; og er því ekki reiði-kenndin einnig nauðsynleg? Eitt mögulegt svar við því er að kenndin hljóti þegar að vera gefin í eðli viljans sjálfs. Hugmyndin um ófullnægða löngun (þrá, hvöt) án nokkurrar ófullnægju stendur þannig völtum fæti. Hversu „sinnulaus“ getur löngun verið og samt talist löngun? Ef mér er skítsama þótt Jón steli bílnum hvernig er þá hægt að halda því fram að ég hafi haft löngun til þess að honum yrði ekki stolið? Nei, ófullnægð löngun skapar ófullnægjukennd; það er raunar sannleikskornið í skynkenningunni hér að framan. Hitt er svo annað mál að sú kennd getur verið bæld eða ómeðvituð og tekið á sig ýmsar ólíkar myndir, því eins og bent var á eru engin nauðsynleg tengsl milli tiltekinnar geðshræringar og tiltekinnar kenndar eða kennda. Önnur algeng mótbára gegn vitsmunakenningunni er þessi: Það er að vísu rétt að ótti byggist yfirleitt á þeirri skoðun okkar að hætta sé á ferðum, reiði á þeirri skoðun að við höfum verið órétti beitt o.s.frv. En stundum gerist það að geðshræring fer í bág við rökstuddar skoðanir okkar. Vissulega kann hún þá að vera órökvís, en enginn hefur heldur sýnt fram á að rökvísi sé nauðsynlegt skilyrði geðshræringar. Gott dæmi um þetta er kóngulóahræðsla hjá fólki sem alls ekki hefur þá skoðun að kóngulær séu hættulegar, veit meira að segja fullvel að þær sem skríða um móa á Íslandi eru sauðmeinlausar. Sumir vitsmunasinnar svara þessari mótbáru með því að gera greinarmun á viðhorfum og skoðunum og telja geðshræringar byggjast fremur á hinu fyrrnefnda: „horfi okkar við hlutunum“ fremur en beinum skoðunum um þá. Aðrir telja að maður geti auðveldlega í senn haft þá skoðun að kóngulær séu hættulegar og að þær séu það ekki, hin fyrri sé þá aðeins niðurbæld og ómeðvituð en brjótist fram við tilteknar aðstæður. Samkvæmt því er kóngulóahræðsla ákveðin tegund af sjálfsblekkingu. Við skulum ekki dvelja lengur við slík álitamál en gefa okkur að þrátt fyrir allt sé kjarni vitsmunakenningarinnar traustur: Geðshræringar eru viljatengd viðhorf eða skoðanir; þær eru háðar viti (viðhorfi eða skoðun) og vilja (löngun eða hvöt, meðfæddri eða lærðri). En um leið og við höfum samþykkt þetta blasir annað við: Hin rótgróna hugmynd um eðlismun geðsmuna og vitsmuna virðist fallin af stalli. Geðsmunirnir (eða að minnsta kosti geðshræringarnar) eru þrungnir af vitsmunum, alveg á sama hátt og vitsmunavélin er knúin áfram af glóð tilfinninga og eðlishvata. Tvíeðli mannsins, sem skynsemisveru og ástríðuþræls, virðist blekking ein.

Ábyrgð á geðshræringum

Einhverjum tortryggnum lesenda kunna nú þegar að hafa flogið í hug eftirfarandi andmæli: Ef marka má vitsmunakenningarnar þá er skoðun eða viðhorf nauðsynlegur þáttur allra geðshræringa. En það að hafa skoðun eða viðhorf er í vissum skilningi að fella dóm. Að fella dóm er athöfn. Athafnir eru á valdi okkar; þær eru ákvarðaðar af okkur sjálfum og við berum ábyrgð á þeim. Og þá eru geðshræringarnar líka á valdi okkar og ábyrgð. En hér, segði tortryggjandinn, hljóta vitsmunasinnarnir að hafa hlaupið á sig. Grípið einfaldlega næstu ævisögu eða skáldrit úr bókaskápnum ykkar og horfist í augu við veruleikann. Þar lesið þið ekki um fólk sem velur sér geðshræringar eins og það kaupir í matinn. Nei, í bókmenntunum, alveg eins og í daglega lífinu, rennur fólki í skap, það er slegið ótta, yfirkomið af harmi eða frá sér numið af gleði. Er ekki geðshræring eitthvað sem áfellur okkur, sem steypist yfir okkur úr stálheiðu lofti, fremur en sjálfvalin athöfn? Andmælandinn gæti að vísu vel fallist á að það stæði upp á okkur að reyna að temja hin ytri merki geðshræringanna undir ok velsæmisins: láta ekki á þeim bera nema í hófi. En honum þætti það ugglaust fráleit skoðun að við gætum borið ábyrgð á tilvist geðshræringanna sjálfra, þar sem þær kraumuðu og bulluðu í iðrum sálarlífsins. Þessum andmælum var í raunar þegar svarað fyrir 2300 árum í Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles. Þar ræðir Aristóteles jöfnum höndum um siðferðisdygðir og geðshræringar. Kenning hans er sú að hverjum verði það að list sem hann leikur. Við verðum réttlát með því að breyta einlægt á réttlátan hátt, öfundsjúk ef við höfum leyft okkur að öfundast nógu oft út í aðra o.s.frv. Kjarni málsins er sá að þótt ranglátu og öfundsjúku mennirnir kunni að vera ófærir um það að vinna bug á þessum hneigðum sínum þá beri þeir ábyrgð á þeim vegna þess að þeim stóð upphaflega til boða að verða ekki slíkir menn. En hvað merkir það að við verðum réttlát með því að velja leið réttlætisins – hljótum við ekki þegar að hafa verið réttlát fyrst við ákváðum að velja hana? Þetta er mótbára sem Aristóteles veltir sjálfur fyrir sér og svar hans er ofureðlilegt: Ræktun dygðanna hefst með uppeldinu: „Af þeim sökum skiptir ekki litlu máli“, segir hann, „hverju við venjumst frá blautu barnsbeini, heldur miklu og reyndar öllu.“ Hér má líka minnast orðanna úr Grettlu: „Engi maður skapar sig sjálfur.“ En sé raunin þessi erum við þá ábyrg fyrir hneigðum okkar eftir allt saman? Verðum við ekki að skrifa þær á reikning foreldra okkar og annarra uppalenda? Uppeldi skiptir vissulega miklu máli, en smám saman þroskast þó með okkur sjálfstæð dómgreind til að meta það sem við höfum áður vanist á. Þannig „erum við [sjálf] á vissan hátt samsek um hneigð okkar“, eins og Aristóteles kemst að orði. Að drekka í sig í æsku hinar réttu dygðir og geðshræringar er í mesta lagi nauðsynlegt en ekki nægilegt skilyrði dygðugs lífernis á fullorðinsaldri. Sem fulltíða einstaklingur verður maður ekki aðeins dæmdur af verkum sínum, eða hinum ytri merkjum geðshræringanna, heldur af því hvort verkin og tilfinningarnar séu til komin á réttan, sjálfvalinn hátt. Það eru nákvæmlega þessi sannindi sem enduróma í vitsmunakenningu nútímans: Að svo miklu leyti sem geðshræringar okkar fela í sér skoðanir, og að svo miklu leyti sem við berum ábyrgð á skoðunum okkar, þá berum við einnig ábyrgð á geðshræringunum. Sá tími kann að koma í lífi flestra manna að róttæk breyting á hneigðum til einstakra geðshræringa reynist þeim ofviða. Hambrigðafimina þrýtur og menn verða fangar geðshræringa sinna. En þrátt fyrir það má eigna hinum „stöðnuðu“ ábyrgð á eigin geðshræringum. Ástæðan er sú að þeir eru ábyrgir fyrir því hvernig persónur þeir urðu: á hvern hátt þeir leyfðu sjálfum sér að þróast, hvað þeir gerðu úr sér.

Viðeigandi og óviðeigandi geðshræringar

Standist sú kenning sem reifuð hefur verið hér að framan þá hefur hún talsvert afdrifaríkar afleiðingar fyrir mat okkar á geðshræringum: hvort þær séu viðeigandi eða ekki. Í sem stystu máli má segja að meginályktunin sé sú að slíkt mat, jafnt röklegt sem siðlegt, eigi fullkominn rétt á sér. Við getum lofað geðshræringar manna og lastað, rétt eins og við lofum og löstum dygðir þeirra og lesti. Kannski væri réttara að segja: aðrar dygðir þeirra og lesti, því líkt og fram hefur komið sló Aristóteles þessum skapgerðareinkennum nánast í einn bálk. Að ósekju má hér enn staldra ögn við kenningu hans um það efni. Mergurinn málsins hjá Aristótelesi er sá að allt eigi sinn stað og tíma. Breytni er þá og því aðeins dygðug að hún sé auðsýnd við réttar kringumstæður. Á sama hátt segir Aristóteles að geðshræringar eigi að laga sig að samhenginu. Ef vel á að vera eigum við að finna til þeirra gagnvart réttum einstaklingi, á réttum tíma og í réttum mæli; geðsveiflurnar mega hvorki vera of ákafar né of daufgerðar. Aftur er varasamt að tala um dygðir og geðshræringar því að samkvæmt Aristótelesi er snar þáttur dygðanna tilfinningalegs eðlis. Hugrekki felst þannig meðal annars í því að vera hvorki of- né ónæmur á hættur. Einna athyglisverðust er umræða Aristótelesar um þær geðshræringar sem síst eiga upp á pallborðið hjá fólki, að minnsta kosti í orði. Aristóteles vill halda opinni vök því til sönnunar að ýmsar þeirra séu lofsverðar upp að vissu marki, þ.e.a.s. svo lengi sem maður virðir meðalhófið milli allra öfga. Til dæmis er sá eiginleiki að geta ekki með nokkru móti reiðst ekki kostur heldur löstur í fari manns, því:

þeir sem reiðast ekki vegna þess sem skyldi teljast kjánar og einnig þeir sem reiðast ekki eins og skyldi eða þegar skyldi eða þeim sem skyldi. Menn halda að slíkir menn skynji hvorki né kenni til og fyrst þeir reiðist ekki beri þeir ekki hönd fyrir höfuð sér. Það er þrælsháttur að láta sér lynda móðganir í garð sjálfs sín og vina sinna.

Sams konar rök gætu svo gilt um aðrar geðshræringar sem fæstir líta jákvæðum augum, þar á meðal afbrýðisemi. Það er furðu viðtekin skoðun að sé á annað borð hægt að hafa áhrif á slíkar geðshræringar þá beri okkur að uppræta þær. Þvert á móti, segir Aristóteles: Þær þjóna einnig sínum tilgangi svo fremi að við fáum þeim rétta stefnu. Farsældin felst í eflingu þeirra kosta sem stuðla að ágæti okkar á hverju sviði; tryggja vöxt og viðgang mannsins. Og ef við vanrækjum að rækta alla flóru tilfinningalífsins, lággróðurinn jafnt sem skrautplönturnar, þá náum við ekki að þroskast og dafna, komumst ekki til manns. Þessi alhliða mannrækt er þungamiðjan í dygðasiðfræði Aristótelesar, sem raunar hefur gengið í mikla endurnýjun lífdaganna, samhliða vitsmunakenningunni um geðshræringu, nú á allra síðustu árum. Í anda Aristótelesar og vitsmunakenningarinnar má því setja fram eftirfarandi reglu um mat geðshræringa: Geðshræring er viðeigandi þá og því aðeins að viðfang hennar eða tilefni réttlæti hana. Þannig geta verið tvenns konar meginbrestir í geðshræringum okkar: Þær geta verið órökvísar eða ósiðlegar. Geðshræring er órökvís ef viðhorfið sem hún byggist á stangast á við aðrar rökstuddar, skynsamlegar skoðanir (til dæmis hjá manni sem tekur að iðrast ódrýgðra glæpa) eða hún er byggð á fölskum forsendum þar sem viðkomandi hefði átt að vita betur. Afbrýðisemi er stundum af þessu tagi: Eiginmaðurinn dregur umsvifalaust þá ályktun að eiginkonan sé honum ótrú þegar hún kemur hálftíma of seint heim úr vinnunni – og fyllist afbrýðisemi – þó að hann hefði getað gengið úr skugga um það með hægu móti að saga hennar um sprungið dekk stóð heima. Í þennan flokk myndu einnig falla ýmiss konar sjúklegar geðshræringar þó að skilin milli þess að vera sjúkleg eða einungis órökvís í þessu sambandi séu fremur óljós: Er sektarkennd barns sem kennir sjálfu sér um að foreldri þess veikist af krabbameini sjúkleg eða einungis órökvís? Ef til vill skiptir það þó minna máli en hitt að bregðast þarf við slíkri geðshræringu barns á viðeigandi hátt. Á hinn bóginn kann geðshræring svo að vera ósiðleg þó að hún sé rökvís: Hún getur verið of sterk eða veik, miðað við tilefnið, eða yfirskyggt aðrar og eðlilegri geðshræringar. Það er til dæmis ofureðlilegt – rökvíst – að reiðast yfirmanni sínum ef hann sýnir manni fyrirlitningu, en ósiðlegt að láta reiðina blinda hugskot sitt svo að maður bjargi ekki lífi hans ef hann er í háska staddur. Síðan getur geðshræring vitaskuld verið hvort tveggja í senn, órökvís og ósiðleg, og jafnvel er ekki útilokað að hún sé siðleg þó að hún sé órökvís; tilfinningin væri þá af hendingu siðlega viðeigandi við einhverjar aðstæður þó að hún hafi orðið til með órökvísum hætti. Þrátt fyrir þann greinarmun sem hér er gerður á rökvísum og órökvísum geðshræringum má segja að í vissum skilningi séu þær allar röklegs eðlis. Hvort tveggja er að þær byggjast á skoðunum eða viðhorfum sem eru yrðanleg og hitt að frá náttúrunnar hendi virðist tilgangur þeirra sá að auðvelda okkur að komast af í heiminum. Þessi tvenns konar skilningur á rökvísi er sambærilegur við að segja að vitanlega kallist allir sem ríða út hestamenn, en hins vegar sé ekki allt jafnvakurt þótt riðið sé.

Hagnýtar afleiðingar

Vitsmunakenningin um geðshræringar, sem hér hefur verið reifuð, afneitar eðlismun skynsemi og tilfinninga og lítur á geðshræringar sem eðlilegt tæki mannsins til að ná festu og jafnvægi í ótryggum heimi. Hún lítur á viðkvæmnina sem hluta af manndómnum og boðar að allt uppeldi og fræðsla hljóti að fela í sér kennslu í og um geðshræringar. Hún bendir okkur á að geðshræringar byggist á skoðunum og viðhorfum sem megi meta – gagnrýna, endurskoða eða styrkja – með skynsamlegri íhugun. Hún fagnar fjölbreytni tilfinningalífsins með þeim rökum að því fleiri glugga sem sálin opni, þeim mun meiri líkur séu á að sólin nái að skína þar inn. Hún vill ekki útrýma geðshræringum heldur samræma þær lífsstefnu mannsins þannig að tilvera hans megi verða sem heildstæðast listaverk. Af vitsmunakenningunni má draga ýmsar hagnýtar ályktanir. Hún vekur bjartsýni um að hægt sé að hafa meiri áhrif á tilfinningalíf sjálfra okkar, og þó einkum barna og unglinga, en áður var talið. Kennsla um tilfinningar er þannig smám saman að öðlast stærri sess í hvers kyns uppeldis- og kennaramenntun og í bókinni Tilfinningagreind, sem orðið hefur metsölubók víða um heim, færir Daniel Goleman rök að því að stjórn á eigin tilfinningum, þannig að þær verði „viðeigandi“ í merkingunni hér að ofan, sé mikilvægasti lykillinn að árangri fólks í lífi og starfi. Vitsmunakenningin vekur einnig vonir um að hægt sé að ná valdi á alls kyns óviðeigandi og óeðlilegum geðshræringum, „láta þær taka sönsum“. Miklu skiptir í því sambandi að fá fólk til að tjá geðshræringar sínar, með orðum eða á annan hátt. Til dæmis hefur gefist vel að láta barn sem þjáist af órökvísri sektarkennd vegna veikinda foreldris síns tjá þessa geðshræringu í myndum. Eftir það er hægt að vinna með geðshræringuna sem hverja aðra ranga skoðun sem þarf að breyta. Þetta eru „góðu fréttirnar“, ef svo má að orði komast. „Slæmu fréttirnar“ eru hins vegar þær að erfiðar geðshræringar eru, samkvæmt vitsmunakenningunni, meira en kenndir eða „gufur úr innri kötlum“ sem ganga sjálfkrafa yfir með tímanum. Geðshræring breytist ekki, fremur en aðrar skoðanir, nema ný taki við. „Megindleg“ áhrif á óviðeigandi geðshræringar (að draga úr ofsa þeirra, drepa þeim á dreif, halda þeim í skefjum, bíða uns þær líða hjá) reynist þannig ekki varanleg lausn heldur hrossalækning, því að skoðanirnar sjálfar hverfa ekki heldur setjast í besta falli að í undirvitundinni í stað þess að þjá okkur dagsdaglega. En þær geta brotist fram aftur þegar minnst varir (sbr. kóngulóarhræðslan er fyrr var nefnd) og gert okkur andlega eða líkamlega skráveifu.

Kristján Kristjánsson, heimspekingur