persona.is
Fíkn og þolmyndun
Sjá nánar » Fíkn

Fíkn felur í sér ómótstæðilega löngun í tiltekið efni eða lyf og veldur því að einstaklingur verður háður efninu, líkamlega og/eða andlega. Þeir sem ánetjast fíkniefnum líður mjög illa ef efnanna er ekki neytt, þeir þurfa að fá efnin til að öðlast vellíðan. Fíknin hefur tekið völdin og veldur því að viðkomandi einstaklingur verður meira eða minna stjórnlaus.

Hann getur ekki hætt neyslunni þrátt fyrir allan þann skaða sem fylgir henni. Ef hann fær ekki efnið fær hann fráhvarfseinkenni sem lýsa sér í margs konar óeðlilegri og óþægilegri líkamsstarfsemi. Slík fráhvarfseinkenni geta verið helvíti líkust. 

Í sumum tilfellum koma fráhvarfseinkenni ekki í ljós þegar neyslu er hætt. En sterk löngun í efnið getur samt sem áður verið til staðar og hvatt til að notkun sé haldið áfram. Löngunin kallar á að þeirri vellíðan og vímu, sem efnið framkallar, sé viðhaldið.  Þolmyndun Þeir sem nota lyf til langframa þurfa í mörgum tilfellum að auka skammtinn, sem þeir taka, jafnt og þétt til þess að ná sömu áhrifum og upphaflegi skammturinn gaf. Þetta fyrirbrigði er kallað þol og sýnir hæfileika líkamans til þess að aðlaga sig utankomandi efnum.  Þol myndast ekki gagnvart öllum lyfjum né heldur gegn öllum verkunum tiltekins lyfs. Þolmyndun verður líka af sumum fíkniefnum.