Átraskanir/Offita / Fréttir

17.09.2007

Offita móður hefur áhrif á þyngd barns

Ef móðir glímir við offitu eykur það líkurnar á að barn muni glíma við sama vanda eru meðal annars niðurstöður rannsóknar sem mun birtast í Archives of Disease in Childhood. Aðrir þættir sem hafa áhrif á þyngd barna eru of mikill tími fyrir framan sjónvarpið og hröð þyngdaraukning snemma í barnæsku.

Niðurstöðurnar eru byggðar á athugunum sem fóru fram á 571 barni frá því þau fæddust og þar til þau voru orðin 7 ára. Fituhlutfall í líkama þeirra var mælt frá því þau voru þriggja og hálfs árs gömul og þar til þau voru orðin 7 ára gömul. Það var einnig fylgst grannt með því hversu miklum tíma þau eyddu fyrir framan sjónvarpið og hversu mikið og oft þau hreyfðu sig.

Börn sem þegar höfðu hátt hlutfall líkamsfitu þegar þau voru þriggja og hálfs árs gömul voru líklegri til að glíma við offitu þegar þau voru sjö ára gömul en þau sem höfðu lágt hlutfall líkamsfitu. En börn sem áttu móður sem glímdu við offitu voru að meðaltali með 4% hærra hlutfall líkamsfitu en þau börn sem áttu móður í kjörþyngd.

Það er ekki ljóst hvað ræður þessu, hvort það eru erfðir, þættir í meðgöngu eða lífsstíll. Það er þó ljóst að sjónvarpsgláp hefur mikil áhrif þar sem börn sem eyddu meira en þremur klukkustundum fyrir framan sjónvarpið á degi hverjum höfðu 5% hærra hlutfall líkamsfitu en þau sem horfðu á sjónvarp í klukkutíma eða minna á dag. Að auki hefur hreyfing að sjálfsögðu áhrif og það má segja að hver klukkustund sem börn eru óvirk fyrir framan sjónvarp eða annars staðar hækki að jafnaði líkamsfituhlutfall um 1%.

Baráttan við aukakílóin hefst því snemma hjá sumum.

Psycport.com

ESB


Til baka


 


© Copyright 2004, Persóna.is. Allur réttur áskilinn.