Fíkn / Spurt og svarað

Hvernig ber að rannsaka og


Spurning:

Hvernig ber að rannsaka og ,,lækna" fíkn (til að mynda eiturlyfjafíkn), með tilliti til styrkinga annars vegar og líkamlegrar fíknar hins vegar? Þegar talað er um ,,andlega" fíkn, er þá verið að vísa í styrkingarsögu einstaklings einvörðungu? Þegar talað er um líkamlega fíkn, er þá átt við boðefnaskipti taugunga einvörðungu? Er ,,andleg" fíkn (ef við miðum við þann hluta þessarar andlegu fíknar sem er innan líkamans, en ekki í umhverfinu) smættanleg í lífeðlisleg ferli? Með fyrirfram þökk!


Svar:

Kæri ”gestur á persona.is” Það er greinilegt á þér að þú hefur velt hugtakinu fíkn mikið fyrir þér og kynnt þér efni um sálfræðilegar kenningar. Fyrst hvernig ber að rannsaka fíkn. Þú gætir sennilega fengið 1000 mismunandi svör hér. Fyrir það fyrsta þá er margt hægt að rannsaka. Það er hægt að rannsaka afhverju einhver einn einstaklingur verður frekar háður vímuefnum en einhver annar, það er hægt að skoða aðstæður fólks og fjölskyldusögu. Svo er hægt að skoða þetta útfrá efnunum sjálfum og lífeðlisfræðinni. Atferlisfræðingar skoða hvaða áreiti í umhverfinu styrkja vímuefnaneysluna og viðhalda henni. Þeir sem aðhyllast hugrænar kenningar skoða meira samband hegðana, hugsana og tilfinninga. Þar er átt við vítahring þar sem hugsunin (sjálfvirkar hugsanir) ”það er gaman að dópa” leiðir til langana, sem síðan leiðir til hegðunarinnar að ná í dóp, og svo neyslunnar svo dæmi séu tekin. Lærdómskenningar tala um að fíknin sé þannig að fólk verður háð vímuefnunum meðan ”það er enn gaman að drekka eða dópa” og þegar það er orðið erfitt og leiðinlegt er þetta orðið hluti af lífsmynstri og þvi erfitt að slíta þessum vítahring. Meðferðin gengur út á það að fræða fólk um þennan vítahring, gera sér grein fyrir vandanum og finna aðstæður, hegðanir, og hugsanir, sem tengjast fíkninni. Einnig er fólki kennt að forðast ákveðnar aðstæður, svara hugsunum sem réttlæta neysluna, svo eitthvað sé nefnt. Í þessu svari nefni ég aðeins nokkur dæmi um kenningar um fíkn og meðferð, auðvitað eru þær miklu fleiri og eins mismunandi og þær eru margar. Hvað átt er við þegar talað er um líkamlega fíkn, fer sennilega eftir samhenginu. Það getur verið að tala um það sem við getum kallað þörf (craving), þar sem t.d. í fráhvarfi kemur aukin líkamleg þörf til að láta sér ”líða vel aftur”, þ.e. talað er um líkamlega líðan sem rekja má til löngunar í meiri vímuefni. Síðustu spurningunni verð ég því miður að sleppa því að svara, þar sem þekking mín á lífeðlisfræði, hvað þetta varðar, er frekar takmörkuð. Aftur á móti get ég til dæmis bent þér á ítarefni í flokknum tenglar á persona.is. Þar er að finna ýmsa tengla um fíkn. Einnig er ýmislegt um fíkn á vefnum sjálfum sem áhugavert er að lesa. Vona að þetta svari að einhverju leyti spurningu þinni. Með kveðju Björn Harðarson Sálfræðingur

Til baka


Svör við öðrum spurningum 


© Copyright 2004, Persóna.is. Allur réttur áskilinn.