Svefn / Fréttir

11.03.2007

Meirihluti bandarískra kvenna sefur ekki vel

Samkvæmt könnun sem National Sleep Foundation í Bandaríkjunum gerði fá 60% bandarískra kvenna ekki nógu góðan nætursvefn flestar nætur vikunnar. Dagsyfja veldur einnig vandamálum hjá 43% bandarískra kvenna. Flestar kvennanna bregðast við dagsyfjunni með því að drekka kaffi eða te með koffíni, meirihluti þeirra drekkur meira en þrjá bolla á dag. Vinnandi mæður og einstæðar vinnandi mæður eru líklegastar til að finna fyrir svefnvandamálum.
Þetta eru ekki nýjar fréttir en það sem kom fram nýtt í könnuninni er að svefnvenjum kvenna er sennilega ábótavant. Flestar kvennanna gera lítið til að undirbúa sig fyrir svefn og auka þar með líkurnar á góðum nætursvefni. Til dæmis eyddu margar kvennanna síðasta klukkutímanum áður en þær fóru í rúmið í að horfa á sjónvarpið, vinna heimilisverk eða vinna við tölvu. En allt þetta gerir það að verkum að það getur orðið erfiðara að sofna. Flestir svefnsérfræðingar mæla með því að klukkutíma áður en farið er að sofa byrji fólk að hægja á sér og dimma ljósin.
Langvarandi svefnvandamál eru stórt heilsufarslegt vandamál vegna þess að vansvefta konur eru í áhættuhópi hvað varðar önnur heilsufarsleg vandamál. Í könnuninni komu til dæmis fram skýr tengsl á milli svefnvandamála og depurðar. Yfir helmingur kvennanna greindi frá því að hafa verið leið, óhamingjusöm eða döpur síðasta mánuð og þriðjungur sagðist hafa fundið fyrir vonleysi vegna framtíðarinnar. Aðrar rannsóknir sýna að ónóg hvíld og lyndisraskanir geta myndað vítahring þar sem hvort hefur áhrif á hitt með síaukinni vanlíðan í kjölfarið.
Það er þó margt hægt að gera til að draga úr svefnvandamálum. Sérfræðingar mæla með því að konur sem finna fyrir því að þær fái ekki næga hvíld fari til læknis síns í ítarlega skoðun. Í framhaldi af því getur læknirinn bent á það sem betur mætti fara og hugsanlega gefið lyf ef þess þarf. Einnig geta einfaldar breytingar á lífsstíl haft mikið að segja. Það getur til dæmis verið gott að sleppa kaffidrykkju seinni part dags og á kvöldin, draga úr reykingum og búa sig vel undir svefn með því að hægja smám saman á sér.

Psycport.com

 


Til baka


Prentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.