Fíkn / Spurt og svarađ

Hvort er verra ađ neyta áfengis illa eđa neyta kannabisefna í hófi?


Spurning:

Ágæti Björn, ég er átján ára nemi og langaði að fá að spyrja þig út í nokkuð sem hefur legið á mér í nokkurn tíma. Þannig er mál með vexti að ég á ekki gott með drykkju áfengis, það er þannig að ef ég fæ mér að drekka þá verður það til þess að ég drekk of mikið og í nær öllum tilvikum man ég ekki eftir umræddu kvöldi morguninn eftir. Ég hef rætt við forvarnarfulltrúa og hún sagði að mjög líklega væri þetta merki um alkahólisma og að ég ætti að gefa upp drykkju núna meðan ég en gæti. Ég tók það í raun gott og gilt og hef ekki drukkið, að ráði, upp á síðkastið vegna orða hans. Fyrir sa. einu ári hóf ég að reykja kannabis og fannst/finnst ekkert að því. Ég reyki svona einu sinni til tvisvar í mánuði og þá ekki mikið í senn. Ég hef enga löngun í að auka við reykingarnar þar sem að ég vill ekki að þetta verði of venjulegt. En þar sem að ég hef gefið upp drykkju, að mestu leyti, þá hef ég fengið mér kannabis efni þess í stað þegar ég fer út að skemmta mér. Mér finnst það í raun betra á þá vegu að ég er meira með sjálfum mér, ég er ekki kærulaus líkt og þegar ég hef áfengi um hönd, og svo að það eru engir timburmenn morguninn eftir. Ég ætti kannski líka að taka það fram að ég reyki ekki sígarettur eða tóbak almennt, ég blanda aðeins eina tegund út í kannabisefnin og blæs þá úr henni aukaefnin. Ég neyti ekki annarra fíkniefna og hef aldrei og býst ekki við að ég muni prufa þau, ég lít í raun ekki á kannbisefnin eins og önnur efni og finnst að almennt sé litið of illa á þau. En spurningin/spurningarnar er/eru í sjálfu sér einföld/einfaldar: Hvort finnst þér verra, að neyta áfengis illa eða neyta kannabisefna vel? Og hvort finnst þér að ég ætti að gera burtséð frá því að það er til annar kostur, að vera allsgáður! Ég ætti kannski einnig að taka það fram að ég fer ekki út að skemmta mér nema kannski tvisvar í mánuði! Þú verður svo að afsaka lengdina á spurningunni! og ef það vantar H einhversstaðar inn í þá er það vegna þess að ann er eitthvað bilaður!! Takk fyrir


Svar:

Kæri “ nemi“ Það er að mörgu leyti eðlilegt að þú spyrjir um þetta mál sem hefur legið lengi á þér, og þú virðist hugsa hlutina á mjög rökrettan hátt. Þessvegna ætla ég að skrifa til þín nokkrar línur, en láta þig svo um að ákveða framhaldið um hvað þú gerir. Það virðist oft vera þannig hjá mörgum sem gengur illa að meðhöndla áfengi, að þeim gangi ekki eins illa að meðhöndla hassið. Reyndar á þetta oft aðeins við til að byrja með. Hassið hefur þau áhrif, fram yfir áfengi, að fólk er meira meðvitað um hvað það er að gera og það verður sjaldan ofbeldisfullt, svo dæmi séu tekin. Áfengi er líka eitt af skaðlegustu vímuefnunum og margar rannsóknir hafa sýnt að það veldur meiri skaða en cannabisefni. Hassið er hinsvegar ólöglegt. Þar af leiðandi vilja margir meina að ef þú síðar verður leiður á hassinu þá ertu í meiri hættu að prufa eitthvað annað efni. Það er að segja, þegar þú hefur tekið þátt í einni hegðun sem er ólögleg, þá er skrefið styttra í það næsta. Einnig, eins og við vitum báðir, er það mjög algengt að sá sem selur þér hassið sé einnig að selja sterkara og hættulegra dóp og því er ”freistingin” nær. Hann er jafnvel líklegur til að bjóða þér önnur efni þegar þú ert að versla hass af honum. Þetta á líka oft við um þann hóp sem við veljum að umgangast. Það gerist oft þegar fólk fer að minnka neyslu áfengis og prufa hass, að vinahópurinn breytist að einhverju leyti á sama tíma. Þá geta verið einstaklingar innan hópsins sem vilja prufa fleiri efni og þá er þér líklega, á einhverjum tímapunkti, boðið að vera með. Ég er alls ekki að segja að það sé sama sem merki milli þess að neyta hass og fara í önnur efni, auðvitað er til fólk sem fær sér hass annað slagið án þess að gera neitt meira, en ég vildi benda þér á að þú ert í meiri hættu á því með hassneyslunni. Svo er það líka þannig að öll vímuefnaneysla hefur sína þróun líkt og áfengisneysla þín hefur sennilega haft. Margir þróa með sér aukna hassneyslu, þar sem lítið er um að maður finni fyrir timburmönnum daginn eftir, og fara jafnvel fara út í dagneyslu. Þegar hassneyslan er orðin mikil draga menn sig í hlé, verða þungir, missa félagslegan áhuga og sitja bara heima með sitt hass. Hreinskilnislega séð vil ég meina, að ef maður getur sætt sig við enga neyslu er það alltaf besti kosturinn, það tekur oft hinsvegar langan tíma að sætta sig við það sem kost. Það hinsvegar, sem ég vil ráðleggja þér í dag, er að alveg sama hvaða ákvörðun þú tekur, skoðaðu hlutina alltaf vel og vandlega áður, spurðu ráða og leitaðu aðstoðar annarra eins og þú hefur verið að gera. Ef þú passar þig á að vera algjörlega hreinskilinn við sjálfan þig um hvað þú ert að gera og hvaða afleiðingar það hefur, ættirðu á endanum að rata á rétta ákvörðun. Gangi þér vel. Björn Harðarson Sálfræðingur

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.