Fíkn / Spurt og svarađ

Í vandrćđum vegna eyđslu


Spurning:

Komið þið sæl. Ég hef miklar áhyggjur af syni mínum sem er að verða 22 ára, hann er haldinn miklu kaupæði og gerir allt til að svala þeirri þörf að kaupa sér allskonar græjur og dót sem hann hefur í raun og veru enga þörf fyrir og hefur alls ekki efni á. Hann er trúlofaður stúlku og eiga þau saman dóttur. Hann lýgur bara einu til og öðru frá þegar hann lætur freistast nú er svo komið að þau eru á barmi gjaldþrots vegna þessarar sýki í honum og alltaf er eitthvað nýtt að koma í ljós sem hann hefur keypt og aldrei passar það hvað hlutirnir hafa kostað og hvað hann segir að þeir hafi kostað, og ekki bætir úr skák að hann hefur haldist illa í vinnu. Hvað er til ráða? Hann er á einhverjum þunglyndislyfjum sem heita oropram 40 mg, getur verið að þessi lyf örvi þessa áráttu hjá honum. m.f.þ. Áhyggjufull mamma.


Svar:

Sæl

Það er því miður alltaf að verða algengara að fólk komi sér og jafnvel öðrum líka í vandræði með kaupgleði sinni. Oft felast kaupin, eins og í tilviki sonar þíns, í vörum sem fólk hefur í raun enga þörf fyrir en finnur samt sem áður fyrir mikilli löngun í. Sumir hafa stungið upp á því að fólk geri þetta vegna óhóflegrar efnishyggju og til að bæta sjálfsmynd sína eða til að draga úr slæmri líðan. Hver sem ástæðan er þá getur þetta orðið að alvarlegu vandamáli.

Þunglyndislyfin sem sonur þinn er á ættu í raun að gera hann léttari í skapi og ef það er rétt sem nefnt er hér að ofan draga úr löngun hans til að kaupa sér hluti sem hann hefur enga þörf fyrir.

Ég læt hér fylgja með pistil sem ég skrifaði í Fréttablaðið fyrir stuttu um þetta efni og vona að lestur hans hjálpi þér að átta þig á því sem hrjáir son þinn. Hafirðu fleiri spurningar er þér velkomið að hafa samband aftur.

Hér er pistillinn:

 Áráttukennd kaup

Áráttukennd kaup (compulsive buying) einkennast af óhóflegum, óviðráðanlegum, tímafrekum og endurteknum verslunarferðum eða kaupum. Þessi áráttukenndu kaup hafa slæmar afleiðingar eins og fjárhagslega- og félagslega erfiðleika og sumir telja að þau séu viðbrögð við depurð, öðrum erfiðum tilfinningum eða atburðum. Undanfari áráttukenndra kaupa er yfirleitt síaukin spenna og í kjölfar kaupanna finnur viðkomandi fyrir tímabundinni vellíðan en síðan skömm og sektarkennd. Þeir sem þjást af áráttukenndum kaupum greina frá því að kaup þeirra einkennist af því að hvötin til að kaupa sé óviðráðanleg, kaupin séu endurtekin og vörurnar ónauðsynlegar. Hugsanir um kaup ryðji sér leið inn í hugann og allar tilraunir til að stjórna kaupum og eyðslu mistakist. Þá greinir fólk einnig frá löngum og tíðum verslunarferðum eða það reyni að forðast verslunarferðir og staði þar sem hægt er að versla. Þessar tilraunir mistakast þó einnig og á endanum missir fólk algjörlega stjórn á kaupum sínum. Einnig eru afleiðingar kaupanna almennt slæmar, eins og áhyggjur og kvíði, árekstrar við maka, kreditkorta- og yfirdráttarskuldir og aðrir fjárhagslegir erfiðleikar.

Áráttukennd kaup hafa ekki enn fengið eigin greiningarviðmið í greiningarviðmiðum amerísku geðlæknasamtakanna, APA, og eru flokkuð í sama flokk og aðrar hvatvísiraskanir sem ekki eru öðruvísi tilgreindar eins og til dæmis húðplokk og er þá kallað áráttukennd kaupröskun. Þó er viðurkennt að um alvarlegt vandamál sé um að ræða og talið er að frá 2% til allt að 8% Bandaríkjamanna eigi í vandræðum vegna áráttukenndra kaupa. Þeir sem greinast með áráttukennda kaupröskun hafa einnig oft greinst með þunglyndi, kvíðaraskanir, átraskanir og áfengis- eða eiturlyfjafíkn á sama tíma eða einhvern tíma á ævinni.

Áráttukennd kaup byrja yfirleitt að gera vart við sig á aldrinum18 ára til 30 ára og verða oftast að meiriháttar vandamáli á tímabilinu 31 ára til 39 ára. Flestir sem glíma við áráttukennd kaup eru konur á fertugsaldri með lág til meðalhá laun og töluverðar skuldir. Vörurnar sem oftast eru keyptar eru tískuvörur eins og föt, skór, skartgripir og snyrtivörur og margt af því er aldrei eða sjaldan notað.

Tengsl áráttukenndrar kaupröskunar við alvarlegt þunglyndi eru sterk en sambandið er flókið. Það er mögulegt að þunglyndi orsakist af félagslegum-, fjárhagslegum- og persónulegum vandamálum sem fylgja áráttukenndum kaupum. Hitt er líka mögulegt að áráttukennd kaup þjóni þeim tilgangi að draga úr þunglyndi og öðrum erfiðum tilfinningum með þeirri tímabundnu sælu sem fylgja kaupunum. Þriðja skýringin er sú að þunglyndi leiði til bágrar sjálfsmyndar og neikvæðs hugsunarháttar sem orsaki svo áráttukennd kaup sem leið til að bæta sjálfsmynd og auka ánægju.

Það er margt á huldu um uppruna áráttukenndrar kaupröskunar en margt bendir til að skyldleikar séu með þessari röskun og þráhyggju- og árátturöskunar. Sumir telja líka að áráttukennd kaupröskun tengist sterklega efnishyggju, það er að segja þeirri tilhneigingu að leggja mikið upp úr efnislegum hlutum eins og fötum og skartgripum. Þeir sem aðhyllast efnishyggju muni þá hneigjast til að kaupa sér hluti þegar þeim líður illa sem tilraun til að auka ánægju, draga úr vanlíðan og til lífsfyllingar.

Þegar kemur að meðferð við áráttukenndri kaupröskun eru fáar rannsóknir til sem skera úr um það hvers konar meðferð er gagnleg við áráttukenndri kaupröskun en þó hafa lyfjameðferð og hugræn atferlismeðferð reynst hjálpleg og gefa von um að hægt sé að hjálpa fólki með áráttukennda kaupröskun.

Gangi þér vel.

Eggert S. Birgisson, sálfræðingur

eggert@persona.is

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.